Creative Europe

Kvikmyndir og menning

Creative Europe – Kvikmynda- og menningaráætlun ESB 2014–2020 styrkir skapandi greinar og eflir menningarlega fjölbreytni á sviði kvikmynda, lista og menningar. Fyrir 2014 var um að ræða tvær áætlanir, sem voru síðan sameinaðar undir einn hatt. Áætlunin skiptist í annars vegar MEDIA og hins vegar Menningu.

MEDIA

MEDIA styður leiknar kvikmyndir og sjónvarpsmyndir, heimildamyndir, teiknimyndir og tölvuleiki, verkefni með evrópska og alþjóðlega skírskotun og notkun á nýrri tækni. Markmiðið er að efla samkeppnishæfni evrópskra kvikmynda, sjónvarpsefnis og tölvuleikja á alþjóðamarkaði og í Evrópu. Íslenskir aðilar hafa helst sótt í styrki til þróunar og framleiðslu á kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum og dreifingar á evrópskum kvikmyndum, þeir hafa einnig tekið þátt í verkefnum til að efla kvikmyndalæsi og er einn þeirra í Europa Cinemas, samstarfsneti kvikmyndahúsa.

MEDIA hefur verið mikilvæg fyrir framleiðslu og dreifingu á íslensku kvikmyndaefni. Kvikmyndaiðnaðurinn er alþjóðlegur og öll stærri verkefni krefjast samframleiðslu milli landa og alþjóðlegrar fjármögnunar. Þar hafa styrkir, stórir sem smáir, skipt máli til að verkefni verði að veruleika og fái dreifingu á alþjóðamarkaði.

Íslenskum aðilum hefur gengið einstaklega vel að sækja styrki til MEDIA, en heildarfjármagn til íslenskra aðila síðustu fjögur árin er rúmlega 3 milljónir evra eða um 380 milljónir króna. Í töflu 5 má sjá fjölda umsókna, fjölda styrktra verkefna, árangurshlutfall og heildarfjármagn til hvers undirflokks. Sérstaklega hefur gengið vel að sækja styrki til þróunar kvikmyndaverkefna, þar sem árangurshlutfall allra umsókna þátttökulanda 2017 var aðeins 19%. Þá hafa íslensk verkefni fengið fjölda styrkja til framleiðslu á sjónvarpsþáttaröðum og heimildarmyndum.

Tafla 5. Creative Europe - MEDIA: Árangur Íslands eftir undiráætlunum 2014–2017.

Undiráætlun Fjöldi umsókna Fjöldi styrktra verkefna Árangurshlutfall umsókna Samtals fjármagn
Þróunarstyrkir 40 16 40% 875.000 €
Sjónvarpsstyrkir 10 7 70% 1.759.294 €
Kvikmyndahátíðir 5 4 80% 252.000 €
Dreifingarstyrkir 82 38 46% 180.961 €
Heild 137 65 * 3.067.255 €

Til viðbótar þessu koma fjárveitingar til erlendra aðila til að dreifa íslenskum myndum í kvikmyndahúsum í Evrópu. Tvær myndir fengu veglega dreifingarstyrki árið 2015 sem eru með langstærstu styrkjum sem íslenskar kvikmyndir hafa fengið til dreifingar erlendis frá því að Íslendingar hófu þátttöku í MEDIA árið 1992. Kvikmyndin Hrútar í leikstjórn Gríms Hákonarsonar fékk 514.340 evra styrk til dreifingar til 32 landa og kvikmyndin Fúsi í leikstjórn Dags Kára fékk dreifingarstyrk til 24 landa að upphæð 394.060 evrum.

Menning

Markmið Menningarhlutans er að efla listsköpun í landinu og koma á samstarfi á milli listastofnana og listamanna í Evrópu, kynna upprennandi listamenn og stækka þátttöku/áheyrendahóp allra þátttökulanda. Íslenskir aðilar hafa einkum sótt um styrki til þýðinga á evrópskum bókmenntum og verið þátttakendur í samstarfsverkefnum. Einnig eru nokkur félög meðlimir í stórum evrópskum samstarfsnetum sem fá styrki frá áætluninni.

Í Menningu er mikil samkeppni og árangurshlutfall lágt enda áætlunin ekki umfangsmikil. 15 íslenskir aðilar tóku þátt í umsóknum um menningarverkefni á árinu 2017 en einungis eitt þeirra hlaut styrk. Í töflu 6 má sjá árangur íslenskra aðila í Menningu á árunum 2014–2017, miðað við þátttökutilvik í umsóknum. Þátttökutilvik taka til bæði aðal- og meðumsækjenda en enginn íslenskur aðalumsækjandi fékk styrk á tímabilinu. Árangurshlutfall í þeim flokkum sem íslenskir aðilar hafa sótt í er að jafnaði 12%. Íslenskir umsækjendur um þýðingarstyrki hafa ekki haft erindi sem erfiði, en fimm umsóknir hafa verið sendar inn á tímabilinu.

Tafla 6. Creative Europe - Menning: Árangur Íslands eftir undiráætlunum 2014–2017.

Undiráætlun Þátttökutilvik í umsóknum Þátttökutilvik í styrktum umsóknum Árangurshlutfall Samtals fjármagn
Minni samstarfsverkefni 27 4 15% 93.415 €
Stærri samstarfsverkefni 24 3 13% 333.262 €
Bókmenntaþýðingar 5 0 0% 0 €
Aðlögun flóttamanna 1 0 0% 0 €
Heild 57 7 12% 426.677 €

Samanburður við önnur lönd

Mynd 11 sýnir hversu háa styrki íslenskir aðilar fá á hvern íbúa til samanburðar við Norðurlöndin, Írland, Lúxemborg og Möltu. Íslendingar fengu rúmlega tíu evrur á hvern íbúa í styrki frá Creative Europe tímabilið 2014–2017, sem er hærri upphæð miðað við samanburðarlöndin.

Mynd 11. Creative Europe: Fjármagn í evrum á hvern íbúa 2014–2017.

 

Dæmi um verkefni

MEDIA: Sjónvarpsþættirnir Ófærð fengu 60.000 evrur í þróunarstyrk árið 2013, 500.000 evrur í sjónvarpsstyrk árið 2015 og síðan aftur 500.000 evrur í sjónvarpsstyrk fyrir aðra þáttaröð árið 2017. Sjónvarpsþættirnir hafa vakið mikla athygli á evrópskum og alþjóðlegum sjónvarpsmarkaði og hlutu þeir Prix Europa verðlaunin árið 2016, fyrstir íslenskra sjónvarpsþátta.

Menning: Félagið Söguslóðir á Íslandi tók þátt í verkefninu Follow the Vikings sem var stýrt af Shetland Amenity Trust í Bretlandi ásamt 11 öðrum löndum. Verkefnið fékk úthlutað styrk að upphæð 1.960.000 evrur en markmið verkefnisins var að kynna víkingaarfleifðina fyrir umheiminum. Eitt af markmiðum verkefnisins var að styrkja menningartengda ferðaþjónustu í Evrópu með því að koma á framfæri sögufrægum stöðum.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica