Tillögur að innviðum á vegvísi

Sendar inn í júní 2020

GAGNÍS - opin gögn í félagsvísindum á Íslandi

Heiti stofnunar: Félagsvísindasvið Háskóla Íslands

Tengiliður: Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, gudbjorg@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum 

Gagnaþjónusta félagsvísinda á Íslandi (GAGNÍS) var stofnuð í árslok 2018. Stofnun gagnaþjónustunnar er í samræmi við markmiðin sem sett voru fram í stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017-2019 og HÍ21 stefnu Háskóla Íslands. GAGNÍS, sem Félagsvísindasvið HÍ starfrækir, safnar og veitir aðgang að íslenskum félagsvísindagögnum í víðum skilningi og tekur við margvíslegum tegundum megindlegra og eigindlegra gagna, s.s. úr könnunum, viðtölum og frá rýnihópum, ekki síst tengdum samfélagslegum áskorunum á sviði heilsu og vellíðanar, umhverfis og sjálfbærni. Helstu notendur gagnaþjónustunnar eru fræðafólk og háskólakennarar á Íslandi, sem fá fulla þjónustu, bæði til að nota gögn og senda inn gögn, má þar nefna aðstoð við gerð gagnaáætlunar (e. data management plan) og ráðgjöf um hvernig nýta má fyrirliggjandi gögn. Öðrum aðilum, m.a. stjórnsýsluaðilum og öðrum opinberum aðilum, nemendum, skólum, fjölmiðlafólki og almenningi, er einnig velkomið að nota gögnin og leggja til gögn, að því tilskildu að farið sé að öllum reglum GAGNÍS og að notkun sé ekki í viðskiptalegum tilgangi. 

GAGNÍS býr að stóru stuðningsneti, þar á meðal öllum þjónustuveitendum innan CESSDA ERIC (Consortium of European Social Science Data Archives), samtökum um gagnaþjónustu í félagsvísindum í Evrópu, sem er hluti af vettvangi evrópskrar stefnumótunar um rannsóknarinnviði (ESFRI) og órjúfanlegur hluti af íslenskum rannsóknarinnviðum. GAGNÍS vinnur samkvæmt stöðluðum verk- og gæðaferlum CESSDA sem endurspegla bestu starfsvenjur um meðhöndlun gagna. Einn af mörgum kostum þess að vera aðili að CESSDA er greiður aðgangur að ýmsum efnivið, s.s. verkferlum, eyðublöðum og fræðsluefni, auk þjálfunar og leiðsagnar sem byggir á áralangri reynslu og uppsafnaðri þekkingu innan samtakanna.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum er að stuðla að opnu aðgengi að rannsóknagögnum á Íslandi og auðvelda til muna aðgengi, finnanleika og nýtingarmöguleika vísindagagna, hvort sem er til kennslu, frekari rannsókna eða stefnumótunar. Markmiðið er að tryggja aðgengi að hágæða gögnum hérlendis og áframhaldandi nýtingu þeirra og varðveislu. Uppbygging á rannsóknarinnviðunum er þáttur í því að Háskóli Íslands sinni samfélagslegu hlutverki sínu í miðlun þekkingar sem sköpuð hefur verið í krafti almannafjár. Krafa um opið aðgengi að gögnum sem safnað er fyrir almannafé er stöðugt að aukast og mun þetta verkefni svara henni á skýran hátt og vera liður í því að hrinda í framkvæmd stefnu stjórnvalda og hins alþjóðlega vísindasamfélags um opin vísindi.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Uppbygging GAGNÍS stuðlar að opnum aðgangi, samræmingu og samlegð á rafrænni rannsóknaþjónustu. Með þjónustunni er stefnt að því að efla tengsl á milli háskóla, rannsóknastofnana og þeirra sem bjóða upp á rannsóknaþjónustu, en einnig að efla tengsl við stjórnvöld, opinbera stjórnsýslu, rannsóknasjóði, alþjóðasamtök og sérfræðinga í stefnumótun. Aðgengi erlends fræðafólks að innlendum gagnasöfnum mun einnig auka sýnileika íslenskra rannsókna á alþjóðavettvangi og hvetja til aukins samstarfs íslensks og erlends fræðafólks. Í undirbúningi er að bæta íslensku inn í viðamikið íðorðasafn CESSDA í félagsvísindum, ELSST (European Language Social Science Thesaurus), í samstarfi við UK Data Service og University of Essex. Þar með verða íslensk gögn sýnileg og finnanleg erlendu fræðafólki sem getur leitað að gögnum eftir stöðluðum efnisorðum á þeim 14 tungumálum sem nú þegar eru í ELSST.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Uppbyggingin mun gjörbreyta aðstæðum til rannsókna hérlendis, bæði á sviði félagsvísinda og í öðrum fræðigreinum. Gríðarlegt magn er til af gögnum hérlendis sem má endurnýta, hvort heldur sem efnivið í nýjar greiningar eða kveikju að nýjum rannsóknahugmyndum. Hins vegar er afar lítil yfirsýn yfir þau gögn sem safnað hefur verið, þau eru almennt ekki í opnum aðgangi og nýtast þar með ekki sem skyldi. Þetta mun breytast með uppbyggingu GAGNÍS. Í fyrsta lagi mun verða betri yfirsýn yfir íslensk rannsóknagögn sem hægt er að endurnýta. Í öðru lagi mun þjónustan tryggja örugga varðveislu gagnasafna og opinn aðgang að þeim til framtíðar. Í þriðja lagi auðveldar þjónustan styrkveitendum og fræðafólki að leggja mat á þörf fyrir frekari gagnasöfnun. Í fjórða lagi gerir þjónustan fræðafólki kleift að uppfylla auknar kröfur styrktaraðila um opinn aðgang gagna sem safnað er fyrir almannafé. Í fimmta lagi mun uppbyggingin leiða til aukinnar þekkingar og reynslu hérlendis í umsýslu stórra og smárra gagnasafna, samkvæmt alþjóðlega DDI staðlinum (Data Documentation Initiative) um opinn aðgang að félagsvísindagögnum og varðveislu þeirra. Eitt meginmarkmið með þróun staðalsins er að koma gögnum og tilheyrandi skjölum á staðlað og notendavænt form þannig að þau séu finnanleg og aðgengileg í öllum löndum og að sjálfvirk tölvukerfi geti fundið og greint gögnin með engri eða takmarkaðri aðkomu fólks (e. Machine-actionable data).

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Með uppbyggingu gagnaþjónustunnar verður hægt að taka á móti vísindagögnum frá ýmsum fræðasviðum sem nýtast við þekkingaröflun og skilning á þáttum er stuðla að heilbrigði og velferð í íslensku samfélagi. Aðgengi fræðafólks og almennings að hágæða gögnum sem sýna breytingar og þróun íslensks samfélags og tengjast margvíslegum efnisflokkum og nýjum tegundum lausna, kallar á aukinn þverfagleika og betri nýtingu á gögnum. Þetta á m.a. við um það þegar fjallað er um líðan, vinnu og einkalíf, jafnrétti, lýðheilsu og samfélagslega fjölbreytni svo eitthvað sé nefnt. Aðgengi að gögnunum auðveldar opinberum aðilum og öðrum framtíðarsýn, stefnumótun og markmiðssetningu þar sem byggt er á þekkingu, jafnframt því sem það gagnast við rannsóknir til að finna leiðir og úrræði til lausnar aðkallandi viðfangsefnum.

Með þessum traustu stoðum er hægt að styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir. Fjármálakreppan 2008, rétt eins og COVID-19, eru atburðir sem kalla á samhæfingu vísindasamfélagsins til að auðvelda fræðafólki og sérfræðingum að finna og deila gögnum, á skjótan og skilvirkan hátt, í þeim tilgangi að skapa þekkingu og þróa lausnir. GAGNÍS getur orðið miðstöð fyrir gagnasöfn tengd COVID-19 í líkingu við sænsku vefgáttina Covid19dataportal.org, sem rekin er af sænska rannsóknarráðinu og SciLifeLab sem er miðstöð í sameindalíffræði. Það verður forgangsmál hjá GAGNÍS að setja gögn tengd COVID-19 og öðrum brýnum samfélagslegum áskorunum í opinn aðgang.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Hjá GAGNÍS starfa einn gagnastjóri og tveir sérfræðingar í gagnavinnslu. Gagnastjóri veitir gagnaþjónustunni forystu og annast ýmis verkefni, m.a. kynningarstarfsemi og samskipti við innlenda og erlenda hagsmuna- og samstarfsaðila. Sérfræðingarnir sinna ýmsum verkefnum, m.a. hreinsun gagna og ráðgjöf við notendur. Gagnaþjónustan er í markvissri uppbyggingu og samþykkt hefur verið þróunaráætlun þar sem stefnt er að alþjóðlegri gæðavottun, með stuðningi frá CESSDA. Í fyrsta áfanga tekur GAGNÍS aðallega við gögnum frá Félagsvísindasviði HÍ en samstarf við önnur svið háskólans er fyrirhugað, sem og aðra innlenda háskóla og rannsóknastofnanir.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Þátttökugjöld í CESSDA ERIC taka mið af vergri landsframleiðslu (GDP). Áætlaður kostnaður við þátttöku Íslands er áætlaður um það bil 1.500 evrur á ári og hefur Háskóli Íslands staðfest að hann muni greiða þann kostnað.

Áætlaður rekstrarkostnaður gagnaþjónustunnar, miðað við að þrír starfsmenn starfi við hana í fullu starfi er um 45 milljónir kr. á ári. Ljóst er að eftir því sem umfang þjónustunnar eykst verður þörf á meiri mannafla, með tilheyrandi aukningu á rekstrarkostnaði. Ef áform um uppbyggingu ganga eftir er reiknað með að rekstrarkostnaður verði u.þ.b. 70 milljónir á ári.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sótt um aðild að CESSDA ERIC og falið GAGNÍS að vera þjónustuaðili fyrir Íslands hönd. Umsóknin verður tekin fyrir á aðalfundi CESSDA þann 17. júní 2020. CESSDA ERIC er þátttakandi í SSHOC (Social Sciences & Humanities Open Cloud) verkefninu sem er styrkt af H2020 áætluninni. Fjölmargir evrópskir rannsóknarinnviðir á sviði félagsvísinda og hugvísinda eiga aðild að því verkefni en meginmarkmið þess er að vinna að því að byggja upp gagnaský (Social Sciences & Humanities Open Cloud) á þessum sviðum og tengingu við European Open Science Cloud (EOSC). Þessu samstarfi er ætlað að stuðla að nýsköpun í uppbyggingu og stuðningi rannsóknarinnviðanna við rafræn vísindi (e. Digital scholarship) og hvetja til þverfaglegrar samvinnu og auka þar með samfélagsleg áhrif. 

Íslenska kosningarannsóknin

Heiti stofnunar: Háskóli Íslands

Tengiliður: Eva Heiða Önnudóttir, eho@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Íslenska kosningarannsóknin (ÍsKos) er viðamikill gagnagrunnur sem gegnir burðarhlutverki innan félagsvísinda á Íslandi og í íslensku samfélagi. Ólafur Þ. Harðarson vann frumkvöðlastarf í uppbyggingu innviða í íslenskum félagsvísindum þegar hann hleypti kosningarannsókninni af stokkunum árið 1983. Ólafur sá nær einn um framkvæmd ÍsKos samfleytt til ársins 2013 þegar Eva H. Önnudóttir, nú dósent í stjórnmálafræði við HÍ, tók við því hlutverki eftir að hafa unnið við hlið Ólafs frá 2003. Auk þeirra Ólafs og Evu, samanstendur núverandi stjórnunar- og rannsóknateymi ÍsKos af Huldu Þórisdóttur dósent við stjórnmálafræðideild, Agnari Frey Helgasyni lektor í stjórnmálafræðideild og Jóni Gunnari Ólafssyni starfandi forstöðumanni Alþjóðamálastofnunnar og væntanlegur nýdoktor við stjórnmálafræðideild HÍ frá og með 1. september 2020. 

Gagnagrunnurinn felur í sér í dag þrjá hluta sem eru kannanir meðal kjósenda eftir kosningar (kjósendahluti), meðal kjósenda á meðan á kosningabaráttu stendur (kosningabaráttuhluti) og meðal frambjóðenda þeirra stjórnmálaflokka sem ná kjöri á þing (frambjóðendahluti). Kjarni ÍsKos er kjósendahlutinn sem er í formi viðamikillar spurningakönnunarsem hefur verið lagður fyrir eftir hverjar kosningar til Alþingis síðan 1983. Gætt hefur verið samræmis í spurningum á milli ára og kjósendahluti ÍsKos myndar þannig gagnagrunn byggðan á lengstu tímaröð spurningakannana sem til er innan félagsvísinda á Íslandi. Í kosningabaráttu-hlutanum, sem var bætt við árið 2016 er greint, dag frá degi, hvort og hvaða breytingar verða á afstöðu kjósenda til stjórnmálaflokkanna og hvaða flokk þeir hyggjast kjósa. Frambjóðendahlutinn var fyrst framkvæmdur árið 2009, þar sem lagður var viðamikill spurningalisti fyrir frambjóðendur um t.d. kosningabaráttuna, upplýsingamiðlun og afstöðu þeirra til lýðræðis. Frambjóðendakönnunin varð formlega hluti af ÍsKos árið 2013.

Kjósendahluti í ÍsKos hefur verið í opnum aðgangi frá árinu 2011. Fyrir þann tíma fengu þó allir þeir fræðimenn og rannsakendur aðgang að gögnum ÍsKos sem eftir því óskuðu. Gagnagrunnurinn er hýstur hjá í GAGNÍS, gagnaþjónustu Félagsvísindastofnunnar Háskóla Íslands. Til stendur á næstkomandi vetri að birta á sama vettvangi kosningabaráttuhlutann í opnum aðgangi og frambjóðendahlutann í hálf-opnum aðgangi þar sem sækja þarf um aðgang, og sé hann veittur, skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu um meðhöndlun og notkun gagnanna.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Eitt af meginmarkmiðum með uppbyggingu rannsóknainnviða ÍsKos er að tryggja áframhald gagnagrunnsins og aðgengi fræðimanna, innlendra sem erlendra, að gagnagrunni ÍsKos. Umfang og sú tímalengd sem ÍsKos spannar gerir gagnagrunninn að einstöku framlagi til rannsókna á sviði félagsvísinda á Íslandi og mikilvægt að tryggja áframhald ÍsKos.

Kosningarannsóknir eru mikilvægt tæki til að skilja hvernig fulltrúalýðræði virkar í framkvæmd. Í kjósendahluta ÍsKos hefur frá upphafi verið lögð áhersla á að greina annars vegar hvað tengist því hvaða flokk fólk kýs og hins vegar kosningaþátttöku. Við þetta hafa bæst veigamiklir þættir sem eru til dæmis annars konar stjórnmálaþátttaka en að kjósa, afstaða og væntingar til lýðræðis, afstaða til umfangs hins opinbera, hugmyndafræðileg afstaða, pólitískt traust og önnur mikilvæg málefni á vettvangi stjórnmála. Jafnframt hefur bæst við greining á afstöðu og bakgrunni frambjóðenda, sem gerir meðal annars kleift að bera frambjóðendur og flokka saman við kjósendur, og greining á kosningabaráttunni þar sem meðal annars er hægt að greina breytingar á fylgi og hvar kjósendur sækja sér upplýsingar um stjórnmál.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Fjölmargar greinar, bókakaflar og bækur hafa verið gefnar út þar sem settar eru fram niðurstöður byggðar á Ískos og algengt er að tveir eða fleiri komi að hverju verki. Höfundar og aðrir sem hafa notað gögnin hafa komið frá fjölmörgum háskólum eða starfa við ólíkar stofnanir (t.d. innan hins opinbera eða hjá fjölmiðlum). Notkun gagnagrunnsins hefur aukist til muna eftir að gögnin voru sett í opinn aðgang árið 2011 og hefur ÍsKos verið í fararbroddi innan félagsvísinda hvað varðar opinn aðgang að gögnum. Gagnagrunnur ÍsKos hefur jafnframt verið notaður umstalsvert í kennslu í stjórnmálafræði og aðferðafræði félagsvísinda, og fjölmargir nemendur, bæði við HÍ og aðra háskóla hafa notað gagnagrunn ÍsKos í lokaverkefnum á BA/BS eða meistarastigi. 

Áframhaldandi innviðauppbygging ÍsKos mun festa í sessi þau samstarfsverkefni sem eru nú þegar í gangi og opna möguleika á enn frekari samstarfsverkefnum, hvort sem um samstarf á milli fræðimanna og háskólastofnanna er að ræða á innlendum eða erlendum vettvangi, eða samstarfsverkefni og upplýsingamiðlun meðal stofnanna, fyrirtækja og/eða háskóla.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Hljóti ÍsKos stöðu á Vegvísi um rannsóknainnviði mun meginbreytingin vera sú að tryggja áframhald verkefnisins til lengri tíma heldur en eingöngu einar kosningar í senn líkt verið hefur fram að þessu. Með því verður tryggt að fræðimenn sem og aðrir munu áfram hafa aðgang að uppfærðum gagnagrunni ÍsKos. Í gegnum tíðina hefur ÍsKos að meginhluta verið fjármagnað með styrkjum frá Rannís. Framan af hlaut ÍsKos styrki úr Rannsóknasjóði Rannís, en 2016 úr Innviðasjóði Rannís. Árið 2017 hlaut ÍsKos framlag á fjáraukalögum Alþingis til að uppfæra gagnagrunninn það ár, en leitað var til fjárlaganefndar Alþingis á þessum tíma þar sem ekki var svigrúm til þess að afla styrkja eftir öðrum leiðum sökum þess með hve skömmum fyrirvara kosningar 2017 báru að. Sótt hefur verið um styrk frá Innviðasjóði Rannís fyrir ÍsKos 2021 vegna fyrirhugaðra Alþingis kosninga á næsta ári.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Þær samfélagslegu áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir hvað varðar umræðu um fulltrúalýðræði, gegnsæi í ákvarðanatöku, upplifun fólks á spillingu og ánægja eða óánægja með framkvæmd lýðræðis, hlutverk fjölmiðla og stjórnmálaflokka í lýðræðissamfélagi eru allt lykilspurningar sem gagnagrunnur ÍsKos getur varpað ljósi á.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Eitt af meginmarkmiðum stjórnunarteymis ÍsKos er að tryggja fjármögnun verkefnsins til lengri tíma og að festa ÍsKos í sessi sem varanlegan rannsóknainnvið í félagsvísindum á Íslandi. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að bæta við veigamiklum þáttum við kjósendahluta ÍsKos, líkt og víða erlendis (t.d. í Svíþjóð, Þýskalandi og á Bretlandki), sem eru nú frambjóðendahluti og kosningabaráttuhluti. Til stendur að bæta við greiningu á fjölmiðlanotkun og upplýsingamiðlun í ÍsKos 2021 sem varanlega hluta af gagnagrunni ÍsKos til framtíðar.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Meginkostnaður við ÍsKos er gagnaöflun í kringum Alþingiskosningar. Byggt á áætlun um kostnað vegna ÍsKos 2021, má gera ráð fyrir að kostnaður vegna gagnaöflunnar, frágangs gagna og birtingar þeirra í opnum aðgangi sé um 20-23 milljónir við hverjar kosningar. Að því gefnu að haldnar verða þrennar kosningar á fjögurra ára fresti innan næstu 10 ára (2021, 2025, 2029) má gera ráð fyrir því að áætluð fjármögnunarþörf ÍsKos sé á bilinu 60-69 milljónir.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

ÍsKos er hluti af alþjóðlegum samstarfsverkefnum um kosningarannsóknir, þar sem meðal annars hluti gagna ÍsKos eru birt í alþjóðlegum gagnagrunnum. Gögn ÍsKos eru aðgengileg í gegnum opinn aðgang hjá Comparative Study of Electoral Systems. Á næstu misserum verður gagnagrunnur True European Voter (TEV)  sem ÍsKos er hluti af, birtur í opnum aðgangi hjá GESIS sem er þýsk rannsóknastofnun í félagsvísindum og ein sú allra öflugasta í Evrópu. Gögn úr frambjóðendahluta ÍsKos, sem eru hluti af Comparative Candidate Surveys (CCS) , eru í hálf-opnum aðgangi (þarf að sækja um að fá aðgang) hjá FORS/DARIS rannsóknastofnun sem er staðsett í Sviss. ÍsKos er jafnframt hluti af samstarfsverkefnunum Nordic Electoral Democracy (NED) og Monitoring Electoral Democracy (MEDem). Um þessar mundir vinna stjórnendur MEDem að ESFRI umsókn sem er um uppbyggingu rannsóknainnviða innan ESB/EES.

European Social Survey - ERIC 

Heiti stofnunar: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands

Tengiliður: Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, gudbjorg@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

ESS ERIC, er rannsókn sem hefur verið gerð í Evrópu frá árinu 2002 en stofnað var til samstarfsins árið 2001. ESS hefur haft stöðu evrópskra rannsóknarinnviða (ERIC) frá árinu 2013 og hefur verið á ESFRI vegvísinum frá árinu 2006 og hefur því skapað sér sterka stöðu á meðal mikilvægustu rannsóknarinnviða á sviði félagsvísinda í Evrópu og eru öll gögn í opnum aðgangi.

Eitt af meginmarkmiðum ESS ERIC er að fylgjast með breytingum á viðhorfum og félagslegum aðstæðum í Evrópu og eru því ákveðnar kjarnaspurningar í hverri lotu rannsóknarinnar um traust, áhuga á stjórnmálum, trúmál, þjóðernisvitund, fordóma, fjölskylduaðstæður, félagslegan bakgrunn o.fl. Að auki eru tvö meginviðfangsefni eða þemu í hverri lotu rannsóknarinnar.

ESS rannsóknin var hönnuð sérstaklega með hliðsjón af kenningum í félagsvísindum og með þarfir fræðasamfélagsins í huga. Gögnin hafa þó einnig mjög hagnýtt gildi og hafa verið mikið notuð til að veita stjórnvöldum, stefnumótunaraðilum og stofnunum upplýsingar um stöðu mála í hverju landi og samanburð á milli landa.

Ísland hefur fjórum sinnum tekið þátt í rannsókninni, árin 2004, 2012, 2016 og 2018 og afar brýnt er að tryggja áframhaldandi og stöðuga þátttöku Íslands í því skyni að byggja upp langtíma gagnagrunn um félagsgerð, aðstæður og viðhorf á Íslandi í alþjóðlegum samanburði.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Um er að ræða uppbyggingu rannsóknarinnviða í félagsvísindum sem felur í sér gagnagrunn um félagsgerð, aðstæður og viðhorf. Sérstaða gagnagrunnsins felst í nýjum möguleikum fyrir fræðafólk með því að veita því aðgengi að vönduðum og samanburðarhæfum gögnum um viðhorf, gildi og hegðun íbúa í fjölmörgum Evrópulöndum. ESS ERIC er rannsókn sem gerð er annað hvert ár um alla Evrópu og gefur því einstakt tækifæri til að bera Ísland saman við önnur Evrópulönd. Meginmarkmið ESS ERIC eru:

  • að kortleggja stöðugleika og breytingar í þjóðfélagsgerð, aðstæðum og viðhorfum í Evrópu og greina hvernig félagslegt, pólitískt og siðferðislegt landslag álfunnar er að þróast;
  • að auka gæði í alþjóðlegum rannsóknum í félagsvísindum með því að leggja áherslu á og gera ríkar kröfur til hönnunar spurningalista og forprófunar, úrtaksgerðar, gagnaöflunar, áreiðanleika spurninga og að draga úr hvers kyns skekkjum;
  • að þróa vel ígrundaða félagsvísa til að meta þjóðfélagslegar framfarir sem byggja á viðhorfi og mati íbúa á lykilsviðum þess þjóðfélags sem þeir búa í;
  • að byggja upp og stuðla að þjálfun evrópskra félagsvísindamanna í megindlegum samanburðarmælingum og úrvinnslu;
  • að auka sýnileika og aðgengi að gögnum um þjóðfélagslegar breytingar fyrir fræðafólk, stjórnvöld og almenning;

Aðgangur að gagnasafninu er öllum opinn án endurgjalds og mun því fræðafólk, stjórnvöld, stefnumótunaraðilar og fleiri geta nýtt sér gögnin. Gagnagrunnurinn mun einnig nýtast við menntun og þjálfun. Uppbygging gagnagrunns af þessu tagi tryggir að hægt sé að þjálfa næstu kynslóð vísindamanna á sviði félagsvísinda í söfnun og meðhöndlun gagna af þessari stærðargráðu. Þátttaka Íslands í ESS ERIC er því grundvöllur þess að styrkja meistaranám og doktorsnám í greinum eins og félagsfræði, félagsráðgjöf, stjórnmálafræði og sálfræði í íslenskum háskólum. Gagnagrunnurinn eykur möguleika rannsakenda, nemenda og kennara í háskólum og á öðrum skólastigum til þess að vinna með góð rannsóknargögn og kynnast þannig betur þróun og einkennum íslensks þjóðfélags í evrópskum samanburði. Gögn af þessum toga, þar sem spurt er um afstöðu til margvíslegra málaflokka, eru þverfagleg og nýtast því ekki eingöngu í öllum greinum félagsvísinda heldur einnig á öðrum sviðum s.s. í hugvísindum, menntavísindum, heilbrigðisvísindum og raunvísindum og gera þannig möguleg þverfagleg verkefni sem ekki væri hægt að vinna án þessara upplýsinga. Nemendur munu nýta rannsóknagögn fyrir lokaverkefni og kennarar munu, auk eigin rannsóknarverkefna, nýta gögnin sem efnivið í smærri nemendaverkefni t.d. við þjálfun í rannsóknavinnu og úrvinnslu gagna eða sem heimild um íslenskt þjóðfélag í evrópskum samanburði.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Í hverri lotu ESS eru ákveðnar kjarnaspurningar sem þykja mikilvægar til að fylgjast með þjóðfélagsbreytingum, s.s. um félagslegt- og pólitískt traust, stjórnmálaþátttöku og fjölmiðlanotkun, líkamlega og andlega vellíðan, þjóðerniskennd og viðhorf til innflytjenda og minnihlutahópa, trúarbrögð og almenn lífsgildi. Innviðauppbyggingin mun þ.a.l. veita einstakt tækifæri til að greina breytingar á félagsgerð, aðstæðum og viðhorfum yfir tíma. Að auki eru tvö meginviðfangsefni eða þemu í hverri lotu rannsóknarinnar sem valin eru með hliðsjón af samfélagslegum áskorunum sem Evrópulönd standa frammi fyrir á hverjum tíma. Þannig má nefna að í lotu 10, veturinn 2020-2021, verður sérstaklega spurt um COVID 19 faraldurinn og áhrif hans á daglegt líf Evrópubúa. Innviðauppbyggingin gefur því einstaka möguleika á að bera aðstæður og viðhorf á Íslandi saman við önnur Evrópulönd. Gögnin eru ekki einungis mikilvæg fyrir fræðafólk heldur einnig fyrir ýmsar opinberar stofnanir og ráðuneyti. Samnorrænir félagsvísar er eitt fjölmargra verkefna sem Hagstofa Íslands og félagsmálaráðuneytið taka þátt í. Þessir félagsvísar byggja að hluta á gögnum frá ESS ERIC og því er áframhaldandi þátttaka Íslands afar mikilvæg. Gögn ESS ERIC munu einnig nýtast öðrum stofnunum, svo sem Embætti Landlæknis, mennta- og menningarmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar og umhverfisráðuneyti.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Uppbygging rannsóknarinnviðanna er mikilvægur þáttur í því að fylgjast með áhrifum samfélagsbreytinga á líf fólks. Til þess að mæta samfélagslegum áskorunum er nauðsynlegt að afla þekkingar á íslensku samfélagi og greina hvar Ísland stendur miðað við önnur lönd. Samkvæmt Vísinda- og tækniráði snúa brýnustu samfélagslegu áskoranir næstu áratuga að umhverfismálum og sjálfbærni, heilsu og velferð og lífi og störfum. Eitt af meginmarkmiðum ESS ERIC er að kortleggja breytingar og þróun evrópskra samfélaga og ræðst valið á meginþemum spurningalistans af helstu áskorunum sem þessi samfélög standa frammi fyrir á hverjum tíma. Þátttaka Íslands í ESS ERIC veitir því einstakt tækifæri til þess og greina breytingar á viðhorfum landsmanna, m.a. til umhverfismála og loftslagsbreytinga, fylgjast með heilsu fólks og líðan, hvernig fólki tekst að samræma vinnu og einkalíf og skoða þróun í menntun og störfum. Upplýsingar úr ESS ERIC nýtast ekki aðeins við stefnumótun í þessum málaflokkum heldur ekki síður til þess að meta árangur stefnumótunar og átaksverkefna ýmiss konar.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Gagnaöflun í ESS ERIC fer fram með heimsóknarkönnun þar sem spyrill leggur spurningar fyrir svarendur og skráir svör í tölvu en almennt er talið að viðtöl augliti til auglitis við svarendur sé áreiðanlegasta gagnaöflunaraðferðin og sú sem best sé að nota í fjölþjóðlegum rannsóknum. Helstu vankantar þessarar aðferðar eru þeir að gagnaöflun er bæði tímafrek og dýr. ESS ERIC hefur því lagt mikla vinnu í að leita leiða til að auka sjálfbærni rannsóknarinnviðanna og skilvirkni án þess að fórna nokkru í gæðum. Nú nýverið hlaut ESS ERIC styrk úr áætluninni H2020-INFRADEV-2018-2020 til að byggja langtímarannsóknarsnið inn í ESS þar sem þátttakendur í 12 löndum, þar á meðal Íslandi, verða beðnir um að svara 7 könnunum á átján mánaða tímabili á netinu. Meginmarkmiðið með verkefninu sem gengur undir heitinu ESS-SUSTAIN er að skoða hvort hægt sé að tryggja jafn mikil gæði gagna sem aflað er með netkönnun og heimsóknarkönnun. Vonir standa til þess að þannig verði hægt að draga úr gagnaöflunarkostnaði og auka sveigjanleika rannsóknarinnar þegar fram í sækir en vegna mismikils aðgengis að neti og mismikillar notkunar upplýsingatækni í löndum Evrópu má þó gera ráð fyrir að gagnaöflun verði með óbreyttu sniði að minnsta kosti næstu fjögur árin.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Auk þess að standa straum af kostnaði við gagnaöflun í sínu landi greiða aðildarlönd ESS ERIC þátttökukostnað til að standa straum af miðlægri skipulagningu og þjónustu. Aðildargjaldið er tengt GDP og greiðir Ísland nú €21.855 (rúmar 3 milljónir króna) á ári í þátttökugjöld. Kannanir eru gerðar annað hvert ár og er kostnaður vegna gagnaöflunar, úrvinnslu og undirbúnings gagna fyrir opinn aðgang tæpar 40 milljónir. Árlegur kostnaður við þáttöku Íslands í ESS ERIC er því áætlaður um 23-24 milljónir króna.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

ESS ERIC hefur lagt áherslu á samstarf við aðra evrópska rannsóknarinnviði á sviði félagsvísinda meðal annars í gegnum SERISS verkefnið sem styrkt var af H2020 en það hefur beint athygli að þremur lykiláhersluatriðum, þ.e. helstu áskorunum í fjölþjóðlegri gagnaöflun, að brjóta niður múra og byggja upp samstarf á milli rannsóknarinnviða og að undirbúa félagsvísindi fyrir framtíðina. Meðal annars er nú til skoðunar hvort hægt sé að sameina ESS ERIC og European Values Study (EVS) sem er evrópsk lífgildakönnun sem gerð hefur verið á níu ára fresti frá árinu 1981 og Ísland hefur átt aðild að. ESS ERIC er jafnframt þátttakandi í SSHOC (Social Sciences & Humanities Open Cloud) verkefninu sem segja má að hafi tekið við af SERISS og er einnig styrkt af H2020 en í því felst þverfaglegt samstarf milli rannsóknarinnviða í félagsvísindum og hugsvísindum til að þróa þessi svið innan European Open Science Cloud (EOSC). Samstarfið er talið munu stuðla að því að evrópskir rannsóknarinnviðir í félagsvísindum leiki æ stærra og mikilvægara hlutverk í því að takast á við samfélagslegar áskoranir sem Evrópa stendur frammi fyrir og tryggja að stefnumótun í Evrópu og einstökum löndum álfunnar byggi á traustum grunni hágæða rannsóknagagna um félags- og efnahagslega stöðu.

Söguleg íslensk málgögn

Heiti stofnunar: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Tengiliður: Ásta Svavarsdóttir, asta.svavarsdottir@arnastofnun.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Verkefnið felur í sér uppbyggingu á stóru rafrænu safni með sögulegum málgögnum. Gögnin yrðu samhæfð og leitarbær í heild sinni til rannsókna. Áhersla verður lögð á notagildi við málrannsóknir en gögnin myndu einnig nýtast í sögulegum rannsóknum á öðrum sviðum hugvísinda. Kjarninn í þessu safni yrðu orðfræðileg gögn sem varðveitt eru á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM), orðalistar, notkunardæmi, greiningargögn o.fl., en þar við bættust heilir rafrænir textar af ýmsu tagi, endurgerð gamalla orðabóka, uppskriftir á einkabréfum o.fl. Megnið af efninu er þegar til rafrænt, t.d. úr rannsóknar- eða útgáfuverkefnum, en það er dreift, á mismunandi sniði og misvel skráð. Eigi að síður verður nauðsynlegt að bæta við efni til að fylla upp í eyður þannig að efniviðurinn myndi heilsteypt málsafn með fjölbreyttum textum frá tímabilinu ca. 1550-1980. Einnig verður horft til mögulegra tenginga við eldri gögn, bæði gagnasafn fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn (ONP) og textasöfn með fornmálstextum.

Í uppbyggingu innviðarins felast nokkur skref: (1) kortlagning og skráning á tiltækum gögnum (metadata); skráningin mun taka mið af stöðlum CLARIN-ERIC og verður öllum aðgengileg hjá íslensku CLARIN-miðstöðinni ; (2) mat á nauðsynlegum viðbótum m.t.t. aldurs gagnanna og eðlis (uppruna, málsniðs og stíls o.s.frv.); (3) val og úrvinnsla á viðbótargögnum (skönnun, ljóslestur, skráning o.fl.); (4) samræming á sniði gagnanna; miðað verður við alþjóðlega staðla fyrir sambærileg gögn; (5) vélræn greining á textum (lemmun og mörkun); (6) gerð gagnagrunns og/eða tengingar á milli gagnagrunna (sumt af því sem til er er þegar varðveitt í gagnagrunni); (7) gerð sameiginlegs leitarviðmóts, t.d. með vefgátt sem leitar í mörgum gagnagrunnum í einu. Umbúnaður um textagögn yrði þannig að hægt væri að skoða þróun yfir allt tímabilið en að einnig væri hægt að takmarka leit við tiltekið tímabil eða ákveðna tegund af textum.

