Barnamenningarsjóður úthlutar styrkjum til 37 verkefna 2021
Þann 28. maí var tilkynnt um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands, sem nú veitir styrki til barnamenningar í þriðja sinn frá stofnun sjóðsins. Sjóðurinn styrkir 37 metnaðarfull verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 90 milljónir króna. Alls bárust 113 umsóknir og var sótt um rúmlega fjórfalda þá upphæð sem sjóðurinn hafði til úthlutunar eða rúmar 373 milljónir króna.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávörpuðu fulltrúa verkefnanna af þessu tilefni og fiðlusveit úr Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar flutti tónlistaratriði.
Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknirnar og forsætisráðherra samþykkti tillögu stjórnar sjóðsins. Sem fyrr hefur fagráðið horft til fjölbreyttra þarfa barna og ungmenna, þar koma til álita þættir á borð við búsetu, aldur, kyn, uppruna og efnahag. Þessar áherslur má finna í reglum sjóðsins og þær eru í góðu samræmi við fjölda þeirra umsókna sem taka til fjölmenningar, jafnrar stöðu stúlkna og drengja, málefna hinsegin ungmenna og verkefna sem tengd eru hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þá má í ár greina fjölgun verkefna utan höfuðborgarsvæðisins og frá dreifðari byggðum.
Í rökstuðningi fagráðsins segir að umsóknirnar sem bárust beri fagurt vitni ástríðu og hugmyndaauðgi þeirra sem sinna skapandi störfum með börnum og í þágu barna. Þar eru á ferðinni fagmenn og frumkvöðlar sem sinna flóknum verkefnum af djúpri þekkingu og einlægri sköpunargleði. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá í verkefnunum áhrif alþjóðlegrar stefnumörkunar á borð við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun, sem ber vott um flókið samspil menningarlegra þátta sem setja mun mark sitt á framtíð þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi.
Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.
Úthlutun var tilkynnt við athöfn í Hörpu föstudaginn 28. maí 2021.
Umsækjandi | Verkefni | Úthlutun |
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík | Stelpur filma á landsbyggðinni | 7.000.000 |
Andrea Elín Vilhjálmsdóttir | BRUM | 1.500.000 |
Auður Bergdís Snorradottir | Listfellsnes | 1.700.000 |
Auður Þórhallsdóttir | Skúnaskrall; barnamenningarhátíð Norðurlands vestra | 5.000.000 |
Austurbrú | BRAS – Unga fólkið og umhverfið | 3.000.000 |
Ásbjörg Jónsdóttir | OUTPOST II - light:dark | 2.000.000 |
Ásdís Arnardóttir | Sögur af draugnum Reyra | 720.000 |
Ásrún Magnúsdóttir | Litla systir | 5.000.000 |
Docfest | 3.000.000 | |
Forspil að framtíð | Forspil að framtíð | 1.000.000 |
Garðabær | Við langeldinn / Við eldhúsborðið | 4.000.000 |
Góli | Skólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands 2021 | 1.100.000 |
Handbendi Brúðuleikhús | Listaklasi æskunnar | 4.300.000 |
Herdís Anna Jónsdóttir | Ísland í tali og tónum - spilað á stokka og steina | 1.200.000 |
Hinsegin dagar í Reykjavík | Hinsegin götuleikhús | 2.200.000 |
Hlutmengi | Krakkamengi | 520.000 |
Hringleikur | Sirkushátíð Hringleiks | 3.500.000 |
Hönnunarmiðstöð Íslands (MH&A) | Hönnun fyrir alla | 6.000.000 |
Íslenska myndasögusamfélagið | Anime Klúbbur | 700.000 |
Íslenska Schumannfélagið | Senur úr barnæsku | 300.000 |
Kammerhópurinn Reykjavík-Barokk | Sjókonur og snillingar | 800.000 |
Listasafn Árnesinga | Smiðjuþræðir úr safninu inn í sveitirnar | 5.500.000 |
Listasafn Einars Jónssonar | Stafrænar styttur | 2.500.000 |
Listasafnið á Akureyri / Akureyrarbær | Allt til enda - listvinnustofur barna | 1.200.000 |
Menningarfélagið HneyksList | Youth Fringe námskeið | 380.000 |
Menningarmiðstöð Hornafjarðar | Listasmiðjur Hringfara í Svavarssafni | 1.600.000 |
Norræna húsið | Samstarf ungmenna með ólíkan bakgrunn | 700.000 |
Plöntutíð | Plöntuleikhúsið og Unglingurinn í skóginum á Plöntutíð | 930.000 |
Reykjanesbær | Söfn fyrir börn | 6.000.000 |
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir | Krakkaveldi kynnir BarnaBar! | 4.500.000 |
Stelpur rokka! | Miðlunarlína Stelpur rokka! | 550.000 |
Sumartónleikar Skálholtskirkju | Nú angar og suðar í Skálholti | 1.000.000 |
Svalbarðsstrandarhreppur | Tímahylkið | 1.000.000 |
Tónlistarfélag Árbæjar | Lagasmíðabúðir fyrir unga tónhöfunda | 2.500.000 |
Tungumálatöfrar | Vefskóli töfrabarna | 3.000.000 |
Ungar kvikmyndafélag | FRÍMÓ | 2.500.000 |
Þjóðminjasafn Íslands | Tálgað og tengt við náttúru og sögu | 1.600.000 |
Nánar um verkefnin:
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – kr. 7.000.000 – Stelpur filma á landsbyggðinni!
Námskeið, haldin á völdum stöðum á landsbyggðinni, sem hvetja stelpur og kynsegin ungmenni til að vera virkir þátttakendur í kvikmyndagerð. Megináhersla er lögð á að skapa öruggt rými þar sem allar skoðanir og hugmyndir eiga rétt á sér. Með öruggu rými er einnig vísað til þess allra mikilvægasta, þ.e. að hvers kyns ofbeldi eða fordómar líðast ekki, jafnframt því eru engir dómar felldir, hvorki út frá frammistöðu, kynvitund, bakgrunni, uppruna, fjárhagslegri stöðu eða öðrum breytum.
Andrea Elín Vilhjálmsdóttir – kr. 1.500.000 – BRUM
Hefur þú talað við, knúsað eða leikið við tré? Tekur þú eftir trjám og veistu hvað þau heita? Hefur þú komið í skringiskóg? BRUM er unnið í samstarfi við skógræktarfélög í Reykjavík og Kópavogi. Það gefur forvitnum krökkum tækifæri til að fara inn fyrir börkinn á trjánum og kynnast þeim á áður óþekktan máta. Verkefnið er frumsköpun, sem veitir börnum öruggt rými til að virkja hugmyndaflugið og vinna að eigin hugmyndum, undir faglegri leiðsögn reyndra listamanna.
Auður Bergdís Snorradottir – kr. 1.700.000 - Listfellsnes
Námskeið í leiklist og dansi fyrir börn og ungmenni af Snæfellsnesi, sem ætlað er að koma til móts við skapandi listaþyrst börn sem búa fjarri menningartilboðum höfuðborgarinnar. Á námskeiðunum verður unnið með sköpunarkraft krakkanna, samvinnu og leikgleði, og þau hvött til að koma skoðunum sínum á framfæri, vera skapandi og þora að gera mistök. Námskeiðin eru opin öllum börnum óháð kyni, efnahag, uppruna og reynslu.
Auður Þórhallsdóttir – kr. 5.000.000 – Skúnaskrall; barnamenningarhátíð Norðurlands vestra
Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra eru samstarfsaðilar um hátíðina, sem fer fram víðsvegar í landshlutanum frá 14.- 24. október 2021. Dagskrána prýða fjölbreyttir listviðburðir, listanámskeið og listavinnustofur og listviðburðir. Áhersla verður lögð á fjölbreytni í dagskrá og gott aðgengi ólíkra hópa. Meginreglan er að aðgangur sé ókeypis og veiti því öllum börnum og ungmennum á Norðurlandi vestra tækifæri til að upplifa og vinna að fjölbreyttri listsköpun.
Austurbrú – kr. 3.000.000 – BRAS – Unga fólkið og umhverfið
BRAS er menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Einkunnarorð hennar eru: Þora! Vera! Gera! þar sem börn eru hvött til að taka þátt og framkvæma á eigin forsendum. Hátíðin verður haldin í fjórða sinn, í sept. og okt. 2021 með fjölbreyttum list- og menningarviðburðum um allt Austurland. Samstarfsaðilar er skólar, sveitarfélög, menningarmiðstöðvar og stofnanir á Austurlandi. Þema ársins 2021 er náttúra og umhverfisvernd. Lögð er áhersla á vinnu með starfandi listafólki og liststofnunum.
Ásbjörg Jónsdóttir – kr. 2.000.000 – OUTPOST II - light:dark
Verkefnið er alþjóðlegt, þverfaglegt listaverkefni sem leggur áherslu á samstarf barna og ungmenna (6 – 16 ára) og teymis listamanna frá Íslandi og Noregi. Börn úr Myndlistaskólanum Mosfellsbæ og Bodø kulturskole kanna mæri tónlistar og myndlistar í gegnum þemað ljóst:dökkt – bjart:myrkt. Verkefnið byggir á lífinu á norðurslóðum, áhrifum árstíðanna út frá gangi sólar, björtum sumarnóttum og myrkum vetrardögum.
Ásdís Arnardóttir – kr. 720.000 – Sögur af draugnum Reyra
Öllum grunnskólabörnum í 3.-5. bekk á Norðurlandi verður boðið til sannkallaðrar hryllilegrar veislu þar sem draugurinn Reyri fer með þeim á vit löngu látinna tónskálda og kynnir þau fyrir tónlist þeirra. Blásarakvintettinn Norðaustan leikur, söngkona syngur aríu Næturdrottningarinnar úr Töfraflautu Mozarts og sögumaður leiðir þátttakendur inn í heim, sem er í senn ógnvekjandi en um leið fyndinn og skemmtilegur. Barnakór Akureyrarkirkju og börn í Dansskóla Alice taka einnig þátt í verkefninu.
Ásrún Magnúsdóttir – kr. 5.000.000 – Litla systir
Verkefnið er á vegum Ásrúnar Magnúsdóttur og Reykjavík Dance Festival þar sem unglingum verður veitt tækifæri til þess að móta sinn eigin óhefðbundna skóla. Þetta er fræðsluverkefni með áherslu á listir og menningu. Litla systir er teymi unglinga sem velur sér kennara til þess að leiðbeina sér í því að skapa list og fræðslu ætlaða öðrum unglingum. Litla systir ætlar að halda listviðburði, námskeið og halda úti vefsíðu. Litla systir eru listamenn, sýningarstjórar og aktívistar morgundagsins.
Docfest – kr. 3.000.000 Heimildasmiðjan Röð
Heimildasmiðjan Röð námsstofa þar sem farið er djúpt í ferlið sem liggur að baki gerð heimildamynda. Þátttakendum býðst að vinna í hópum yfir vetur, undir leiðsögn fagfólks, m.a. leikstjóra, klippara og tónskálds, að gerð stuttra heimildamynda sem sýndar verða almenningi sem hluti af dagskrá IceDocs heimildamyndahátíðarinnar. Á hátíðinni fá börnin tækifæri til að kynna verk sín og svara spurningum úr sal. Að lokinni hátíð verða myndirnar aðgengilegar öðrum börnum á hátíðarvef IceDocs.
Forspil að framtíð – kr. 1.000.000 – Forspil að framtíð
Forspil að framtíð er upplifunarleikhús fyrir allra yngstu kynslóðina (1-4 ára) í samstarfi við Norræna húsið. Áhorfendur ferðast á milli rýma, þar sem norrænar þjóðsögur verða leiðarstef. Tónlistin í hverju rými fyrir sig verður samin í rauntíma með aðstoð gervigreindar og munu áhorfendur hafa áhrif á hvernig hún verður. Engar tvær sýningar verða því eins. Verkefnið hentar öllum börnum, líka þeim sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.
Garðabær – kr. 4.000.000 – Við langeldinn / Við eldhúsborðið
Næststærsti landnámsskáli á Íslandi er í Minjagarðinum að Hofsstöðum í Garðabæ. Skammt frá eru Hönnunarsafn Íslands og Bókasafn Garðabæjar, samstarfsaðilar verkefnisins. Í fjölbreyttum smiðjum velta börn fyrir sér lífinu á landnámsöld út frá fornleifafræði, arkitektúr, bókmenntum, myndlist og handverki. Þau skoða hvað er líkt og hvað ólíkt með lífi barna í samtímanum og á landnámsöld. Sjóndeildarhringurinn víkkar og skilningur á ólíkum aðstæðum dýpkar, óháð tíma og rúmi.
Góli – kr. 1.100.000 – Skólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands 2021
Skólatónleikar þar sem 14 manna hljómsveit kemur fram ásamt sögumanni og leikur fyrir börn í 9 grunnskólum á Suðurlandi. Framleitt verður stafrænt kynningarefni sem auðveldar tónmenntakennurum að undirbúa börnin sem best fyrir tónleikana og þátttöku þeirra í þeim. Börnin fá tækifæri til að upplifa menningarviðburð sem þeim hefur ekki staðið til boða áður og þannig auðgar verkefnið lista- og menningarlíf á Suðurlandi, með sérstakri áherslu á barnamenningu.
Handbendi Brúðuleikhús – kr. 4.300.000 – Listaklasi æskunnar
Þróun og rekstur listaklasa ungmenna í einni af endurnýjuðum iðnaðarbyggingum á Hvammstanga. Verkefnið samanstendur af þremur meginþáttum; faglegum listsýningum og gjörningum, fjölbreyttum námskeiðum fyrir listaþyrst ungmenni leidd af atvinnufólki í listum auk þess sem boðið verður upp á opið skapandi rými fyrir ungt fólk til að hittast og vinna að eigin verkefnum. Samstarfsaðilar Handbendis um verkefnið eru Bakki Studios og Húnaklúbburinn.
Herdís Anna Jónsdóttir – kr. 1.200.000 – Ísland í tali og tónum - spilað á stokka og steina
Verkefnið er ætlað íslenskum börnum á erlendri grundu. Dúó Stemma, sem samanstendur af hljóðfæraleikurunum Herdísi Önnu Jónsdóttur víóluleikara og Steef van Oosterhout slagverksleikara, spilar og skapar, með hjálp barnanna, m.a. hin mögnuðu náttúruhljóð sem verða til á Íslandi. Leikin og sungin eru íslensk þjóðlög, farið með þulur og með sköpunarkrafti barnanna verður sögð hljóðsaga um vináttuna með hjálp alls kyns hljóðfæra og hljóðgjafa.
Hinsegin dagar í Reykjavík – kr. 2.200.000 – Hinsegin götuleikhús
Hinsegin götuleikhús er verkefni þar sem unnið er með snertifleti listsköpunar og sýnileika hinsegin málefna. Leikhópurinn er skipaður átta skapandi hinsegin ungmennum á aldrinum 15-18 ára og nýtur leiðsagnar fagaðila í sviðslistum. Afrakstur verkefnisins verður sýndur á Hinsegin dögum í Reykjavík, vikuna 3.-8. ágúst, í formi daglegra gjörninga þar sem hinsegin listamenn komandi kynslóðar deila hugmyndum sínum og skoðunum á skapandi hátt með tjáningarfrelsið og sköpunargleðina í fyrirrúmi.
Hlutmengi – kr. 520.000 – Krakkamengi
Í haust endurvekur Mengi, í samstarfi við Guðrúnu Hrund Harðardóttur víóluleikara og tónlistarfólk úr ýmsum áttum, tónleikaseríuna Krakkamengi, sem haldin var við góðar undirtektir í Mengi árið 2016, þá undir leiðsögn Benna Hemm Hemm. Hugmyndin er að kynna ólíkar tónlistarstefnur fyrir börnum og fjölskyldum þeirra í afslöppuðu umhverfi. Á dagskrá eru verk frá barokktímanum til samtímans. Börnin verða hvött til virkrar hlustunar og þátttöku á fernum sunnudagstónleikum í haust.
Hringleikur - Sirkuslistafélag – kr. 3.500.000 – Sirkushátíð Hringleiks
Verkefnið er fjögurra daga sirkuslistahátíð, vettvangur nýsirkussýninga og fjölbreyttra námskeiða sem henta breiðum hópi áhorfanda og iðkenda. Markmið hátíðarinnar er að veita innsýn í nýsirkus (e. contemporary circus) og vekja athygli á sirkuslistum sem valkosti í menningu á Íslandi, bæði sem sviðslist og sem skapandi tómstundagrein. Verkefnið veitir þeim börnum sem þegar stunda sirkuslistir dýrmætt tækifæri til sköpunar og sýninga í frjóu umhverfi.
Hönnunarmiðstöð Íslands (MH&A) – kr. 6.000.000 – Hönnun fyrir alla
Framleiddir verða vandaðir þættir um hönnun og arkitektúr miðaðir að börnum og ungmennum. Ljósi verður varpað á fjölbreytilegar greinar hönnunar og störf hönnuða með áhugaverðum hætti. Fjallað verður um allt frá arkitektúr til fatahönnunar, grafíska hönnun, yfir í húsgagna- og vöruhönnun, stafræna- og upplifunarhönnun. Efnið verður birt á Listveitu (LFA) sem kennarar í grunnskólum landsins þekkja vel auk þess sem þeim verður miðlað á nýrri síðu MH&A og þeir nýttir í því starfi miðstöðvarinnar sem snýr að fræðslu ungmenna.
Íslenska myndasögusamfélagið – kr. 700.000 – Anime
Klúbbur Í febrúar 2021 var stofnaður Anime Klúbbur fyrir 13-16 ára í Borgarbókasafninu Gerðubergi. Í klúbbnum er allskonar afþreying í boði; þátttakendur spila, föndra, teikna, prenta á boli, gera barmmerki, horfa á Anime (japanskar teiknimyndir) þætti og kvikmyndir, spjalla saman og glugga í Anime bækur. Verkefnið er sjálfsprottið og á forræði ungra frumkvöðla.
Íslenska Schumannfélagið – kr. 300.000 – Senur úr barnæsku
Senur úr barnæsku, eða Kinderszenen Op. 15 eftir Robert Schumann er fagurt safn 13 smástykkja sem lýsa mismunandi atburðum úr barnæsku. Erna Vala Arnardóttir og Hlín Pétursdóttir Behrens flytja verkið á barnatónleikum í Hörpuhorni þann 5. ágúst 2021. Þar munu þær lýsa atburðum verksins, framvindu sögunnar og skapa ný sjónarhorn á hana með áhorfendum.
Kammerhópurinn Reykjavík-Barokk – kr. 800.000 – Sjókonur og snillingar
Verkefnið er nýtt tónleikhús og vinnusmiðja, sem fram fer í Hljómahöll Reykjanesbæ í tengslum við Kona-Forntónlistarhátíð dagana 5.-7. nóvember 2021. Verkefnið er samstarfsverkefni hópsins og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og verður flutt með virkri þátttöku nemenda. Verkefnið varpar ljósi á atvinnusögu íslenskra kvenna, kynnir verk kventónskálda, ljóðskálda og kvæðakvenna fyrir nýjum áheyrendum og vekur athygli á íslenskum kvæða- og tónlistararfi.
Listasafn Árnesinga – kr. 5.500.000 – Smiðjuþræðir úr safninu inn í sveitirnar
Með verkefninu keyrir Listasafn Árnesinga út smiðjur og námskeið til grunnskóla í Árnessýslu. Unnið verður með sex listamönnum úr mismunandi listgreinum, margir búsettir í Árnessýslu. Í teyminu eru myndlistarmenn, leikari og leikstjóri, rithöfundur, raftónlistarmaður og tilraunalistamaður. Smiðjurnar tengjast safninu og safneigninni, en nálgunin er ólík frá einni smiðju til annarrar. Öllum er þeim þó ætlað að skilja eftir fræ sem geta vaxið og orðið að einhverju stærra í framtíðinni.
Listasafn Einars Jónssonar – kr. 2.500.000 – Stafrænar styttur
Um er að ræða myndmælingu á listaverkum Einars Jónssonar í samstarfi við miðlunarfræðing og List fyrir alla. Arfur þessa merka myndhöggvara verður gerður aðgengilegur nemendum og kennurum í grunnskólum landsins. Stafrænn viðburður/fjarfræðsla um tíu styttur Einars, með hljóðleiðsögn, kynningarmyndböndum og stafrænum heimsóknum í safnið í fylgd með sérfræðingi þess. Þannig verður fyrsta listasafnið, sem opnaði fyrir almenningi í eigin húsnæði, loks aðgengilegt fyrir alla.
Listasafnið á Akureyri / Akureyrarbær – kr. 1.200.000 - Allt til enda - listvinnustofur barna
Í Listasafninu á Akureyrir verður boðið upp á þrjár vandaðar listvinnustofur þar sem börn á grunnskólaaldri fá tækifæri til að vinna undir leiðsögn kraftmikilla og metnaðarfullra listamanna og hönnuða. Áhersla er lögð á að börnin taki virkan þátt í öllu sköpunarferlinu, allt frá því að leita sér innblásturs, skapa verkið og sýna svo afraksturinn á sérstakri sýningu sem sett verður upp í safninu. Þar fá börnin tækifæri til að láta ljós sitt skína á sinni eigin sýningu í Listasafninu á Akureyri.
Menningarfélagið HneyksList – kr. 380.000 – Youth Fringe námskeið Jaðarlistahátíðin RVK
Fringe fer fram í fjórða sinn 3.-11. júlí nk. Hluti af æskulýðsdagskrá hátíðarinnar, Youth Fringe, verða fjögur námskeið ætluð unglingum á aldrinum 13-19 ára, þeim að kostnaðarlausu. Á námskeiðunum leiðbeina fagaðilar í uppistandi, sviðsframkomu, sviðsmyndaumgjörð og sirkús.
Menningarmiðstöð Hornafjarðar – kr. 1.600.000 – Listasmiðjur Hringfara í Svavarssafni
Verkefninu er ætlað að efla safnastarf og fræðslu í Svavarssafni. Hugmyndin er að leiða saman fjóra íslenska myndlistarmenn og listfræðing til að taka á móti nemendum á öllum skólastigum í sveitarfélaginu Hornafirði. Börnin heimsækja listasafnið með kennara og fá leiðsögn og taka þátt í listasmiðjum með myndlistarmönnunum í kjölfarið. Ávinningur verkefnisins er margþættur en fyrst og fremst að hvetja til skapandi hugsunar, uppbyggilegs samtals og frjálsrar tjáningar.
Norræna húsið – kr. 700.000 – Samstarf ungmenna með ólíkan bakgrunn
Um er að ræða þrjú verkefni, sem ætlað er að efla tengslin við ungmenni og nemendur frá Eystrasaltsríkjunum sem búa á Íslandi. Það er mikilvægt að leita leiða til að tengja samfélagshópa, sem eiga hættu á að verða jaðarsettir, við íslenska menningu í gegnum þverfaglegt listrænt samstarf. Fjölbreyttir hópar eru aðilar að átakinu, t.d. kennaranemar, menntaskólanemendur, börn í verkefninu Krakkaveldi ásamt kennurum frá litháenska og lettneska skólanum.
Plöntutíð – kr. 930.000 – Plöntuleikhúsið og Unglingurinn í skóginum á Plöntutíð
Plöntuleikhúsið og Unglingurinn í skóginum eru tvö verk unnin af börnum og ungmennum sem verða sýnd á sviðslistahátíðinni Plöntutíð 3.-5.september 2021. Um er að ræða framsækin verkefni unnin í samstarfi við ungmenni í Reykjavík og Kópavogi, þar sem hvatt er til virkrar þátttöku í þágu nýsköpunar innan sviðslista. Verkefnin taka ungmenni inn í menningarstarfsemi fullorðinna og þar með verður til samtalsvettvangur milli kynslóða sem allir geta lært af.
Reykjanesbær – kr. 6.000.000 – Söfn fyrir börn
Listasafn Reykjanesbæjar og Byggðasafn Reykjanesbæjar fara í samstarf um safnaheimsóknir skólabarna allra leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu með það að markmiði að öll börn fái jafna möguleika á að kynnast því sem söfnin hafa upp á að bjóða í listum, sögu og menningu. Börnin fá notið faglegrar leiðsagnar sérstaks fræðslufulltrúa, sem að auki hefur það verkefni að sækja í hús hópa í viðkvæmri stöðu, íbúa af erlendum uppruna og fólk í starfsendurhæfingu til að auka líkur á að þau sæki þangað sjálf með börn sín.
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir – kr. 4.500.000 – Krakkaveldi Krakkaveldi kynnir BarnaBar!
Sviðslistaverkefni þar sem börn bjóða fullorðnum til fundar við sig á stað þar sem börn eru yfirleitt ekki leyfð - á barnum. BarnaBar er útópískur bar í Norræna Húsinu þar sem börn ráða öllu og stökkva í öll störf, blanda óáfenga kokteila og leggja fullorðnum lífsreglurnar á trúnó. BarnaBar er framhald lýðræðislega sviðslistaverkefnisins Krakkaveldis, þar sem krakkar héldu pólitíska fundi, gjörninga og skrifuðu ráðamönnum bréf í viðleitni til að breyta heiminum.
Stelpur rokka! – kr. 550.000.- Miðlunarlína Stelpur rokka!
Miðlunarlína Stelpur rokka! er ný nálgun á listsköpun barna og ungmenna með sömu hugmyndafræði og starf Stelpur rokka! í tónlist hefur verið með síðustu ár; félagslegt réttlæti og valdefling ungmenna. Miðlunarlínan fer fram samhliða rokksumarbúðum 13-16 ára í júní nk ásamt 10 vikna dagskrá haustið 2021 fyrir 10-17 ára. Líkt og hljómsveitarvinnan í rokkbúðum gefur miðlunarlínan þátttakendum færi á að velja sér áherslusvið: kvikmyndagerð, hljóðupptöku, ljósmyndun eða hlaðvarpsgerð.
