Austrænir víkingar í arabískum heimildum - verkefni lokið
Fréttatilkynning verkefnisstjóra
Verkefnið Austrænir víkingar í arabískum heimildum er rannsókn á arabískum miðaldatextum sem fjalla á einn eða annan hátt um ferðir víkinga í Austurvegi. Arabísku heimildirnar hafa hingað til ekki verið skoðaðar sem sjálfstæður flokkur heimilda, en þessi rannsókn sýnir að ærin ástæða er til þess.
Heimildirnar birta okkur aðra mynd af þessum kafla víkingaaldar og eftir þeim má draga upp aðra og öðruvísi sögu en þau fræðiverk gera sem hafa fókuserað á slavneskar, býsanskar og fornnorrænar heimildir. Samanborið við hina algengu mynd af víkingum í V-Evrópu og Atlantshafi þar sem þeir fóru um með ránshendi og lögðu undir sig lönd, þá eru þeir í mun undirgefnara hlutverki í austri þar sem þeir lutu yfirráðum valdamikilla steppuþjóða, og lögðu þar mesta stund á verslun og viðskipti. Mikilvægur þáttur er einnig samskipti þeirra við túrkískar og íslamskar þjóðir, og þau menningaráhrif sem þeir urðu fyrir í samneyti við þær, en þau áhrif má greina bæði í rituðum heimildum og fornleifafundum. Vonir standa til að í fyllingu tímans verði niðurstöður rannsóknarinnar hluti af almennri umræðu um víkingaöld sem og fræðimennsku.
Heiti verkefnis: Austrænir Víkingar
í arabískum heimildum/ Eastern
Vikings in Arabic Texts
Verkefnisstjóri: Þórir Jónsson Hraundal, Háskóla Íslands
Tegund styrks: Rannsóknarstöðustyrkur
Styrktímabil: 2014-2016
Fjárhæð styrks: 17,28 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 141576