Biorefinery and biotechnological exploitation of marine biomasses (Mar3Bio) - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
4.11.2020
Nýlokið er alþjóðlega rannsóknarverkefnið Biorefinery and biotechnological exploitation of marine biomasses (Mar3Bio) sem Matís var aðili að. Þetta var EraNetMBT samstarfsverkefni nokkurra rannsóknahópa í Evrópu um að byggja upp þekkingargrunn varðandi hagnýtingu fjölskykra úr þangi og krabbaskel og þróa líftækniferla til sjálfbærra nýtingar þeirra.
Hlutverk Matís var að skilgreina og þróa ensím sem líftækniverkfæri í slíkum ferlum og var verkefnið styrkt að hluta af Tækniþróunarsjóði. Ensím með mögulega virkni til umbreytingar á fjölsykrum úr sjávarlífverum voru greind í erfðamengum yl- og hitakærra sjávarbaktería úr stofnasafni MATÍS með lífupplýsingafræðilegum aðferðum. Sérstkök áhersla var lögð á að rannsaka ensím til umbreytingar á beta-glucan fjölsykrum úr brúnþörungum og umtalsverður tæknilegur ávinningur fólst í þróun ferla til framleiðslu á verðmætum lífvirkum fásykrum úr þessum fjölsykrum. Einkaleyfi fékkst á þessum ensímum og ný ensím af þessu tagi með áhugaverða eiginleika fundust og voru rannsökuð ítarlega. Mikilvægar vísindalegar niðurstöður fengust einnig um önnur ensím til að byggja á frekari þróunarvinnu varðandi umbreytingar á öðrum fjölsykrum úr sjávarlífmassa. Þessi ensím verða tekin til frekari rannsókna í nýju Evrópuverkefni (BlueBioCofund verkefnið MARIkAT), sem Matís stýrir. Þá er markaðssetning ákveðinna ensíma hafin í samstarfi við fyrirtækið Auðnu Tæknitorg.
Heiti verkefnis: Biorefinery and biotechnological exploitation of marine biomasses (Mar3)Bio
Verkefnisstjóri: Guðmundur Hreggviðsson
Styrkþegi: Matís ohf.
Tegund styrks: ERA-NET Marine Biotechnology
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 9,9 millj. kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.