Líf sykursjúkra einfaldað með tækinu Insulync og veflausninni Cloudlync – verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Medilync ehf. hefur lokið farsælu samstarfi við Tækniþróunarsjóð og hyggur á markað í Kanada.
Medilync fékk úthlutun verkefnisstyrks frá Tækniþróunarsjóð Rannís árið 2016 og lýkur því 3ja ára farsælu samstarfi. Verkefnið Líf sykursjúkra einfaldað með tækinu Insulync og veflausninni Cloudlync hefur tekið stakkaskiptum á þessum tíma en varan þykir líkleg til árangurs á markaði á næstu árum.
Medilync hefur þróað appið Insulync fyrir bæði Android og iOS þar sem notandinn getur lesið af lækningartækjum sínum s.s. blóðsykurmælum og insulinpennum. Insulin pennar eru statískir og geyma ekki upplýsingar um notkun en með Insulync getur notandinn tekið mynd af einingafjöldanum sem á að sprauta og appið gefur fjöldann sem valinn er, vistar svo upplýsingarnar til frekari úrvinnslu. Sama á við um blóðsykurmælana sem eru margir og með misjafnlega góða leið til að fylgjast með mælingunum. Appið heldur einnig utan um hvaða tegund af insulini eða blóðsykurmæli er verið að nota, frá hvaða framleiðanda o.s.frv.
Gögnin sem safnast eru svo notuð til að greina mynstur hvers og eins notanda og þannig má senda tilkynningar til viðkomandi ef hann er að gleyma að mæla sykurinn eða sprauta sig með insulini. Ef viðkomandi bregst ekki við, t.d. í alvarlegu blóðsykurfalli, fær aðstandandi senda tilkynningu en þannig er hægt að tryggja öryggi einstaklingsins enn fremur. Einnig hefur Medilync þróað algríma (e. algorithms) sem geta spáð fyrir um blóðsykurföll eða of háan blóðsykur og þannig látið notandann gera ráðstafanir áður en í óefni er komið. En Medilync er fyrsta fyrirtækið til þess að bjóða uppá slíka þjónustu.
Medilync er í samningaviðræðum við háskólasjúkrahús og heilbrigðisyfirvöld í Kanada um dreifingu á appinu og stefnan sett á markað á næstu mánuðum.
Heiti verkefnis: Líf sykursjúkra einfaldað með tækinu Insulync og
veflausninni Cloudlync
Verkefnisstjóri: Sigurjón Lýðsson
Styrkþegi: Medilync ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 37.896 þ. kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.