Stafræn tækifæri hjá Rannís
Fjölmörg stafræn tækifæri er að finna innan þeirra sjóða og áætlana sem Rannís er í forsvari fyrir. Sum eru alþjóðleg og önnur á innlendum vettvangi og höfum við því skipt þessu upp í tvennt, alþjóðleg tækifæri og innlend tækifæri.
Við hvetjum öll áhugasöm að kynna sér hina fjölbreyttu möguleika, hvort sem þú ert frumkvöðull, vinnir hjá stofnun eða ert nemandi.
Alþjóðleg tækifæri
COST
Tilgangur COST verkefna er að byggja upp samstarfsnet á ákveðnum rannsóknasviðum. Þátttakendur í COST verkefnum skiptast á reynslu og niðurstöðum í gegnum fundi og ráðstefnur, vinnusmiðjur, skammtíma vísindaverkefni, þjálfunarskóla, miðlunarverkefni og vettvangsheimsóknir.
Fyrir: Vísindafólk og fyrirtæki sem hafa áhuga á að komast í alþjóðlegt rannsóknasamstarf á sínum fræðasviðum.
Creative Europe
Creative Europe styrkir skapandi greinar með áherslu á menningarlega fjölbreytni og viðbrögð við þeim áskorunum sem menning og listir standa frammi fyrir. Sérstök áhersla verður lögð á stafrænar og grænar lausnir.
Creative Europe skiptist í þrjár meginstoðir: MEDIA (kvikmynda- og margmiðlunarverkefni),
MENNINGU (verkefni á sviði menningar og skapandi greina), og ÞVERÁÆTLUN ( samvinna þvert á skapandi greinar og nær einnig yfir fjölmiðla).
Fyrir: Allir lögaðilar, menningarfyrirtæki og –stofnanir, geta sótt um til Creative Europe en skilyrði er að þátttakendur séu frá aðildarríkjum Evrópusambandsins og / eða Íslandi, Noregi og Liechtenstein.
Digital Europe
Digital Europe mun móta stafræna framtíð Evrópu og styður við verkefni sem brúa bilið milli rannsókna og þróunar og stafrænna afurða á markaði. Áætlunin veitir stefnumótandi fjármögnun til verkefna á fimm lykilsviðum:
- Ofurtölvur
- Gervigreind
- Netöryggi
- Stafræn hæfni
- Nýting starfrænna lausna / starfrænar miðstöðvar
Fyrir: Fyrirtæki, einstaklinga, samtök og opinbera aðila.
Enterprise Europe Network
Hlutverk Enterprise Europe Network á Íslandi er að upplýsa, fræða og leiðbeina fyrirtækjum á Íslandi án endurgjalds varðandi tækifæri á alþjóðamarkaði.
Enterprise Europe Network á Íslandi aðstoðar lítil og meðalstór fyrirtæki, auk háskóla og opinbera aðila, við að efla samkeppnishæfni sína á alþjóðamarkaði gegnum stærsta viðskiptatengslanet heims. Enterprise Europe Network á Íslandi er aðili að tengslaneti Enterprise Europe Network sem er stærsta tækniyfirfærslunet í heiminum og er styrkt af Evrópusambandinu.
Fyrir: Lítil og meðalstór fyrirtæki, háskólar og opinberir aðilar geta nýtt sér þjónustu Enterprise Europe Network.
Erasmus+
Erasmus+ er ætlað að ná til breiðs hóp fólks, meðal annars með því að nýta tölvu- og upplýsingatækni og að blanda saman tækifærum til náms og þjálfunar erlendis við rafrænt nám og samvinnu á netinu. Áhersla á stafræn málefni snýst því að miklu leyti um aðgengi og að veita fólki jöfn tækifæri til að fóta sig í stafrænum heimi.
Nánar um stafrænar áherslur Erasmus+
Erasmus+ - eTwinning-rafrænt skólasamstarf
Stofnanir á leik-, grunn- og framhaldskólastigi geta tekið þátt í eTwinning.
eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum, svo nokkuð sé nefnt, allt með hjálp upplýsingatækni.
Fyrir: Hver kennari eða skólastarfsmaður getur skráð sig sem þátttakanda í eTwinning og engin takmörk eru á því hve margir frá sama skóla geta verið með. Skráning einföld og fer fram á Evrópuvef eTwinning.
Erasmus+ - EPALE-vefgátt fullorðinsfræðslu í Evrópu
EPALE er vefsvæði þar sem fagfólk í fullorðinsfræðslu getur bloggað, deilt fréttum og auglýsingum um viðburði og sótt efni í gagnabanka. Einnig býður EPALE upp á leit að samstarfsaðilum (partner search). Stofnanir eða félagasamtök geta skráð sig á EPALE og komist í samband við áhugasama aðila í öðrum Evrópulöndum.
