Frádráttur frá tekjum erlendra sérfræðinga

Fyrir hverja?

Sérfræðinga sem koma til starfa hingað til lands frá og með 1. janúar 2017.

Til hvers?

Frádráttarheimildin felur í sér að heimilt er að draga 25% tekna frá tekjum, þ.e. 75% tekna viðkomandi sérfræðings eru tekjuskattsskyldar, bæði í staðgreiðslu og við endanlega álagningu, fyrstu þrjú árin í starfi. Staðgreiðsla, sem haldið hefur verið eftir af heildartekjum fram að samþykkt umsóknar, er leiðrétt. Launatengd gjöld ásamt barnabótum og vaxtabótum tekur mið af heildarlaunum.

Umsóknarfrestur

Opið fyrir umsóknir allt árið. Umsókn um staðfestingu ásamt fylgigögnum skal berast eigi síðar en þremur mánuðum eftir að erlendur sérfræðingur hóf störf hér á landi.

EN

Hvert er markmiðið?

Markmiðið er að laða að erlenda sérfræðinga sem búa yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni til starfa hér á landi og með því að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir að fá til sín slíka aðila svo að ekki þurfi að fara með viðkomandi starfsemi úr landi. Hér er ekki hvað síst átt við íslensk tækni- og rannsóknarfyrirtæki og háskólasamfélagið. Þannig laða skattalegir hvatar til landsins sérfræðinga s.s. í rannsóknum og þróun, nýsköpun, framleiðslu, stjórnun, skipulagningu, markaðssetningu, verkfræði, fjármálum, upplýsingatækni, samskiptatækni og kennslu, svo eitthvað sé nefnt.

Hverjir geta sótt um?

Vinnuveitandi og/eða starfsmaður, þ.e. hinn erlendi sérfræðingur.

Umsókn

Sótt er um frádráttarheimildina í umsóknarkerfi Rannís. Nauðsynlegt er að skila eftirfarandi umsóknargögnum með umsóknum:

  • Staðfestingu á lögheimilissögu frá Þjóðskrá Íslands - vottorð C-122  ( English version C-122).
  • Ráðningarsamningi.
  • Ferilskrá.
  • Greinargerð vinnuveitanda um að viðkomandi sérþekking eða reynsla sé ekki fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli.
  • Annað sem umsækjandi telur skipta máli.

Skilyrði frádráttarheimildar

Starfsmaður telst erlendur sérfræðingur, óháð ríkisborgararétti, séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

  • hann hefur ekki verið búsettur eða heimilisfastur hér á landi á næsta 60 mánaða samfelldu tímabili fyrir upphaf starfa hans hér á landi, en þó þannig að fyrstu þrír mánuðir dvalar hérlendis teljast ekki með; og.

  • hann sé búsettur og með lögheimili hér á landi; og
  • hann búi yfir þekkingu eða reynslu sem ekki sé fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli.

Þá gildir reglan einungis ef hinn erlendi sérfræðingur:

  • er ráðinn til starfa hjá lögaðila sem hefur lögheimili eða fasta starfsstöð hér á landi og sá aðili greiði honum laun sem sérfræðingi; og
  • er ráðinn til að sinna verkefnum er krefjast sérþekkingar og reynslu sem ekki er fyrir hendi hér á landi eða í litlum mæli; og
  • hann starfi á sviði rannsókna, þróunar og/eða nýsköpunar, kennslu eða við úrlausn og/eða uppbyggingu sérhæfðra verkefna; eða
  • hann sinni framkvæmda- eða verkefnastjórnun eða öðrum verkefnum sem eru lykilþættir í starfsemi fyrirtækisins.

Afgreiðsla umsóknar

Til þess að umsókn teljist fullgild verður hún að berast nefndinni eigi síðar en þremur mánuðum eftir að erlendur sérfræðingur hóf störf hér á landi ásamt öllum nauðsynlegum og umbeðnum upplýsingum vegna hvers sérfræðings fyrir sig. Berist umsókn síðar er henni hafnað. Nefndin skal að jafnaði taka ákvörðun um umsókn innan þriggja vikna eftir að endanleg gögn liggja fyrir. Ef rökstuðningur og/eða fylgigögn eru ófullnægjandi gefur nefndin umsækjanda kost á að bæta úr annmörkunum innan tveggja vikna að jafnaði. Verði ekki bætt úr annmörkum er umsókn vísað frá. Meirihluti nefndarmanna nægir til þess að umsókn verði samþykkt. Nefndin heldur skrá yfir þær umsóknir sem hún móttekur og einnig yfir samþykktar umsóknir. Nefndarmönnum ber að gæta þagmælsku og fyllsta trúnaðar um gögn og upplýsingar sem berast nefndinni sem helst þótt látið sé af setu í nefndinni.

Nýr vinnuveitandi

Frádráttarheimildin flyst ekki sjálfkrafa á milli vinnuveitanda.

Eftirfarandi tekur gildi frá og með 1. ágúst 2022:

Starfsmanni sem hlotið hefur samþykki nefndar er heimilt að endurnýja umsókn sína innan þriggja ára frádráttar­tímabilsins hafi hann skipt um starf og ekki er liðinn lengri tími en einn mánuður þar til starf er hafið að nýju. Umsókn skal berast nefndinni eigi síðar en einum mánuði frá þeirri dagsetningu sem starfsmaður hóf störf á hinum nýja vinnustað ella skal henni hafnað. Framhaldsumsókn skal gilda til loka upphaflegs þriggja ára tímabils.

Nánari upplýsingar

Sendið fyrirspurnir á netfangið: fes@rannis.is







Þetta vefsvæði byggir á Eplica