GEMMAQ - Sjálfvirknivæðing kvarða um kynjahlutföll - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Verkefni GEMMAQ um sjálfvirknivæðingu kvarða um kynjahlutföll, er hlaut sprotastyrk Tækniþróunarsjóðs á árinu 2019, er lokið. Afurð verkefnisins er svokallaður GEMMAQ Kynjakvarði sem varpar ljósi á kynjahlutföll í framkvæmdastjórnum og stjórnum félaga á kauphallar mörkuðum með einstöku reitunar- og litakerfi.
Frumgerð GEMMAQ Kynjakvarðans var fyrst birt fyrir íslenskan markað á Keldan.is, upplýsingaveitu atvinnulífsins, haustið 2019 og hefur fengið góðar viðtökur innanlands sem utan. Uppfærist kvarðinn þegar breytingar verða á kynjahlutföllum meðal stjórnar eða framkvæmdastjórnar fyrirtækis og hefur meðaltals GEMMAQ einkunn fyrir Aðalmarkað Kauphallarinnar hækkað á tímabilinu, eða frá því að vera um 6.5 á árinu 2019 í að vera um 7 í dag - þar sem einkunnin 10 táknar jöfn kynjahlutföll.
Lesborð GEMMAQ á vefsíðunni Gemmaqratings.com, sem unnið var í samstarfi við Kóða hugbúnaðarhús, varpar kynjakvarðanum fram með einstökum hætti fyrir Fortune 500 félögin á Bandaríkjamarkaði. Hefur margoft verið vísað í kvarðann meðal markaðsaðila og fyrirtæki keypt birtingarrétt til notkunar (notkunarleyfi) á GEMMAQ kynjakvarðanum í markaðs- og kynningarefni sínu í gegnum Kelduna. Þá nýtir CSRHub, eitt umfangsmesta reitunarkerfi í heimi fyrir ábyrgar fjárfestingar, forritunarviðmót (API) GEMMAQ sem er afurð þessa verkefnis.
GEMMAQ var í byrjun ársins valið á Top 50 lista yfir frambærilegustu sprota sem tengjast New York og á Top 20 Lista haustið 2020 yfir sprota sem tengjast Columbia háskóla í New York. Þá var GEMMAQ valið til þátttöku í Founders Live keppni í Seattle þar sem verkefnið var kynnt á 90 sekúndum við góðar undirtektir og komst nýverið áfram í 6 vikna keppni Tamer Fund for Social Ventures meðal 20 samfélagslegra sprota sem vinna að Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna. Fjárfestingar með s.k. kynjagleraugum (e. Gender Lens Investing), sem GEMMAQ kynjakvarðinn kemur til móts við, hafa vaxið hvað hraðast meðal ábyrgra fjárfestinga, eða úr því að vera um $900 milljónir á árinu 2017 í að vera um $5 milljarðar á árinu 2020, og er spáð fyrir að verði um $20 milljarðar á árinu 2022 samkvæmt nýlegri rannsókn Wharton háskóla.
GEMMAQ er nú að hefja þróun á notendaviðmóti (e. User Accounts) fyrir einstaklinga og fyrirtæki á vefsíðunni Gemmaqratings.com sem mynda dýpri kynjagleraugu fyrir kauphallar markaði og verða fyrst sinnar tegundar á heimsvísu
HEITI VERKEFNIS: GEMMAQ - Sjálfvirknivæðing kvarða um kynjahlutföll
Verkefnisstjóri: Freyja Vilborg Þórarinsdóttir
Styrkþegi: GEMMAQ ehf.
Tegund styrks: Sproti
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 19.920.000 ISL kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.