Styrkir úr Samstarfssjóði við atvinnulífið um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Tækniþróunarsjóður vekur athygli á styrkjum sem utanríkisráðuneytið veitir íslenskum fyrirtækjum sem vilja leggja sitt af mörkum til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni. Um er að ræða stóra verkefnastyrki allt að 200.000 evrur til allt að þriggja ára. Einnig eru smærri forkönnunarstyrkir í boði til að móta hugmyndir sem gætu leitt til stærri þróunarverkefna.
Utanríkisráðuneytið auglýsir eftir umsóknum í Samstarfssjóðinn en hlutverk hans er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífsins til þróunarsamvinnu. Markmiðið er að draga úr fátækt og styðja við atvinnusköpun og sjálfbæran vöxt í fátækum ríkjum heims í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Sérstök áhersla er lögð á atvinnusköpun kvenna og að verkefnin hafi jákvæð umhverfisáhrif.
Styrkveitingar úr sjóðnum eru takmarkaðar við atvinnulífið og umsækjendur geta einvörðungu verið opinberlega skráð fyrirtæki sem ekki teljast ríkisaðilar, til að mynda einstaklingsfyrirtæki, félög og sjálfseignarstofnanir.
Verkefni þurfa að vera framkvæmd í samvinnu við samstarfsaðila í tilteknu þróunarlandi. Einnig geta fleiri samstarfsaðilar, t.d. háskólar og félagasamtök, komið að verkefninu.
Helstu skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla til að teljast styrkhæfur:
- vera opinberlega skráð fyrirtæki og hafa starfað í a.m.k. eitt ár
- geta lagt fram staðfestan ársreikning
- geta lagt fram staðfest gögn um að fyrirtæki sé í skilum með opinber gjöld og lífeyrisgreiðslur,
- vera með stefnu varðandi samfélagslega ábyrgð og/eða siðareglur
- vera með reynslu og kunnátta við framkvæmd sambærilegra verkefna, einkum í þróunarlöndum
Umsækjendur þurfa uppfylla þær kröfur um meðferð og vörslu fjármuna á sviði þróunarsamvinnu sem Ríkisendurskoðun gerir.
Umsóknir þurfa að berast fyrir miðnætti 7. desember 2020.
Áætlað er að niðurstöður ráðherra liggi fyrir í byrjun árs 2021.
Nánari upplýsingar og öll gögn er að finna á vef sjóðsins