Bætt nýting og stöðugleiki makarílafurða - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Lokið hefur verið við verkefnið Bætt nýting og stöðugleiki makrílaafurða sem unnið var af Matís, Háskóla Íslands og Síldarvinnslunni með styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís.
Markmið verkefnisins var að meta möguleika á að bæta nýtingu makríls sem veiddur er við Ísland t.d. með framleiðslu flakaafurða. Niðurstöður sýndu að vel er hægt að nýta þann makríl til flökunar ef rétt er staðið að meðhöndlun hráefnis, þá sérstaklega kælingu. Geymsluþol flaka er þó stutt í frostgeymslu séu ekki nýttar sértækar pökkunarlausnir og/eða þráavarnarefni.
Með réttri meðhöndlun tókst þátttakendum að þróa vinnsluferli sem gaf geymsluþol allt að 15 mánuðum í frostgeymslu við -25°C. Niðurstöður verkefnis sýndu einnig að makríll sem veiðist í íslenskri lögsögu hentar vel til framleiðslu á niðursoðnum vörum og að það hliðarhráefni sem myndast við flökun fisksins inniheldur mikið af efnum, t.d. fjölómettuðum fitusýrum. Niðurstöður verkefnis veita fiskiðnaði á Íslandi mikilvægar upplýsingar um þá möguleika sem felast í hráefni þeirra ásamt því að veita leiðbeiningar um hvaða meðhöndlun, af þeirri sem metin var, gaf góða raun. Vélflökun makríls og vinnsla nýrra afurða úr flökum er án efa raunhæfur kostur fyrir uppsjávarfiskvinnslur. Þannig eykst verðmæti afurðarinnar ásamt því að mögulegt verður að nýta hliðarhráefni (hausa, hryggi, innyfli) ennfrekar til virðisauka hérlendis.
HEITI VERKEFNIS: Bætt nýting og stöðugleiki makarílafurða
Verkefnisstjóri: Hildur Inga Sveinsdóttir
Styrkþegi: Matís ohf.
Tegund styrks: Hagnýtt rannsóknarverkefni
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 29.110.000 ISL kr. alls
VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.