Við uppbyggingu safnsins yrði leitað samstarfs við aðrar stofnanir, t.d. eru margvísleg söguleg málgögn varðveitt hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni (Lbs.-Hbs.), svo sem á Tímarit.is og Bækur.is, og á Þjóðskjalasafni auk SÁM. Mögulegar tengingar við fornmálsgögn, t.d. orðbókagögn ONP og efni á Handrit.is, kæmu til á síðari stigum.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Markmiðið er að skapa möguleika á betri og almennari nýtingu á mikilvægum sögulegum málgögnum, bæði gögnum sem þegar eru til og viðbótargögnum sem aflað yrði til að fylla í eyður í safninu. Þetta yrði gert með því að skrá gögnin á kerfisbundin hátt, samræma snið þeirra og tengja þau saman í einum gagnagrunni eða í fleiri gagnagrunnum með sameiginlegu leitarviðmóti í vefgátt. Einnig yrði búið þannig um gögnin eða hluta þeirra, t.d. í varðveislusafni CLARIN-IS, að þeim mætti hlaða niður með opnu notendaleyfi. Gögnin yrðu öllum aðgengileg og ættu því að þjóna fræðasamfélaginu í heild, einkum til málrannsókna af margvíslegu tagi (málsögulegum rannsóknum og rannsóknum á tilteknum tímabilum í sögu málsins) en þau gætu einnig gagnast rannsóknum á öðrum sviðum hug- og félagsvísinda. Til þess að gögnin nýtist til fulls er mikilvægt að þau séu greind málfræðilega og merkingarlega. Á SÁM hafa verið þróaðar aðferðir og tól til vélrænnar greiningar á íslenskum textum, aðallega nútímamálstextum en tilraunir hafa verið gerðar til að laga aðferðirnar að vinnu við gamla texta og við uppbyggingu safnsins yrði gengið lengra í þá átt. Uppbygging gagnasafnsins myndi því stuðla að frekari framförum í máltækni að því er tekur til eldri mál- og textasafna.
SÁM hefur þegar átt farsælt samstarf við Lbs.- Hbs. um öflun texta af Tímarit.is og því verður haldið áfram. Á Þjóðskjalasafni er líka mikið af textagögnum sem ættu erindi í safnið og verður leitað samstarfs við safnið um uppbyggingu þess.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Öflun og úrvinnsla sögulegra textagagna eru tímafrek verkefni, m.a. vegna þess að ritháttur og orðmyndir í gömlum textum eru lítt staðlaðar og því oft snúið að leita í þeim. Það er því mikilvægt að tengja orð og orðmyndir í gömlum textum við samsvarandi nútímamálsmynd þeirra, bæði til að greiða fyrir markvissri leit og frekari greiningu á gögnunum. Með því að gera gögn sem til eru úr eldri verkefnum, þ. á m. rannsóknarverkefnum sem hafa verið styrkt úr rannsóknarsjóðum, aðgengileg til endurnýtingar í nýjum verkefnum má spara vinnu við efnisöflun og um leið gera rannsakendum kleift að byggja á stærra gagnasafni. Gögnin hafa þegar verið skráð og oftast greind að meira eða minna leyti þótt samræma þurfi sniðið á upplýsingunum; við þá vinnu yrði tekið mið af alþjóðlegum stöðlum og lýsigögnin yrðu tiltæk í alþjóðlegum gagnagrunnum í gegnum CLARIN-ERIC. Þá yrði búið þannig um hnútana að hægt verði að leggja gögn úr nýjum verkefnum inn í gagnasafnið.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Uppbygging innviðarins stefnir að því að tengja saman efni sem nú er til á víð á dreif og með ólíku sniði, sumt í opnum gagnagrunnum eins og Ritmálssafni Orðabókar Háskólans en annað einungis tiltækt afmörkuðum rannsóknarhópum. Með samræmingu og sameiningu þessa efnis og nauðsynlegum viðbótum við það yrði til öflugt safn sögulegra málgagna sem væru skráð í alþjóðlega gagnagrunna og allir hefðu frjálsan aðgang að í leitarbærum gagnagrunni (eða samtengdum gagnagrunnum). Á undanförnum árum og áratugum hefur orðið til mikil þekking og reynsla á uppbyggingu málheilda og vélrænni greiningu rafrænna textasafna en hún hefur að vonum miðað fyrst og fremst við nútímamál. Í ýmsum smærri tilraunaverkefnum hefur þó verið sýnt fram á að máltæknilegar aðferðir og tól má aðlaga þannig að þau dugi til meðhöndlunar á textum frá ýmsum tímum. Stórt sögulegt rannsóknargagnasafn mun breyta miklu við málsögulegar rannsóknir á íslensku síðari alda. Það mun líka nýtast við sögulegar rannsóknir á öðrum sviðum hugvísinda enda eiga sumir rafrænir textar sem yrðu í því rætur að rekja til útgáfu- eða rannsóknarverkefna bókmenntafræðinga og sagnfræðinga auk málfræðinga.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Rannsóknir á máli, málnotkun og málbreytingum hafa samfélagslegt og menningarlegt gildi í sjálfum sér. Aukin þekking á því hvernig málið hefur breyst í tímans rás vegna innri (málfræðilegra) og ytri (samfélagslegra) þátta getur jafnframt stuðlað að betri skilningi á áhrifum sem breytt samskiptamunstur og breyttar ytri aðstæður, þar á meðal vaxandi tengsl við önnur mál (einkum ensku um þessar mundir) og aukið tvítyngi, geta haft í nútímanum, bæði m.t.t. stöðu og þróunar íslensku og samskipta landsmanna almennt. Aðgengileg gögn af þessu tagi nýtast líka í menntakerfinu. Þau eru mikilvægt hráefni við gerð kennsluefnis, handbóka, orðabóka o.fl. en nýtast líka beint í kennslu á ýmsum skólastigum, þar á meðal sem grundvöllur rannsóknarverkefna á háskólastigi.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Uppbygging málsafnsins færi fram á SÁM þar sem mikið af sögulegum málgögnum er nú vistað. Jafnframt yrði leitað samstarfs við aðrar stofnanir sem búa yfir slíkum gögnum og hefðu hag af tilurð heildstæðs safns með sögulegum mál- og textagögnum, einkum Lbs.-Hbs. og Þjóðskjalasafn en síðar einnig fornmálsorðabókina í Kaupmannahöfn (ONP). Áætlað er að uppbyggingin tæki alls 5-7 ár. Gera má ráð fyrir að kortleggja mætti þau gögn sem til eru og ættu erindi í safnið og skrá þau á samræmdan hátt fyrsta árið og um leið átta sig á því hvar viðbóta væri þörf. Næstu 3-5 ár færu í fjóra verkþætti: (1) að skipuleggja umbúnað efniviðarins í gagnagrunni eða mögulega í fleiri gagnagrunnum sem yrðu þá leitarbærir í sameiginlegri vefgátt; (2) að samræma sniðið á gögnunum miðað við alþjóðlega staðla; (3) að afla nauðsynlegra viðbótargagna, skrá þau og tilreiða; (4) að greina gögnin málfræðilega með vélrænum aðferðum. Á lokaárinu yrði smíðaður gagnagrunnur eða -grunnar, búið til notendaviðmót og ef nauðsynlegt væri vefgátt sem leitaði í mörgum gagnagrunnum í einu. Miðstöð verkefnisins yrði á SÁM sem myndi varðveita gögnin og reka gagnagrunninn eða vefgáttina ef haldið yrði utan um gögnin í fleiri en einum gagnagrunni. Þeir gagnagrunnar gætu þá verið vistaðir á mismunandi stofnunum, þ.e.a.s. þar sem gögnin eru varðveitt.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Auk fastráðinna sérfræðinga SÁM í málfræði, máltækni og tölvutækni og sérfræðinga á mögulegum samstarfsstofnunum yrði að gera ráð fyrir viðbótarstarfsliði við uppbyggingu málsafnsins. Þörf er á tölvusérfræðingi/forritara, málfræðingi og aðstoðarfólki (stúdentum). Erfitt er að meta fjárþörfina nákvæmlega á þessu stigi málsins en lauslega áætlað má gera ráð fyrir sem svarar 3 mánaða vinnu á ári að meðaltali fyrstu 6 árin og fullri vinnu á lokaárinu ((3 x 6 ár) + (12 x 1) ár = 30 mannmánuðir), 6 mánaða vinnu málfræðings á ári að meðaltali (6 x 7 ár = 42 mannmánuðir) og a.m.k. einum aðstoðarmanni (MA-stúdent) á ári (12 x 7 = 84 mannmánuðir). Eftir að uppbyggingartímabilinu lýkur ætti að vera lágmarkskostnaður við rekstur safnsins (vistun, tæknilegar uppfærslur, umsýsla), u.þ.b. 1 mannmánuður á ári að jafnaði. Samkvæmt þessu gæti uppbygging innviðarins að teknu tilliti til aðstöðu og umsýslu kostað nálægt 123 milljónum króna og sem skiptust á 7 ára tímabil. Að því loknu væri árlegur rekstrarkostnaður um 1 milljón króna.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Áætlað safn sögulegra íslenskra málgagna yrði skráð ásamt lýsigögnum í alþjóðlegan gagnagrunn CLARIN-ERIC ásamt margvíslegum mál- og textagögnum frá öðrum aðildalöndum. Þar með yrðu gögnin kynnt og gerð aðgengileg utan Íslands og eftir atvikum gætu komið upp möguleikar á frekari tengingum. 

Íslensk talmálsgögn

Heiti stofnana: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskóli Íslands - Hugvísindasvið, Háskólinn í Reykjavík - Verkfræðideild

Tengiliður: Helga Hilmisdóttir, helga.hilmisdottir@arnastofnun.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Hlutverk rannsóknarinnviðarins Íslensk talmálsgögn er að safna saman, varðveita og miðla gögnum um íslenskt talmál. Meginuppistaða safnsins verður leitarbær gagnagrunnur þar sem fræðimenn geta kallað fram brot úr hljóðupptökum sem hafa verið skráðar og komið fyrir í forriti sem tengir saman hljóð og texta (og myndir ef við á). Þannig geta notendur hlustað á hljóðupptökuna, lesið textann í rituðu formi, kallað fram málfræðilegar upplýsingar um orðin sem þar koma fyrir og flokkað mælendur eftir kyni, aldri og búsetu. Einnig geymir safnið upplýsingar um hljóðritanir orða og orðasambanda og rituð gögn og seðlasöfn úr fórum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (áður Orðabókar Háskólans) sem varpa ljósi á orðaforða íslensks talmáls, ekki síst staðbundinn orðaforða og orðalag sem tengist gömlum starfsháttum og þjóðfélagsaðstæðum. Hljóðupptökurnar sem fara inn í gagnagrunninn eru rannsóknargögn sem safnað hefur verið í rannsóknarverkefnum fræðimanna undanfarna áratugi, eins og t.d. viðtöl í umræðuhópum og við einstaklinga, upptökur í skólum og hversdagsleg samtöl í heimahúsum. Einnig er ætlunin að færa inn í gagnagrunninn umræður af opinberum vettvangi, t.d. spjall- og umræðuþætti í sjónvarpi og útvarpi, framboðsfundi, ræður stjórnmálamanna á Alþingi svo fátt eitt sé nefnt. 

Samtals eru til um 100 klukkustundir af efni sem hefur verið skráð í forritum sem tengir saman hljóð og texta og gæti sá efniviður myndað uppistöðuna í fyrstu útgáfu gagnagrunnsins. Við þennan kjarna þyrfti svo að bæta meira efni, t.d. eldri upptökum sem mætti velja og vinna úrí samstarfi við RÚV og þjóðfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem ástórt safn af hljóðupptökum sem varpað gæti ljósi á eldra talmál. Eftir að uppbyggingu lýkur er svo mikilvægt að haldið verði áfram að safna nýju efni þannig að hægt verði að byggja upp sístækkandi safn talmálsgagna. 

Gögnin verða skráð ásamt lýsigögnum í alþjóðlegan gagnagrunn CLARIN-ERIC. Hluti gagnanna verður vistaður með opnum notkunarleyfum, t.d. efni úr fjölmiðlum og af opinberum vettvangi, en gögn sem eru viðkvæm vegna persónuverndarsjónarmiða, eins og t.d. hljóðupptökur af einkasamtölum í heimahúsum, verða aðeins opin fræðimönnum. Viðkvæmustu gögnin verða aðeins varðveitt sem textaskrár.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmiðið með uppbyggingu Íslenskra talmálsgagna er að efla gagnarannsóknir á ýmsum sviðum, einkum á sviði íslenskrar málfræði. Gagnagrunnurinn yrði mikil lyftistöng fyrir rannsóknir á íslensku talmáli. Ekki þarf heldur að fjölyrða um þau tækifæri sem leynast í úrvinnslu stórs og fjölbreytts gagnasafns en hingað til hafa talmálsrannsóknir einskorðast við tiltölulega litla og einsleita gagnagrunna sem spanna stutt tímabil. Markmiðið er þó ekki síður að miðla mikilvægum heimildum til fræðimanna á öðrum sviðum hug- og félagsvísinda. Þannig verður einnig áhersla lögð á að safna og vinna úr upptökum sem geta nýst í rannsóknum t.d. í sagnfræði, félagsfræði, þjóðfræði. Að lokum er markmiðið að skapa samstarfsvettvang fyrir máltæknifólk sem vinnur að þróun talgreina og talgervla og fræðimenn sem rannsaka talmál og samtöl.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Málfræðingar við Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafa staðið saman að fjölmörgum rannsóknarverkefnum sem hafa gefið af sér rannsóknargögn sem mikilvægt er að varðveita og miðla til komandi kynslóða. Rannsóknarinnviðurinn Íslensk talmálsgögn byggir á og kemur til með að efla þetta farsæla samstarf. Gott og fjölbreytt talmálssafn myndi nýtast fræðimönnum á ýmsum öðrum sviðum hug- og félagsvísinda, t.d. þeim sem hafa áhuga á orðræðugreiningu, mælskulist og stíl eða stunda rannsóknir á íslenskri
menningarsögu, fjölmiðlum og kynjamun í opinberri umræðu svo fátt eitt sé nefnt. Ekki er ólíklegt að fræðimenn á þessum sviðum eigi gögn sem ættu heima í talmálsgagnagrunninum. Sem dæmi má nefna að þjóðfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á stórt safn viðtala við Íslendinga um land allt sem spannar margra áratuga tímabil. Skráning og úrvinnsla á vel völdum upptökum væri áhugaverð sem heimild um eldra talmál, staðbundinn orðaforða og frásagnarstíl. 

Safnið mun einnig nýtast þeim sem vinna að þróun máltæknitóla sem tengjast töluðu máli, t.d. þeim sem vinna að þróun talgreina. Segja má að samstarf sé þegar komið á í gegnum rannsóknarverkefnið Íslenskt unglingamál sem stýrt er af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Máltæknifólk við HR hefur verið að gera tilraunir við vélræna skráningu samtala úr unglingaverkefninu og þegið efni til að vinna úr í staðinn. Þannig hafa báðir aðilar notið góðs af samstarfinu. Uppbyggingaráætlun er varðar íslenskt talmál myndi auðvelda frekari samstarf og leiða til betri nýtingar gagna.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Þar sem öflun talmálsefnis er tímafrek og oft erfið í framkvæmd (t.d. vegna leyfismála, persónuverndarsjónarmiða og umritunar) takmarkast málfræðirannsóknir oft við ritað mál. Þó hafa ýmsar málfræðirannsóknir byggst að miklu leyti á talmálsgögnum. Í kjölfar stafrænu
byltingarinnar hafa orðið til stórir gagnagrunnar með ritmálsgögnum en enn er mikill skortur á sameiginlegum vettvangi fyrir talmálsgögn. Góður og fjölbreyttur gagnagrunnur sem geymir gögn sem nær yfir fimmtíu til sextíu ára tímabil myndi auðvelda allar talmálsrannsóknir og gera þær gegnsærri, þ.e. auðveldara verður fyrir fræðimenn að nálgast ýmis konar efni og frá ýmsum tímabilum, og öðrum fræðimönnum verður gert kleift að skoða frumgögnin til að sannreyna niðurstöðurnar. Sem dæmi um rannsóknargögn sem vistuð eru hér og þar á tölvum einstakra fræðimanna má nefna um 100 klukkustundir af talmálsefni sem mætti með tiltölulega lítilli fyrirhöfn staðla og koma fyrir í gagnagrunni. Þetta eru upptökur málfræðinga á hversdagslegum samtölum, viðtölum í umræðuhópum, upptökur á barnamáli, Alþingisumræðum og samtöl við hlustendur RÚV (sem hringja í hljóðver).

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Bætt aðgengi að talmálsgögnum gefur fræðimönnum dýrmæta innsýn í þróun íslenskrar tungu og íslenskrar menningar. Talmálsgögn munu auk þess nýtast vel í máltækniverkefnum af ýmsum toga, t.d. við þróun talgervla og talgreina.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Ætla má að það taki forritara um 18 mánuði að setja upp og prófa heildarumgjörðina fyrir Íslensk talmálsgögn og að fræðimenn geti farið að nýta sér gagnagrunninn að því loknu. Þegar fyrsta gerð gagnagrunnsins er komin á vefinn má gera ráð fyrir tveggja mánaða starfi á ársgrundvelli fyrir tæknilegan umsjónarmann gagnagrunnsins næstu fimm árin. Eðli málsins samkvæmt er þó hér um verkefni að ræða sem vonandi mun halda áfram mörg ár eftir að fyrstu uppbyggingu lýkur. Hlutverk umsjónarmannsins væri að taka við gögnum, marka, ganga frá lýsigögnum og koma fyrir í gagnagrunni. Einnig má gera ráð fyrir einum málfræðingi í fimm ár sem hefur það hlutverk að skilgreina eyður í gagnagrunninum og vænlega uppbyggingarkosti, útvega upptökur og leyfi og sjá um að efnið sé skráð í forrit sem tengir saman hljóð og texta. Með máltæknibyltingunni má einnig reikna með að afköst aukist og að gagnagrunnurinn geti stækkað hraðar eftir því sem tækninni fleygir fram (t.d. vegna vélrænnar skráningar). Daglegur rekstur safnsins væri á ábyrgð Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Erfitt er að áætla nákvæma tölu á verkefnið en reikna má með 18 mánaða vinnu forritara í fullu starfi í upphafi tímabilsins og að gera þurfi ráð fyrir að hann verji um tveimur mánuðum á ári til að sinna rekstri og lágmarks viðhaldi að uppbyggingarstarfi loknu. Samkvæmt fyrstu áætlun er einnig gert ráð fyrir einum málfræðingi í umsýslu, söfnun efnis, skráningarvinnu og frágang í fimm ár. Ofan á þennan launakostnað gerir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ráð fyrir 20% kostnaði vegna samneyslu sem færi í tölvubúnað og starfsaðstöðu. Kostnaður á uppbyggingu innviðarins gæti því verið um 91 milljón fyrstu fimm árin.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Rannsóknarinnviðurinn Íslensk talmálsgögn myndi tengjast CLARIN-IS sem er safn af mállegum gögnum og hugbúnaði til að vinna þessi gögn. Búið verður um öll gögn í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til CLARIN-verkefna og leitað verður fyrirmynda til annarra verkefna sem standast allar kröfur sem gerðar eru til slíkra innviða.

Varðveislusafn CLARIN-IS

Heiti stofnunar: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Tengiliður: Eiríkur Rögnvaldsson, eirikur.rognvaldsson@arnastofnun.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Varðveislusafn CLARIN-IS er safn af mállegum gögnum og hugbúnaði til að vinna með þessi gögn, einkum í rannsóknum í ýmsum greinum hug- og félagsvísinda og í rannsóknar- og þróunarstarfi í máltækni. Með mállegum gögnum er átt við hvers konar söfn ritaðs og talaðs máls – textasöfn, orðasöfn, orðabækur, skrár af ýmsu tagi, upptökur af samtölum, frásögnum og ræðum, o.fl. Gögnin geta ýmist verið hrá (t.d. texti eða orðalisti, hljóðupptaka af samtali) eða unnin og greind á ýmsan hátt (t.d. málfræðilega greind, greind eftir uppruna, efni, höfundi, o.fl., uppskrifað samtal, o.s.frv.). Með hugbúnaði til að vinna með gögnin er átt við hvers kyns greiningar- og túlkunarbúnað – leitarforrit, markara, lemmara, tókara, þáttara, talgreina, talgervla o.fl. Gögn og hugbúnaður verða vistuð í varðveislusafni CLARIN-IS með opnum notkunarleyfum og þar geta allir nálgast þau án endurgjalds. Komið verður upp sameiginlegu leitarviðmóti fyrir fjölbreytta gagnagrunna í safninu.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmiðið er annars vegar að styðja við og auðvelda hvers kyns rannsóknir, einkum í hug- og félagsvísindum, en flestar greinar þeirra styðjast að miklu eða öllu leyti við einhvers konar málleg gögn. Magn stafrænna texta af ýmsu tagi hefur margfaldast á undanförnum árum og þar með möguleikar rannsakenda til að nálgast miklar upplýsingar á skjótan hátt. Það er t.d. alkunna að vefurinn tímarit.is hefur gerbreytt aðstæðum sagnfræðinga, málfræðinga, bókmenntafræðinga, lögfræðinga, stjórnmálafræðinga o.fl. til upplýsingaöflunar. En til að nýta þessi gögn sem best þurfa þau að vera opin og aðgengileg, helst sem mest á einum stað, og hugbúnaður sem gerir auðvelt að vinna margvíslegar upplýsingar úr þeim þarf að vera tiltækur. 

Hitt meginmarkmiðið er uppbygging og viðhald forsendna fyrir áframhaldandi rannsóknum og þróun á sviði íslenskrar máltækni. Innan máltækniáætlunar stjórnvalda stendur nú yfir mikil uppbygging mállegra innviða, gagna og hugbúnaðar, en þeirri áætlun lýkur 2022. Það þýðir ekki að verkefninu verði þá lokið – tækni- og samfélagsbreytingar kalla á sífellda endurnýjun, aukningu og viðhald gagna og hugbúnaðar. Í nýjum tillögum verkefnisstjórnar á vegum forsætisráðuneytisins að „Aðgerðaáætlun um fjórðu iðnbyltinguna“ er sérstaklega lagt til „að gerð sé áætlun um hvað taki við eftir að 5 ára máltækniáætlun lýkur“.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Byggt verður á samstarfi sem þegar hefur verið komið á. Annars vegar er um að ræða „Samstarf um íslenska máltækni“ (SÍM) en aðild að því eiga Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Ríkisútvarpið, Blindrafélagið, Hljóðbókasafn Íslands, og þrjú fyrirtæki (Miðeind, Grammatek og Creditinfo). Hins vegar er um að ræða landshóp CLARIN á Íslandi, en auk Árnastofnunar, HÍ, HR og RÚV eiga aðild að honum Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðskjalasafn Íslands, Íslensk málnefnd og Almannarómur. 

Flestöll gögn og hugbúnaður sem máli skipta á sviði íslenskra málfanga hafa verið byggð upp af þessum stofnunum og fyrirtækjum eða eru varðveitt hjá þeim. Megnið af þeim málföngum hefur verið eða verður byggt upp innan máltækniáætlunar stjórnvalda, en áskilið er að þau málföng séu öllum opin endurgjaldslaust. Þeim verður öllum komið fyrir í varðveislusafni CLARIN-IS. Þar eru einnig ýmis önnur gögn, flest með opnum leyfum. Máltækniverkefnið hefur orðið til þess að mikið samstarf stofnana og fyrirtækja hefur komist á, og áframhaldandi innviðauppbygging á þessu sviði mun viðhalda því samstarfi, efla það og víkka það út.

Unnið verður út frá svonefndum „ FAIR principles“  sem mæla fyrir um að gögn séu finnanleg (Findable), aðgengileg Accessible), samþættanleg (Interoperable) og endurnýtanleg (Reusable).  Þess verður gætt að gögn í varðveislusafninu lúti þessum reglum til að tryggja að þau nýtist sem best. Skráning gagnanna í „sýndarsafni málfanga“ hjá CLARIN ERIC (sjá síðar) skapar forsendur fyrir nýtingu þeirra utan Íslands.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Undanfarna tvo áratugi hefur orðið til hér á landi geysimikið af stafrænum mállegum gögnum og hugbúnaði til að vinna með þau. Þessi gögn og hugbúnaður hafa hins vegar verið mjögdreifð og misjafnlega aðgengileg og því oft ekki nýst sem skyldi. Því er mjög mikilvægt að kynna þau og gera þau aðgengileg á einum stað, með opnum og gagnsæjum notkunarleyfum. Þróun í þá átt er nú hafin, með opnun varðveislusafns CLARIN-IS og máltækniverkefni stjórnvalda.

Vegna tengsla við máltækniverkefnið er gagnsemi safnsins í fyrstu mest fyrir málfræðinga og máltæknifólk, en utan á kjarnann má smátt og smátt hlaða margvíslegum gögnum sem auka gagnsemi safnsins og stækka notendahópinn. Tilurð og uppbygging innviðakjarna eins og varðveislusafnsins gerbreytir því til frambúðar aðstöðu rannsakenda í hug- og félagsvísindum til gagnaöflunar, og rannsakenda og fyrirtækja á sviði máltækni til þróunar máltæknibúnaðar.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Bætt aðgengi að mállegum gögnum (s.s. fréttum og öðru efni úr fjölmiðlum, þingræðum, dómum, fræðsluefni, o.s.frv.) og auðveldari úrvinnsla úr þeim gerir fræðimönnum á ýmsum sviðum kleift að afla meiri og nákvæmari upplýsinga og fá betri yfirsýn yfir margvíslega strauma og stefnur í samtíð og fortíð. Með þessu móti geta þeir sett fram vandaðri og nákvæmari greiningu á ýmsum brýnum viðfangsefnum dagsins í dag og liðsinnt þannig stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum og almenningi við stefnumótun og ákvarðanatöku. 

Áframhaldandi uppbygging mállegra innviða er einnig forsenda fyrir frekari þróun íslenskrar máltækni, en ein stærsta samfélagslega áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er einmitt að gera fólki kleift að nota íslensku í margvíslegum samskiptum við tölvur, og gera tölvum kleift að vinna með hana á ýmsan hátt. Það er forsenda fyrir því að íslenskan geti haldið áfram að vera sá burðarás samfélagslegrar umræðu og lýðræðis sem hún hefur verið og þarf að vera.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Fram að því að máltækniáætlun stjórnvalda og fjármögnun CLARIN-IS miðstöðvarinnar lýkur mun mikið af bæði gögnum og hugbúnaði bætast í varðveislusafnið, en frá og með 2023 er allt óvíst um framhaldið. Árnastofnun mun tryggja lágmarksrekstur safnsins þannig að þau gögn sem þá verða komin inn verði áfram aðgengileg. En gögn og hugbúnaður á þessu sviði úreldist mjög fljótt og því er bráðnauðsynlegt að geta haldið hvoru tveggja við og uppfært reglulega. 

Einnig þarf að auka við safnið og breikka grundvöll þess. Vitaskuld er til gífurlega mikið af mállegum gögnum sem ekki hafa verið gerð stafræn, t.d. ýmis eldri skjöl, handrit o.fl. Þar að auki kalla ný viðfangsefni, nýjar rannsóknarspurningar, ný tækni og breytt samfélag á ný gögn og nýjan hugbúnað, þannig að ekki er síður mikilvægt að geta haldið uppbyggingu áfram og bætt við varðveislusafnið. Eftir því sem meiri gögn koma í safnið, og fleiri fræðimenn átta sig á gagnsemi þeirra, mun notkun gagnanna líka aukast sem kallar á útvíkkun safnsins og meiri þjónustu. Uppbyggingu safnsins lýkur því aldrei og til hennar þarf utanaðkomandi fjármögnun.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Fram til 2022 er uppbygging og fjármögnun varðveislusafnsins tryggð, og óbreytt aðgengi að þeim gögnum og hugbúnaði sem þá verður komið í safnið er einnig tryggt til næstu 10 ára a.m.k. En verðmæti og gagnsemi safnsins rýrnar hratt ef því er ekki haldið við og aukið. Á hverju ári verður til gífurlega mikið af nýjum gögnum sem mikilvægt er að gera aðgengileg í varðveislusafninu sem fyrst. Einnig skapast sífellt þörf fyrir uppfærðan og nýjan hugbúnað til að vinna með gögnin. Uppbyggingin safnsins verður því að halda áfram. Erfitt er að áætla kostnað við hana en ekki er fráleitt að ætla að frá 2023 þurfi a.m.k. 50 milljónir á ári að meðaltali í viðhald og uppbyggingu varðveislusafnsins ef gagnsemi og gildi þess á ekki að minnka.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Varðveislusafnið hefur beina tengingu við CLARIN ERIC sem er eitt af ESFRI-innviðaverkefnum Evrópusambandsins. Ísland fékk fulla aðild að CLARIN ERIC í febrúar 2020 en mennta- og menningarmálaráðuneytið kostar þátttöku Íslands í verkefninu til 2023. Ráðuneytið fól Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að leiða íslenskan CLARIN-landshóp, en þátttakendur í honum eru einnig Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðskjalasafn Íslands, Íslensk málnefnd, Ríkisútvarpið, og Almannarómur.

Allar afurðir máltækniáætlunar stjórnvalda, bæði gögn og hugbúnaður, verða lagðar inn í varðveislusafn CLARIN-IS. Fyrstu afurðir áætlunarinnar eru nú þegar komnar í safnið og einnig ýmis önnur málföng, m.a. afurðir máltæknináms HÍ og HR, ýmis gögn Árnastofnunar, o.fl. Lýsigögn þessara málfanga fara sjálfkrafa inn í „sýndarsafn málfanga“ hjá CLARIN ERIC (Virtual Language Observatory), þannig að allir sem tengjast CLARIN geta fundið lýsingu á þeim og upplýsingar um hvernig og með hvaða skilmálum hægt sé að nálgast þau.

Þátttaka í CLARIN ERIC er grundvallaratriði fyrir varðveislusafnið, fyrir íslenskar rannsóknir á sviði hug- og félagsvísinda, og fyrir íslenska máltækni. Með henni fæst aðgangur að margvíslegri þekkingu, gögnum og hugbúnaði. Hún tryggir einnig að við uppbyggingu og frágang gagna og hugbúnaðar sé fylgt viðurkenndum reglum, stöðlum og notkunarleyfum. Síðast en ekki síst tryggir hún aðgang rannsakenda, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim, að íslenskum gögnum og hugbúnaði og ýtir þannig undir rannsóknir og þróun sem gagnast íslensku máli, samfélagi og menningu, sem og margs konar samstarf íslenskra og erlendra rannsakenda.

Auk CLARIN (Common Language Resources and Technology Infrastructure,er DARIAH (The Digital Research Infrastructure for the Arts and Humanities) helsta ESFRI-verkefnið á sviði hugvísinda. Það sinnir einkum öðrum stafrænum gögnum en málföngum, s.s. handritum, ljósmyndum, listaverkum o.fl. Ísland er ekki í DARIAH en á Árnastofnun, Þjóðminjasafni Íslands, Listaháskóla Íslands o.v. er fengist við rannsóknir á sviði þess.

Verksvið CLARIN og DARIAH eru nátengd og í a.m.k. fimm aðildarlöndum beggja verkefnanna hafa miðstöðvar þeirra verið sameinaðar, yfirleitt undir heitinu CLARIAH. Ekki virðist ótrúlegt að verkefnin renni saman á endanum. Nauðsynlegt er að Ísland verði aðili að hinu sameinaða verkefni, ef af yrði, en að öðrum kosti er mikilvægt að stefna að þátttöku í DARIAH.

Miðstöð fyrir stafræna endurgerð (digitization)

Heiti stofnana: Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, Þjóðskjalasafn Íslands

Tengiliður: Ingibjörg St Sverrisdóttir, iss@landsbokasafn.is og Örn Hrafnkelsson, orn@landsbokasafn.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Miðstöð fyrir stafræna endurgerð er hugsuð sem vettvangur og þjónusta fyrir yfirfærslu hliðrænna (analog) gagna og heimilda á stafrænt form (digital). Jafnframt verður efnið skráð þannig að til verða leitarbærir gagnagrunnar með tilvísun eða tengingu í stafrænu endur-gerðina. Hugmyndir hafa komið fram um að setja á fót slíka miðstöð í tengslum við fjargeymslu fyrir söfn og stofnanir, s.s. Þjóðskjalasafn og Landsbókasafn – Háskólabókasafn. Fyrirmyndir að slíku eru t.d. miðstöð um stafæna endurgerð sem Þjóðbókasafn Noregs starfrækir í Mo i Rana í Noregi og sambærileg starfsemi á hinum Norðurlöndunum er á vegum Þjóðskjalasafnanna m.a. í Viborg í Danmörku og Fränsta í Svíþjóð. Bæði söfnin, Landsbókasafn og Þjóðskjalasafn, hafa unnið að skönnun efnis í eigin húsnæði undanfarin ár, auk þess sem Landsbókasafn rak um tíma skönnunarmiðstöð í Amtsbókasafninu á Akureyri með styrk frá Alþingi, þegar unnið var að stafrænni endurgerð blaða og tímarita á timarit.is og hefur því ákveðna reynslu á þessu sviði. Þjóðskjalasafn hefur staðið fyrir fjöldaskönnun síðastliðin þrjú ár í samstarfi við samtökin Family Search í Bandaríkjunum.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Stór hluti íslensks menningararfs Íslands er enn á upprunalegu formi og með núverandi vinnubrögðum og verkhraða tekur það áratugi að færa hann yfir á stafrænt form. Með því að setja á fót slíka miðstöð væri hægt að hraða verkinu og gera raunhæfar áætlanir um framvindu, auk þess sem tækni- og sérfræðiþekking og kunnátta myndi byggjast hraðar upp og vinnan yrði öll markvissari. Benda má að árið 2017 var gerð úttekt á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins með þátttöku Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns, Varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi. Staða hjá söfnum og menningarstofnunum landsins, þar sem magn til stafrænnar endurgerð er metið og fagleg viðmið.

Meginmarkmið eru samræmd fagleg vinnubrögð, stöðluð skráning og flokkun, bætt aðgengi fyrir alla landsmenn og aukinn stuðningur við hverskyns rannsóknir.

Það sem unnið er með eru gögnin sjálf, s.s. skrár, textasöfn, myndasöfn og auk þess safnkostur helstu safna landsins s.s. prent, skjöl, handrit, bréfasöfn einstaklinga, embætta og stofnana, ljósmyndasöfn, teikningar, listaverk, landakort, skýrslur, talað orð, tónlist og kvikmyndir, útvarp og sjónvarpsefni, auk hvers kyns safnmuna. 

Markmiðið er að mögulegt verið að tengja saman gögn, gagnagrunna og stafrænt efni mismunandi stofnana s.s. Gegni, Leitir, Sarp og Einkaskjalasafn.is og ýmiskonar skjalaskrár, auk sameiginlegrar skrár yfir mannanöfn, örnefni, margvíslegar mælingar, útgáfur o.fl. Skönnunarmiðstöð af þessu tagi myndi geta verið rekin af Þjóðskjalasafni og Landsbókasafni, sem hafa gríðarlegt magn pappírsgagna sem þarfnast stafrænnar endurgerðar, en gæti þjónað fleiri stofnunum eftir þörfum.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Með auknu samstarfi er hægt að bæta faglegt starf og auka samlegðaráhrif þeirra stofnana sem taka þátt, en mikilvægt er að auka samstarf og leita uppi möguleika á samstarfi milli menningarstofnana. Með því að leggja saman er líklegt að kostnaður lækki og virði afurðanna aukist, auk þess sem reynsla þessara tveggja stofnana af umfangsmiklu skönnunarstarfi og birtingu gagna undanfarin áratug myndi leggjast saman og verða grunnur að góðu verklagi. Þá er einnig vísað til þess að samstarf ólíkra aðila innanlands, s.s. safna, opinberra stofnana, sveitarfélaga og einkafyrirtækja mun eflast, auk þess sem tengja má við innlent og erlent samstarf, island.is og fleiri vefþjónustur.

Kostir við sameiginlega skönnunarmiðstöð Landsbókasafns – Háskólabókasafns og Þjóðskjala-safns út frá rekstrarlegum forsendum er faglegur ávinningur, betri nýting á mannafla, hagkvæmni í rekstri og að dýr tæki nýtast betur.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Í dag er stafræn endurgerð á Íslandi og uppbygging viðeigandi gagnagrunna í flestum tilvikum á forræði hverrar stofnunar fyrir sig. Nokkur sameiginleg verkefni hafa þróast, s.s. einkaskjalasafn.is, handrit.is og ismus.is. Ef komið verður á fót miðstöð fyrir stafræna endurgerð mun það flýta fyrir því ferli, auka samstarf stofnana, auka samstarf sérfræðinga þvert á stofnanir bæði innanlands og utan og aðgengi sérfræðinga, rannsakenda og alls almennings mun stóraukast. Enn fremur mun sérfræðiþekking eflast og skila sér til þeirra stofnana sem taka þátt. Uppbyggingin mun smám saman breyta og bæta öllu okkar umhverfi til rannsókna.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Miðstöð sem þessi gæti orðið áhugaverður vettvangur fyrir samstarf safna og annarra stofnana, en einnig skapað verðmæt störf. Afurðir sem kæmu frá Miðstöðinni geta nýst á öllum fræðasviðum, en jafnframt aukið aðgengi almennings að menningararfinum. Spyrja má hvort slík miðstöð sé innviður, en ljóst er að starfsemi sem þessi er tæknileg forsenda fyrir starfsemi og þróun annarra stafrænna innviða og því nauðsynlegur og mikilvægur hlekkur í þessari keðju.

Bætt aðgengi að sameiginlegum arfi býður upp á endalausa uppsprettu heimilda og gagna vegna náms og rannsókna, listsköpunar, nýsköpunar, hönnunar og tækniþróunar.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Nú er í mótun stefna um varðveislu og aðgengi að menningararfinum á vegum Minjastofnunar fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Í þeirri vinnu hafa fulltrúar frá menningarstofnunum ríkisins tekið þátt og samhljómur hefur m.a. verið um sterka innviði og þéttari tengsl stofnananna, s.s. samráð, samlegð, sameiginleg sóknarfæri og gæðamál.

Miðstöð sem hér um ræðir gæti hæglega verið staðsett á landsbyggðinni og þar geta skapast mjög verðmæt störf. Yfirstjórn væri í höndum þeirra stofnana sem þegar eru komnar af stað með stafræna endurgerð. Stofnanir og sveitarfélög leggja til núverandi gagnagrunna og skráningar og greiða fyrir/kosta þá þjónustu sem þeim er veitt. Einkafyrirtæki geti einnig nýtt sér þjónustuna gegn gjaldi. 

Rekstrarlegar forsendur myndu taka mið af launakostnaði, húsnæðiskostnaði og tækjabúnaði og gæti að mestum hluta staðið undir sér. Þátttakendur greiða árlegt grunngjald en einnig fyrir hvert unnið verk.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Helstu útgjaldaliðir eru laun, húsnæði, skrifstofubúnaður, tæknibúnaður s.s. myndavélar, vélar til yfirfærslu hljóð- og myndefnis, gagnageymslur fyrir stafræn gögn þar sem reikna þarf með árlegri aukningu í gagnamagni, afritatöku og varðveislu. Dæmi: Í drögum að skýrslu frá 2018 um kostnað og framkvæmd við stafræna endurgerð á útgefnu prentuðu efni á Íslandi á árabilinu frá 1850 til 2015, þar sem fjöldi rita er áætlaður 88 þús. rit og áætlaður fjöldi bls. 9,3 millj. Ef verkið yrði unnið á sex ára tímabili ásamt greiðslum fyrir höfundarétt er kostnaður metinn kr. 687 millj. með 41 millj. í árlegan kostnað eftir það í greiðslur fyrir höfundarétt og varðveislu gagnanna. Skönnun á skjalaefni Þjóðskjalasafns myndi taka mið af forgangsröðun vegna þriggja þátta; í fyrsta lagi varðveislusjónarmiða þar sem gögn liggja undir skemmdum, í öðru lagi mikilvægi vegna sögu og réttinda þjóðarinnar og í þriðja lagi vegna eftirspurnar og notkunar almennings og fræðimanna.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Landsbókasafn – Háskólabókasafn hefur tekið þátt í evrópska samstarfsverkefninu Europeana um stafræna endurgerð frá upphafi og þar áður TEL (The European Library) sem var forveri þess. Áhugi er á að efla það samstarf enn frekar. 

