Styrkir eru greiddir úr sjóðnum að fengnum reikningum og greiðslustaðfestingu frá umsýsluaðila. Innviðasjóður greiðir að hámarki 75% kostnaðar.
Innviðasjóður veitir styrki til háskóla, opinberra rannsóknastofnana og fyrirtækja. Áður en samningur er undirritaður þurfa þær stofnanir og fyrirtæki sem standa að innviðnum að gera með sér samstarfssamning þar sem fram kemur hvar innviðurinn verður staðsettur sem og hvernig aðgengi og rekstri verður háttað. Í samstarfssamningnum skal einnig koma fram hvernig framkvæmdin verður fjármögnuð í heild.
Rannsóknamiðstöð Íslands gerir samning við fulltrúa styrkþega (forsvarsmann umsóknar) fyrir hönd Innviðasjóðs. Ganga skal frá samningi innan fjögurra mánaða frá tilkynningu um styrk og tækjakaupum innan eins árs ella fellur styrkur niður. Hægt er að sækja um frest til að ganga frá tækjakaupum en slíkt verður að gera formlega fyrir 1. júní úthlutunarárs. Allir styrkir sem ekki er búið að semja sérstaklega um verða afskrifaðir 1. febrúar ársins eftir úthlutun.
Vakin er sérstök athygli á því að greiðslur úr Innviðasjóði miðast við innsendar kvittanir.
Styrkþegar fylla út og skila inn greiðslubeiðni á netfangið innvidasjodur@rannis.is.
Tæki sem keypt eru fyrir styrk úr Innviðasjóði eru undanþegin virðisaukaskatti af framlagi sjóðsins til kaupanna (sjá 35. grein reglugerðar 630/2008 um ýmis tollfríðindi). Niðurfelling hluta virðisaukaskattsins getur ekki talist sem mótframlag.
Samræmi skal vera í reikningum sem sendir eru Innviðasjóði og innviðalista í umsókn þannig að enginn vafi leiki á um hvaða hluta styrksins er að ræða.
Innviðasjóður greiðir út sinn hluta fjármögnunar þegar reikningar og afrit af greiðslustaðfestingu úr heimabanka eða afrit af færslu úr bókhaldskerfi stofnunar hefur borist. Af hverjum reikningi er endurgreitt sem svarar til þess hlutfalls sem fram kemur í umsókn (í mesta lagi 75%). Ekki er nauðsynlegt að senda afrit af tilboðum, tölvupóstsamskiptum eða úttektarbeiðnum nema sérstök ástæða þyki til. Ef um launakostnað vegna söfnunar nýrra gagna við uppbyggingu og/eða uppfærslu á gagnagrunni er að ræða er hægt að fá 1/3 hluta greiddan við undirritun, 1/3 hluta þegar verkið er hálfnað og afganginn þegar launayfirlit liggur fyrir við lok verksins.
Ef um mörg tæki er að ræða safnar styrkþeginn saman greiðslukvittunum og styrkurinn verður borgaður út þegar allt hefur verið greitt. Hægt er að
veita undanþágu frá þessu ákvæði ef nauðsyn ber
til.
Innviðasjóður hefur ekki umsýslu með styrkfé að öðru leyti en því að endurgreiða sinn hluta kostnaðar inn á reikning styrkhafa eftir að kauð hafa átt sér stað. Standi fleiri en ein stofnun að umsókn þurfa þær innbyrðis að ákveða hver tekur við styrknum og eru umsækjendur ábyrgir fyrir því að styrknum sé rétt deilt milli þeirra sem koma að umsókninni.