Saga Breiðafjarðar - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Markmið rannsóknarinnar var að skrifa öðruvísi Íslandssögu, þvert á hefðbundna þjóðarsögu og héraðssögu. Einnig er ætlunin að rannsaka langtímaþróun í afmörkuðu rými.
Heiti verkefnis: Saga Breiðafjarðar
Verkefnisstjóri: Sverrir Jakobsson
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2011-2013
Fjárhæð styrks: 16,799 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 110638
Breiðafjörður hefur sérstöðu meðal landshluta á Íslandi. Þar hafa sjávarnytjar löngum haft meira vægi í búskapnum en annars staðar í íslenska bændasamfélaginu. Þar verður til byggð í stórum firði sem tengir saman mismunandi héruð og síðast en ekki síst eru þar óteljandi eyjar. Allt skapar þetta sérstöðu hvað varðar rými, samskiptatækni og þjóðfélagsmynstur og kallar á annars konar kerfi en í dæmigerðum íslenskum landbúnaðarhéruðum. Breiðafjörður hefur lengst af Íslandssögunnar verið ein mikilvægasta byggð Íslands og undirstaða fyrir iðju höfðingja, lærdómsmanna og athafnamanna. Í þessu sambandi er rétt að líta á Breiðafjörðinn sem heild þar sem sjórinn var þjóðbraut fremur en farartálmi. Nú á dögum er Breiðafjörður hins vegar á mörkum landshluta og sýslna (og kjördæma til skamms tíma) og sjaldgæft að litið sé á þetta hérað sem eina heild. Líkt og mörg innhöf er Breiðafjörðurinn svæði sem ekki er bundið af stjórnsýslueiningum, sýslumörkum eða kjördæmum. Það eru eyjar, skagar og fjöll, m.ö.o. náttúran öll sem mótar byggð, samgöngur og stjórnmál. Íslensk sagnfræði hefur hingað til að mestu leyti verið miðuð við tímasnið. Samtímasneiðum, eða þversniðum, hefur verið gefinn minni gaumur. Í þessu verkefni var fjallað Breiðafjörðinn út frá kerfum og rými, sem hluta af stærri heild Norður-Atlantshafsins en einnig um minni rými innan þessa svæðis. Meginniðurstöður verkefnisins verða kynntar í þremur ritum um sögu Breiðfirðinga og ritrýndum fræðigreinum, lokaverkefnum háskólanema, alþýðlegum fyrirlestrum og greinum og sýningum ætluðum almenningi.
Helstu afurðir:
I. Fræðirit:
1. Sverrir Jakobsson, Saga Breiðfirðinga I. Fólk og rými frá landnámi til plágunnar miklu. Í ritrýni hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Stefnt að útgáfu árið 2015.
2. Sverrir Jakobsson, Saga Breiðfirðinga II. Fólk og rými frá frá plágu til einveldisstjórnar. Í vinnslu. Stefnt að útgáfu 2018.
3. Sverrir Jakobsson, Saga Breiðfirðinga III. Fólk og rými frá frá einveldisstjórn til nútíma. Í vinnslu. Stefnt að útgáfu 2020.
Í bókunum er sjónum beint er þremur meginþemum. Í fyrsta lagi er það spurningin um Breiðafjörðinn sem landfræðilega einingu sem afmarkar tiltekið samfélag. Hvers konar eining var hið breiðfirska samfélag og hvað var það sem myndaði þá einingu? Sérkenni byggða við Breiðafjörðinn er að þar er skammt til sjávar. Þess vegna er hafið miðja rannsóknarinnar en ekki sem farartálmi heldur sem þjóðbraut og sameinandi afl. Hafið sameinar Breiðfirðinga en tengir þá jafnframt við stærri heildir, svo sem Norður-Atlantshafið. Hugmyndin um haf sem miðju mannlegs samfélags er komin frá franska sagnfræðingnum Fernand Braudel sem ritaði um Miðjarðarhafið en rannsóknir Braudels hafa orðið mörgum sagnfræðingum innblástur. Í samhengi íslenskrar sagnfræði má vísa til rannsókna Helga Þorlákssonar á fornum þjóðbrautum og mikilvægis þeirra fyrir stjórnmál á 12. og 13. öld. Þær þjóðbrautir voru á landi en Breiðafjörðurinn var þjóðbraut á sjó og er hér til skoðunar sem slíkur. Hér er ætlunin að skoða hvernig samloðunar- og sundrungarkraftar hafsins þróuðust við Breiðafjörðinn á mismunandi tímum og við mismunandi aðstæður. Stjórnmálasaga Breiðafjarðar hnitast um þessa miðju.
Önnur veigamikil spurning snýst um félagskerfi og valdatengsl. Greind er þróun þeirra frá samfélagi eins og því sem lýst er í Íslendingasögum þar sem samkeppni um völd var virk og lífsspursmál fyrir höfðingja að hafa sterkt tengslanet, en hér hefur verið gengið út frá því að það kerfi sem lýst er í Íslendingasögum sé að ýmsu leyti sprottið úr veruleika 12. og 13. aldar. Mikilvæg rannsóknarspurning er hvernig þetta kerfi breyttist með valdasamruna og uppgangi einnar ættar en einnig að varpa ljósi á það hvernig forræði Sturlunga hvíldi áfram á valdatengslum og bandalögum við helstu bændur í Breiðafirði. Að lokum er leitast við að greina hvaða áhrif innleiðing konungsvalds hafði á valdatengsl í héraði. Samspil auðs og valda er mikilvægur hluti af þessari greiningu en einnig aukin áhrif opinberra stofnana, sýslumanna og kirkjuvalds.
Hér á undan hefur verið rætt um tengslanet á milli bænda en þriðja meginrannsóknarspurningin snýr að valdatengslum inni á heimilum. Valdakerfið inni á heimilum var eins konar minni-heimur eða míkrókosmos sem endurspeglaði kerfið utan þeirra, yfir hverju heimili var bóndi sem var í forsvari. Hér verður þó ekki gengið út frá því að valdatengsl hafi eingöngu verið lóðrétt heldur einnig litið til hugmynda Michels Foucaults um gagnvirk valdakerfi. Hverjir voru möguleikar kvenna til að hafa áhrif í samfélagi þar sem þær voru útilokaðar frá þingum, dómum og öðru pólitísku starfi? Hver var staða vinnufólks og þræla í slíku samfélagi? Og hvernig breyttist sú staða með nýjum valdakerfum og auðsöfnun forystumanna á 13. og 14. öld og með eflingu ríkisvalds eftir siðaskiptin?
II. Heimildaútgáfur:
1. Ritgerðir Bréflega félagsins, útg. Helga Hlín Bjarnadóttir og Sara Hrund Einarsdóttir. Í vinnslu. Stefnt að útgáfu á vegum Sögufélags.
III. Greinar í ritrýndum tímaritum :
1. Oddný Sverrisdóttir, „Í fótspor ferðalanga. Af ferðalýsingum Idu Pfeiffer og Inu von Grumbkow“, Milli mála. Ársrit Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum 3 (2011), 93- 117
2. Helgi Þorláksson, „Ódrjúghálsar og sæbrautir. Um samgöngur og völd við Breiðafjörð á fyrri tíð“, Saga 51:1 (2013), 94-128.
3. Sverrir Jakobsson, „Konur og völd í Breiðafirði á miðöldum“, Skírnir 187 (2013), 161-75.
4. Vilhelm Vilhelmsson, „Eignarhald og auðsöfnun við Breiðafjörð frá siðaskiptum til stórubólu“, Vefnir 9 (2013), 1-20.
5. Kristín Svava Tómasdóttir, „Húsmenn við Breiðafjörð og á Vestfjörðum í upphafi 18. aldar“, Vefnir 10 (2013), 1-21.
6. Anna Dröfn Ágústsdóttir, „Auðvald og útgerð á Breiðafirði á 19. öld“, Skemman.is > Söguþing 2012. Ráðstefnurit (Reykjavík, 2013).
7. Helgi Þorláksson, „Frá Byrstofu til Breiðafjarðar. Voru írskir kaupmenn við Breiðafjörð við lok miðalda?“ Skemman.is > Söguþing 2012. Ráðstefnurit (Reykjavík, 2013).
8. Sverrir Jakobsson, „Frá Helgafellsklaustri til Stapaumboðs", send í ritið Klausturmenning á miðöldum, ritstj. Haraldur Bernharðsson, 1. júlí 2014.
9. Helgi Þorláksson og Sverrir Jakobsson, „Breiðafjörður as a Micro-Region. A New Approach to National History“. Í vinnslu
IV. Ráðstefnur og fyrirlestrar :
1. Málþing í Háskóla Íslands 13. október 2011.
2. Málstofa á íslenska söguþinginu 7-10. júní 2012
3. Málþing í Stykkishólmi 24-25. ágúst 2012.
4. Málþing á Hellissandi 9-10. maí 2013.
5. „Sturlungaöld í Breiðafirði“, erindi Sverris Jakobssonar í Flatey á Breiðafirði, 8. júlí 2013.
6. „Landeigendur og héraðsvöld í Breiðafirði á 15. öld“, erindi Sverris Jakobssonar að Nýp á Skarðsströnd, 27. júlí 2013.
7. „Frá Helgafellsklaustri til Stapaumboðs: Góss í íslensku og breiðfirsku samhengi“, erindi Sverris Jakobssonar við Miðaldastofu Háskóla Íslands, 5. nóvember 2013.
8. Hátíð Sturlu Þórðarsonar í Tjarnarlundi í Saurbæ í Dölum, 27. júlí 2014.
V. MA-ritgerðir í sagnfræði (sjá nánar Skemman.is)
1. Kristbjörn H. Björnsson, Auðsöfnun og áratog. Kaupmennska og útgerð í Breiðafirði á fyrstu áratugum fríhöndlunar. Janúar 2014.
2. Þórunn María Örnólfsdóttir, Hið breiðfirska lag. Vélvæðing í sjávarútvegi á Breiðafirði upp úr aldamótum 1900 og breytingar á sjósókn kvenna. Janúar 2014.
3. Sara Hrund Einarsdóttir, Tilfærsla valds breiðfirskra karlmanna til kvenna. Viðhorf meðlima Bréflega félagsins um félagslega stöðu kvenna á Íslandi frá 1840-1874 sbr. valdastrúktúr íslensks 19. aldar samfélags. Maí 2014.
4. Pétur Eiríksson, Mikilvægi Íslandsverslunarinnar fyrir Hamborg á 15. og 16. öld. Maí 2014.
VI. Fornleifafræði – MA ritgerð
1. Arnar Logi Björnsson, Skráning fornleifa við Breiðafjörðinn. Í vinnslu. Stefnt að útskrift í maí 2015.
VII. Einstaklingsverkefni á MA stigi í sagnfræði
1. Sara Hrund Einarsdóttir, „Það verður ekki búið í eyjunum án kvenfólks“. Rannsókn um félagslega stöðu breiðfirskra kvenna á 19. öld. September 2013
2. Kristín Svava Tómasdóttir, Eignir og störf 18. aldar kvenna við Breiðafjörð. September 2014
3. Helga Hlín Bjarnadóttir, Ritgerðir Bréflega félagsins. September 2014.
VIII. Lokaritgerð í þýsku:
1. Hafdís Dögg Hafsteinsdóttir :“Kommen Sie rein in die gute Stube“. Deutsche Spuren in West Island bis zum frühen 20. Jahrhundert. B.A.-ritgerð 2011.
IX. Heimildarskrár, sem birtast á Söguslóðum, vef Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands, frá og með 2015:
1. Kristbjörn H. Björnsson, Óprentaðar heimildir um sögu Breiðafjarðar fyrir 1800
2. Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, Breiðafjörður. Prentaðar heimildir fyrir 1500
3. Kristbjörn H. Björnsson, Prentaðar heimildir um sögu Breiðafjarðar 1500-1800
4. Þórunn María Örnólfsdóttir, Breiðafjörður: Prentaðar heimildir 1800-2000
X. MA námskeið í sagnfræði:
1. Breiðafjörður og Norður-Atlantshafið 1100-1700. 10 einingar, haustönn 2013. Kennarar Helgi Þorláksson og Sverrir Jakobsson.
XI. Hagnýt menningarmiðlun – skýrslur og lokaverkefni
1. Svava Lóa Stefánsdóttir, Áfangastaður: Breiðafjörður – Menningartengd ferðaþjónusta og mögulegar miðlunarleiðir. Sumar 2012.
2. Tryggvi Dór Gíslason og Valgerður Óskarsdóttir, Miðstöðvar og mangarar við Breiðafjörð. Skýrsla um hönnun tveggja sýninga við Breiðafjörð. Sumar 2013.
3. Tryggvi Dór Gíslason, Miðstöðvar og mangarar í Breiðafirði: Tillaga að hönnun, handriti og framkvæmd skiltasýningar um sögu verslunar og valda í Breiðafirði. Janúar 2014.
4. Valgerður Óskarsdóttir, Miðstöðvar og mangarar við Breiðafjörð: Breiðafjörður og Norður-Atlantshafið 1300-1700. Hugmynd að gerð sýningar um sögu viðskipta og verslunar við Breiðafjörð. Maí 2014
XII. Hagnýt miðlun – Sýningar
1. Valgerður Óskarsdóttir, Sýning um sögu viðskipta og verslunar við Breiðafjörð, Stykkishólmi, sumarið 2015.
XIII. Hagnýt miðlun – sérhefti Breiðfirðings (væntanlegt 2015)
1. Sverrir Jakobsson, Breiðfirðingar á fyrstu öldum Kristni.
2. Helgi Þorláksson, Þórður Sturluson og Breiðafjarðarveldi Sturlunga.
3. Pétur Eiríksson, Þýskir kaupmenn í Breiðafirði á 16. og 17. öld.
4. Benedikt Eyþórsson, Landbúnaður í Breiðafirði á 18. öld.
5. Kristbjörn H. Björnsson, Útgerð og verslun í Breiðafirði fram til 1820.
6. Sara Hrund Einarsdóttir, Bréflega félagið og jafnrétti kynjanna.
7. Þórunn M. Örnólfsdóttir, Sjókonur í Breiðafirði.