Fyrir: Fagaðila í fullorðinsfræðslu, hagsmunaaðila, símenntunarmiðstöðvar og stefnumótunaraðila.
Eurodesk á Íslandi
Hlutverk Eurodesk á Íslandi er að gera upplýsingar um hreyfanleika í Evrópu aðgengilegar fyrir ungt fólk og þau sem vinna með þeim.
Eurodesk notar ýmsa miðla til að vekja athygli á tækifærum til náms, starfsþjálfunar og sjálfboðaliðastarfa í í Evrópu. Æskulýðsstarfsfólk getur einnig notað sér víðfemt net Eurodesk til að finna tengiliði í öðrum löndum til að vinna saman að Evrópuverkefnum.
Með Eurodesk starfa yfir 1600 staðbundnar upplýsingaveitur, sem á ensku kallast „multipliers“ sem eru svæðisbundin eða staðbundin samtök sem vinna með ungu fólki, veita þeim upplýsingar og ráðleggja þeim um tækifæri erlendis. Þetta geta verið æskulýðsfélög, félagsmiðstöðvar, samtök, sveitarfélög o.fl. en þrátt fyrir fjölbreytni þeirra er kjarninn í verkefnum þeirra sem samstarfsaðilar Eurodesk sá sami.
Europass - Evrópskur færnipassi
Europass er ókeypis og jafnframt örugg netlæg þjónusta sem gerir þér kleift að safna saman upplýsingum um hvað þú kannt og getur og þannig getur þú stjórnað betur og skipulagt náms- og starfsferil þinn – bæði hér á Íslandi sem og í allri Evrópu.
Hluti af Europass eru fjögur mismunandi skjöl sem að auðvelda þér að sækja nám og störf erlendis eða að fá skírteini og upplýsingar um menntun og störf þýdd þegar heim er komið;
- Rafræn ferliskrá
- Starfsmenntavegabréf
- Viðauki með starfsmenntaskírteini
- Viðauki með háskólaskírteini
Miðstöð stafrænnar nýsköpunar – European Digital Innovation Hub Iceland (edih.is)
EHIH-IS mun gegna veigamiklu hlutverki í nýtingu nýjustu stafrænnar tækni á landinu í nánum tengslum við lykilaðila innan Evrópu. Stofnaðilar miðstöðvarinnar eru Auðna tæknitorg, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Rannís, Origo og Syndis. Saman munu þessir aðilar standa að fjölbreyttum verkefnum, þjónustu og viðburðum næstu þrjú árin hið minnsta.
Mikil áhersla er lögð á að tengja íslenska sprota og starfandi upplýsingafyrirtæki við nýjustu tækni, eins og gervigreind og ofurtölvur með þunga áherslu á öryggismál (Cybersecurity). Miðstöðin er sömuleiðis vettvangur erlends samstarf á sviði stafvæddrar nýsköpunar, þar sem íslenskir aðilar geta nýtt sér tengsl miðstövarinnar við 225 systurmiðstöðvar í Evrópu. Að sama skapi geta þær nýtt sér aðgang að umhverfinu á Íslandi í gegnum EDIH-IS.
Miðstöðin starfar á fjórum megin sviðum;
- Menntun – Stuðlum að aukinni menntun á sviði stafvæðingar t.d. gervigreindar og öryggismála á öllum skólastigum með áherslu á háskólastigið.
- Þróið og prófið – Hjálpum fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi að fóta sig í nýrri tækni með veitingu ráðgjafar, aðgangs að þekkingu og tólum og hýsingu á tilraunaverkefnum.
- Klasi - Samfélag – Setjum upp viðburði og vettvang fyrir samstarf. Miðlum fróðleik og þekkingu frá Evrópu til samfélagsins.
- Fjármögnun – Opnum glugga inn í Digital Europe fjármögnunaráætlun Evrópusambandsins ásamt því að aðstoða við almenna fjármögnun sprota og hugmynda.
Nánar um Miðstöð stafrænnar nýsköpunar
Horizon Europe
Innan Horizon Europe, rannsókna- og nýsköpunaráætlunar Evrópusambandsins eru ýmis stafræn tækifæri fyrir fyrirtæki, stofnanir, háskóla og lögaðila. Segja má að stafræn tækifæri hvort sem er á sviði umhverfismála, heilbrigðismála eða félags- og hugvísinda sé leiðarstefið sem mörg hver geta til dæmis skapað samlegðaráhrif með Digital Europe áætluninni.
Fyrir: Háskóla, framúrskarandi vísindavólk, stofnanir, fyrirtæki og aðra lögaðila.
F
Horizon Europe - Samfélagslegt öryggi, klasi 3
Klasinn Samfélagst öryggi er að bregðast við áskorunum sem stafa af viðvarandi öryggisógnum, þar á meðal netglæpum, sem og náttúruhamförum og hamförum af mannavöldum.
Fyrir: Háskóla, stofnanir, fyrirtæki og aðra lögaðila.
Horizon Europe - Stafræn tækni, iðnaður og geimur, klasi 4
Klasinn stafræn tækni, iðnaður og geimur tilheyrir Horizon Euope og verkefni er falla undir hann hafa það að markmiði að Evrópa móti samkeppnishæfa og áreiðanlega tækni fyrir evrópskan iðnað með alþjóðlegri forystu á lykilsviðum. Stuðli jafnframt að framleiðslu og nýtingu sem virðir þolmörk jarðarinnar og hámarki ávinninginn fyrir alla hluta evrópsks samfélag í félagslegu, efnahagslegu og svæðisbundnu samhengi.
Fyrir: Háskóla, stofnanir, fyrirtæki og aðra lögaðila.
Nánar um Stafræna, tækni, iðnað og geim
Horizon Europe - Evrópska nýsköpunarráðið (EIC)
EIC hefur það hlutverk að bera kennsl á, þróa og stækka byltingarkennda tækni og nýjungar.
Fyrir: Fyrirtæki, stofnanir, háskóla og aðra lögaðila, með undantekningu þar sem um er að ræða áætlun eingöngu ætlaða litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
Nánar um Evrópska nýsköpunarráðið
Innlend tækifæri
Innviðasjóður
Hlutverk Innviðasjóðs er að byggja upp rannsóknarinnviði á Íslandi. Markmiðið með sjóðnum er að efla innlendar vísindarannsóknir með því að skapa nýja möguleika til rannsókna með fjármögnun tækjabúnaðar/aðstöðu sem ekki er aðgengileg nú þegar.
Innviðasjóður veitir styrki til kaupa á tækjum, gagnagrunnum og hugbúnaði og öðrum þeim búnaði sem telst mikilvægur fyrir framfarir í rannsóknum.
Fyrir: Háskólar, opinberar rannsóknastofnanir og fyrirtæki.
Markáætlun í tungu og tækni
Hlutverk Markáætlunar í tungu og tækni er annars vegar að vernda og efla íslenska tungu, og hins vegar að auðvelda nýtingu nýrrar samskiptatækni í íslensku samfélagi, til hagsbótar almenningi, stofnunum og fyrirtækjum. Markáætlun í tungu og tækni er ætlað að efla rannsóknir og nýsköpun og hvetja til samvinnu ólíkra aðila innanlands og í alþjóðlegu samhengi, til að ýta undir verðmætasköpun og fjárfestingu í rannsóknum í atvinnulífinu.
Fyrir: Háskólar, stofnanir og fyrirtæki geta sótt um styrki úr Markáætlun í tungu og tækni.
Nánar um Markáætlun í tungu og tækni
Markáætlun um samfélagslegar áskoranir
Markmiðið með áætluninni er að leiða saman þekkingu og styrkleika mismunandi fagsviða, tækni- og fræðigreina og þannig stuðla að auknum skilningi á íslensku samfélagi og umhverfi. Finna lausnir og styðja við fjölbreytt og nýsköpunarmiðað samfélag á tímum örra breytinga.
Fyrir: Háskólar, fyrirtæki og rannsóknarstofnanir sem vinna saman á ákveðnu fræðasviði eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana.
Markáætlun er skipt í þrjá flokka í samræmi við áherslur Vísinda- og tækniráðs:
- Umhverfismál og sjálfbærni.
- Heilsa og velferð
- Líf og störf í heimi breytinga
Nánar um Markáætlun um samfélagslegar áskoranir
Námsorlof kennara og stjórnenda framhaldsskóla
Tilgangur námsorlofs er að veita þeim sem um það sækja tækifæri til að efla þekkingu sína og hæfni í starfi. Ef heimild er veitt til þess að nýta námsorlof til þess að stunda fjarnám við viðurkennda menntastofnun eða þjálfun, t.d. vegna tækniþróunar, án leyfis frá starfi eða lækkunar vinnuskyldu, er heimilt að veita styrk til slíks náms til að mæta útlögðum kostnaði, s.s. vegna skólagjalda og tiltekins ferðakostnaðar.
Fyrir: Kennarar, náms- og starfsráðgjafar, skólameistarar og aðrir stjórnendur framhaldsskóla sem starfað hafa í a.m.k. fimm ár við kennslu- eða stjórnunarstörf í framhaldsskóla geta sótt um sérstakt námsorlof til þess að efla þekkingu sína og hæfni í starfi.
Nýsköpunarsjóður námsmanna
Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunnnámi og námi á meistarastigi við háskóla til sumarvinnu að rannsókna- og þróunarverkefnum.
