Þróun ónæmismeðferðar gegn sumarexemi í hestum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

26.9.2022

Sumarexem er húðofnæmi í hestum sem einkennist af framleiðslu á IgE mótefnum gegn ofnæmisvökum úr biti smámýs (Culicoides spp) sem er ekki að finna hér á landi. Rannsóknir á ónæmissvarinu benda til þess að orsök sjúkdómsins sé T-frumu ójafnvægi. Sjúkdómseinkenni eru exem og kláði einkum í fax- og taglrótum sem getur leitt til sáramyndunar og jafnvel sýkingar í sárum. Tíðni sjúkdómsins er há í útfluttum íslenskum hestum, allt að 50% við slæmar aðstæður, en einungis um <10% hjá íslenskum hestum fæddum erlendis.

Sumarexem er dýravelferðarmál og mikið vandamál fyrir íslenskan hrossaútflutning. Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt; 1) þróun á fyrirbyggjandi meðferð gegn sjúkdómnum þ.e. bólusetning með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði, 2) afnæming með meðhöndlun sumarexemshesta um slímhúð munns með byggi sem tjáir ofnæmisvaka.
Í samstarfi við ORF Líftækni voru fjórir ofnæmisvakar framleiddir í byggi og einn þeirra hreinsaður úr byggi og notaður í ónæmispróf. Annar ofnæmisvaki var framleiddur í E. coli og hreinsaður fyrir notkun í bólusetningu. Ofnæmisvakar voru framleiddir í skordýrafrumum fyrir notkun í ónæmispróf, þar af þrír nýir aðalofnæmisvakar.
Fyrri rannsóknir hafa sýnt að bólusetning með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði Alum/monophosphoryl-lipid-A (MPLA) með sprautun í kjálkabarðseitla gefur ákjósanlegt Th1/T-stjórnfrumu miðað ónæmissvar. Þar sem erfitt getur reynst að sprauta í eitla var bólusetning með hreinsuðum ofnæmisvökum í alum/MPLA ónæmisglæði með sprautun í eitla borin saman við auðveldari sprautun undir húð. Báðar bólusetningaaðferðir gáfu ákjósanlegt ónæmissvar en það var enginn marktækur munur. Því má álykta að við bólusetningu gegn sumarexemi í hestum sé hægt að skipta út sprautun í eitla við auðveldari sprautun undir húð.
Glæðiaáhrif veirulíkra agna (VLA) í bólusetningu gegn sumarexemi í hestum var borin saman við ónæmisglæðinn MPLA með bólusetningu undir húð á hreinsuðum ofnæmisvökum ásamt glæði í blöndu með alum. Bólusetning með ofnæmisvökum í alum/VLA gaf veikara ónæmissvar en þegar notað var alum/MPLA og ekki tókst að sýna fram á Th-1 stýringu í kjölfar bólusetningar. Til að fullnægjandi árangur náist við bólusetningu með VLA þarf mögulega að fasttengja VLA við ofnæmisvaka.
Áskorunartilraun var framkvæmd þar sem 27 hross voru bólusett á Íslandi með hreinsuðum ofnæmisvökum í blöndu af ónæmisglæðunum alum/MPLA um kjálkabarðseitla. Hrossin voru í kjölfarið flutt út til Sviss og Þýskalands. Þegar út var komið voru hrossin haldin óvarin gegn smámýi og þeim fylgt eftir í þrjú ár til þess að meta hvort bólusetningin veiti vörn gegn sumarexemi. Rannsóknin er enn í gangi en eftir fyrstu tvö flugutímabilin voru nokkur hross farin að sýna klínísk einkenni sjúkdómsins.

Heiti verkefnis: Þróun ónæmismeðferðar gegn sumarexemi í hestum / Development of Immunotherapy for Equine Insect Bite Hypersensitivity
Verkefnisstjóri: Sara Björk Stefánsdóttir, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði, Keldum
Tegund styrks: Doktorsnemastyrkur
Styrktímabil: 2020-2021
Fjárhæð styrks: 13,26 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 206528









Þetta vefsvæði byggir á Eplica