Auglýst eftir umsóknum í Erasmus+ 2023
Nú hefur Evrópusambandið tilkynnt um umsóknarfresti sem verða í boði árið 2023. Af ýmsu er að taka fyrir stofnanir og samtök hér á landi sem vilja efla starfsemi sína í þágu mennta- og æskulýðsmála í samstarfi við önnur lönd. Í fyrsta sinn er nú hægt að sækja um ferðir fyrir starfsfólk í íþróttum.
Um er að ræða þriðja umsóknarárið á núverandi tímabili Erasmus+, sem hófst árið 2021 og mun standa til 2027. Eins og á fyrri árum er lögð mikil áhersla á fjögur forgangsatriði sem ná þvert yfir alla áætlunina: inngildingu, sjálfbærni, stafræna þróun og virka þátttöku í samfélaginu. Árið 2023 verður tileinkað færni og áhersla lögð á að gera fólki kleift að afla sér þekkingar sem samræmist þörfum þess og samfélagsins í nútíð og framtíð. Stríðið í Úkraínu heldur áfram að vera í brennidepli og Erasmus+ leitast við að styðja við nemendur og starfsfólk á flótta.
„Við erum öll spennt að fylgjast með Erasmus+ dafna og ná til fleiri einstaklinga á ári hverju. Í fyrsta sinn í sögu áætlunarinnar verður hægt að styrkja ferðir þjálfara og starfsfólks á sviði íþrótta, sem færir okkur skrefi nær í áttina að virkari Evrópu“.
Margaritis Schinas, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB
Stefnt er að því að breyta sem fæstu milli ára til að umsækjendur finni fyrir stöðugleika innan tímabilsins. Þó er verið að hækka ákveðinn hluta styrkupphæða til að koma til móts við aukinn kostnað vegna vaxandi verðbólgu í Evrópu á undanförnum mánuðum.
Einnig eru nokkrar nýjungar væntanlegar á komandi ári sem vert er að veita athygli.
-
Breytingar hafa verið gerðar til að víkka út tækifæri nemenda til náms og þjálfunar. Nú geta öll þau sem leggja stund á fullorðinsfræðslu tekið þátt í allt að 12 mánuði.
-
Nýtt forgangsatriði er kynnt til sögunnar í samstarfsverkefnum, sem snýst um að styrkja verkefni sem hjálpa flóttafólki frá Úkraínu að aðlagast nýju umhverfi. Í samstarfsverkefnum á háskólastigi hefur nýju forgangsatriði einnig verið bætt við: að styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi.
-
Erasmus+ styrkir fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþróttageiranum er nýjung í áætluninni frá 2023. Aðalmarkmið þessa nýja hluta er að veita starfsfólki, þjálfurum og sjálfboðaliðum hvers kyns íþróttadeilda tækifæri til að þróa sig í starfi. Einkum er horft til grasrótarstarfs, en starfsfólki verður gert kleift að öðlast nýja færni, ný réttindi og þróa hæfileika sína með því að dvelja erlendis. Sú reynsla sem hlýst erlendis nýtist svo til að efla mátt og megin íþróttahreyfingarinnar bæði á Íslandi og erlendis.
-
Að lokum viljum við vekja athygli á DiscoverEU Inclusion Action, sem gerir ungu fólki og samtökum sem vinna með ungu fólki kleift að sækja um sérstakan styrk til að fara með þau sem þurfa aukinn stuðning í ferðalag um Evrópu. Ólíkt reglulega DiscoverEU útdrættinum þar sem ungt fólk sækir sjálft um að fara í pott til að vinna ferðalag um Evrópu er Inngildingarátak DiscoverEU líkara venjulegri Erasmus+ umsókn. Þar geta samtök sótt sérstaklega um fjármagn til að fara í ferðalag með hóp 18 ára ungmenna sem þurfa aukinn stuðning til að ferðast, svo sem vegna fylgdarmanneskju, túlkaþjónustu og flutnings á búnaði.
Íslenska Landskrifstofan mun geta styrkt verkefni um 8,5 milljón evra í menntahluta Erasmus+ og um þrjár milljónir evra í æskulýðshlutanum.
Starfsfólk Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi hvetur umsækjendur hér á landi til að kynna sér vel þá styrkmöguleika sem í boði eru. Þau sem hafa spurningar um umsóknarferlið eru eindregið hvött til að hringja eða skrifa tölvupóst til viðkomandi verkefnastjóra. Í upphafi nýs árs má reikna með ýmsum kynningarviðburðum af hálfu Landskrifstofu. Þeir verða nánar auglýstir hér á síðunni og í fréttabréfi okkar, sem við mælum með að allt áhugasamt fólk um Evrópusamstarf gerist áskrifendur að.
Umsóknareyðublöð eru byrjuð að birtast á Erasmus+ torginu. Þau sem ekki eru í boði nú þegar verða gerð aðgengileg þar fljótlega.
Nánari upplýsingar
-
Handbók Erasmus+ 2023
-
Auglýsing um Erasmus+ umsóknir 2023
-
Vinnuáætlun Erasmus+ 2023
-
Fréttatilkynning frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins