Ársskýrsla Rannís 2020 er komin út

28.5.2021

Ársskýrsla Rannís fyrir árið 2020 er komin út. Í skýrslunni er leitast við að gefa heildstætt yfirlit í máli og myndum yfir margþætta og umfangsmikla starfsemi stofnunarinnar. 

Fordæmalaust ár er að baki. Í upphafi árs 2020 brast á heimsfaraldur sem heimsbyggðin hefur tekist á við síðan og gerir árið 2020 frábrugðið því sem við eigum að venjast. Í ársskýrslunni getur að líta brot af því helsta sem bar til tíðinda í starfsemi Rannís á árinu, sem var með óhefðbundnu sniði hvað varðar viðburði og kynningar.

Viðburðir og kynningar skipa stóran sess í starfsemi Rannís og í ársskýrslunni getur að líta brot af því helsta sem bar til tíðinda í starfsemi Rannís árið 2020.Til að styðja við kynningarstarf á rannsóknum, nýsköpun, menntun og menningu og gera áhrif þekkingarsköpunar sýnileg; stendur Rannís fyrir ýmsum viðburðum eins og Rannsóknaþingi, Vorfundi Tækniþróunarsjóðs, Vísindavöku, Erasmusdögum og Nýsköpunarþingi. Þá eru haldnir kynningarfundir víða um land, námskeið, vinnustofur og tengslaráðstefnur. Rannís á einnig þátt í að hvetja vísinda- og fræðafólk til dáða með viðurkenningum á borð við Hvatningaverðlaun Vísinda- og tækniráðs í samvinnu við ráðið, Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands í samvinnu við Nýsköpunarsjóð námsmanna og Nýsköpunarverðlaun Íslands í samvinnu við Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

Frá og með 1. september 2020 var skipuriti Rannís breytt. Breytingin var gerð með hliðsjón af nýrri stefnu Rannís til ársins 2025, sem var gefin út árið 2019. Stefnumarkandi áherslur í nýrri stefnu eru: samfélagsleg áhrif, breyttir starfshættir, áhersla á mannauð, alþjóðasamstarf og styrking ímyndar. Starfssvið Rannís tekur til rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar. Umsýsla sjóða og alþjóðlegt samstarf eru lykilþættir í starfi Rannís auk greininga og miðlunar. Tvær meginbreytingar voru gerðar, alþjóðasvið var sameinað rannsókna- og nýsköpunarsviði og stofnað var nýtt svið greininga og hugbúnaðar. Með því að sameina alþjóðasvið og rannsóknaog nýsköpunarsvið er tryggt að þjónusta sviðsins gagnvart sameiginlegum markhópi málaflokksins sé samræmd.

Sækja ársskýrslu 2020









Þetta vefsvæði byggir á Eplica