Iventec - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Undanfarin ár hefur þróun á tölvusjón og róbótatækni fleygt fram og er hún í vaxandi mæli notuð á seinni stigum vinnslu sjávarafurða, t.d. við skurð á fiskflökum. Þessi tæknivæðing hefur ekki enn rutt sér til rúms við fyrstu handtök vinnslu sem eru blóðgun og slæging fiska um borð í fiskiskipum. Gæði og afköst þeirrar vinnu hafa afgerandi þýðingu fyrir verðmæti endanlegra afurða úr sjó og því er til mikils að vinna með innleiðingu þessarar tækni.
Iventec ehf. hefur undanfarin tvö ár unnið að þróun búnaðar fyrir sjálfvirknivæðingu á meðferð afla fiskiskipa með stuðningi Tækniþróunarsjóðs og AVS. Verkefnið var unnið í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Matís og Síldarvinnsluna.
Áhersla hefur verið lögð á að þróa vél- og hugbúnað fyrir sjálfvirka blóðgun bolfiska óháð tegund, stærð og lögun. Ávinnngur sjálfvirkrar blóðgunar felst m.a. í auknum afköstum og vinnuhagræðingu. Afkastaaukningin eykur einnig gæði þar sem hún hefur það hefur úrslitaþýðingu að blóðga fisk sem fyrst eftir að hann kemur upp úr sjó.
Frumgerð af sjálfvirkum blóðgunarbúnaði hefur verið smíðuð og prófanir gerðar og lofa niðurstöður góðu. Tækið byggir á nýlegum tækniframförum í myndgreiningu og gervigreind. Djúpt tauganet (e. Deep Neural Network) er notað til að greina þrívíðar myndir af fiskum og sérhannaður róbóti sem framkvæmir skurð aðlagaðar sig að hverjum fiski fyrir sig, óháð stærð og lögun.
Í tengslum við þessa þróunarvinnu hefur fæðst tæknigrunnur í formi hugbúnaðar sem nýst getur í margvíslegum tækninýjungum við sjálfvirka meðhöndlun fiska, s.s. slægingu, hausun og sjálfvirka röðun í tæki. Í þessu liggja mikil tækifæri og á teikniborðinu er að bæta við róbót í frumgerðina þannig að sama tækið geti framkvæmt blóðgun og slægingu sjálfvirkt auk þess að flokka eftir tegund og stærð.
HEITI VERKEFNIS: Iventec.
Verkefnisstjóri: Einar Björn Jónsson
Styrkþegi: Iventec ehf.
Tegund styrks: Sproti
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 10.000.000 ISL kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.