Opinn aðgangur

Í samræmi við lög um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir (149/2012), skulu niðurstöður rannsókna sem styrktar eru úr sjóðum í umsýslu Rannís birtar í opnum aðgangi. 

Tilgangurinn er að sem flestir geti notið afurða vísindastarfa sem styrkt eru af opinberu fé á Íslandi. Hér undir falla ritrýndar greinar en hvorki bækur, bókakaflar né lokaritgerðir nemenda. Verkefni sem hlotið hafa styrk úr sjóðum Rannís fyrir janúar 2013 falla ekki undir kröfu um birtingu niðurstaðna í opnum aðgangi. Rannís hvetur þó eindregið til þess að sem flestir vísindamenn birti niðurstöður rannsóknaverkefna í opnum aðgangi.

Opinn aðgangur (OA) að vísindagreinum felur í sér að birtar greinar eru aðgengilegar á rafrænu formi á veraldarvefnum, án endurgjalds fyrir notendur og með sem fæstum takmörkunum á nýtingu. Tvær meginleiðir eru að birtingu efnis í opnum aðgangi. Annars vegar birting í tímariti með opinn aðgang, kölluð gullna leiðin, og hins vegar geymsla efnis í opnu varðveislusafni, græna leiðin. Frá janúar 2013 gerir Rannís kröfu um að niðurstöður rannsóknaverkefna sem styrkt eru úr sjóðum í umsýslu Rannís, séu birtar í opnum aðgangi.

Í september 2016 var opnaður aðgangur að varðveislusafninu Opin vísindi sem tekur við greinum frá íslensku háskólunum.

Opin vísindi

Reglur Rannís varðandi OA eru eftirfarandi:

Rannís hvetur vísindamenn til að birta niðurstöður sínar í tímaritum sem alfarið eru gefin út í opnum aðgangi. Mörg hefðbundin áskriftartímarit leyfa höfundum að setja stakar greinar í opinn aðgang gegn gjaldi.

Ef valið er að birta niðurstöður rannsókna í tímariti sem ekki er gefið út í opnum aðgangi, má uppfylla skilyrði Rannís um OA með birtingu í opnu, rafrænu varðveislusafni, samfara birtingu í hefðbundnu lokuðu áskriftartímariti. Lokaútgáfu handritsins eftir ritrýni, skal skilað í varðveislusafnið. Í þeim tilvikum, þar sem útgefandi tímarits leyfir ekki birtingu greina í opnum varðveislusöfnum, samtímis eða innan sex mánaða frá birtingu í tímaritinu, skal höfundur krefjast undanþágu. Rannís veitir frest á opinni birtingu í að hámarki 12 mánuði frá birtingu í lokuðu áskriftartímariti. Skil í varðveislusafn skulu fara fram tafarlaust um leið og tímarit ákveður að taka grein til birtingar. Þetta á við jafnvel þótt um birtingartöf sé að ræða, enda verði greinin þá geymd lokuð í varðveislusafninu tímabundið og aðgangur síðan opnaður sjálfkrafa þegar sá tími rennur út.

Um opinn aðgang á Íslandi








Þetta vefsvæði byggir á Eplica