Dreki - Þróun blæðingar- og kælibúnaðar - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

27.10.2022

Rannsóknar- og þróunarverkefnið „Dreki - Þróun blæðingar- og kælibúnaðar“ snéri að endurhönnun og umbótum á blóðgunar- og kælibúnaðinum Dreka sem framleiddur hefur verið af Micro Ryðfrí Smíði ehf. frá árinu 2012 og notaður um borð í skipum með góðum árangri. Verkefnið var unnið í samstarfi Micro, Matís og útgerðarinnar Skinney-Þinganes. 

Markmið verkefnisins snúa að því að auka hráefnisgæði og einsleitni á afurðum með búnaði sem tryggir jafnframt einfaldan rekstur um borð og tekur lítið pláss í samanburði við aðrar lausnir sem í boði eru. Til að ná þessum markmiðum var unnið að endurhönnun sem skilaði nýjum búnaði með aukinni sjálfvirkni og betri virkni. Í endurbættum Dreka eru ferlar tengdir innmötun, vatnsnotkun og hitastýringu gerðir sjálfvirkir. Einnig var hannaður nýr lóðréttur Dreki þar sem blóðtæming fer fram undir auknum þrýstingi og rúmmálsnýting um borð eykst til muna.

Logo tækniþróunarsjóðs

Á verktímanum átti sér stað endurnýjun á skipaflota Skinneyjar-Þinganes og voru 6 nýjir Drekar teknir í notkun, þar á meðal 4 lóðréttir um borð í Áskeli, Steinunni, Verði og Þinganesi.

Lagt var mat á mismunandi aðferðir og tæknilausnir með áherslu á blæðingarferla í Dreka búnaði. Niðurstöður verkefnisins skiluðu úrbótum á verklagi og hönnunarforsendum fyrir blæðingarbúnaðinn. Einnig var markmið að auka sjálfvirkni kringum búnaðinn og ná betri stjórn á mikilvægum breytum sem hafa áhrif á gæði bolfisks, svo sem hitastigi, blóðtæmingu og fallhæð/hnjaski við færslu á fiski gegnum ferlið.

Megin ávinningur verkefnisins fólst í:

  • Endurbættum Dreka með aukinni sjálfvirkni, bættri hráefnismeðhöndlun og bættri virkni búnaðar.
  • Nýjum lóðréttum Dreka
  • Auknum gæðum og einsleitni afurða fyrir notendur búnaðarins.

HEITI VERKEFNIS: Dreki - Þróun blæðingar- og kælibúnaðar

Verkefnisstjóri: Melkorka Rún Sveinsdóttir

Styrkþegi: Micro Ryðfrí-smíði, Matís, Skinney

Tegund styrks: Vöxtur

Fjöldi styrkára: 2

Fjárhæð styrks: 49.335.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI









Þetta vefsvæði byggir á Eplica