Styrkir skulu veittir til rannsókna- og þróunarverkefna sem líkleg þykja til að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum háskóla, stofnana og fyrirtækja. Umsóknir um styrki skal meta með hliðsjón af möguleikum til hagnýtingar í atvinnulífinu og nýnæmi fyrir þekkingu í viðkomandi fræðigrein.
Fyrir: Háskólanemar í grunn- og meistaranámi. Sérfræðingar innan háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja sem óska eftir að ráða háskólanema í sumarvinnu við rannsókna- og/eða þróunarverkefni
Nánar um Nýsköpunarsjóð námsmanna
Skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna
Markmiðið með frádrættinum er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni.
Fyrir: Öll fyrirtæki sem eru eigendur rannsókna- eða þróunarverkefna. Háskólar og stofnanir teljast ekki fyrirtæki í skilningi laga (lög nr. 152/2009).
Nánar um Skattfrádrátt rannsókna- og þróunarverkefna
Sprotasjóður
Sprotasjóður er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá.
Fyrir: Leikskólastjórar, skólastjórar og skólameistarar fyrir hönd skóla, kennarahópa eða einstaka kennara. Aðrir aðilar geta einnig sótt um en þurfa þá að skila inn staðfestingu á þátttöku skóla með umsókn.
Áherslusvið sjóðsins árið 2023:
- Farsæld barna og ungmenna með áherslu á geðrækt, geðtengsl, geðheilbrigði.
- Sköpun og hönnun.
- Stafræn borgaravitund, upplýsinga- og miðlalæsi.
Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna
Meginhlutverk sjóðsins er að launa starfsemi þeirra fræðimanna sem starfa sjálfstætt í sinni fræðigrein.
Fyrir: Rétt til að sækja um starfslaun úr sjóðnum hafa höfundar fræðirita, handbóka, orðabóka og viðamikils upplýsingaefnis á íslensku í ýmsu formi.
Nánar um Starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna
Tækniþróunarsjóður
Tækniþróunarsjóður býður upp á fimm flokka fyrirtækjastyrkja; Fræ/Þróunarfræ, Sprota, Vöxt, Sprett og Markað. Hver styrkur er sniðinn að mismunandi þróunarstigi verkefna. Einnig eru í boði styrkir til hagnýtra rannsóknarverkefna innan háskóla og rannsóknastofnanna og gjarnan í samstarfi við fyrirtæki og einkaleyfastyrkir.
Fyrir: Háskóla, opinberar rannsóknastofnanir, rannsóknastofnanir, opinber fyrirtæki, lítil og meðalstór fyrirtæki, ung nýsköpunarfyrirtæki, frumkvöðla og einstaklinga (ATH: mismunandi eftir styrktarflokki)
Þróunarsjóður námsgagna
Hlutverk sjóðsins er að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsgagna fyrir leik-grunn- og framhaldsskóla með það að markmiði að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla. Námsefnið þarf að henta til kennslu á þremur fyrstu skólastigunum. Námsefni fyrir háskólastig og fullorðinsfræðslu er ekki styrkt. Stefna sjóðsins er að námsefnið sem styrkt er, verði gefið út með rafrænum hætti og gert aðgengilegt á netinu, þegar við á.
Fyrir: Allir sem skrifa og útbúa námsefni fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla geta sótt um í sjóðinn. Geta verið kennarar, sjálfstætt starfandi fræðimenn og útgáfufyrirtæki.
Forgangsatriði þróunarsjóðs námsgagna fyrir árið 2023
- Námsefni ætlað innflytjendum vegna tungumálakennslu.
- Námsefni sem styður við samfélags- og náttúrugreinar.
-
Námsefni sem miðar að markvissri eflingu íslensks orðaforða og hugtakaskilnings í ýmsum
námsgreinum. - Þróun námsefnis er tengist stuðningi við börn á flótta
Nánar um Þróunarsjóð námsgagna
Yfirlit yfir alla samkeppnissjóði á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar sem Rannís hefur umsjón með frá A - Ö.
Um Rannís
Hlutverk Rannís er að treysta stoðir íslensks samfélags með stuðningi við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu. Rannís styður þekkingarsamfélagið með rekstri samkeppnissjóða, aðstoð og kynningu á alþjóðlegum sóknarfærum og samstarfsmöguleikum. Einnig að greina og kynna áhrif rannsókna, menntunar og menningar á þjóðarhag og þjónustar undirbúning vísinda- og tæknistefnu. Rannís hefur umsjón með helstu samkeppnissjóðum á sviði rannsókna og nýsköpunar, menntunar og menningar á Íslandi, auk samstarfsáætlana ESB og norrænna áætlana sem veita styrki til samstarfsverkefna, náms og þjálfunar.