Desember 2024

desember 2024

(Sleppa dagatali)
M Þ M F F L S
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Á döfinni

Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku

  • 31.12.2023, Opið fyrir umsóknir allt árið
  • 31.12.2024, Opið fyrir umsóknir allt árið

Hvert er markmiðið?

Markmiðið er að efla útgáfu bóka á íslensku með því að veita bókaútgefendum tímabundinn stuðning í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku.

Umsókn

Einungis er tekið við rafrænum umsóknum á þar til gerðu umsóknareyðublaði, sem berast gegnum gátt hjá Rannís (sjá græna borðann fyrir ofan). Fylgigögn skulu einnig vera á rafrænu formi.

Hægt er að leggja inn umsóknir um endurgreiðslu hvenær sem er innan níu mánaða frá útgáfudegi.

Umsækjandi getur unnið með umsókn og bætt við upplýsingum þar til öll gögn eru til staðar.

Leiðbeiningar um launakostnað

Nefnd um stuðning við bókaútgáfu sendi eftirfarandi bréf til bókaútgefenda dagsett 3. júlí 2023 með leiðbeiningum um launakostnað, verktakavinnu, form reikninga og fleira:

Um launakostnað vegna útgáfu bókar og fleira.

Atriði sem tefja afgreiðslu umsókna

Svo ekki verði dráttur á endurgreiðslum er mikilvægt að bókaútgefendur vandi umsóknirnar sem best. Sé umsókn gölluð er hún ekki afgreidd fyrr en umsækjandi hefur komið henni á réttan kjöl. Sé mikið um þetta dregur það úr afköstum nefndarinnar og bitnar þannig á öllum umsækjendum.

Algengar ástæður tafa á afgreiðslu

  • Einstaka kostnaðarliðir hafa þótt óeðlilega háir og umsækjandi er beðinn um rökstuðning.
  • Nauðsynleg gögn fylgja ekki umsókninni eða að gögn eru óskýr.
  • Sótt er um endurgreiðslu vegna kostnaðar sem ekki er endurgreiðsluhæfur.
  • Ekki er hægt að rekja umræddan kostnað beint til útgáfu viðkomandi bókar.

Gagnlegar ábendingar við gerð umsóknar

  • Allir kostnaðarliðir séu án virðisaukaskatts.
  • Eingöngu kostnaður við verk sem hafa verið samþykkt til útgáfu telst endurgreiðsluhæfur. Hugmyndavinna við verk er því ekki endurgreiðsluhæf.
  • Óbreytt eða mjög lítið breytt endurprent er ekki endurgreiðsluhæft. Ef um endurútgáfu á bók er að ræða þarf umsækjandi að gera grein fyrir á hvern hátt sé um nýtt útgáfuverk að ræða og hvað greinir nýju bókina frá fyrri útgáfum.
  • Útgefanda ber að halda utan um launakostnað og skráða tíma launamanns við útgáfu bókar í verkbókhaldi. Vinsamlegast aðgreinið vinnu í umsókn eftir tegund, t.d. að vinna við ritstjórn falli undir ritstjórnarlið umsóknar og umbrot/hönnun undir samsvarandi lið o.s.frv.
  • Í tilfelli innanhússvinnu fastra starfsmanna sendist listi yfir starfsmenn og starfsheiti og hlutfall starfs eða hvort um verktakavinnu er að ræða ef viðkomandi er ekki í fullu starfi. Koma þarf fram: hvenær verk er unnið / tímafjöldi / tímalaun / tegund vinnu.
  • Endurgreiðsla á auglýsinga- og kynningarkostnaði á einungis við um þann kostnað sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útkomu bókar. Mikilvægt er að kostnaðurinn sé rekjanlegur með beinum og augljósum hætti til þeirrar bókar sem sótt er um endurgreiðslu fyrir. Ekki er leyfilegt að taka saman allan auglýsingakostnað vegna birtingar hjá tilteknum miðli og tiltaka áætlaðan hlutfallskostnað viðkomandi bókar. Gott að láta auglýsinguna fylgja umsókninni. Sjá nánar í handbók sjóðsins (undir Fylgiskjöl og tenglar) hvað fellur undir kynningu.
  • Ef við á, tilgreinið opinbera styrki og tekjur af seldum auglýsingum/kynningum sem birtast í bókinni.
  • Með ritröð er átt við safn ritverka sem gefin eru út í mörgum bindum í heild í tímaröð eða samtímis með sameiginlegum heildartitli, undir- eða yfirtitli, en hvert bindi er sjálfstæð heild. Öll verk ritraðarinnar skulu vera af sama toga. Með umsókninni undir liðnum ritröð þarf umsækjandi að gera grein fyrir á hvern hátt bækurnar uppfylla skilyrði ritraðar, t.d. ef öll ritröðin kemur ekki út samtímis þá hvað ritröðin verður löng og hvenær henni ljúki. Sjá nánar í Handbók á vef sjóðsins.

Hvað er endurgreitt?

Endurgreiðsla varðar eingöngu kostnað við útgáfu bókar. Samkvæmt lögum nr. 130/2018 eru eftirfarandi kostnaðaliðir hæfir til 25% endurgreiðslu:

Leyfilegur kostnaður

  • Beinn launakostnaður og verktakagreiðslur. Þetta á við ritstjórn verks sem samþykkt hefur verið til útgáfu, prófarkalestrar, þýðingar, skýringar- og ljósmynda, og hönnunar og vinnu við innsíður og kápu.
  • Laun höfundar eða rétthafa. Þetta eru laun fram að móttökudegi umsóknar um endurgreiðslu.
  • Prentkostnaður og hliðstæður kostnaður vegna útgáfu í öðru formi en á prenti. Þetta nær til prentunar á verkinu og samskipti við prentsmiðju og aðra framleiðsluaðila svo sem tölvuvinnu vegna rafrænnar útgáfu og upplestri hljóðbókar í löndum á EES-svæðinu, innan EFTA eða í Færeyjum.
  • Birting í Bókatíðindum. Skal tilgreina kostnaðarhlutfall umræddrar bókar svo hægt sé að rekja kostnað til viðkomandi verks.
  • Kostnaður við birtingar auglýsinga sem fellur til á næstu fjórum mánuðum eftir útgáfudag. Þetta nær til birtinga í ljósvaka- og prentmiðlum sem og á neti. Lykilatriði að hægt sé að rekja kostnað til viðkomandi verks. Þegar margar bækur eru auglýstar í sömu auglýsingu skal tilgreina kostnaðarhlutfall umræddrar bókar. Gott að láta auglýsinguna fylgja umsókninni.
  • Kynningarkostnaður sem tengist kostaðri umræðu og sérstökum atburðum til kynningar á verkinu sem sótt er um, þó ekki kynningareintök og sendingar, bifreiðakostnað, mat og drykk. Almennar kynningar, s.s. bókamessur, koma ekki til greina.
  • Sé útgefandi einstaklingur (þ.e. ekki félag) er honum heimilt að leggja eigin laun til grundvallar endurgreiðsluhæfum kostnaði, þ.e. að reikna sér laun sem samsvara einum mánaðarlaunum listamanna, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um listamannalaun (upphæð listamannalauna er uppreiknuð á hverju ári; sjá nánar síðustu úthlutun á vef listamannalauna).

Óleyfilegur kostnaður

  • Virðisaukaskattur; því skulu allar upphæðir í umsókn vera án vsk.
  • Framlag til bókmenntaverðlauna.
  • Kostnaður vegna kynningareintaka, s.s. sendingar.
  • Kostnaður og vinna vegna dreifingar og/eða sölu bókar.
  • Bifreiðakostnaður, matur og drykkur.
  • Almennar kynningar, s.s. bókamessur.
  • Almennar auglýsingar.
  • Heildarkostnaður auglýsinga, þ.e. ekki er leyfilegt að taka saman allan auglýsingakostnað vegna birtingar hjá tilteknum miðli og tiltaka áætlaðan hlutfallskostnað viðkomandi bókar.
  • Kostnaður við utanumhald og hönnun auglýsinga.
  • Kostnaður við vinnu og utanumhald kynninga.
  • Auglýsinga-og kynningarmál, fram að útgáfu bókar og eftir að fjórir mánuðir eru liðnir frá útgáfu bókar.
  • Hugmyndavinna við verk og vinna á undirbúningsstigi, s.s. samningaviðræður við rétthafa og höfunda áður en útgáfusamningur liggur fyrir eða eftir að bók er gefin út.
  • Almennur stjórnunarkostnaður sem fellur til hjá bókaútgefanda, og óbeinn kostnaður bókaútgefanda, til að mynda kostnaður sem tengist almennum rekstrarkostnaði fasteigna, leigukostnaður, fjármagnskostnaður og annar rekstrarkostnaður sem tengist ekki með beinum hætti útgáfu bókar.

 

Nánari upplýsingar








Þetta vefsvæði byggir á Eplica