Þá er áhugi á að efla tengsl við Noreg og hin Norðurlöndin og leita eftir samstarfi og ráðgjöf hjá systurstofnunum og svipuðum einingum og hér um ræðir. Aðstæður eru nokkuð mismunandi eftir löndum og hafa skapast af aðstæðum á hverjum stað. Meginmarkmiðið er þó hið sama, hagkvæmni í rekstri og samlegð þekkingar. 

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er aðili að IASA – International Association of Sound and Audiovisual Archives. Þjóðskjalasafn Íslands hefur haft náið samstarf við danska ríkisskjalasafnið sem hefur verið í forystu þar í landi um stafræna eftirgerð skjala og birtir mikið magn skjala í hverjum mánuði.

Innviðir á vegum safnsins

Heiti stofnunar: Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn

Tengiliðir: Ingibjörg St Sverrisdóttir, iss@landsbokasafn.is og Örn Hrafnkelsson, orn@landsbokasafn.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Í tilefni af auglýsingu Innviðasjóðs eftir verkefnum fyrir vegvísi um rannsóknir er ástæða til að horfa á margvíslega innviði sem þegar eru starfræktir á Íslandi. Hér verður gerð örstutt grein fyrir þeim innviðum sem Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn rekur, flestir eru í stöðugri þróun og sífellt er verið að bæta við efni. Jafnframt er unnið að samþættingu þeirra á milli, þannig að upplýsingar sem verða til á einum stað eru notaðar áfram annarstaðar. Gögnin eru svo gerð rannsóknarsamfélaginu aðgengileg sem opinn gögn á stöðluðu lýsigagnasniði.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmið safnsins með uppbyggingu á rannsóknarinnviðum er að auka og bæta þjónustu við allan almenning í landinu, Háskóla Íslands og rannsóknasamfélagið, sbr. lög nr. 142/2011 um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Sum innviðaverkefni safnsins hafa verið í samstarfi við aðrar stofnanir. Það hefur í langflestum tilfellum leitt til betri niðurstöðu og öflugs samstarfs starfsfólks, sem hefur svo haldið áfram.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Kröfur og þarfir rannsakenda um aðgengi að upplýsinga- og gagnaveitum eru breytilegar. Frekari uppbygging í samtali við fræðasamfélagið tryggir að þeir innviðir sem safnið hefur upp á að bjóða standist þær kröfur. Má þá nefnda þær breytingar sem hafa orðið í rannsóknum í kjölfar stafrænna hugvísinda. Landsbókasafn þarf sífellt að endurskoða aðferðir, framboð og aðgengi að efni bæði bæði hliðrænu og rafrænu. Þróunin er í átt að síauknu rafrænu efni, en prentefni hefur haldist nokkuð stöðugt undanfarin ár. Á síðari árum hefur aukin áhersla verið lögð á að safna efni sem er gefið út stafrænt, vefefni, tónlist og myndefni.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Öll þessi verkefni eru til að auðga menningu Íslendinga og styrkja rannsóknir, nýsköpun og tæknilegar framfarir. Þau nýtast við lausn samfélagslegra verkefna á ýmsum sviðum. Verkefnin falla að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og má taka sem dæmi nr. 4: Menntun fyrir alla og nr. 9: Nýsköpun og uppbygging.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Haldið verður áfram á sömu braut, vinsælar vefveitur styrktar, en jafnframt þarf að gæta að því að tæknimálin séu í lagi og nú er t.d. verið að breyta flestum vefjum safnsins fyrir snjalltæki. Einhver verkefni verða hugsanlega lögð af eða sameinuð öðrum þjónustum og ný verkefni eru í undirbúningi og þróun.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Þau verkefni sem nú eru rekin hafa mörg fengið styrki í upphafi þróunarferils, en rekstur þeirra verður síðan hluti af venjulegri starfsemi safnsins. Kostnaður við að veita þjónustu með eldri aðferðum fer í að þróa nýjar þjónustur og halda þeim við. Í mörgum tilfellum sparast kostnaður, sem er þá nýttur í nýsköpum.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Safnið á í víðtæku erlendu samstarfi við systurstofnanir í Evrópu, Norður-Ameríku og víðar í gegnum alþjóðasamtök bókasafna og bókasafnsfræðinga.

Dæmi um innviði sem eru reknir af eða tengjast Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni:

  • Gegnir.is - Samskrá um safnkost bókasafna í landinu, rekinn af Landskerfi bókasafna.
  • Lykilskrá - Efnisorða- og mannanafnaskrá í Gegni, samstarf við Landskerfi bókasafna.
  • Leitir.is - Leitargátt fyrir Gegni, Sarp, Skemmuna og erlendar áskriftir háskóla. Samstarf við bókasöfn, minjasöfn o.fl., rekinn af Landskerfi bókasafna.
  • Tímarit.is - Stafrænn aðgangur að íslenskum blöðum og tímaritum, samstarf við útgefendur blaða og tímarita. 
  • Bækur.is - Stafræn endurgerð íslenskra bóka.
  • Íslandskort.is - Stafræn endurgerð gamalla Íslandskorta – samstarf við Seðlabanka Ísland o.fl. 
  • Handrit.is - Stafræn endurgerð og samskrá íslenskra handrita, samstarf við Árnastofnanir í Reykjavík og Kaupmannahöfn. 
  • Vefsafn.is - Íslenskar vefsíður. Erlent samstarfsverkefni, (IIPC) International Internet Preservation Consortium. 
  • Rafhlaðan.is - Útgefin stafræn íslensk verk, sum eru einnig gefin út á pappír. 
  • Hljóðsafn.is - Stafræn afrit af íslenskum hljóðritum og viðtölum, sumt einnig gefið út á plötum, snældum eða diskum. 
  • Hvar.is - Landsaðgangur að rafrænum áskriftum – samstarf við öll bókasöfn í landinu og fjölmargar stofnanir.  
  • Skemman.is - Lokaritgerðir íslenskra háskóla – samstarf við íslenska háskóla. 
  • Opin vísindi - Varðveislusafn fyrir ritrýndar vísindagreinar, doktorsritgerðir og efni sem birtist í opnum aðgangi – samstarf við íslenska háskóla. 
  • PURE - Upplýsingakerfi um íslenskar rannsóknir – samstarf við íslenska háskóla – er í vinnslu.
  • Ísmús.is - Vefur um íslenskan músík- og menningararf – upphaflega Tónlistarsafn Íslands sem síðan rann inn í Landsbóksafn, og samstarf við Árnastofnun. 
  • Sagas - Skrá yfir þýðingar Íslendingasafna og annarra miðaldabókmennta.

handrit.is – samskrá yfir handrit

Heiti stofnunar: Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn

Tengiliður: Örn Hrafnkelsson, orn@landsbokasafn.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Vefurinn www.handrit.is er rafræn og tölvutæk samskrá yfir íslensk og norræn handrit sem eru varðveitt í handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Árnasafni í Kaupmannahöfn. Á handrit.is er einnig safn stafrænna ljósmynda af völdum handritum. Fjöldi handrita sem er skráður í gagnagrunninn í byrjun júní 2020 er 11.201 handrit. Fjöldi handrita sem hafa verið mynduð er 2.688 og fjöldi stafrænna mynda er 637.004. Unnið er jafnt og þétt að frekari skráningu og myndun handrita og er það mismunandi eftir stofnunum hve mikið er gert á ári hverju. Lauslega má áætla að helmingur handrita í vörslu stofnananna hafi verið frumskráður í gagnagrunninn, þar af fimmtungur þeirra verið skráður ítarlega og aðeins fjórðungur myndaður.
Öll gögn á handrit.is eru í opnum aðgangi og fylgt er meginreglum FAIR um að þau séu „findable, accessible, interoperable, reusable”. Gögnin saman standa af stökum skrám á XML sniði fyrir hvert einasta handrit þar sem innihaldi þess og formi er lýst, lykilskrám (e. authority files) eins og skrám yfir mannanöfn, staði, bókfræðileg not og efnisorð – allt sem er tengt hverju handriti. Allar þessar upplýsingar eru tengdar saman eftir því sem við á. Við grunninn er tengd leitarvél.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum er tvíþætt:
(1) Að búa til heildræna rafræna og tölvutæka samskrá yfir íslensk og norræn handrit sem eru varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Stofnun Árna Magnús-sonar í íslenskum fræðum og Árnasafni í Kaupmannahöfn.. Til eru prentaðar skrár yfir söfnin, þær eru helstar: Katalog over Den Arnamagnæaneske handskriftsamling, I.–II. bindi (Kaup-mannahöfn 1889–1894), Katalog over de oldnorsk-islandske håndskrifter i Det store kongelige bibliotek og i Universitetsbiblioteket (Kaupmannahöfn 1900), Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins, I.–III. bindi (Reykjavík 1918–1937), Handritasafn Landsbókasafns, I.–IV. aukabindi (Reykjavík 1947–1996). Prentaðar skrár hafa þann galla að ekki er hægt að bæta við nýjum upplýsingum og miðla um leið og þær verða til. 

(2) Að búa til safn stafrænna ljósmynda af handritum sem er frjáls aðgangur að og notendum heimilt að nota að vild ef handritið er úr höfundarétti og á við flest öll handritin. Aðgangur að stafrænum ljósmyndum felur í sér sparnað og flýtir rannsóknum. Ljósmyndir af handritunum varðveita jafnframt handritin gegn notkun og ágangi, þannig að þau þarf ekki að handleika og fletta í sama mæli og áður. 

Lýsingar handritanna eru unnar samkvæmt TEI P5 staðli (TEI: Text Encoding Initiative). Staðall-inn er til þess gerður að hægt sé að flytja gögn á milli kerfa og gögnin eru varðveitt á XML sniði. Staðallinn felur einnig í sér þann möguleika að bæta við texta handritanna – textafræðilegum uppskriftum. Að því hefur ekki verið unnið enn sem komið er.

Stofnanirnar er standa að uppbyggingu á vefsetrinu handrit.is hafa að markmiði og bundið í lög að þær skuli leitast við að stuðla að fræðslu og miðlun safnkostsins. Handrit.is er stórt skref í átt að því markmiði. Frekari skráning og myndun handrita felur í sér aukna birtingu og miðlun. Mikill vinnusparnaður felst í því að gera upplýsingar um innihald handritanna og myndir af þeim aðgengilegar á netinu.

Rannsóknarinnviðir, eins og handrit.is, hvetja til margvíslegra þverfaglegra rannsókna og nálgana í stafrænum hugvísindum og opna nýjar rannsóknaspurningar og sjónarhorn.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Frekari uppbygging á innviðunum handrit.is mun auðvelda aðgang að upplýsingum um handrit og stafrænar myndir af handritum. Bæði innlendir og erlendir fræðimenn nýta sér gagna-grunninn handrit.is og opnar hann á aðgang að handritunum óháð staðsetningu. Skv. talningum á netumferð fer notkun vaxandi bæði innanlands og utan. Samskrá á netinu yfir öll íslensk handrit í vörslu fyrrnefndra stofnanna mun hafa þau áhrif að rannsóknir á handritamenningu fyrri alda eflast og aðgengi að gögnunum verður ekki lengur bundið lestrarsölum stofnananna og notendahópurinn mun stækka og eflast og stafræn hugvísindi vaxa í kjölfarið. Frekari innviðauppbyggingin getur leitt af sér öflugra samstarf í faglegri rannsóknum á handritum, stafrænni endurgerð þeirra og nýtingu á tæknibúnaði tengdum stafrænum gögnum svo eitthvað sé nefnt.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Upplýsingar um öll varðveitt handrit og stafrænar myndir af þeim verða aðgengilegar frá einum stað. Fyrrnefndar þrjár stofnanir varðveita u.þ.b. 85% allra íslenskra handrita. Í framtíðinni er mögulegt að bæta við skráningu á handritum sem eru varðveitt í öðrum söfnum á Íslandi eða erlendis. Nú þegar hafa verið skráð nokkur íslensk handrit frá miðöldum í sænskum bókasöfnum. Til eru í handritum skrár yfir íslensk handrit í öðrum söfnum bæði hér á landi og erlendis. Þessar upplýsingar eru dreifðar og ekki aðgengilegar á einum stað.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Uppbygging á handrit.is eykur aðgengi að upplýsingum. Tími sparast og áhugi skapast á handritunum, ekki eingöngu þeirra sem stunda rannsóknir, heldur allra sem vilja afla sér þekkingar.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Framtíðarsýnin er að til verði samskrá yfir öll íslensk handrit og stafrænt safn mynda af handritunum. Rafræn skrá sem tekur við af prentuðum handritaskrám. Samskrá sem ekki eingöngu hefur að geyma upplýsingar um íslensk handrit varðveitt á Íslandi heldur einnig handritum varðveittum í erlendum söfnum. Bætt, fullkomið aðgengi að handritum og stafrænum myndum. Innviðirnir handrit.is verða staðsettir hjá Landsbókasafni. Sérfræðingar stofnananna þriggja er vinna að honum munu síðan þjónusta.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Kostnaður við rekstur innviðanna er við skráning, myndun, forvarsla, tæknilegt viðhald.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Lýsingar á handritum og stafrænar myndir eru aðgengilegar í EUROPEANA.

bækur.is

Heiti stofnunar: Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn

Tengiliður: Örn Hrafnkelsson, orn@landsbokasafn.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Á bækur.is er hægt að skoða stafrænar endurgerðir gamalla íslenskra bóka. Vefurinn var opnaður í desember 2010. Í dag inniheldur hann 2.064 titla (522.315 blaðsíður). Búið er að skanna inn allt prentað efni af þessu tagi í eigu Landsbókasafns fyrir 1844 eða þegar eina prentsmiðja landsins fluttist frá Viðey til Reykjavíkur. Byrjað er mynda rit útgefin 1845–1850. 

