Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin (IASC)
Markmið IASC er að stuðla að samstarfi um rannsóknir á Norðurheimskautssvæðinu og að veita ráðgjöf til alþjóðasamfélagsins um málefni norðurslóða.
Stofnunin leiðir saman opinberar rannsóknarstofnanir og -samtök frá 23 löndum og hefur skipað sér sess sem einn mikilvægasti alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um rannsóknir og vöktun á norðurslóðum. Auk vísindasamtaka í norðurskautsríkjunum átta eiga aðild að nefndinni vísinda- og rannsóknarstofnanir frá Austurríki, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Indlandi, Ítalíu, Japan, Kína, Portúgal, Póllandi, Suður Kóreu, Spáni, Sviss, Tékklandi og Þýskalandi.
Meginstarfsemi nefndarinnar fer fram í fimm vinnuhópum, sem skipulagðir eru út frá ólíkum viðfangsefnum: Landræn kerfi (Terrestrial), freðhvolf (Cryosphere), hafvísindi (Marine), mann- og félagsvísindi (Human & Social) og gufuhvolf (Atmosphere). Að auki veitir IASC sérstakan stuðning til verkefna sem stuðla að samstarfi þvert á vinnuhópana.
Rannís hýsir skrifstofu IASC í Borgum, rannsókna- og nýsköpunarhúsi á lóð Háskólans á Akureyri, en þar eru fyrir stofnanir sem sérhæfa sig í rannsóknum, vöktun og miðlun upplýsinga um málefni norðurslóða. Á Akureyri er því öflugt norðurslóðasamfélag undir einu þaki sem gæti skapað ýmiss konar samvirkni við IASC skrifstofuna.
Gera má ráð fyrir að starfsemi IASC skrifstofunnar hér á landi geti meðal annars haft eftirfarandi ávinning í för með sér:
- Veitt íslensku vísindasamfélagi aðgang að öflugasta tengslaneti vísindamanna á morðurslóðum og eykur þar með möguleika íslenskra vísindamanna til að vinna með erlendum kollegum, í tengslum við ráðstefnur og rannsóknaverkefni
- Aukið áhuga vísindamanna frá öðrum þjóðum á vísindasamstarfi við Ísland
- Styrkt þá norðurslóðastarfsemi sem fyrir er á Akureyri
- Auðveldað að fleiri alþjóðlegum rannsóknamiðstöðvum verði komið upp hér á landi
Sjá nánar: