Auglýst er eftir umsóknum til rannsóknaseturs Margrétar II. Danadrottningar og frú Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag

31.8.2020

Auglýstar eru til umsóknar átta nýdoktorastöður til tveggja ára; fimm á sviði náttúruvísinda og þrjár á sviði hug- og félagsvísinda. Umsóknarfrestur er til 1. október nk. kl. 14:00 að íslenskum tíma.

Setrið var stofnað af Carlsbergsjóðinum í samvinnu við íslensk stjórnvöld í tilefni áttræðisafmælis Margrétar II. Danadrottningar og níræðisafmælis Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, síðastliðið vor. Rannsóknarsetrið er þverfaglegt og er því ætlað að auka skilning á samspili loftslagsbreytinga og vistkerfa hafsins og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag og menningu.

  • Nýdoktorar á sviði náttúruvísinda munu kanna samband loftslags- og vistkerfa gegnum söguna í hafi og á landi, með því að kortleggja tengsl loftslags og lífríkis hafsins á mannöldinni, og rannsaka loftslagstengdar breytingar á láði og legi.
  • Nýdoktorar á sviði hug- og félagsvísinda munu kanna áhrif hafsins og loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag og menningu.

Gert er ráð fyrir að styrkþegar dvelji bæði á Íslandi og í Danmörku.

Umsóknum skal skilað inn í umsóknarkerfi Carlsbergsjóðsins. 

Nánari upplýsingar á síðu verkefnisins 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica