GeConnect - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
GeConnect verkefninu lauk í árslok 2021. Samstarfsaðilar í verkefninu voru ÍSOR sem leiddu verkefnið, Orka náttúrunnar, HS Orka, Landsvirkjun og rannsóknastofnanirnar TNO frá Hollandi og GFZ frá Þýskalandi.
Ný tækni, svokölluð skriðtengi (e. Flexible Coupling), sem hönnuð eru til að koma í veg fyrir skemmdir í borholum af völdum varmaþenslu stálfóðringa hefur verið í þróun frá árinu 2015 innan ÍSOR. Í verkefninu voru tengin prófuð við raunaðstæður og ein helsta niðurstaða verkefnisins er að virkni tengjanna hefur verið sannreynd með tilraun sem fór fram á yfirborði með gufu úr borholu. Tilraunin fór fram á vinnslusvæði ON í Hverahlíð við holu HE-61. Auk tilraunarinnar fór fram tölvuhermun og áhættugreining á tengjunum sem studdu við niðurstöður tilraunarinnar.
Prófunarstandurinn samanstóð úr um 12 m löngum fóðringarbút með skriðgengi (9 5/8”) sem steyptur var innan í annan fóðringabút (13 3/8”) og endum haldið með átta stykkjum af burðarbitum. Líkt var eftir upphitun borholu með því að fara í gegnum alls 5 álagshringi með því að hleypa gufu í gegnum fóðringuna og leyfa standinum að kólna á víxl til að meta endurtekna áraun. Í öllum tilvikum lokaðist skriðtengið í upphitun og opnaðist svo rólega þegar fóðringarbúturinn kólnaði aftur, eins og það var hannað til að gera. Að lokum var kælt með vatni og þannig líkt eftir ádælingu á heita borholu. Fóðringin dróst saman og skriðtengið opnaðist hratt og örugglega.
Tilraunin hefur m.a. sannreynt:
- fóðring hefur möguleika á að þenjast og skríða til í steypu (þetta var einn stærsti óvissuþátturinn)
- þann áskraft sem þarf til að tengið lokist
- virkni skriðtengja:
- tengin lokast í upphitun (við prófunarástand ~260°C við ~60 bör)
- tengin opnast á ný þegar fóðringin kólnar
- endurtakanleiki (repeatability)
Út frá niðurstöðunum má álykta að skriðtengi taka við varmaþenslu fóðringar og minnka þannig ás-spennur. Með því að sýna fram á virkni skriðtengja í raunveruleikanum í yfirborðstilraun þar sem hermt var eftir aðstæðum ofan í borholu hefur óvissunni verið eytt og trú á að tengin virki ofan í borholu styrkst. Með notkun skriðtengja eru varmaspennur af völdum varmaþenslu minnkaðar og hætta á fóðringaskemmdum lækkuð. Þá má ætla að auka megi áreiðanleika í rekstri jarðhitaorkuvera með notkun skriðtengja í borholum vegna færri holna sem skemmast vegna varmaþenslu. Auk þess að vera hentugur kostur fyrir hefðbundnar borholur í háhita, geta skriðtengi orðið til þess að hægt verði að bora í yfirhituð eða yfirkrítísk kerfi með djúpborun, s.s. í IDDP (Iceland Deep Drilling Project) og KMT (Krafla Magma Testbed).
HEITI VERKEFNIS GeConnect
Verkefnisstjóri: Gunnar Skúli Kaldal
Styrkþegi: ÍSOR-Íslenskar orkurannsóknir
Tegund styrks: GEOTHERMICA ERA-net
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 51.541.000 ISL kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI