Frá urðun til auðlindar: Sorptækni á alþjóðamarkað - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Ýmir technologies ehf. (áður Lífsdísill ehf.) hefur lokið nýsköpunar- og þróunarverkefninu „Frá urðun til auðlindar – sorptækni á alþjóðamarkað“, með stuðningi Tækniþróunarsjóðs Íslands og í samstarfi við Háskóla Íslands og byggðasamlagið SORPU.
Lagt var upp með
að fullþróa nokkrar tæknvörur sem stuðla að stóraukinni hagkvæmni í heildrænni
endurvinnslu lífræns úrgangs frá heimilum og iðnaði í litlum og meðalstórum sorpstöðvum
á borð við SORPU. Mikill markaður er fyrir slíka lausnir erlendis enda skipta
sambærilegar stöðvar þúsundum þó ekki sé litið nema til Evrópu einnar. Á
grundvelli þess sem áunnist hefur í verkefninu er útlit fyrir að ÝMIR geti á
næstu árum boðið notadrjúgar lausnir fyrir þennan vaxandi markað. Hefur öflugur
stuðningur átt stóran þátt í að gera þetta að veruleika.
Á tímabilinu náði ÝMIR markverðum árangri í vöruþróun búnaðar. Þróunarlína ÝMIS innan þess verkefnis felur í sér eftirfarandi búnað:
- Fituvinnslulínu fyrir úrgang frá dýraslátrun (e. CWR module, Compact Wet Rendering), en SORPA festi kaup á sambærilegri stöð ÝMIS árið 2018. Vonir standa til þess að SORPA komi stöðinni brátt í rekstur á athafnasvæði sínu í Álfsnesi og hún leysi af hólmi viðvarandi urðun. Mun búnaður ÝMIS, þegar það verður, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda að ígildi vel á annað þúsund rafmagnsbíla. Gerist þetta með því að fituinnihald sláturúrgangsins nýtist til framleiðslu á sjálfbæru innlendu lífdíseldsneyti til orkuskipta í samgöngum.
- Forvinnslubúnað með gufusprengitækni (e. PSE module, Pre-treatment by Stem-Exploision) fyrir torunninn eða sýktan lífrænan úrgang, sem vonir standa til að geti margfaldað vinnsluhraða og nýtingarhlutfall. Dæmi um slíka úrgangsstrauma eru málað timbur og rakadrægar hreinlætisvörur o.fl. sem koma til meðhöndlunar í GAJA, nýju líforkuveri SOPU bs. í Álfsnesi. Frumútgáfa PSE-búnaðarins var fullþróuð á verkstæði ÝMIS innan verkefnisins og er sk. dry-testing áfanga lokið með góðum árangri. Næstu skref eru prófanir PSE einangarinnar á tormeltum úrgangstegundum við raunverulegar aðstæður. Stefnt er að því að hefja raunprófanir þessa búnaðar á næstu mánuðum með SORPU, enda mun búnaðurinn næsta örugglega bæta árangur og auka afrakstur GAJA – stöðvarinnar umtalsvert.
- Sístreymisbúnaður til lífdísilframleiðslu (e. CFR module, Contiouous Flow Reactor), sem leyst getur af hólmi þá lotubundna framleiðslutækni sem verið hefur einráð á þessu sviði áratugum saman. Ávinningurinn af sístreymistækni er m.a. sá að hagkvæmni framleiðslunnar verður að miklu leyti óháð skala, en með hefðbundnu tækninni þurfa afköst lífdíslisverksmiðja helst að nema 100 milljón lítrum eða meira til þess að ná skalahagkvæmni. Auk þess að vera óháð skala, sem gerir mögulegt að framleiða lífdísil í héraði, og nánast hvar sem uppsprettu heppilegrar fitu er að finna, er nýja framleiðslutæknin mun orkuhagkvæmari en hefðbundin framleiðsla, tekur minna pláss og kallar ekki á jafn sérhæfða þekkingu í rekstri og hefðbundna tæknin. Þúsundir lítra af lífdísil hafa þegar verið framleiddar með sístreymistækninni og góður árangur hefur náðst við aðskilnað og hreinsun eldneytisins í framhaldi af efnahvarfinu. Er eldsneytið nýtt á vinnuvélar endurvinnslufyrirtækisins Terra, innan ramma þríhliða samstarfsverkefnis þar sem Terra safnar úrgangsmatarolíu sem annars væri fargað.
Framangreindar vörutegundir eru allar á því stigi að raunprófanir í samstarfi við væntanlega notendur geta hafist og strax í framhaldi af því, frekari aðlögun að þörfum notenda og sala. Stuðla allar vrörurnar að bættum árangri í meðhöndlun lífræns úrgangs, hvort sem er frá sjónarhóli efnahagslegrar hagkvæmni eða umhverfislegs ávinnings.
Oddur Ingólfsson, prófessor í eðlisefnafræði við Raunvísindadeild, sem tekið hefur þátt í verkefnnu fyrir hönd HÍ fagnar verkefnislokunum og þeim árangri sem náðst hefur í samstarfinu. Að hans sögn er það „mjög mikilvægt fyrir Háskóla Íslands að styðja við íslenskt atvinnulíf, sérstaklega þegar tekist er á við umhverfis- og samfélagsverkefni sem stuðla að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, enda vinnur Háskólinn markvisst að þeim. „
Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU fagnar samstarfinu og leggur áherslu á gott samstarf við nýsköpunarfyrirtæki eins og ÝMIS technologies. „SORPA“ er að ganga í gegnum mikla umbreytingu á viðskiptalíkani sínu. Eigendur SORPU hafa ákveðið að hætta urðun og horfa á úrgangsstrauma sem verðmæti sem á að afsetja inn í efnahagshringrásina aftur. Stór liður í því að ná markmiðum SORPU er rannsóknar- og þróunarsamvinna við þekkingarfyrirtæki eins og ÝMI technologies sem koma með tækninýjungar sem nýtast við að minnka magn úrgangs sem fer í urðun. Samstarfið við ÝMI technologies hefur verið árangursríkt og mjög mikilvægt fyrir SORPU. Nýsköpun og rannsóknir í umhverfis- og sjálfbærnimálum í samvinnu við íslenskt atvinnulíf eru hluti af markmiðum SORPU og sækist SORPA eftir auknu samsarfi við aðila á markaði.“
Af þeim þremur búnaðareiningum sem hér eru tilgreindar fela tvær í sér mikla einkaleyfishæfa nýbreytni, þ.e. PSE og CFR, en CWR er endurbætt útfærsla ÝMIS á þekktari tækni. Hafa umsóknir ÝMIS um einkaleyfi fyrir þeim fyrrnefndu fengið brautargengi. Á það sama við um tvær aðrar einkaleyfisumsóknir ÝMIS, sem ekki falla beinlínis undir vöruþróunarþátt þessa verkefnis, en tengjast því þó náið. Er annað ferliseinkaleyfi á heildarlausn til meðhöndlunar lífræns úrgangs í smáum og meðalstórum sorpstöðvum. Hitt einkaleyfið er nýstárleg tegund fasaskilju sem hefur skilvindu og mjölskilvindu á einu öxli (TPS, Three Phase Separator). Gangast slíkur búnaður vel í vinnslu lífræns úrgangs, en einnig við margvíslegar aðrar aðstæður.
HEITI VERKEFNIS: Frá urðun til auðlindar: sorptækni á alþjóðamarkað
Verkefnisstjóri: Sigurður Ingólfsson
Styrkþegi: ÝMIR technologies
Tegund styrks: Vöxtur
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 50.000.000 ISL kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.