Verandi – verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Með stuðningi frá Tækniþróunarsjóði hefur Verandi tekist að þróa nýjar aðferðir við að breyta matvælum og hliðarafurðum í landbúnaði í húð- og hárvörur.
Markmið Verandi er að framleiða hágæða húð- og hárvörur úr endurnýttu hráefni sem fellur til við aðra (matvæla) framleiðslu og landbúnaði eða skapast sem hliðafurð og yrði alla jafnan sóað. Með því viljum við sporna við offramleiðslu, sóun og auka nýtingu á afurðum sem nú þegar eru til í stað þess að ganga að óþörfu á auðlindir. Ísland er aftarlega þegar kemur að flokkun sorps og fellur því flestallur lífrænn úrgangur til í urðun, þ.e. í landfyllingu sem er afar vond nýting á okkar dýrmæta landi, fyrir utan að vera mjög óæskilegt fyrir umhverfið. Með aukinni fólksfjölgun og loftsbreytingum þurfa þjóðir heims að taka höndum saman og huga að nýjum framleiðsluaðferðum og nýta betur það sem nú þegar er til. Auðlindir eru dýrmætar og langt í frá óendanlegar og því þarf að passa vel uppá þær. Lausnin liggur í hringrásarhagkerfinu sem felur í sér að nýta betur í stað þess línulega líkt og er að mestu notað í dag þar sem vara er framleidd, notuð og urðuð. Óhætt að segja að Verandi sé leiðandi í notkun á hringrásahagkerfinu á snyrtivörumarkaðinum í dag.
Með stuðningi frá Tækniþróunarsjóði hefur Verandi tekist að þróa nýjar aðferðir við að breyta matvælum og hliðarafurðum í landbúnaði í húð- og hárvörur. Ferlið hefur verið langt og strangt og ýmiskonar áskoranir hafa komið upp. Þar sem að um algjöra nýjung er að ræða reyndist ferlið nokkuð strembið. Að breyta matvælum í virk hráefni í snyrtivörur er flókið ferli enda um viðkvæm hráefni að ræða. Helsta flækjustigið var að finna ferli á nýtingu hráefnanna sem virkaði og skilaði tilsettum tilgangi en á sama tíma ekki of flókið eða kostnaðarsamt. Fyrst um sinn reyndist erfitt að fá sérfræðinga með okkur í lið þar sem að þekkingin var ekki til staðar enda um nýjung að ræða. Þegar við náðum að þróa samstarf með Matís og Pharmartica fóru hlutirnir loksins að rúlla og starfsfólk beggja aðila reyndust dýrmætir hlekkir í öllu ferlinu. Helstu tæknilegu erfiðleikarnir voru að vinna með hráefnin á sem skilvirkasta hátt en á sama tíma að nota efni (til dæmis rotvarnir) sem eru bæði umhverfisvæn, örugg fyrir húðina en virka á matvæli. Einnig var áskorun að finna lykt fyrir vörurnar sem var mild og góð en næði samt að yfirgnæfa lyktina af matvælunum. Nordic Angan hjálpaði mikið til með það. Ferlið var langt og strangt en loksins erum við komnar með samtals 11 vörunúmer og vörurnar komnar í sölu í verslanir. Vörurnar eru m.a. búnar til úr útlitsgölluðum gúrkum, krækiberjahrati, súkkulaðihrati, endurunnum kaffikorg og byggsagi. Aðrar 5 vörur eru tilbúnar í framleiðslu og enn fleiri vörur komnar í þróun.
Þær vörur sem Verandi er búið að þróa og er komið í sölu:
- Andlitsserum – gert úr útlitsgölluðum gúrkum frá Laugalandi
- Andlitsmaski – gerður úr útlitsgölluðum gúrkum frá Laugalandi
- Sjampóstykki – gert úr affallsbjór frá Ölgerðinni
- Líkamssápa – fljótandi sápa gerð úr lífrænu bygg “sagi“ frá Móður Jörð sem fellur til við byggframleiðslu
- Handsápustykki – gert úr affallsbjór frá Ölgerðinni
- Baðbombur – fljótandi sápa gerð úr lífrænu bygg “sagi“ frá Móður Jörð sem fellur til við byggframleiðslu og krækiberjahrati frá Völlum og Íslenskri hollustu
- Líkamsskrúbbur – gerður úr endurnýttum kaffikorg frá IKEA
- Baðsalt – gert úr lífrænu bygg “sagi“ frá Móður Jörð sem fellur til við byggframleiðslu og krækiberjahrati frá Völlum og Íslenskri hollustu
- Baðsoak - gert úr lífrænu bygg “sagi“ frá Móður Jörð sem fellur til við byggframleiðslu og krækiberjahrati frá Völlum og Íslenskri hollustu
- Gjafapoki með kaffiskrúbb og baðsoaki
- Gjafapoki með baðsoaki og baðsalti
Á leiðinni á markað eru svo 5 aðrar vörur
- Líkamsskrúbbur – gerður úr krækiberjahrati frá Völlum og Íslenskri hollustu
- Súkkulaðiskrúbbur – gerður úr súkkulaðihrati frá Omnom
- Fljótandi sjampó – gert úr affallsbjór frá Ölgerðinni og í samstarfi við Davines
- Hárnæringarstykki – gert úr affallsbjór frá Ölgerðinni
- Byggmaski – gerður úr byggsagi frá Móður Jörð sem fellur til við byggframleiðslu
Það eru spennandi tímar framundan hjá Verandi. Við höfum náð að þróa tækni sem styður við hringrásarhagkerfið og dregur úr matarsóun. Það er ómetanlegt og nú er bara að halda áfram – þróa fleiri vörur og markaðssetja okkur vel bæði innanlands og erlendis. Við viljum nýta okkur þann góða meðbyr sem við höfum með okkur og tryggja okkur sess sem fyrsta og eina fyrirtækið sem vinnur húð- og hárvörur úr hráefnum sem annars yrði sóað.
Við erum afar þakklátar Tækniþróunarsjóð fyrir styrkinn en án hans hefðum við ekki getað farið út í þessa frábæru vegferð sem Verandi er á. Þökkum kærlega fyrir okkur.
Heiti verkefnis: Verandi
Verkefnisstjóri: Elva Björk Barkardóttir
Styrkþegi: Verandi slf.
Tegund styrks: Sprotastyrkur
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 19.954.000 kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.