Samfélagsgróðurhús Íslands - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Samfélagsgróðurhús ehf. hefur hannað nýja gerð gróðurhúsa sem byggja á einingahúsasmíði og þróað nýstárlegan möguleika í verslun, uppsetningu og ræktun.
Verkefnið Samfélagsgróðurhús Íslands hlaut styrk Tækniþróunarsjóðs
vorið 2020. Það snérist um að reisa og reka samfélagsgróðurhús við hvern
einasta leikskóla landsins. Hugmyndin á bakvið verkefnið var að börnin okkar
mundu leika sér að því að planta og rækta grænmeti, krydd og ávexti og þróa til
þeirra jákvætt viðhorf. Til lengri tíma litið mundu þau víkka sýn fólks á það
hvað er hægt að rækta hér á landi með einföldu skjóli fyrir veðri og vindum,
viðbótarljósi í svartasta skammdeginu og náttúrulegri natni. Því hverju mundi
það breyta fyrir þjóðfélagið ef hvert einasta barn hefði aðgang að gróðurhúsi
fimm daga vikunnar í fjögur ár á einumesta mótunarskeiði lífsins? Þessi framtíð
þótti bæði fullkomlega framkvæmanleg og innan seilingar og er það enn.
Ástæða þeirrar vangaveltu var að Íslendingar á öllum aldri neyta að meðaltali allt of lítils grænmetis og ávaxta. Innflutningur á þeim er dýr og afar mengandi miðað við íslenska framleiðslu. Þeir sem eiga gróðurhús og kynnast af eigin raun muninum á fersku og innfluttu grænmeti og ávöxtum. Samtök Garðyrkjubænda sjá beina tengingu milli þeirra sem rækta sjálfir og þess hverjir kaupa ferskt íslenskt grænmeti. Hér á Íslandi er allt til sem til þarf.
Nægt rými á rúmgóðum leikskóla- og grunnskólalóðum fyrir smekkleg og snotur gróðurhús og sömuleiðis í görðunum við flest heimili. Hér er ódýrt rafmagn og jarðhitaaffall af hitaveitukerfum skóla, heimila og stofnana má leiða í húsin til upphitunar. Langir og bjartir sumardagar og mildir vetur draga úr sveiflum og lýsa má svartasta skammdegið með hagkvæmri LED lýsingu. Náttúrulegt skjól undir trjám og við runna hlífir húsunum frá vindi og moldin undir fótum okkar er næringarrík.
Stór hluti verkefnisins var að virkja áratugastarf Garðyrkjuskóla Íslands og annarra stofnana og tengslanet garðyrkjufræðinga um land allt. Uppfræða komandi kynslóðir um hreina, holla og hagkvæma heimaræktun ávaxta og grænmetis.
Þótt áhugi almennings sé ljós, og aðstæður séu góðar, þá kom í ljós að meginhindrunin sem vituð var fyrirfram reyndist miklum mun stærri en áður hafði verið áætlað. Það er hreinlega vilji sveitarfélaganna, og þá sér í lagi Reykjavíkur þar sem mest var unnið í málinu, til að reisa gróðurhús fyrir leikskólana.
Á því ári sem verkefnið stóð tók það þátt í lýðræðislegum íbúakosningum Betri Reykjavík 2021 og hlaut hugmyndin gríðarlega mikið fylgi almennings og var meðal efstu kosta í öllum. Hinsvegar kaus Reykjavíkurborg á vordögum 2021 að kippa fótunum undan verkefninu með því kalla yfirbyggða gróðurkassa sem reistir höfðu verið af samkeppnisaðila, „sambærilegt tilraunaverkefni“ þótt ekkert gæti verið fjarri og með ólíkindum. Fulltrúar Borgarinnar stöðvuðu því miður blússandi íbúakosningu Samfélagsgróðurhúsanna sem fara mun fram án þeirra í nóvember 2021. Samfélagsgróðurhús verða því ekki að að veruleika í því formi sem lagt var upp með, en annað sveitarfélag hefur lýst vilja sínum til þátttöku og verður tilkynnt um það bráðlega. Samfélagsgróðurhús harma mjög það sem þau kalla ólýðræðislega ákvörðun, en við vonum þó að gróðurhús á leikskólum bíði bara betri tíma.
Verkefnið þakkar Tækniþróunarsjóði fyrir veittan stuðning og íbúum Reykjavíkur kærlega fyrir auðsýndan glansandi áhuga í öllum hverfum. Samfélagsgróðurhúsin lentu í einu af fimm efstu sætunum í forkosningu í sjö hverfum og í sjötta og sjöunda sæti í fjórum hverfum. Sá árangur átti skv. reglum að skila hugmyndinni beint í lokakosningu framhjá millikosningu hverfaráða. Vilji kjósenda var ljós sem er frábært eitt og sér.
Verkefnið var þó alls ekki án ávinnings. Gróðurhúsið sem hannað var fyrir leikskólana þykir gríðarlega fallegt, frumgerð þess er risin og talsverður áhugi er meðal fólks um að festa kaup á því á einkalóðir. Fyrirtækið er að skoða möguleikana í stöðunni og mun halda áfram með vöru- og markaðsþróun og mögulega leita samstarfs við aðila í geiranum. Annar ávinningur er að áhugi þess almennings sem kaus hugmyndina á því að reisa Samfélagsgróðurhús fyrir yngstu kynslóðina er vakinn og tvímælalaus. Þar er enn allt að vinna.
Niðurstaða verkefnisins er að Samfélagsgróðurhús á leikskólum Íslands er mjög framkvæmanleg í þeirri mynd sem lagt var upp með ef sveitarfélög taka af skarið og leikskólayfirvöld og -kennarar sjá þetta sem góða og æskilega viðbót.
HEITI VERKEFNIS: Samfélagsgróðurhús Íslands
Verkefnisstjóri: Rúnar Þór Þórarinsson
Styrkþegi: Samfélagsgróðurhús ehf.
Tegund styrks: Sproti
Fjöldi styrkára: 1
Fjárhæð styrks: 10.000.000 ISL kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.Meginmál