Framleiðsla á vaxtarþáttum fyrir kjötræktun - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
ORF Líftækni hefur framleitt vaxtarþætti (/frumuvaka) í erfðabreyttum byggplöntum síðan 2007 sem hafa verið notaðir í margskonar frumurannsóknum og einnig í húðvörur. Í þessu styrkverkefni hóf ORF framleiðslu á dýrafrumuvökum ætluðum fyrir stofnfrumuræktað kjöt, vistkjöt, sem er nýtt og mjög ört vaxandi svið. Með því að rækta kjöt á þennan hátt er hægt að draga verulega úr losun gróðurhúsaloftegunda ásamt vatnsnotkun og orkuþörf og einnig þarf mun minna landsvæði fyrir þessa ræktun samanborið við hefðbundna ræktun.
Meginimarkmið verkefnisins voru þrjú: 1) að búa til ný byggyrki sem framleiða dýraútgáfur af frumuvökum (MESOkine) fyrir kjötræktun og skala þau upp; 2) að bæta, einfalda og skala upp hreinsiferla fyrir próteinhreinsanir á frumuvökum úr byggfræjum og 3) að ná að markaðssetja og kynna MESOkine vörulínuna fyrir kjötræktunarfyrirtækjum og framtíðarviðskiptavinum. Í heildina gekk verkefnið mjög vel og stóðst áætlun. Það tókst að búa til þau erfðabreyttu byggyrki sem stefnt var að og velja bestu yrkin til áframhaldandi ræktunar og bestunar, með t.d. víxlunun inn í úrvalsræktunaryrki og með því að búa til arfhrein afbrigði. Mikill árangur náðist einnig í að bæta próteinhreinsiferlana og gera þá einfaldari, fljótlegri, uppskalanlegri og ódýrari – og á sama tíma auka heimtur á frumuvakanum og minnka tap í hreinsiferlinu. Ýmsar útgáfur af hreinsiferlum voru prófaðar ásamt mismunandi útgáfum af lokavörunni, þ.e. eftir frostþurrkun og úðaþurrkun en jafnframt á vökvaformi. Virkni MESOkine frumuvaka var staðfest í frumuræktunum þar sem þeir örvuðu frumuskiptingar og þar með fjölgun frumanna. Markaðssetning og kynning á MESOkine frumuvökunum hefur gengið mjög vel og mikill áhugi er fyrir MESOkine frumuvökunum hjá kjötræktendum. Send hafa verið sýni til yfir 45 fyrirtækja og sala á MESOkine hófst einnig á verktímabilinu og hefur farið vaxandi og kjötræktendur hafa sent ORF áætlanir um hraðan vöxt og kröftuga aukningu í eftirspurn eftir frumuvökum. Covid hægði áberandi á starfsemi þeirra í byrjun en nú er mikill vöxtur og fjárfestingar á þessu sviði og mikil tiltrú er á framtíð vistkjöts. ORF hefur nýtt þessar upplýsingar í gerð viðskipta- og markaðsáætlunar. ORF hefur haldið rafræna fundi og kynningar með yfir 50 fyrirtækjum og tekið þátt í fjölda rafrænna ráðstefna. Búið er að skrifa undir trúnaðarsamninga við fjölmörg fyrirtæki og hafa nokkur þeirra lýst yfir áhuga á nánari samningum um samstarf og viðskipti. MESOkine vörumerkið var skráð á Íslandi og er í umsóknarferli víða erlendis.
Niðurstöður verkefnisins verða nýttar til að byggja enn frekar upp MESOkine vörulínu ORF Líftækni fyrir kjötræktun. Það er mikilvægt að geta boðið upp mikið magn og lágt verð, sem er það sem markaðurinn kallar eftir og er nauðsynlegt ef vistkjöt á að geta keppt við hefðbundna kjötframleiðslu. ORF nýtur góðs af þeirri jákvæðri og öruggri ímynd sem bygg-framleiðslukerfið hefur og hefur þar t.d. getað vísað í rannsóknir á endotoxinum sem voru styrktar af TÞS og sýna fram á mikilvægi þess að hafa endotoxin-laust framleiðslukerfi.
Í heildina er því árangurinn mjög góður og tekist hefur að renna styrkum stoðum undir verkefnið sem er á mun betri og áhugaverðari stað nú en áður en styrktímabilið hófst.
HEITI VERKEFNIS Framleiðsla á vaxtarþáttum fyrir kjötrækt
Verkefnisstjóri: Jón Már Björnsson
Styrkþegi: ORF Líftækni hf.
Tegund styrks: Vöxtur
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 50.000.000 ISL kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI