Auglýst eftir umsóknum í Markáætlun í tungu og tækni
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki í Markáætlun í tungu og tækni fyrir styrkárin 2025-2028. Umsóknarfrestur er 10. apríl 2025 kl. 15:00.
Markáætlun í tungu og tækni er opinn samkeppnissjóður sem starfar samkvæmt 7. gr. laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir ( nr. 3/2003 með áorðnum breytingum ), Áherslur áætlunarinnar eru ákvarðaðar af Vísinda- og nýsköpunarráði. Rannís er umsýsluaðili sjóðsins.
Markáætlunin styður við verkefni í máltækni sem hafa það að markmiði að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni og auðvelda notkun hennar á þeim vettvangi. Hlutverk markáætlunarinnar er að stuðla að nýtingu nýrrar samskiptatækni í íslensku samfélagi, til hagsbóta fyrir almenning, stofnanir og fyrirtæki..
Markáætlun styrkir máltækniverkefni og stjórn leggur áherslu á rannsóknir, þróun og hagnýtingu í víðu samhengi. Sem dæmi um viðfangsefni má nefna máltæknilausnir fyrir samfélagslega mikilvæga starfsemi s.s. menntun, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og umsýslu dómkerfis eða þá sem hafa ekki íslensku að móðurmáli, þjást af málstoli eða öðrum mál- eða talröskunum. Möguleg viðfansgsefni snúa einnig, sem dæmi, að ábyrgri notkun á máltækni og samfélagslegum áhrifum hennar.
Umsækjendur eru beðnir að kynna sér vel reglur Markáætlunar í tungu og tækni áður en hafist er handa við gerð umsóknar. Umsóknum skal skilað rafrænt í gegnum umsóknarkerfi Rannís.