YAY smáforrit og markaðstorg fyrir gjafabréf - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
YAY ehf. lýkur við verkefnið YAY smáforrit og markaðstorg fyrir gjafabréf sem hlaut Fyrirtækjastyrk-Vöxt haustið 2019.
YAY hefur umbylt markaðinum fyrir gjafabréf á Íslandi. Fyrir tilkomu YAY voru möguleikar til rafrænnar vörslu, umsýslu og endursölu gjafabréfa afar takmarkaðir og miðuðust oftast við þarfir verslana og fyrirtækja umfram þarfir endanotenda. Það hafði í för með sér að þægindi og öryggi neytenda sem áttu og nýttu sér gjafabréf var verulega ábótavant, sem sýndi sig skilmerkilega í því að árlega er áætlað að 25- 30% af verðmæti gjafabréfa glatist vegna þess að þau gleymast, renna út eða týnast. YAY hefur leyst þetta vandamál með miðlægum, stafrænum markað fyrir gjafabréf sem tryggir greiðari aðgang að gjafabréfum, mætir þörfum neytenda fyrir öryggi í vörslu gjafabréfa og lágmarkar glötun verðmæta þar sem greiðsla fyrir gjafabréf skilar sér ekki til seljanda bréfsins fyrr en það hefur verið notað. Enn fremur býður YAY notendum sínum upp á það nýnæmi að selja gjafabréf sín á miðlægu endursölutorgi, sem tryggir að bréfið lendi í höndum þess er mest verðmæti hlýtur af því og líklegastur er til notkunar þess, sem skilar sér svo í aukinni veltu seljenda gjafabréfanna.
Smíði á hugbúnaðinum sem smáforrit YAY keyrir á hófst árið 2019 og í desember 2019 fékk félagið úthlutuðum Fyrirtækjastyrk-Vexti til þróunar á YAY. MVP útgáfa YAY fór í loftið þann 17. desember 2019, en hún hafði verið prófuð með völdum birgjum fyrr um haustið. Eftir aðeins fjóra daga í loftinu var YAY komið með rúma 7.000 notendur og er um að ræða einn besta árangur íslensks smáforrits á jafn stuttum tíma.
Útgáfa 1.0 af vörunni fór í loftið í mars 2021. Fjöldi notenda í kerfinu er í kringum 15.000 og hægt er að kaupa í kringum 200 tegundir gjafabréfa hjá 125 fyrirtækjum í gegnum YAY. Að auki er mögulegt að kaupa Gjafabréf íslenskrar ferðaþjónustu sem virka hjá um 300 fyrirtækjum. Einnig hafa fyrirtæki og stofnanir keypti nokkra tugi þúsunda jólagjafabréfa í gegnum YAY til að nýta sem jólagjafir til starfsfólks.
Jákvæð áhrif YAY ná umfram sjálfa veltu afurðarinnar, en kannanir sýna að handhafar gjafabréfa kaupa fyrir allt að 34% umfram virði bréfanna þegar þau eru nýtt, eða 53 dollara að meðaltali. Stafrænt form YAY tryggir einnig utanumhald á nákvæmum og verðmætum markaðsgögnum sem nýtast samstarfsfyrirtækjum í umsýslu og skapa fjölda afleiddra tækifæra. Að lokum eru jákvæð umhverfisáhrif ljós því stafræn bylting gjafabréfamarkaðarins mun lágmarka útprentun og förgun bréfa og plastkorta og þannig minnka kolefnisspor þessa greiðslumáta umtalsvert.
HEITI VERKEFNIS: YAY smáforrit og markaðstorg fyrir gjafabréf
Verkefnisstjóri: Ari Steinarsson
Styrkþegi: Yay ehf.
Tegund styrks: Vöxtur
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 50.000.000 ISL kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.