Fjaðrandi bátasæti - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

19.4.2021

SAFE Seat er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem hefur undanfarin 4 ár unnið að þróun fjaðrandi bátasæti fyrir hraðskreiða báta. Fyrsta vara fyrirtækisins er sérstaklega hönnuð fyrir harðbotna slöngubáta (e. RIB boat). 

Lausn SAFE Seat byggir á fjaðrandi eiginleikum samsetts efnis (e. composite material) þar sem styrk efnisins er stýrt mjög nákvæmlega til að útbúa hæfilega fjaðrandi sætiseiningu. Fjöðrun sætisins ásamt vandaðri sérhannaðri höggdeyfingu kemur í veg fyrir alvarleg meiðsl áhafna og farþega um borð í hraðskreiðum bátum.

Fjaðrandi bátasæti hafa frá upphafi verið mjög flókinn búnaður, samsettur úr mörgum íhlutum og viðhaldsfrekur.

Logo tækniþróunarsjóðs

Lausn SAFE Seat er hins vegar mun einfaldari kostur, helmingi ódýrari og þarf nánast ekkert viðhald. Fyrsta vara SAFE Seat er sérhannað sæti fyrir harðbotna slöngubáta (e. Rigid Inflatable Boat, RIB). Fyrirtækið hefur þegar náð tengslum við þekkta trefjaplastsframleiðendur í bæði Evrópu og Bandaríkjunum og hafið viðræður um framleiðslu sæta fyrir þessa mikilvægu markaði, sem innihalda nær 80% allra skráðra skemmtibáta í heiminum.

Lausn SAFE Seat gerir ráð fyrir að útlit sætanna megi laga að hönnun og útliti hverrar bátategundar svo sætin falli betur að heildarútliti hvers báts og unnið er að því að gera það mögulegt fyrir bátaframleiðendur að framleiða sjálfir sæti í sína bátaframleiðslu, með gerð leyfissamninga.

Fyrirtækið hefur þegar hafið undirbúning að þróun á næstu útgáfu vörunnar sem mun henta enn betur í hefðbundna skemmtibáta. Einnig er að hefjast undirbúningur að innkomu fagfjárfesta til að styðja við hraðan vöxt SAFE Seat á næstu 2-5 árum, sem áætlað er að skapi nokkur þekkingarkrefjandi sérfræðistörf og þar að auki störf við hefðbundna iðnaðarframleiðslu.

Verkefnið hefur hlotið styrki frá Nýsköpunarmiðstöð, Hönnunarsjóði og Tækniþróunarsjóði, bæði í flokki Fræ og Sprota. Þar að auki sigraði verkefnið nýsköpunarkeppnina Gulleggið 2017 og hlaut hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2019.

HEITI VERKEFNI: Fjaðrandi bátasæti

Verkefnisstjóri: Svavar Konráðsson

Styrkþegi: SAFE Seat ehf

Tegund styrks: Sproti

Fjöldi styrkára: 2

Fjárhæð styrks: 17.608.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica