Sustain-Larvae Eurostars E!9455 – verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Verkefnið var fjölþætt þar sem örveruflóra var skönnuð með næstu kynslóðar DNA raðgreiningartækni sem er öflug og nýsárleg aðferð til að rannsaka samsetningu og fjölbreytileika örverusamfélaga.
Yfirlit
Nú er lokið verkefninu „SustainLarvae“. Þátttakendur verkefnisins voru Mátís ohf., eldisstöðin Sæbýli og breska rannsóknar- og ráðgjafarfyrirtækið FishVet Group. Helsta markmið verkefnisins var að rannsaka hvaða örverur hafa mögulega bætandi eða hamlandi áhrif á vöxt eldisdýra og voru sæeyru notuð sem módel lífverur og beita til þess nýjustu rannsóknaraðferðum í DNA raðgreiningum. Setja þurfti saman gagnabanka örvera sem hafa vægi í eldi (góð og slæm) út frá öðrum rannsóknum og þróa eða aðlaga úrvinnsluleiðir sem geta hentað í þjónustumælingar fyrir eldisiðnaðinn. Verkefnið var fjölþætt þar sem örveruflóra, við mismunandi aðstæður, var skönnuð með næstu kynslóðar DNA raðgreiningartækni sem er öflug og nýsárleg aðferð til að rannsaka samsetningu og fjölbreytileika örverusamfélaga. Samhliða voru einnig gerðar talningar á ræktanlegum örverum á valætum. Verkefnið gekk að mestu samkvæmt áætlun og hefur mikið af áhugaverðum niðurstöðum um þarmaflóru sæeyrna og heildarbakteríuflóru í eldisumhverfi þeirra fengist. Ekki tókst þó að sýna fram á með marktækum hætti að einhver sérstakur hópur örvera hefði neikvæð eða jákvæð áhrif á vöxt sæeyrnanna fram yfir annan. Sæeyru reyndust ekki, eins og upphaflega var haldið, að vera hentug eldisdýr til að nota sem módel lífverur fyrir eldi almennt. Svo virðist sem erfðir dýranna sjálfra ráði mestu um vöxt þeirra en ekki þarmaflóra þeirra.
Í verkefninu var hönnuð útgáfa af gagnagrunni sem inniheldur örversamsetningu í eldiskerfum þar með taldar þekktar sjúkdómsvaldandi- og bætibakteríur sem tengjast bæði villtum og eldis sæeyrum. Hægt er að nota þennan gagnagrunn til að skilgreina vistkerfi baktería sem finnast í eldiskerfinu með það fyrir augum að finna bakteríur sem gætu haft slæm áhrif á vellíðan dýranna eða gefa á annan hátt til kynna stöðu vatnsgæðanna í eldinu. Verkefnið SustainLarvae var fjármagnað gegnum Eurostars áætlunina í gegnum Tækniþróunarsjóð með milligöngu Nýsköpunarmiðstöðvar.
Heiti verkefnis: Sustain-Larvae Eurostars E!9455
Verkefnisstjóri: Viggó Þór Marteinsson
Styrkþegi: Matís ohf.
Tegund styrks: Eurostars
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 49,5 millj. kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.