Binding úrgangsefna með umhverfisvænu sementslausu steinlími - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Markmið verkefnisins var að þróa tækni til að binda úrgangsefni sem falla til í íslenskri stóriðju, með umhverfisvænu sementslausu steinlími sem gæti orðið arftaki sements.
Hefðbundið Portland sement hefur virkilega hátt kolefnisspor vegna þess hversu mikið koltvíoxíð losnar út í andrúmsloftið við framleiðslu þess. Þar að auki þarf að flytja allt sement sem notað er á Íslandi í steypu- og múrframleiðslu erlendis frá. Íslenska umhverfisvæna sementslausa steinlímið sem nú hefur verið þróað í umræddu verkefninu er nefnt AlSiment. Nafngiftin er til komin vegna þess að það inniheldur mikið magn af álsílikötum í stað kalsíumsílikata sem má finna í hefðbundnu sementi. Megin áhersla var lögð á bindingu á úrgangshráefnum sem falla til í áliðnaði og járnblendi- og kísilmálmsframleiðslu.
Tæknin sem þróuð var í verkefninu felur í sér gríðarleg tækifæri til að vera í fremstu röð í heiminum í uppbyggingu á einstaklega umhverfisvænni verksmiðju í hráefnisbindingu, ásamt því að vera umhverfisvæn steypustöð. Þetta getur falið í sér mikla verðmætasköpun þar sem bæði úrgangsefni og spilliefni verða bundin sem afurð til endursölu sem hráefni, sem getur nýst t.a.m. í steinullar- og málmblendiframleiðslu víða. Slík binding einfaldar meðhöndlun og flutning á milli landa auk þess að því fylgir gríðarleg hagkvæmni, þar sem nýja bundna efnið flokkast sem vara, en ekki úrgangur eða spilliefni. Þetta opnar bæði flutningsleiðir og aðgang að mörkuðum sem hafa ekki verið aðgengilegir til þessa. Framkvæmd slíks verkefnis getur stuðlað að því að orkufrekur iðnaður verður grænni svo um munar með fullnýtingu og endurvinnslu á þeim efnum sem falla til.
Árangur og helsti afrakstur verkefnisins:
-
Kortlagning á: núverandi tækni og markaði, eiginleikum úrgangs- og spilliefna, ásamt hugsanlegum öðrum efnum fyrir umhverfisvæna bindiefnaframleiðslu.
-
Prófanir á mismunandi blönduuppskriftum fyrir framleiðsluna ásamt bestun og vali á skilvirkustu framleiðslublöndunum, t.a.m. sem binda spilliefni kerbrota, forskiljuryks og annarra úrgangsefna.
-
Framkvæmd var kortlagning á framleiðsluúrgangi og ferlum frá öllum íslensku álverunum. Nemandi innan verkefnisins í iðnaðarverkfræði við HÍ, hlaut viðurkenningu og verðlaun frá Samál og íslensku álverunum á Nýsköpunarmóti álklasans fyrir meistararitgerð sína fyrir umrædda kortlagningu.
-
Hagkvæmasta vinnsluferlið og efnisval fyrir innanlandsmarkað var kannað. Framleiðslubúnaður fyrir umhverfisvæna steinlímsframleiðslu ásamt verksmiðjuuppsetningu og staðsetningu var einnig skoðað ítarlega.
-
Sannkeyrsla á lokauppskriftum var gerð lásamt fullskala prufuframleiðslum á hráefnabrikkettum bundnum með umhverfisvæna sementslausa AlSiment steinlíminu hjá Steypustöðinni ehf.
Helsti ávinningur verkefnisins var að sýna fram á möguleikann á framleiðslu á umhverfisvænu sementslausu steinlími með bæði prufu- og fullskala framleiðslum. Fullskala framleiðslan vakti mikinn áhuga hjá iðnaðinum þar sem þetta var einnig fyrsta framleiðslan á vöru bundinni saman með sementslausu steinlími á Íslandi utan tilraunastofu. Verkefnið sýndi skýrlega fram á þennan kost, þ.e. að hægt er að framleiða umhverfisvænt sementslaust steinlím á Íslandi, ásamt því að um er að ræða mögulegan arftaka sements í byggingariðnaði.
Samstarfsaðilar Gerosion ehf. í verkefninu voru Elkem Ísland, Norðurál, Rio Tinto á Íslandi, Alcoa Fjarðaál, Háskóli Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Alur/Kratus gjallvinnsla, Eden mining og Steypustöðin ehf.
HEITI VERKEFNIS: Binding úrgangsefna með umhverfisvænu sementslausu steinlími
Verkefnisstjóri: Sunna Ólafsdóttir Wallevik
Styrkþegi: Gerosion ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 43.504.000 ISL kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI