Ársskýrsla Rannís 2023 birt

14.2.2024

Ársskýrsla Rannís fyrir árið 2023 er komin út á rafrænu formi. Skýrslan er að þessu sinni myndskreytt með myndum sem gerðar voru af gervigreind.

  • Arsskyrsla-rannis-2023-forsida

Í skýrslunni er leitast við að gefa heildstætt yfirlit í máli og myndum yfir margþætta og umfangsmikla starfsemi stofnunarinnar og þau verkefni sem voru efst á baug á árinu 2023. Má þar helst nefna fjölþætta starfsemi sviðanna og stóru samkeppnissjóðanna ásamt umsýslu minni sjóða og alþjóðlegra áætlana. Einnig skipuðu viðburðir og viðurkenningar stóran sess í starfsemi Rannís 2023 eins og áður.

Í ávarpi Ágústar Hjartar Ingþórssonar, forstöðumanns Rannís, kemur meðal annars fram að árið hafi verið sannkallað uppskeruár í starfsumhverfi Rannís með góðum fréttum af árangri nýsköpunarfyrirtækja. Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki hefur aldrei verið meiri en árið 2023 og hefur vaxið hratt á síðustu árum. Þá voru metár í stuðningi í gegnum erlendar samstarfsáætlanir, á  borð við Erasmus+ og Creative Europe, sem hafa aldrei úthlutað eins miklu fjármagni til íslenskra aðila. 

Agust_hjortur_ingthorsson-1200x800px

Þá var ánægjulegt að ganga frá samstarfssamningi við færeyska rannsóknaráðið sem er sambærilegur þeim sem gerður var við grænlenska rannsóknaráðið árið 2022. Í árslok bárust þau ánægjulegu tíðindi að fjárveiting hefur fengist á norrænum vettvangi til að efla samstarf þessara þriggja ríkja og er gert ráð fyrir vinnustofum vísindamanna frá þessum löndum árlega næstu þrjú árin. 

Rannís hefur umsjón með 29 innlendum styrktarsjóðum og átta erlendum samstarfsáætlunum. Heildarfjöldi umsókna sem Rannís tók á móti árið 2022 var um 6.600 og rúmlega 32 milljarðar voru veittir til stuðnings við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu á Íslandi.

Arsskyrsla-2023-mynd-med-frett-3
Myndir sem notaðar eru til skreytingar í ársskýrslu Rannís 2023 eru gerðar af gervigreind. Grunnmyndir voru skapar af Microsoft designer með textalýsingu og þær svo unnar áfram með gervigreind í Photoshop.

Opna ársskýrslu Rannís 2023









Þetta vefsvæði byggir á Eplica