Þróun vefjaræktar á Eutrema japonicum – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

16.10.2019

Í verkefninu voru skoðaðir allir þættir frá vefjatöku úr stofnplöntu til og með herðingu í gróðurhúsi. 

Verkefninu Þróun vefjaræktunar á Eutrema Japonicum er nú lokið. Verkefnið er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og nýsköpunarfyrirtækisins Jurtar ehf. Aðalmarkmið verkefnisins var að rannsaka og þróa aðferðir og ferla við vefjaræktun á wasabi plöntunni (l. Eutrema Japonicum), sem Jurt ehf. ræktar á Íslandi. Staða þekkingar í heiminum á vefjaræktun á wasabi plöntunni var lítil fyrir upphaf verkefnisins.

Vefjaræktun gengur í megin atriðum út á það að framleiða plöntur úr plöntuvef fullorðinnar plöntu sem ekki er frjóvgað fræ líkt og í hefðbundinni æxlun og fjölgun plantna. Þess í stað er örlítill vefur skorinn af stofnplöntu og hvataður til vaxtar á þar til gerðu æti á rannsóknarstofu í dauðhreinsuðu umhverfi. Þegar æskilegri stærð hefur verið náð er plantan síðan flutt úr því umhverfi og komið fyrir í áframræktun í potti í gróðurhúsi. Til þess að plantan geti þrifist í opnu umhverfi gróðurhúss þarf að venja hana hægt á umhverfið í ferli sem kallast herðing. Afföll milli vefjaræktunar og áframræktunar geta verið gríðarleg og skiptir því miklu máli að þróa verkferla og aðferðir til þess að minnka afföll og auka þannig framlegð.

Í verkefninu voru skoðaðir allir þættir frá vefjatöku úr stofnplöntu til og með herðingu í gróðurhúsi. Skoðaðar voru mismunandi aðferðir við vefjaræktunina sjálfa til að auka líkur á árangri og til að finna hagkvæmustu og bestu leið við vefjaræktunina. Jákvæðar niðurstöður fengust úr öllum verkþáttum og gekk verkefnið vel. Afrakstur verkefnisins er tækniþekking og ferlar sem gera það mögulegt að byggja upp séríslenskan wasabi stofn. Áhersla var lögð á að notast ekki við sveppa- og sýklalyf í vefjaræktuninni eins og tíðkast í erlendri wasabi vefjaræktun. Sett var upp fullbúinn rannsóknarstofa til vefjaræktunar í Háskóla Íslands sem hefur framleiðslugetu upp á 10.000-20.000 plöntur á ársgrundvelli.

Nýting niðurstaðna verkefnisins er þegar hafin og hafa verið ræktaðar upp wasabi plöntur sem vefjaræktaðar voru með þeirri þekkingu sem aflað var í verkefninu. Niðurstöður verða í framhaldinu hagnýttar til þess að framleiða plöntur á framleiðsluskala.

Heiti verkefnis: Þróun vefjaræktar á Eutrema japonicum
Verkefnisstjóri: Johan Sindri Hansen
Styrkþegi: Jurt ehf.
Tegund styrks: Sprotastyrkur
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 20 millj. kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica