Markaðssetning Florealis á Norðurlöndunum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

9.10.2020

Jurtalyf frá Florealis eru fáanleg í yfir þúsund apótekum í Svíþjóð.

Florealis hefur náð samkomulagi við fjórar stærstu apótekskeðjur í Svíþjóð um sölu á jurtalyfinu Glitinum. Apótekskeðjurnar Apoteket AB og Apoteksgruppen hófu sölu á Glitinum sl. haust og nú í febrúar bættust við Apotek Hjärtat og Kronans Apotek. Glitinum er því nú fáanlegt í yfir þúsund apótekum í Svíþjóð. Að auki er Apoteket AB með jurtalyfið Sefitude í sölu og Kronans Apotek með jurtalyfið Harpatinum og lækningavörurnar Rosonia og Liljonia. Önnur jurtalyf og lækningavörur Florealis eru fáanlegar í öllum helstu netapóekum í Svíþjóð.

Samningarnir eru afrakstur vinnu sl. árs sem m.a. var unnin með markaðsstyrk frá Tækniþróunarsjóði. ”Að koma vörum inn í sænsk apótek er krefjandi ferli og því er afar ánægjulegt að sjá þennan árangur,” segir Ólöf Þórhallsdóttir framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Florealis. ”Jurtalyfið Glitinum er notað til að fyrirbyggja mígreni og hefur mikla sérstöðu þar sem það er eini valmöguleikinn sem fæst án lyfseðils til að fyrirbyggja mígreni. Mígreni er mjög algengur sjúkdómur og það er því mjög gefandi að geta boðið upp á þennan nýja valkost.”

Glitinum er nú fáanlegt í langflestum sænskum apótekum og er ætlunin að önnur jurtalyf og lækningavörur Florealis fáist í enn fleiri apótekum í Svíþjóð á næstunni. Í framhaldinu stefnir Florealis að markaðssetningu á hinum Norðurlöndunum en nú þegar fást jurtalyf og lækningavörur Florealis í öllum apótekum á Íslandi.

Um Florealis

Florealis ehf. er íslenskt lyfjafyrirtæki sem þróar og markaðssetur fjölbreytt úrval jurtalyfja og lækningavara sem byggja á virkum náttúruefnum. Vörurnar byggja allar á vísindalegum grunni og eru einstakar lausnir fyrir fólk með ýmsa algenga sjúkdóma. Allar vörur frá Florealis eru skráðar og viðurkenndar hjá lyfjayfirvöldum á öllum Norðurlöndunum. 

Nánari upplýsingar eru á www.florealis.is

Heiti verkefnis: Markaðssetning Florealis á Norðurlöndunum
Verkefnisstjóri: Ólöf Þórhallsdóttir
Styrkþegi: Florealis ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Fjöldi styrkára: 1
Fjárhæð styrks: 10 ISK millj. kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica