Hjólaleiðir á Íslandi hlutu Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2014

Eva Dís Þórðardóttir nemi úr Háskólanum í Reykjavík og Gísli Rafn Guðmundsson nemi við Háskólann í Lundi, Svíþjóð hlutu verðlaunin fyrir verkefnið Hjólaleiðir á Íslandi. Leiðbeinendur þeirra í verkefninu var Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir og Ólafur Árnason hjá Eflu verkfræðistofu.

Hjólaleiðir á Íslandi fólst í því að vega og meta hjólaleiðir á Íslandi út frá kröfum EuroVelo verkefnisins með það að markmiði að koma einni leið á Íslandi inn á kort EuroVelo. EuroVelo heldur utan um meginkerfi reiðhjólaleiða í Evrópu og er ætlað að stuðla að sjálfbærri ferðamennsku. Á korti EuroVelo eru í dag 14 leiðir, sem eru samtals um 45.000 km langar. Skráning á leið um Ísland inn á kort samtakanna er mikilvægur þáttur í að vekja athygli á Íslandi sem viðkomustað fyrir hjólaferðamenn og auka tækifæri í sjálfbærri ferðaþjónustu hér á landi. Jafnframt var hér safnað saman á einn stað mikilvægum upplýsingum um leiðirnar fyrir ferðaþjónustuaðila og umsjónarmenn EuroVelo hér á landi.  Hluti af verkefninu fólst í að koma á samstarfi aðila innan Íslands sem tækju að sér að fóstra verkefnið til framtíðar. Ferðamálstofa ásamt Landssamtökum hjólreiðamanna og öðrum hagsmunaaðilum hafa nú sent umsókn til EuroVelo fyrir hönd Íslands þar sem gögn nýsköpunar-verkefnisins eru nýtt. Ferðamálastofa hefur tekið að sér að fóstra verkefnið fyrir Íslands hönd.

Samtök iðnaðarins gefa verðlaunin í ár, en verðlaunagripirnir eru ullarteppi, Páfagaukurinn og Hrafninn, eftir Vík Prjónsdóttur, sem er eitt af athyglisverðustu hönnunarfyrirtækjum samtímans.  Vík Prjónsdóttir er í eigu hönnuðanna Brynhildar Pálsdóttur, Guðfinnu Mjöll Magnúsdóttur og Þuríðar Rós Sigurþórsdóttur. Allir sem tilnefndir eru og hafa hlotið þá viðurkenningu að verkefnið þeirra hefur verið valið sem öndvegisverkefni sjóðsins fengu teikningar eftir myndlistakonuna Sunnu Ben, sem er sjálfstætt starfandi listakona í Reykjavík. Einnig fá allir tilnefndir viðurkenningarskjal undirritað af forsetanum.


Fjögur önnur verkefni fengu sérstaka viðurkenningu:

  • Hönnun á rafsegulfastefni. Verkefnið var unnið af Fannari Benedikt Guðmundssyni, nemanda við Háskóla Íslands, í samstarfi við Össur hf.
  • Myndræn framsetning uppskrifta. Verkefnið var unnið af þeim Kai Köhn, Karli Andrési Gíslasyni og Marinó Páli Valdimarssyni, nemendum við Delft University of Technology í samstarfi við Háskóla Íslands.
  • Myndræn málfræði fyrir börn greind  með einhverfu og málhömlun. Verkefnið var unnið af Kareni Kristínu Ralston, nemanda við Háskóla Íslands í samstarfi við Grunnskóla Hjallastefnunnar, Garðabæ.
  • Útsetningar á íslenskum þjóðlögum fyrir einleiksfiðlu og fiðludúó.  

Verkefnið var unnið af Sigrúnu Harðardótuir, nemanda við University of Denver, Lamont School of Music í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listaháskóla Íslands








Þetta vefsvæði byggir á Eplica