Áframhaldandi aukning á útgjöldum til rannsókna og þróunarstarfs á Íslandi
Útgjöld til rannsókna og þróunar héldu áfram að aukast verulega á árinu 2023 og námu rúmlega 114 milljörðum króna. Frá árinu 2018 hafa útgjöld tvöfaldast og munar þar mest um aukin útgjöld fyrirtækja til rannsókna og þróunar, en þau hafa meira en tvöfaldast á fimm árum. Telja má víst að opinber stuðningur hafi hvetjandi áhrif, en styrkir til nýsköpunarfyrirtækja þrefölduðust frá 2018 til 2023.
Hagstofan hefur birt upplýsingar um heildarútgjöld til rannsókna og þróunarstarfs á árinu 2023 sem sýna áframhaldandi aukningu í útgjöldum milli ára. Alls var varið 114 milljörðum króna til rannsókna og þróunarstarfs árið 2023 en það jafngildir 2,65% af vergri landsframleiðslu (VLF). Aukning útgjalda helst þannig nokkurn veginn í hendur við aukningu í landsframleiðslu á milli ára. Aukningin í krónum talið milli ára er 13,6 milljarðar króna. Árið 2018 voru útgjöld til rannsókna og þróunar 56,9 milljarðar króna (2,01%) og nemur aukningin á fimm árum 57,7 milljörðum króna sem er ríflega 100% aukning.
Heimild: Hagstofa Íslands
Eins og myndin ber með sér er aukningin að stórum hluta til komin vegna aukinna rannsókna og þróunarumsvifa fyrirtækja. Fyrirtæki ráðstafa 75% af heildarútgjöldum árið 2023 og hafa útgjöld þeirra aukist um 12,8 milljarða króna frá árinu áður. Aukning háskólastofnana er 900 m.kr. útgjöld annarra opinberra stofnanir dragast lítillega saman. Nánari sundurliðun er birt í töflunni hér að neðan.
Útgjöld til rannsókna og þróunar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 2015-2023 |
||||||||||||
Allar einingar | Fyrirtæki | Háskólar | Aðrar opinberar stofnanir | |||||||||
% | % | % | % | % | % | % | % | |||||
m.kr. | heild | VLF | m.kr. | heild | VLF | m.kr. | heild | VLF | m.kr. | heild | VLF | |
2015 | 50.408 | 100 | 2,18 | 33.265 | 66,0% | 1,44 | 14.798 | 29,4% | 0,64 | 2.345 | 4,7% | 0,10 |
2016 | 52.997 | 100 | 2,11 | 34.148 | 64,4% | 1,36 | 16.350 | 30,9% | 0,65 | 2.499 | 4,7% | 0,10 |
2017 | 55.062 | 100 | 2,08 | 35.416 | 64,3% | 1,34 | 17.344 | 31,5% | 0,66 | 2.302 | 4,2% | 0,09 |
2018 | 56.900 | 100 | 2,00 | 36.603 | 64,3% | 1,29 | 17.928 | 31,5% | 0,63 | 2.369 | 4,2% | 0,08 |
2019 | 70.808 | 100 | 2,32 | 48.660 | 68,7% | 1,60 | 19.885 | 28,1% | 0,65 | 2.263 | 3,2% | 0,07 |
2020 | 72.697 | 100 | 2,47 | 49.397 | 67,9% | 1,68 | 20.852 | 28,7% | 0,71 | 2.447 | 3,4% | 0,08 |
2021 | 91.033 | 100 | 2,80 | 65.231 | 71,7% | 2,01 | 23.229 | 25,5% | 0,71 | 2.573 | 2,8% | 0,08 |
2022 | 100.968 | 100 | 2,66 | 73.001 | 72,3% | 1,92 | 25.160 | 24,9% | 0,66 | 2.808 | 2,8% | 0,07 |
2023 | 114.554 | 100 | 2,65 | 85.787 | 75,0% | 1,99 | 26.061 | 23,0% | 0,60 | 2.706 | 2,0% | 0,06 |
Heimild: Hagstofa Íslands
Opinber stuðningur við rannsóknir og nýsköpun hefur aukist á undanförnum árum eins og sjá má af mynd hér að neðan um þróun fjárveitinga til helstu sjóða og styrkja til nýsköpunarfyrirtækja á árunum 2015-2024. Þessi aukning hefur án efa ýtt undir aukið umfang rannsókna og þróunar, sérstaklega hjá fyrirtækjum. Sjá má skýra fylgni í aukningu: milli áranna 2020 og 2021 tvöfaldast stuðningur í formi endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði til fyrirtækja úr 5,2 í 10,4 milljarða króna. Sú fjárfesting virðist hafa skilað sér þrefalt til baka því fyrirtæki juku rannsókna- og þróunarstarf sitt um ríflega þrefalda þá upphæð eða um 15,8 milljarða króna. Þó að breytingar eftir það séu ekki eins miklar, árin tvö á eftir, þá er fylgnin jafn skýr: stuðningur í formi endurgreiðslu óx um 1,6 milljarða árið 2022 og um 2,2 milljarða árið 2023 en á sama tíma jukust útgjöld fyrirtækja til rannsókna og þróunar um 7,8 milljarða króna árið 2022 og 13,6 milljarða króna árið 2023.
Heimild: Rannís
Ísland hefur styrkt verulega stöðu sína í samanburði við önnur Evrópuríki á síðustu árum og heldur þeirri stöðu árið 2023. Meðalútgjöld 27 ríkja Evrópusambandsins til rannsókna og þróunarstarfs eru 2,22% af vergri landsframleiðslu árið 2023 og hafa ekki aukist síðustu þrjú árin. Hæst var hlutfallið í Svíþjóð árið 2023, eða 3,58% og náðu þar með aftur forystunni af Belgum þar sem útgjöld voru 3,33%. Í þriðja „sæti“ er Austurríki með 3,30% og loks Þýskaland þar sem 3,11%. Ísland er á þessum lista meðal Evrópuþjóða í sjöunda sæti eins og það hefur verið síðustu ár. Í engu Evrópuríkjanna hefur verið eins mikil aukningin í útgjöldum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eins og sl. fimm ár á Íslandi.
Heimild: Hagstofa Íslands og Eurostat
Samkvæmt þessum gögnum hefur rannsókna- og nýsköpunarumhverfið styrkst á umliðnum árum og staða Íslands í alþjóðlegum samanburði er nokkuð góð. Enn vantar þó talsvert upp á að ná því markmiði sem stjórnvöld höfðu lengi um að útgjöld til rannsókna og þróunar nemi 3% af vergri landsframleiðslu. En miðað við þróun síðustu ára er raunhæft að hafa væntingar um að útgjöld til rannsókna og nýsköpunar gætu numið 3% af vergri landsframleiðslu í lok þessa áratugar.
Ágúst H. Ingþórsson, forstöðumaður Rannís