Sumartónleikar Skálholtskirkju – kr. 1.000.000 – Nú angar og suðar í Skálholti
„Nú angar og suðar í Skálholti” er upplifunartónleikhús fyrir fjölskyldur sem verður flutt sumarið 2021 á Sumartónleikum í Skálholti. Sýningin dregur innblástur sinn af náttúru og umhverfi Skálholts og er hluti af norræna verkefninu Nytt i nord! þar sem norræn tónskáld semja nýja tónlist fyrir börn. Sýningin verður flutt af tréblásturstríóinu Taffelpikene ásamt leikkonu sem leiðir fólk í gegnum sýninguna.
Svalbarðsstrandarhreppur – kr. 1.000.000 – Tímahylkið
Verkefnið er í þremur hlutum. Í fyrsta lagi tímarit sem gefið var út sl. vetur og kallað Tímahylkið þar sem safnað var sögum úr samtímanum frá börnum og fullorðnum. Í öðru lagi listsýning þar sem börn og ungmenni á Svalbarðsströnd vinna verk og sögulegt yfirlit með tengingu við fyrri heimsfaraldra. Þriðji hluti er svo Tímahylki þar sem völdum sýningamunum, orðsendingum og öðrum munum er safnað í kassa sem varðveittur verður á Minjasafni Akureyrar opnaður að 50, 60 eða 70 árum liðnum.
Tónlistarfélag Árbæjar – kr. 2.500.000 – Lagasmíðabúðir fyrir unga tónhöfunda
Boðið verður upp á metnaðarfullar lagasmíðabúðir fyrir 14 -16 ára tónhöfunda. Farið verður með leiðbeinendum út á land þar sem unnið verður að eigin tónsmíðum undir handleiðslu reyndra tónlistarmanna og fagmenntaðra þjálfara í eina viku. Þar munu þátttakendur öðlast aukna færni m.a. í lagasmíðum, upptökutækni og útsetningum en auk þess verður lögð áhersla á aðra þætti svo sem sjálfstyrkingu, tilfinninga- og félagshæfni.
Tungumálatöfrar – kr. 3.000.000 – Vefskóli töfrabarna
Vefskóli Töfrabarnanna er íslenskunámskeið sem börn alls staðar að geta haft aðgang að. Það byggir á hugmyndafræði Tungumálatöfra sem er sumarnámskeið fyrir fjöltyngd börn haldið í Ísafjarðarbæ ár hvert. Í upphafi verður vefskólinn þróaður með þeim börnum sem sækja námskeiðið og þeim boðið upp á íslenskuörvun árið um kring en í framtíðinni sjáum við fyrir okkur að vefskólinn geti þjónað öllum börnum sem vilja læra íslensku óháð landamærum.
Ungar kvikmyndafélag – kr. 2.500.000 – FRÍMÓ
FRÍMÓ er handritasmiðja fyrir börn á aldrinum 8 - 12 ára þar sem þau fá tækifæri til að láta sínar raddir heyrast. Fyrirfram rammi er á sögunni tengdur tilfinningalífi barna en með listsköpun og hugmyndaauðgi barnanna kemst handritið á flug og verður aðgengilegra fyrir markhópinn sjálfan. Smiðjan er í boði fyrir öll íslensk börn óháð búsetu. Verkefninu stýra faglærðar og reyndar kvikmyndagerðarkonur auk fjölskyldu- og barnasálfræðings, í samstarfi við RÚV og KMÍ.
Þjóðminjasafn Íslands – kr. 1.600.000 – Tálgað og tengt við náttúru og sögu
Valdeflandi sumarnámskeið fyrir börn í viðkvæmri stöðu. Krökkunum er boðið til nærandi samveru þar sem sköpun, upplifun og uppgötvun ræður för. Námskeiðið tengir saman útivist, rannsókn á safnkosti Þjóðminjasafns Íslands og þjálfun í tálgun og beitingu bitverkfæra til að móta við. Það tengir uppgötvun á sögu og menningu þjóðar við upplifun og sköpun. Verkefnið er samstarf ólíkra aðila og byggir á þverfaglegri nálgun og samsköpun.