CrewApp – bylting í áhafnastjórnum - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
CrewApp þróar byltingarkennda hugbúnaðarlausn fyrir fyrirtæki í hópsamgöngum með áherslu á flugfélög. Þróun á hugbúnaði hófst árið 2012 innan veggja Air Atlanda til að stemma stigu við algengum hindrunum í daglegum rekstri flugfélagsins sem snéri að samskiptaleiðum við áhafnir.
Sótt var um fyrirtækjastyrk Vöxt fyrir áframhaldandi þróun á virkni hugbúnaðarins með það að markmiði að koma vörunni áfram á stærri markaði erlendis. Lagt var upp með að skerpa enn frekar á samskiptaleiðum í gegnum hugbúnaðinn með tveimur meginstoðum, annars vegar snjallsímalausn CrewApp og þar með leysa af hólmi öll samskipti við áhafnir í gegnum síma og töluvpósta. Hins vegar með vefviðmóti fyrir starfsfólk á skrifstofu sem ekki nýtir snjallsíma við iðju sína en getur verið í beinum samskiptum við áhafnir í gegnum vefviðmótið. Einnig var mikilvægt að koma þeim eiginleikum inn í snjallsímalausnina að áhafnir geti skrásett athafnir sínar og fengið birtar upplýsingar sem áður voru útgefnar á pappír. Þetta á við um öll skref áhafna til undirbúnings fyrir flug sem þarf að skrásetja, skýrslur sem inna þarf af hendi, farþegalista og svo mætti lengi telja. Snjallsímalausnin er með þessu móti orðin ein upplýsinga- og samskiptaveita sem getur stórbætt samskipti, dregið verulega úr kostnaði og ýtir undir mikinn tímasparnað fyrir flugfélög svo ekki sé talað um jákvæð umhverfisleg áhrif. Í þessu felast mikil tækifæri fyrir viðskiptavini til þess að auka framleiðni starfsfólks sem sinnir daglegrir umsýslu á upplýsingum til áhafna og ekki er þörf á aukningu starfsfólks á skrifstofu samhliða aukningu á áhöfnum.
Þær afurðir sem lagt var upp með til að styðja við markmið CrewApp eru nú þegar komnar í notkun hjá fyrirtækjum í þjónustu hjá CrewApp. Flestar eru þær unnar í samráði við fyrirtæki í þjónustu eða með endurgjöf frá viðskiptavinum til að tryggja hagkvæma úrlausn sem hentar ólíkum rekstri flugfélaga.
Við höfum lagt drög að framtíðar vegferð CrewApp sem samanstendur af hnitmiðuðum markmiðum að vænlegum viðskiptavinum.
HEITI VERKEFNIS: CrewApp – Bylting í áhafnastjórnum
Verkefnisstjóri: Berglind Sigurðardóttir
Styrkþegi: CrewApp ehf.
Tegund styrks: Vöxtur
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 25.000.000 ISL kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.