Súrþang - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Í verkefninu Súrþang var þróuð aðferð til þess að gerja þang. Markmiðið var að nýta súrþang sem fóðurbæti í laxeldi.
Súrþangið, sem framleitt var, var rannsakað með tilliti til efnainnihalds, bakteríuflóru og geymsluþols. Fiskeldisfóður með súrþangi var því næst útbúið og framkvæmdar voru fiskeldistilraunir á laxi þar sem vöxtur var mældur og þarmaflóra fisksins rannsökuð. Einnig voru fóru fram skynmatstilraun og neytendakönnun þar sem bragð, lykt og áferð laxins sem alin var á súrþangsfóðri voru metin í samanburði við lax alinn á fóðri án súrþangs. Helstu niðurstöður sýndu að fóðrið nýtist vel í eldi á fullorðnum laxi og skynmat sýndi fram á að þangið hefur ekki áhrif á bragðgæði, lykt eða áferð fiskafurðanna. Einnig sýndu niðurstöður verkefnisins fram á ”prebiotic” eiginleika fóðursins, þ.e. hvernig það getur dregið úr vexti möglegra sjúkdómsvaldandi baktería sem þekktar eru fyrir að valda usla í fiskeldi.
Niðurstöður verkefnisins skapa grunn fyrir helstu hagaðila til verðmætasköpunar úr þangi. Samvinna var höfð við Laxá hf, stærsta fóðurframleiðanda á Íslandi, við vinnslu verkefnisins. Einnig hafa niðurstöður verið kynntar sérstaklega fyrir Thorverk hf, stærsta aðila í uppskeru og þurrkun á íslensku þangi. Hagkvæmasta leiðin til nýtingar er að setja upp gerjunaraðstöðu samhliða fóðurframleiðslu en með slíkri samþættingu mætti framleiða fóðurbæti og blanda beint í fóður til nýtingar á innlendum og erlendum markaði.
HEITI VERKEFNIS: Súrþang
Verkefnisstjóri: Ólafur Friðjónsson
Styrkþegi: Matís ohf.
Tegund styrks: Hagnýtt rannsóknaverkefni
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks:. 45.000.000 ISL kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.