Alþjóðlegt tónlistartæknifyrirtæki á Íslandi – verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Á styrktímabilinu hefur mikil vinna verið lögð í kynningarstarf, notendaprófanir auk stífrar þróunar og farið hefur verið í gegnum margar ítranir á vélbúnaði, hugbúnaði, virkni og skilaboðum vörunnar.
Síðastliðin tvö ár hefur mikið vatn runnið til sjávar hjá Genki Instruments og þróun á hringnum Wave. Farið hefur verið frá þrívíddarprentaðri frumgerð samsettri á lítilli skrifstofu yfir í fjöldaframleiðsluhæfa vöru á barmi þess að koma á almennan markað. Lagt var upp með að finna réttan markhóp Wave, kynna vöruna og koma henni á markað. Á styrktímabilinu hefur því mikil vinna verið lögð í kynningarstarf, notendaprófanir auk stífrar þróunar og farið hefur verið í gegnum margar ítranir á vélbúnaði, hugbúnaði, virkni og skilaboðum vörunnar.
Vélbúnaðarþróun hefur gengið vonum framar en við upphaf styrktímabils var hugmyndavinna og hönnun ráðandi áður. Til að gera þá vinnu að veruleika hóf Genki Instruments samstarf með finnska verkfræðifyrirtækinu Haltian sem hefur aðstoðað við undirbúning Wave fyrir fjöldaframleiðslu. Vélbúnaðarþróun og ítrun hefur gengið vonum framar og fer fyrsta fjöldaframleiðsla um miðjan Júní.
Á tímabilinu hefur hugbúnaðarþróun verið veigamikil, hvort sem um ræðir forritun ígreyptra kerfa eða þann notendahugbúnað sem snýr að tónlistarfólki.
Wave hefur verið kynnt á ráðstefnum, notað á tónleikaferðalagi Bjarkar sem og á sviði víðsvegar á tímabilinu og næstu misseri líta vel út.
Heiti verkefnis: Alþjóðlegt tónlistartæknifyrirtæki á íslandi
Verkefnisstjóri: Haraldur Þórir Hugosson
Styrkþegi: Genki Instruments ehf.
Tegund styrks: Vöxtur
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 50 millj. kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.