Starfsreglur Jafnréttissjóðs

Starfsreglur Jafnréttissjóðs, settar af stjórn sjóðsins:

1. Markmið og starfsemi

Markmið Jafnréttissjóðs Íslands, sem stofnaður var með samþykki þingsályktunar 13/144 í tilefni af 100 ára kosningaréttarafmæli íslenskra kvenna, er að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna. Jafnréttissjóður Íslands nýtur framlaga af fjárlögum í fimm ár, 100 milljónir króna á ári, frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2020. Niðurstöður verkefna og rannsókna, sem styrk hljóta úr Jafnréttissjóði Íslands, eru aðgengilegar á vefsvæði Rannís í þeim tilgangi að þær nýtist sem best til framfara á sviði jafnréttismála.

Forsætisráðherra skipar þriggja manna stjórn sjóðsins og jafn marga til vara til ársloka 2020 samkvæmt þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands. Stjórnsýsla sjóðsins, þ.m.t. varsla og dagleg umsýsla hans, heyrir undir Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís. Sjóðsstjórnin starfar á grundvelli reglna nr. um úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands.

Starfsreglum Jafnréttissjóðs er ætlað að auka gegnsæi og tryggja fagleg vinnubrögð sjóðsstjórnar.r.

2. Mat á umsóknum

Mat á umsóknum byggist á þeim tilgangi sjóðsins að fjármagna eða styrkja verkefni og rannsóknir sem stuðla að framgangi kynjajafnréttis.

Í samræmi við þingsályktanir um Jafnréttissjóð Íslands og reglur um úthlutun úr sjóðnum leggur stjórnin áherslu á að veita fé til verkefna sem miða að:

a.  samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins,

b.  jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu,

c.  bættri stöðu kvenna og auknum möguleikum þeirra í samfélaginu,

d.  afnámi launamisréttis og annarrar mismununar á grundvelli kyns á vinnumarkaði,

e.  eflingu fræðslu um jafnréttismál,

f.  greiningu tölfræðiupplýsinga eftir kyni,

g.  eflingu rannsókna í kynja- og jafnréttisfræðum,

h.  vinnu gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni, þ. á m. heild­rænni fræðslu, forvarnastarfi og samræmdum viðbrögðum,

i.  breytingu á hefðbundnum kynjaímyndum og vinnu gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla,

j.  því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf,

k.  því að gæta sérstaklega að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá,

l.  vinnu gegn fjölþættri mismunun.

Stjórn Jafnréttissjóðs Íslands leitast við að auka þekkingarsköpun og fræðslu á sviði jafnréttismála með hagnýtingargildi rannsókna og annarra verkefna að leiðarljósi.

3. Styrkhæfi umsókna

Stjórn Jafnréttissjóðs Íslands starfar samkvæmt þeim tilgangi að efla jafnrétti kynjanna. Sjóðurinn styrkir verkefni og rannsóknir einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka. Við ákvörðun um styrkhæfi umsókna skal stjórnin leggja mat á eftirfarandi: gæði verkefnis- eða rannsóknaráætlunar, þ.m.t. markmið og skipulag verkefnis, hagnýtingargildi og mikilvægi þess sem og hæfi umsækjenda til að leysa verkefnið. Verkefnastjórar rannsóknarverkefna skulu hafa lokið háskólanámi við alþjóðlega viðurkenndan háskóla. Ekki er gerð samsvarandi menntunarkrafa til umsækjenda um kynningar-, fræðslu- og átaksverkefna. Sé sótt um styrk til rannsóknar sem er hluti af doktorsnámi skal leiðbeinandi vera tilgreindur sem verkefnastjóri. Enn fremur metur stjórn hagnýtingargildi rannsóknar sem og nýnæmi hennar og gildi þekkingarsköpunar í verkefninu.

4. Ákvörðunarvald stjórnar um veitingu styrkja

Stjórn Jafnréttissjóðs Íslands er falið ákvörðunarvald um hvaða umsækjendur skuli hljóta styrki hverju sinni. Stjórninni er heimilt að fela matsnefnd sérfræðinga að meta umsóknir hverju sinni en stjórn ákvarðar um veitingu styrkja hverju sinni. Stjórnin skal viðhafa vandaða stjórnsýsluhætti og byggja ákvarðanir sínar á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Stjórninni ber að gæta jafnræðis við mat umsókna og ákvörðun um úthlutun. Ákvarðanir stjórnarinnar eru undanþegnar skyldu til rökstuðnings, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og jafnframt undanþegnar kæruheimild, en um þær gilda meginreglur stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga.

5. Eftirfylgni stjórnar vegna veittra styrkja

Stjórn Jafnréttissjóðs Íslands skal upplýsa styrkþega um að þeim er skv. 6. gr. reglna um úthlutun styrkja úr Jafnréttissjóði Íslands skylt að gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár. Enn fremur skal stjórnin tryggja að niðurstöður verkefna sem styrk hljóta séu kynntar almenningi samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.  








Þetta vefsvæði byggir á Eplica