Áhrif leyfðra endotoxin-styrkja á stofnfrumur - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

23.3.2021

Tækniþróunarsjóður Rannís styrkir hagnýt verkefni sem stuðla að samstarfi háskólastofnana og ORF Líftækni framleiðir vaxtarþætti (ISOkine®) í fræjum erfðabreyttra byggplantna sem eru seldir til stofnfrumuræktenda víða um heim. 

ISOkine® vaxtarþættir eru án endotoxina og mikil áhersla er lögð á það til að aðgreina ISOkine® frá öðrum vaxtarþáttum á markaðnum. Algengast er að stærstu framleiðendur vaxtarþátta á markaðnum noti bakteríur til að búa til vaxtarþætti en bakteríur framleiða einnig endotoxin (Lipopolysaccharide) sem finnast í frumuvegg þeirra. Vitað er að endotoxin hafa neikvæð áhrif á frumuvöxt og sérhæfingu en talið hefur verið að lágur styrkur af endotoxinum hafi ekki truflandi áhrif og því hafa t.d. framleiðendur vaxtarþátta sagt að í lagi sé að miða við < 0,1 ng endotoxin per ug af hreinsðuðum vaxtarþætti. Þessi viðmið hafa staðið lengi og virðast frumuræktendur ekki hafa skoðað markvisst áhrif lægri styrkja endotoxina á t.d. stofnfrumur sem er ört stækkandi rannsóknarsvið.

Logo tækniþróunarsjóðs

Markmið verkefnisins sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði, var að kanna hvort lágur styrkur af endotoxin hefur áhrif á vöxt og sérhæfingu stofnfruma. Niðurstöður verkefnisins sýna svo ekki verður um villst að mjög lágur styrkur af endotoxinum (< 10 pg/ml) getur haft marktæk áhrif á stofnfrumur. Þannig sýndu rannsóknirnar að mjög lágur styrkur endotoxina hamlar marktækt sérhæfingu fósturstofnfrumna (hESc) yfir í hjartafrumur og hefur bæði áhrif á útlit og virkni nýmyndaðra hjartafruma. Þetta átti hinsvegar ekki við í sambærilegu sérhæfingarferli endurforritaðra fjölhæfra stofnfrumna (iPSc). Engu að síður sýndu niðurstöðurnar að endotoxin gat haft marktæk áhrif á virkni iPSc frumnanna eftir sérhæfingu yfir í lifrarfrumu og taugafrumur. Til dæmis hafði endotoxin í mjög lágum styrk marktækt bælandi áhrif á seytun albumins úr lifrarfrumum sem þýðir að þrátt fyrir venjulegt útlit nýmyndaðra lifrarfruma þá gátu þær ekki gegnt þessu hlutverki sínu. Þegar stofnfrumur voru látnar sérhæfast yfir í taugafrumur olli endotoxin óvenju mikilli samloðun Microglia frumna og hefti þar með virkni þeirra. Þrátt fyrir að næmni iPSc fruma gagnvart endotoxinum virtist ekki mikil þá virðist næmnin aukast við sérhæfingu þeirra því í RT-PCR skimun sást stigaukning á tjáningu á tveimur helstu frumuviðtökum fyrir endotoxinum, TLR-2 og TLR-4, við aukna frumusérhæfingu. Þessar niðurstöður eru því mjög áhugaverðar og undirstrika mikilvægi þess að tryggja að styrkur endotoxina í stofnfrumuræktunum sé eins lágur eins og mögulegt er. ORF hefur þegar nýtt niðurstöðurnar í markaðssetningu og sölu á vaxtarþáttum enda styðja þær við fyrri fullyrðingar ORF um mikilvægi þess að forðast að hafa endotoxin í frumuræktunum og sér í lagi í stofnfrumurannsóknum. Þessar niðurstöður hafa einnig verið mjög mikilvægar í markaðssetningu og samskiptum við aðila á kjötfrumumarkaðnum (cell cultured meat) þar sem þær geta gefið nýrri vaxtarþáttalínu ORF, MESOkine®, veigamikið forskot á keppinautana.

HEITI VERKEFNI: Áhrif leyfðra endotoxin-styrkja á stofnfrumur

Verkefnisstjóri: Jón Már Björnsson

Styrkþegi: ORF Líftækni

Tegund styrks: Vöxtur

Fjöldi styrkára: 2

Fjárhæð styrks: 32.896.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica