Tækniþróunarsjóður tekur þátt í Nýsköpunarviku
Nýsköpunarvikan fer fram 26. maí - 2. júní nk. Hátíð er haldin á Íslandi ár hvert en markmiðið er að auka aðgengi og sýnileika nýsköpunar á Íslandi og gefa fyrirtækjum og sprotum tækifæri á að kynna eigin nýsköpun.
Föstudaginn 28. maí nk. kl. 12:30 til 13:30 kynnir Tækniþróunarsjóður tækifæri sem eru í boði í húsnæði Grósku og samtímis í beinu streymi. Allir eru velkomnir að fylgjast með hvort sem er á staðnum (meðan húsrúm leyfir) eða í beinu streymi (sjá neðar í frétt).
Dagskrá:
- Ágúst Hjörtur Ingþórsson sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs opnar fundinn.
- Fulltrúar Tækniþróunarsjóðs kynna breytingar á sjóðnum.
- Pétur Már Halldórsson framkvæmdastjóri Nox Medical og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofandi Kara Connect munu segja frá samleið þeirra með sjóðnum.
Tækniþróunarsjóður er stærsti opinberi samkeppnissjóðurinn sem veitir styrki til nýsköpunarverkefna á Íslandi. Hann er opinn verkefnum úr öllum atvinnugreinum og ýtir jafnframt undir alþjóðlegt samstarf í nýsköpun.
„2021 verður stærsta ár Tækniþróunarsjóðs frá upphafi. Hann hefur tæpa 3,7 milljarða króna til ráðstöfunar til nýsköpunarverkefna í ár“ samkvæmt Ágústi Hirti Ingþórssyni sviðstjóra rannsókna og nýsköpunarsviðs Rannís.