Erasmus+

Menntun og æskulýðsstarf

Ísland hefur tekið virkan þátt í samstarfsáætlunum í menntun og æskulýðsstarfi frá árinu 1995. Frá þeim tíma til ársins 2007 var um þrjár aðskildar áætlanir að ræða, tvær menntaáætlanir og eina æskulýðsáætlun. Frá 2007 til 2013 var um tvær áætlanir að ræða; annars vegar Menntaáætlun ESB (Lifelong Learning Programme) og hins vegar Æskulýðsáætlun ESB (Youth in Action Programme). Þessar tvær áætlanir voru síðan sameinaðar og hafa verið undir hatti Erasmus+ frá 2014. Rannís tók við umsjón með Menntaáætlun ESB árið 2013 sem síðan varð menntahluti Erasmus+. Frá miðju ári 2017 hefur Rannís séð alfarið um rekstur Erasmus+ áætlunarinnar á Íslandi.

Rannís hefur tiltækar upplýsingar um fjölda einstaklinga sem hafa tekið þátt í menntahlutanum frá 1995 og eru þær settar fram eftir skólastigum á mynd 7. Myndin sýnir vel þær breytingar sem verða milli áætlana 1995–1999, 2000–2006 og 2007–2013. Töluverð fjölgun varð í fjölda styrkþega á tímabilinu þar til ný áætlun hófst árið 2014. Þó skal hafa í huga að miklar breytingar urðu þegar mennta- og æskulýðsáætlanirnar voru sameinaðar í Erasmus+ árið 2014 með verulegri aukningu á fjármagni til ráðstöfunar til Íslands. Helstu breytingar voru þær að einstaklingar gátu ekki lengur sótt um, ekki voru lengur veittir styrkir til grunn- og framhaldsskólanema og dregið var úr styrkjum til starfsmanna leik-, grunn- og framhaldsskóla á meðan þeir jukust verulega til háskólastigsins. Því fækkaði þeim einstaklingum sem tóku beinan þátt á ári þrátt fyrir að styrkupphæðir hækkuðu.

Mynd 7. Menntun: Fjöldi styrkþega (einstaklinga) frá Íslandi 1995–2017.*

*Fjöldi einstaklinga sem taka þátt í samstarfsverkefnum frá árinu 2015 er áætlaður til að fá samræmi í tölurnar við fyrri tölur. Fjöldi ferða miðast við umsóknarár.

Til marks um umfangið þá fá allir íslenskir háskólar árlega styrki úr Erasmus+ áætluninni, auk margra leik-, grunn- og framhaldsskóla og fullorðinsfræðsluaðila. Áhrifin eru þó mun meiri en unnt er að mæla með þeim 750 milljónum króna sem árlega er úthlutað til íslenskra aðila eða þeim fjölda Íslendinga sem njóta árlega styrkja. Samstarfið er gagnkvæmt og fólk, þekking og nýsköpun skilar sér inn í íslenskt menntakerfi eftir mörgum leiðum. Þeir sem koma til Íslands eru umtalsvert fleiri en þeir sem fara utan, sem er til marks um það hversu mikill áhugi er á samstarfi við íslenskar stofnanir. Þannig hafa gagnkvæm skipti á nemendum og kennurum skipt mjög miklu máli við alþjóðavæðingu háskólanna og stutt við aukið erlent rannsóknasamstarf þeirra og sambirtingar með evrópskum vísindamönnum. 

Umsýsla umsókna íslenskra aðila í Erasmus+ fer að mestu fram innanlands. Áætluninni er skipt upp eftir menntastigum og í þrjá verkefnisflokka: Nám og þjálfun sem styrkir einstaklinga sem vilja sinna námi og/eða þjálfa sig í starfi í öðru landi; Samstarfsverkefni þar sem veittir eru fáir en tiltölulega háir verkefnistyrkir til samstarfs, þróunar og dreifingar á nýsköpun í menntamálum; og Stefnumótun í æskulýðsstarfi þar sem veittir eru litlir styrkir til að gefa ungu fólki tækifæri til að eiga samtal við ráðamenn. Í töflu 3 má sjá fjölda umsókna í hverjum flokki fyrir sig sem og fjölda samninga ásamt upphæðum.

Tafla 3. Erasmus+: Árangur Íslands eftir undiráætlunum 2014–2017.

* Viðkomandi umsækjendur hafa vottun og fá því nær örugglega styrk.
** Á ekki við samningsupphæðin er bara hlutur íslensku aðilanna á meðan upphæð í umsókn er fyrir alla samstarfsaðilana.
*** Á ekki við, skólar eru aðilar að umsóknum erlendis en samningar eru gerðir á Íslandi.
**** Heildarárangurshlutfall skekkt vegna 100% hlutfalls í sumum flokkum og er það því ekki birt.

Meirihlutanum af því fjármagni sem er til ráðstöfunar í Erasmus+ er skipt milli landa á grundvelli mannfjölda, fjölda nemenda og fleiri lykiltalna. Smærri ríkin njóta almennt góðs af bæði fámenni og fyrirkomulagi sem gerir ráð fyrir lágmarks fjárhæð í tilteknum verkefnisflokkum og að tekið er tillit til hvernig hefur gengið að ráðstafa fjármagni í fyrri áætlunum. Þetta má sjá vel á mynd 8 þar sem styrkir á hvern íbúa eru hæstir í smáríkjunum Íslandi, Lúxemborg og Möltu. 

Mynd 8. Erasmus+: Styrkir í evrum á hvern íbúa 2014–2017.

Í upphafi þátttöku Íslands í menntasamstarfinu voru fleiri sem fóru frá Íslandi til Evrópu en sem komu til landsins; í kringum aldamótin snerist þetta við og fleiri fóru að koma en fara utan. Á tímabilinu 2014–2017 hafa fleiri komið til Íslands en farið frá Íslandi í öllum tegundum ferða eins og mynd 9 ber með sér. Munurinn er mestur í starfsmenntun, á háskólastigi og í fullorðinsfræðslu þar sem ríflega tvöfalt fleiri koma en fara.

Mynd 9. Erasmus+: Fjöldi ferða til og frá Íslandi 2014–2016.

Samstarfsnet íslensku háskólanna sjö er umfangsmikið – en þeir hafa átt í samstarfi við meira en 550 háskóla í 30 löndum á þessu tímabili. Á mynd 10 má sjá frá hvaða löndum Erasmus+ háskólastúdentar koma helst og til hvaða landa þeir fara helst.

Mynd 10. Erasmus+: Flæði háskólastúdenta í náms- og þjálfunarverkefnum 2014–2017.

Ef litið er á samstarfslönd Íslands í Erasmus+ má sjá að Norðurlöndin fara þar fremst í flokki ásamt stóru ESB ríkjunum: Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Spáni. Í töflu 4 má sjá hvaða lönd senda flesta til Íslands í náms- og þjálfunarverkefnum og til hvaða landa er vinsælast að fara frá Íslandi í þessari undiráætlun. Í flokki samstarfsverkefna er miðað við fjölda verkefna sem íslenskir aðilar eru í samstarfi við aðila frá tilteknu landi en þar eru Bretland, Spánn og Ítalía fremst í flokki.


Tafla 4. Erasmus+: Samstarfslönd í Námi og þjálfun og Samstarfsverkefnum.*

Nám og þjálfun Samstarfsverkefni
Frá Íslandi Fjöldi ferða Til Íslands Fjöldi ferða Samstarfsland Fjöldi verkefna
1. Danmörk 719 1. Þýskaland 1651 1. Bretland 78
2. Bretland 643 2. Frakkland 857 2. Spánn 78
3. Þýskaland 492 3. Danmörk 853 3. Ítalía 77
4. Svíþjóð 440 4. Bretland 655 4. Þýskaland 71
5. Spánn 321 5. Svíþjóð 522 5. Finnland 50
6. Noregur 234 6. Finnland 447 6. Pólland 45
7. Finnland 204 7. Spánn 428 7. Svíþjóð 42
8. Frakkland 199 8. Belgía 361 8. Danmörk 41
9. Holland 186 9. Noregur 335 9. Frakkland 37
10. Ítalía 170 10. Pólland 332 10. Grikkland 37

*Tölur eru frá apríl 2018 og ferðirnar tilheyra ekki endilega íslenskum verkefnum í Námi og þjálfun. Tölur um samstarfsverkefni fela í sér fjölda verkefna sem íslenskir og erlendir samstarfsaðilar eru saman í, burtséð frá því í hvaða landi verkefninu er stýrt.

Dæmi um verkefni

Háskólar: Listaháskóli Íslands er virkur í alþjóðlegu samstarfi og hefur nýtt sér Erasmus+ styrki til að efla nemendur sína og starfsfólk. Skólinn leiðir nú samstarfsverkefni evrópskra tónlistarháskóla um þróun meistaranáms fyrir tónlistarfólk sem heitir Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf (NAIP). Námið er einstaklingsmiðað og vinna nemendur að samstarfsverkefnum milli ólíkra tónlistarstíla, listgreina og hópa samfélagsins. Markmið námsins er að nemendur geti þróað og framkvæmt skapandi verkefni við mismunandi aðstæður og orðið leiðtogar á sínu sviði. Verkefnið fékk Erasmus+ styrk árið 2014 og aftur árið 2016, samtals 516.713 evrur. Fyrra verkefninu er lokið en það var metið sem fyrirmyndarverkefni.

Fullorðinsfræðsla: EVRIS er alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki sem hefur leitt tvö fjölþjóðleg samstarfsverkefni sem snúa að virkri þátttöku fólks í námi og samfélagi á þriðja æviskeiðinu. Samtals hefur verið veittur styrkur upp á 377 þúsund evrur til þessara verkefna sem miða að því að auðvelda fólki leiðina að starfslokum með því að skipuleggja fyrirsjáanlegar breytingar tímanlega. Viðfangsefni verkefnisins hefur vakið verðskuldaða athygli hér á landi og í Evrópu og m.a. tók sjónvarpsstöðin BBC viðtöl við aðstandendur verkefnisins. Á vefsíðu verkefnisins má finna leiðarvísi um það á fjórum tungumálum, http://www.ball-project.eu/.

Æskulýðsstarf: LungA listahátíð ungs fólks á Austurlandi er dæmi um verkefni sem hefur með fjölbreyttum hætti nýtt sér Erasmus+ áætlunina og fyrirrennara hennar. Flest ár frá 2006 hefur LungA fengið styrk til þess að skipuleggja ungmennaskiptaverkefni sem tengjast hátíðinni. Þá sótti LungA eitt sinn um frumkvæðisverkefni og árið 2014 var LungA skólinn, sem er afsprengi hátíðarinnar, með þeim fyrstu sem fengu styrk í nýjum flokki þar sem verkefni miða að nýsköpun í æskulýðsstarfi. LungA hefur hlotið alls 550 þúsund evrur í styrk fyrir hin ýmsu verkefni. Áhrif verkefnanna hafa verið mikil, sérstaklega á samfélagið á Seyðisfirði.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica