Þróun á viðgerðarefni fyrir heilabast - Kerecis Omega3 Dura – verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Heilabastviðgerðarefni Kerecis er affrumaður líffræðilegur græðlingur úr þorskroði sem inniheldur prótein og náttúrulegar fitur, þar á meðal Omega3 fitusýrur.
Kerecis er íslenskt lækningavörufyrirtæki sem þróar, framleiðir og markaðssetur vörur til meðhöndlunar á sköðuðum líkamsvef og húð. Kerecis Omega3 vörur félagsins eru seldar til sjúkrahúsa af starfsmönnum Kerecis og gegnum dreifingaraðila. Húðmeðhöndlunarvörur Kerecis má kaupa undir nafninu MariCell Omega3 í flestum íslenskum apótekum.
Árið 2015 veitti Tækniþróunarsjóður Kerecis 45 milljóna styrk til þriggja ára til þess að vinna að þróun á viðgerðarefni fyrir heilabast. Heilabast er vefur sem aðskilur heila og höfuðkúpu og heldur mænuvökva heilans á sínum stað.
Heilabastviðgerðarefni Kerecis er affrumaður líffræðilegur græðlingur úr þorskroði sem inniheldur prótein og náttúrulegar fitur, þar á meðal Omega3 fitusýrur.
Afrakstur verkefnisins er margþættur s.s. nýjar mælingaaðferðir fyrir inneitur, endurhönnuð framleiðsluaðferð sem lágmarkar magn inneiturs og dýrarannsókn sem sýndi fram á góða virkni sáraroðsins sem viðgerðarefni fyrir heilabast.
Þar sem notkun á efni til viðgerðar á heilabasti er í beinni snertingu við miðtaugakerfið, eru mjög strangar kröfur settar á gæði og hreinleika vörunnar, sérstaklega hvað varðar styrk svokallaðs inneiturs. Inneitur kemur frá bakteríuleifum sem verða eftir þegar dauðhreinsun er lokið og geta valdið bólgusvörun við ígræðslu. Mikil þróunarvinna var sett í það að setja upp mælingaraðferðir sem numið gætu ofurlág inneitursgildi í heilabastviðgerðarefni Kerecis.
Framleiðsluferli sáraroðsins var endurhannað frá grunni með það í huga að takmarka magn inneiturs í vörunni. Kerecis getur nú framleitt græðlinga sem uppfylla hinar ströngu kröfur sem gerðar eru til ígræðsluefna sem koma í snertingu við miðtaugakerfið.
Sáraroðið var borið saman við heilabastsviðgerðarefni sem búið er til úr nautgripagollurshúsi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu fram á góða virkni og öryggi roðsins í heilabastaðgerðum og kosti umfram viðgerðarefni úr gollurshúsi og eru forsendur þess að hægt sé að framkvæma klínískar rannsóknir á vörunni í mönnum. Ágrip, veggspjöld og vísindagreinar voru skrifaðar um rannsóknina.
Styrkveitingar Tækniþróunarsjóðs eru mikilvægur hluti af rekstri Kerecis og hafa í endurtekin skipti gert fyrirtækinu kleift að afla hlutafjár frá áhættufjárfestum með því að minnka áhættu þeirra. Slík fjármögnun hefur svo gert fyrirtækinu kleift að halda áfram að þróa nýjar vörur úr áður ónýttu sjávarfangi.
Heiti verkefnis: Þróun
á viðgerðarefni fyrir heilabast - Kerecis Omega3 Dura
Verkefnisstjóri: Dóra Hlín Gísladóttir
Styrkþegi: Kerecis ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 45 millj. kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.