Þróun ónæmismeðferðar gegn sumarexemi hjá hestum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

22.3.2018

Íslenskir hestar sem fluttir eru út eru í mikilli áhættu á að fá sumarexem, sem er IgE miðlað ofnæmi gegn ofnæmisvökum (próteinum) úr biti mýflugna (Culicoides spp), sem kallaðar hafa verið smámý eða lúsmý á íslensku. Allt að 50% útflutningshrossa fær exemið við slæmar aðstæður en einungis um 10% íslenskra hesta sem fæddir eru erlendis. 

Sumarexem er því alvarlegt vandamál fyrir íslenskan hrossaútflutning og mjög hvimleitt og sársaukafullt fyrir hestana. Markmið verkefnisins er að þróa fyrirbyggjandi ónæmismeðferð og afnæmingu gegn exeminu; 1) með bólusetningu í eitla með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæði, 2) með því að meðhöndla sumarexemshesta um munnslímhúð með byggi sem tjáir ofnæmisvaka.

Í samvinnu við ORF Líftækni voru framleiddir tveir ofnæmisvakar í byggi en einn hafði verið framleiddur áður. Vakarnir voru notaðir í ónæmispróf og til þess að þróa meðhöndlun. Sex ofnæmisvakar voru framleiddir í skordýrafrumum, hreinsaðir og notaðir í ónæmispróf. Með því að sprauta litlu magni af hreinsuðum ofnæmisvökum í alum/MPLA ónæmisglæðablöndu í eitla má fá verndandi ónæmissvar gegn vökunum. Þessi hluti verkefnisins var í samstarfi við Dýrasjúkdómadeild Háskólans í Bern í Sviss.

Sérstök mél og byggblanda voru hönnuð til að meðhöndla hross um munnslímhúð með ofnæmisvakabyggmjöli. Meðferðin var prófuð á heilbrigðum hestum á Keldum. Hestarnir mynduðu sérvirkt IgG mótefnasvar sem að hluta hindraði bindingu IgE úr sumarexemshestum við vakann. Í samvinnu við dýrasjúkdómadeild Cornell Háskóla, Íþöku, BNA, voru hestar með sumarexem meðhöndlaðir með byggi sem tjáði einn ofnæmisvaka og lofuðu þær frumniðurstöður góðu.

Niðurstöður verkefnisins gætu orðið grundvöllur að; 1) bóluefni gegn sumarexemi fyrir íslenska útflutningshesta, 2) einstakri aðferð fyrir afnæmingu sumarexemshesta um munn þar sem ofnæmisvakarnir eru framleiddir í miklum mæli í byggi. Fyrst þyrfti samt að prófa bólusetningar í fleiri hestum og reyna að einfalda sprautunaraðferð. Síðan að framkvæma áskorunartilraun þar sem bólusettir hestar og óbólusettir samanburðarhestar eru fluttir út á flugusvæði og fylgst með þeim í þrjú ár. Til þess að sýna fram á afnæmingu  byggmeðhöndlunar þarf að tjá fleiri ofnæmisvaka í byggi og meðhöndla sumarexemshesta með þeim vökum sem hver og einn hefur ofnæmi fyrir. Ef aðferðirnar reynast vel í hrossum mætti heimfæra þær upp á fólk.

Afurðir verkefnisins eru: 1) ofnæmisvakar úr smámýstegundum sem hafa verið framleiddir í skordýrafrumum og byggi, 2) aðferð til að mynda verndandi ónæmissvar gegn ofnæmi í hestum, 3) aðferð til að meðhöndla hesta um munnslímhúð með byggblöndu sem tjáir ofnæmisvaka.

Heiti verkefnis: Þróun ónæmismeðferðar gegn sumarexemi hjá hestum
Verkefnisstjóri: Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Tilraunastöð HÍ í meinafræði, Keldum
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrktímabil: 2014-2016
Fjárhæð styrks: 21 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís:  141071









Þetta vefsvæði byggir á Eplica