Dr. Jón Emil Guðmundsson, lektor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands, hlýtur Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs

16.1.2025

Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs fyrir árið 2025 voru afhent við hátíðlega athöfn á Rannsóknaþingi sem fór fram á Hótel Reykjavík Natura. 

  • Hvatningarverdlaun-Rannsoknasjods-2025-JEG-LE

Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs voru veitt framúrskarandi vísindamanni á rannsóknaþingi í dag. Dr. Jón Emil Guðmundsson, lektor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut verðlaunin fyrir árið 2025. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra afhenti verðlaunin.

Dr. Jón Emil er sérfræðingur í stjarneðlisfræði, með sérstaka áherslu á örbylgjukliðnum - elsta ljósinu í alheiminum. Jón Emil er fæddur árið 1985.

Jón Emil útskrifaðist úr grunnnámi í eðlisfræði við Háskóla Íslands árið 2008. Hann flutti til Bandaríkjanna og stundaði bæði meistaranám og doktorsnám í eðlisfræði við Princeton háskóla. Jón Emil varði doktorsritgerð sína árið 2014 en hún fjallaði um rannsóknir á frumbernsku alheimsins — tímabili sem kallað er hin kosmíska óðaþennsla.

Að loknu doktorsnámi starfaði hann í eitt ár sem nýdoktor í Princeton áður en hann flutti sig til Stokkhólmsháskóla. Árið 2018 hlaut hann styrk frá Sænsku geimvísindastofnuninni sem gerði honum kleift að stofna sinn eigin rannsóknarhóp og árið 2022 tók Jón Emil við stöðu lektors við Raunvísindadeild Háskóla Íslands sem hann sinnir samhliða stöðu sinni sem vísindamaður hjá Stokkhólmsháskóla.

Jón Emil hefur unnið við hönnun og smíði nokkurra örbylgjusjónauka. Þar má t.d. nefna Simons Observatory-sjónaukana sem eru staðsettir í Atacama-eyðimörkinni í Chile og Taurus-loftbelgssjónaukann sem er fjármagnaður af NASA. Þekktastur er þó líklega Planck-geimsjónaukinn frá Evrópsku geimvísindastofnuninni en sem doktorsnemandi og nýdoktor leiddi Jón Emil optíska kvörðun sjónaukans og fékk fyrir vikið nafnbótina Planck Scientist.

Jón Emil hefur á undanförnum árum verið afkastamikill vísindamaður og leiðtogi í rannsóknum á sínu sviði. Í starfi sínu við Háskóla Íslands hefur hann leitt sterkan rannsóknahóp, sem vinnur meðal annars að þróun á nýrri tækni sem stuðlar að bættri kvörðun örbylgjusjónauka, og byggt upp nýja og öfluga tilraunastofu, sem ber heitið Skuggsjá, með stuðningi frá Evrópska rannsóknaráðinu og Rannsóknasjóði. Þær aðferðir og mælingar sem rannsóknarhópurinn þróar eru eftirsóttar af alþjóðlegum vísindasamstörfum en hópurinn tekur virkan þátt í fimm örbylgjusjónaukaverkefnum. Rannsóknahópur hans við Stokkhólmsháskóla hefur tekið að sér ábyrgðarhlutverk fyrir alþjóðleg samstarfsverkefni og hlotið veglega styrki til rannsókna og tækniþróunar meðal annars frá Sænska rannsóknaráðinu sem og sænsku og evrópsku geimvísindastofnunum. Þá er Jón Emil einn af þremur íslenskum vísindamönnum sem hafa tekið á móti svokölluðum Starting Grant styrk frá Evrópska rannsóknarráðinu

Jón Emil er ofarlega á listum yfir þá íslensku vísindamenn sem hafa flestar tilvísanir fyrir sín ritstörf. Hann hefur birt 135 greinar, er með h-index upp á 63 og heildarfjöldi tilvitnana er tæplega 63 þúsund. Rannsóknahópur hans hér heima telur nú tvo doktorsnema og fjóra nýdoktora og hefur hann auk þess útskrifað þrjá doktorsnema frá Stokkhólmsháskóla.

Jón Emil hefur hlotið þó nokkrar viðurkenningar fyrir sín störf. Hann tekur þátt í alþjóðlegum félagsstörfum, þ.m.t. íslenskum, er öflugur í vísindamiðlun og má þar nefna skrif fyrir Vísinda- og stjörnufræðivefinn og miðlun á opnum viðburðum fyrir almenning á borð við Vísindavöku og Vísindakakó. Þá er hann formaður Stjarnvísindafélags Íslands sem skipuleggur vel sótta fyrirlestraröð fyrir almenning um stjarnvísindi.

Það er mat dómnefndar að Dr. Jón Emil sé framúrskarandi ungur vísindamaður sem sýnt hafi fram á sjálfstæði, frumleika og árangur í sínum rannsóknum. Hann hefur skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treystir stoðir mannlífs á Íslandi og unnið ötullega að miðlun vísindanna jafnt innan fræðasamfélagsins sem utan. Jón Emil sé því verðugur handhafi hvatningarverðlauna Rannsóknasjóðs árið 2025.

Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs eru veitt vísindafólki sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað fram úr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987, en markmiðið með þeim er að hvetja vísindafólk til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindafólks.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica