Meniga hlýtur Vaxtarsprotann 2013
Fyrirtækið Meniga ehf. hlaut Vaxtarsprotann 2013 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis á undanförnu ári. Fyrirtækið nær tífaldaði sölutekjur sínar milli áranna 2011 og 2012. Fyrirtækin Controlant, Nox Medical og Iceconsult fengu einnig viðurkenningar fyrir góðan vöxt. Á myndinni má sjá fulltrúa þessara fjögurra fyrirtækja við afhendinguna.
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Viggó Ásgeirssyni, Ásgeiri Ásgeirssyni og starfsmönnum Meniga Vaxtarsprotann 2013 að viðstöddum fulltrúum sprotafyrirtækja og stuðningsaðilum atvinnulífsins í Grasagarðinum í Laugardal við hátíðlega athöfn þann 3. maí.
Alls hlutu fjögur sprotafyrirtæki viðurkenningu fyrir öflugan vöxt milli áranna 2011 og 2012, en viðurkenningunum var skipt í tvo flokka. Í 2. deild, flokki sprotafyrirtækja með veltu á bilinu 10-100 milljónir, hlutu fyrirtækin Meniga og Controlant viðurkenningu, en í 1. deild, flokki sprotafyrirtækja með ársveltu á bilinu 100-1000 milljónir fengu fyrirtækin Nox Medical og Iceconsult viðurkenningu.
Samtök iðnaðarins veita sérstaka viðurkenningu til sprotafyrirtækja sem velta í fyrsta sinn meira en einum milljarði króna. Fyrirtækið Naust Marine náði þeim áfanga á síðasta ári og var því brautskráð sem sprotafyrirtæki og tekið inn í úrvalsdeild íslenskra hátæknifyrirtækja. Áður hafa CCP, Betware og Nimblegen hlotið þessa viðurkenningu.
Meginviðmið dómnefndar er hlutfallslegur vöxtur í veltu milli tveggja síðustu ára. Fyrirtækið þarf að uppfylla skilgreiningu um sprotafyrirtæki - þ.e. að verja meira en 10% af veltu í rannsókna- og þróunarkostnað að meðaltali fyrir bæði árin. Heildarvelta fyrra árs þarf að vera yfir 10 milljónum en undir einum milljarði ísl. kr. Þá þurfa frumkvöðlar fyrirtækjanna að vera til staðar í tengslum við fyrirtækin og fyrirtæki sem hlýtur Vaxtarsprotann má ekki vera að meiri hluta í eigu stórfyrirtækis, fyrirtækis á aðallista kauphallar eða meðal 100 stærstu fyrirtækja landsins.
Þetta er í sjöunda sinn sem Vaxtarsprotinn er afhentur en hann hefur verið veittur árlega frá árinu 2007. Áður hafa hlotið Vaxtarsprotann fyrirtækin Maroka 2007, Mentor 2008 og 2009, Nox Medical 2010, Handpoint 2011 og Valka 2012.
Verðlaunagripur Vaxtarsprotans er farandgripur úr áli og steini gefinn af Samtökum iðnaðarins, en auk hans fylgir skjöldur úr sömu efnum til eignar. Fyrirtækin fjögur sem hlutu viðurkenningar fengu auk þess sérstök viðurkenningarskjöl.
Fyrirtækin sem hlutu viðurkenningu
Meniga
Meniga ehf. var stofnað árið 2009 af Georg Lúðvíkssyni framkvæmdastjóra, Ásgeiri Ásgeirssyni og Viggó Ásgeirssyni. Auk stofnenda er Frumtak stór eigandi í Meniga. Meniga er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum fyrir næstu kynslóð netbanka þar sem lögð er áhersla á notendavænleika, góða hönnun og að gera fólki auðvelt að stjórna heimilisfjármálunum.
Meniga hefur vaxið hratt undanfarið en starfsmannafjöldi hefur þrefaldast á rúmu ári úr 15 í 45. Meirihluti starfsmanna er á Íslandi þar sem rannsóknir og þróun fara fram en félagið rekur sölu- og markaðsstarfsemi frá Stokkhólmi þar sem 7 starfa. Meniga gerir ráð fyrir áframhaldandi hröðum vexti enda hefur félagið byggt upp sterka stöðu á stórum og vaxandi markaði.
Fyrirtækið nær tífaldaði sölutekjur sínar milli áranna 2011 og 2012. Fyrirtækið er gott dæmi um hraðvaxta vaxtarsprota þar sem verkefnastyrkir Tækniþróunarsjóðs og endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarstarfsemi hafa komið í góðar þarfir og átt þátt í að byggja upp frábæran árangur sprotafyrirtækis á undraskömmum tíma.
Meniga hefur byggt upp sterkt vörumerki og náð markaðsleiðandi stöðu á sínu sviði í Evrópu. Á annan tug banka í 10 löndum hafa valið lausnir Meniga fyrir sína netbanka og það stefnir í að yfir 7 milljónir manna munu hafa aðgang að lausnum Meniga fyrir árslok 2013.
Controlant
Controlant ehf. er stofnað árið 2005 af þeim Gísla Herjólfssyni, Trausta Þórmundssyni, Erlingi Brynjúlfssyni, Atla Þór Hannessyni og Stefáni Karlssyni.
Controlant er ört vaxandi fyrirtæki sem sérhæfir sig í þráðlausum lausnum til gæðaeftirlits og rekjanleika. Lausnum fyrirtækisins hefur verið vel tekið af innlendum og erlendum aðilum á lyfja- og matvælamarkaði. Í öllum iðnaði er sívaxandi krafa um yfirsýn í virðiskeðjunni og aukið gæðaeftirlit. Lausnir fyrirtækisins eru sérsniðar að því að uppfylla þessar þarfir með sjálfvirkari hætti en áður hefur þekkst.
Lausnir Controlant byggja á þráðlausum vélbúnaði, miðlægum gagnagrunni og vefviðmóti. Allir þættir lausnarinnar eru að fullu þróaðir af fyrirtækinu sem gefur fyrirtækinu fulla stjórn yfir áframhaldandi þróun á öllum þáttum hennar.
Fyrirtækið hlaut Gulleggið, nýsköpunarverðlaun Innovit, árið 2009 og hefur þróunarstarf fyrirtækisins notið stuðnings Tækniþróunarsjóðs. Hjá Controlant starfa nú 11 manns og eru allir stofnendur fyrirtækisins enn virkir sem starfsmenn og stjórnarmenn. Um 50% af veltu fyrirtækisins kemur nú erlendis frá og er áætlaður vöxtur næstu ára að mestu áætlaður á erlendum mörkuðum.
Nox Medical
Nox Medical ehf. var stofnað árið 2006 af verkfræðingum og heilbrigðisvísindafólki sem áður unnu hjá fyrirtækinu Flögu. Nox Medical sérhæfir sig í svefngreiningarlausnum sem henta við rannsóknir og meðhöndlun svefntruflana barna og fullorðinna.
Svefngreiningatækið "Nox T3" kom á markað í lok árs 2009, og hefur nú verið dreift í þúsundum eintaka, til svefnrannsókna- og læknastöðva í flestum heimshornum. Allar tekjur félagsins eru af erlendri grund og á rekstrarárinu 2012 höfðu heildartekjur meira en þrefaldast frá fyrra ári.
Á þessu ári mun félagið kynna tvær spennandi nýjar vörur sem renna enn styrkari stoðum undir öran vöxt félagsins, en Nox Medical er án efa leiðandi fyrirtæki í heiminum á sínu svið.
Í dag eru starfsmenn Nox Medical 21 talsins og hefur starfsmannfjöldi tvöfaldast á rúmu ári. Langflestir starfsmenn er hátæknimenntaðir sérfræðingar sem flestir eiga langan starfsferil að baki.
Samstarf Nox Medical við sérfræðinga á sviði svefnrannsókna hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi og við Háskólana eru öllum aðilum mikilvægt og í því felst mikilll styrkur. Framtíð Nox Medical er björt og verður án efa gaman að fylgjast með áframhaldandi vexti Nox Medical og þeim tækninýjungum sem það mun kynna á næstu misserum og komandi árum.
ICEconsult
ICEconsult er hugbúnaðarfyrirtæki á sviði aðstöðustjórnunar (Facility Management). Félagið var stofnað árið 1990 af þeim Gunnlaugi B. Hjartarsyni og Pétri Þ. Gunnlaugssyni í samstarfi við verkfræðistofuna Línuhönnun. Gunnlaugur sem verið hefur helsti frumkvöðullinn í uppbyggingu fyrirtækisins starfar enn hjá fyrirtækinu og leiðir uppbyggingarstarf þess í Noregi, en Björn Hlíðkvist Skúlason er framkvæmdastjóri fyrirtækisins í dag.
Fyrirtækið þróar hugbúnaðinn MainManager sem er víðtæk heildarlausn fyrir fyrirtæki og opinbera aðila sem vilja hagræða og bæta árangur í rekstri eigna og stýringu þjónustu. Hugbúnaðurinn samanstendur af fjölmörgum einingum og má þar m.a. nefna: Þjónustuborð (HelpDesk), verkbeiðnakerfi, áætlanagerð og verkefnastjórnun, verkbókhald, tímaskráningarkerfi, stjórnun þjónustusamninga, eignakerfi, skjalakerfi og orku- og kerfisvöktun.
Framtíðarsýn ICEconsult er að byggja upp afburða þekkingu og hugbúnað fyrir Facility Management í samvinnu við fræðimenn og fyrirtæki í Evrópu. Til að uppfylla þessa framtíðarsýn er lögð áhersla á að vera í fremstu röð, bæði faglega og tæknilega. Má þar nefna áherslu á orku- og umhverfismál, notkun "mobile" lausna og samspil þrívíddarlíkana og reksturs.
Félagið er með sölustarfsemi í Danmörku og Noregi auk samstarfsaðila í Bretlandi. Fyrirtækið gerði á síðasta ári stóran samning við norska ríkið um eignaumsýslukerfi. Heildarfjöldi starfsmanna í þessum löndum nálgast nú fjórða tuginn, þar af eru 22 starfsmenn hjá móðurfélaginu á Íslandi. Stefnt er að því að hefja sölu á MainManager í Svíþjóð og Ástralíu.
MainManager hefur unnið til alþjóðlegra viðurkenninga og má þar m.a. nefna Future Internet Summit Award í Luxemburg 2011 og Living Lab Global Award 2012.
Naust Marine
Naust Marine er tæknifyrirtæki sem vinnur að þróun og framleiðslu tæknibúnaðar í skip. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í stjórnun rafknúinna togvinda og öðrum rafmagnsbúnaði fyrir fiskiskip.
Fyrirtækið var stofnað árið 1993 upp úr fyrirtækinu Rafboða. Grunnurinn að fyrirtækinu var þróun sjálfvirka togvindukerfisins ATW CatchControl (Autamatic Trawl Winch) sem hefur verið í þróun nokkurra stofnenda fyrirtækisins frá árinu 1971. Það var fyrst smíðað árið 1981 en hefur nú verið sett upp í hátt í hundrað togurum sem gerðir eru út víða um heim.
NaustMarine nú einn helsti framleiðandi stýribúnaðar fyrir rafknúnar togvindur í heiminum en ekkert annað fyrirtæki hefur framleitt stýribúnað fyrir rafknúnar togvindur í jafn mörg skip og Naust Marine.
Auk ATW kerfisins framleiðir Naust Marine AUTO GEN kerfið sem stjórnar álagi og samræmir kraft rafala, rafdrifið vírastýri og sjálfvirk eftirlitskerfi fyrir iðnað. Þá veitir Naust Marine ráðgjöf og þjónustu varðandi rafbúnað í skipum og hönnun þeirra. Fyrirtækið hefur einnig milligöngu um sölu á rafölum og rafmagnsmótorum.
Stefna Naust Marine er að framleiða og þróa búnað sem stuðlar að umhverfisvænni uppbyggingu í sjávarútvegi og iðnaði. Fyrirtækið leggur því mikla áherslu á að rafknúnar vindur taki sem fyrst við af glussadrifnum vindum í allri nýsmíði skipa.
Tuttugu og tveir starfsmenn starfa nú hjá Naust Marine á Íslandi en fyrirtækið rekur einnig söluskrifstofu í Seattle í Bandaríkjunum.