Stefnt er að því að á vefnum muni birtast með tíð og tíma allar útgefnar íslenskar bækur í stafrænni endurgerð. Þótt megin áhersla hafi verið lögð á útgefin eldri rit er einnig unnið að stafrænni endurgerð á helstu heimildaritröðum og leitað til handhafa höfundaréttar í þeim málum. 

Skráningarfærslur um hverja bók eru sóttar í Gegni – samskrá íslenskra bókasafn. Þegar búið er að mynda hverja bók eru myndirnar ljóslesnar (OCR) og textinn þannig gerður leitarbær. Tenging er yfir í Gegni og sögulega bókaskrá yfir ritin. 

Notkun á gögnum á bækur.is hefur frá upphafi farið vaxandi, sérstaklega eftir að allt útgefið fornprent var gert aðgengilegt á netinu.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Markmiðið með vefnum er þríþætt: 

  1. Miðlun íslenskrar menningar og að gera útgefið íslenskt efni aðgengilegt á veraldarvefnum. 
  2. Aukin þjónusta við notendur hvar og hvenær sem er. 
  3. Forvarsla þeirra rita sem fara á vefinn og trygg langtímavarðveisla, með því að draga úr eftirspurn eftir frumeintökunum

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Uppbygging á innviðum bækur.is mun hjálpa til við það verkefni að vefurinn geti innihaldið öll prentuð rit sem tengjast Íslandi. Eins og segir hér fyrir ofan er búið að skanna inn allar íslenskar
bækur fyrir 1844 og byrjað er að gera rit eftir þann tíma aðgengileg. En hér er um að ræða rit á Landsbókasafni eftir íslenskra höfunda, rit erlendra höfunda prentuð á íslensku og rit erlendra höfunda á erlendum tungum ef prentuð hafa verið hér á landi. Ljóst er að Landsbókasafn á ekki eintak af öllum íslenskum ritum og þarf því að leita eftir samstarfi við innlend og erlend söfn til að fylla inn í þau göt sem hafa myndast.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Uppbyggingin myndi setja aukinn kraft í stafræna endurgerð íslensks prentmáls eins og það birtist í bókum. Myndun efnis frá upphafi prentunar á Íslandi til 1844 var verkefni sem var frekar auðvelt að ná utan um enda til fullkomin söguleg bókaskrá yfir það tímabil. Yfir tímabilið 1844–1944 er bara til skrá á spjöldum sem þarf að leggja talsverðan tíma í að vinna áfram. Auk þess eykst það magn sem prentað er mikið um miðja 19. öld með fjölgun prentsmiðja og aukinni vélvæðingu í þeim.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Aukin uppbygging mun auka aðgengi að Íslandstengdu prentuðu efni. Þó að nú sé unnið að því að mynda íslenskt prentmál í tímaröð hefur stundum verið farið „fram í tímann“ og ýmislegt efni gert aðgengilegt eins og mikið notuð heimildasöfn, t.d. lög, fornbréf og þjóðsögur. Þetta hefur stóraukið aðgengi nemenda, fræðimanna og almennings að ýmsum grundvallarritum. Fyrir nokkrum árum var myndað talsvert af ferðabókum um Ísland vegna aukins áhuga á norðurslóðum og rannsókna á þeim.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Framtíðarsýnin er að á vefnum megi finna stafræn eintök af öllu Íslandstengdu prentuðu efni fram til ársins 2000. Heildarfjöldi rita 1850–1900 er um 3.000 eða um 240.000 blaðsíður. 

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Kostnaður við rekstur innviðarins er við skráningu, myndun, forvörslu, tæknilegt viðhald. Í drögum að skýrslu frá 2018 um kostnað og framkvæmd við stafræna endurgerð á útgefnu prentuðu efni á Íslandi á árabilinu frá 1850 til 2015, þar sem fjöldi rita er áætlaður 88 þús. rit og áætlaður fjöldi bls. 9,3 millj. Ef verkið yrði unnið á sex ára tímabili ásamt greiðslum fyrir höfundarétt er kostnaður metinn kr. 687 millj. með 41 millj. í árlegan kostnað eftir það í greiðslur fyrir höfundarétt og varðveislu gagnanna.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Stafrænar myndir af bókunum eru einnig aðgengilegar í Internet Archive (archive.org) og í Europeana.eu. Hvort tveggja eru söfn stafrænna endurgerða.

timarit.is

Heiti stofnunar: Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn

Tengiliður: Örn Hrafnkelsson, orn@landsbokasafn.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Vefurinn www.timarit.is er stafrænt safn sem veitir aðgang að milljónum myndaðra blaðsíðna á stafrænu formi af þeim prentaða menningararfi sem varðveittur er í blöðum og tímaritum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Stuðst er við nýjustu tækni í geymslu og miðlun upplýsinga. Vefurinn er einstakur í sinni röð í heiminum þar sem aðgangur að vefnum er ókeypis og öllum opinn auk þess að sambærilegir gagnagrunnar eru ekki nærri jafn víðtækir. Vefurinn er mjög mikið notaður af fræðimönnum og skólafólki sem nýtir hann við rannsóknir og ritgerðasmíð. Jafnt og þétt bætast við safnið fleiri titlar. Fjöldi titla sem skráðir eru í gagnagrunninn í byrjun júní 2020 er 1.313 og heildarfjöldi myndaðra blaðsíðna er 5.858.917. 

Stafræn hugvísindi (SH) (e. digital humanities) er ört vaxandi rannsókna- og miðlunarsvið á mörkum hugvísinda og upplýsingatækni. Í SH er aðferðum upplýsingatækni beitt á viðfangsefni hugvísindanna sem opnar fyrir nýjar þverfaglegar rannsóknir og viðfangsefni og miðlun niðurstaðna. Timarit.is er mikilvægur gagnabanki sem mun nýtast vel í þróun rannsókna á sviði SH og tengja íslenskar rannsóknir við alþjóðlega þróun á þessu sviði en ein af forsendunum fyrir uppbyggingu og þróun SH eru góðir gagnabankar eða gagnagrunnar.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmið með uppbyggingu á timarit.is er að bæta aðgang að prentuðum blöðum og tímaritum og bjóða upp á nýjar rannsóknaraðferðir. Blöðin og tímaritin hafa að geyma, auk almenns fréttaefnis og auglýsinga, mikið efni á sviði bókmennta, sagnfræði, ættfræði, þjóðlífs, menningar, atvinnuvega og viðskipta. Notendur geta leitað að efni á ýmsan hátt, svo sem eftir löndum og titlum, eða að völdu orði í öllum texta ritanna. Þeir geta einnig blaðað í gegnum efnið og prentað út valdar blaðsíður. 

Rannsóknarinnviður, eins og timarit.is, hvetur til margvíslegra þverfaglegra rannsókna og nálgana í stafrænum hugvísindum og opnar nýjar rannsóknaspurningar og sjónarhorn. Með aukinni uppbyggingu viljum við gera notendur sjálfbæra og mun aukið aðgengi leiða til aukinnar notkunar og skapa nýja þekkingu.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Frekari uppbygging á innviðnum timarit.is mun auðvelda aðgang fræðimanna að upplýsingum sem eru í dagblöðum og tímaritum og stafrænar myndir af þeim. Stefnt er að því að innan tíðar verði öll dagblöð og tímarit frá upphafi til dagsins í dag aðgengileg. Bæði innlendir og erlendir fræðimenn nýta sér gagnagrunninn timarit.is og samkvæmt talningum á netumferð fer notkun vaxandi bæði innanlands og utan. Með bættu aðgengi að gögnum stækkar notendahópurinn sem verður ekki bundinn lestrarsölum stofnanna. Frekari uppbygging verður til þess að stafræn hugvísindi vaxa. Frekari innviðauppbyggingin getur leitt af sér öflugra samstarf í faglegri rannsóknum á íslenskum tímaritum, stafrænni endurgerð þeirra og nýtingu á tæknibúnaði tengdum stafrænum gögnum svo eitthvað sé nefnt.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Timarit.is er einn vinsælasti vefurinn á Íslandi og með því að styðja við hann enn betur er hægt að gera hann að gagnabanka þar sem öll íslensk dagblöð og tímarit eru geymd. Með því erum við að búa til brunn upplýsinga sem nýtast fjölmörgum við upplýsingaleit og rannsóknir. Með því að auka efnið á timarit.is erum við að gjörbreyta aðgengileika að íslenskt efni sem annars þyrfti að hafa upp á og fletta upp í að ógleymdum öllum tímasparnaðinum sem fylgir. Með tengingum við Google er timarit.is einn helsti þekkingarbrunnur Íslendinga sem vilja fræðast um íslenska nútímasögu og er mikill akkur í því að styrkja stöðu vefsins.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Uppbygging á timarit.is eykur aðgengi að upplýsingum. Aukinn áhugi skapast á íslenskri sögu og menningu og fylgir mikill tímasparnaður, ekki eingöngu þeirra sem stunda rannsóknir, heldur alls almennings sem þarf ýmissa hluta vegna að afla sér upplýsinga.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Framtíðarsýnin er að til verði samskrá yfir öll íslensk tímarit og dagblöð frá upphafi. Rafræn skrá sem tekur við af prentuðum tímaritaskrám. Samskrá sem ekki eingöngu hefur að geyma upplýsingar um íslensk tímarit varðveitt á Íslandi heldur einnig tímaritum varðveittum í erlendum söfnum. Bætt, fullkomið aðgengi að tímaritum og stafrænum myndum. Innviðurinn timarit.is verður staðsettur hjá Landsbókasafni.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Kostnaður við rekstur innviðarins er við skráning, myndun, forvarsla, tæknilegt viðhald.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Lýsingar á tímaritum og stafrænar myndir eru aðgengilegar í EUROPEANA.

Kortlagning íslenskra örnefnaheimilda

Heiti stofnunar: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Tengiliður: Emily Diana Lethbridge, emily.lethbridge@arnastofnun.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Verkefnið snýst um að kortleggja helstu ritheimildir fyrir íslensk örnefni. Örnefni eru mikilvæg grein menningararfs Íslands enda eru þau varðveitt sem slík í íslenskum lögum (2015 nr. 22). Einnig eru örnefni notuð sem heimild á mörgum fræðisviðum innan hug-, félags- og náttúruvísinda. Hér má nefna málsögu, sagnfræði, fornleifafræði, mannfræði, þjóðfræði, jarðfræði, vistfræði og landfræði og auk þess, nafnfræði. Nýlegar rannsóknir í mörgum þessara fræðigreina hafa sýnt fram á mikilvægi örnefna innan nútímasamfélaga: örnefni tengja fortíð við nútímann, tengja fólk við staði, og eru hluti af sál og sjálfsmynd þjóðarinnar.

Heimildir um örnefni eru margar og fjölbreyttar, prentaðar og óprentaðar eða óútgefnar, allt frá elstu handritum til örnefnalýsinga frá 20. og jafnvel 21. öldinni. En eins og staðan er í dag er engin tæmandi listi eða samantekt yfir þennan fjölda heimilda. Þau sem vilja nota örnefni í fræðilegum rannsóknum eða af öðrum tilefnum (t.d. í skipulags- og umhverfismálum, kennslu, menningarlistagreinum eða menningartengdri ferðaþjónustu) þurfa að leita um víðan völl og safna saman upplýsingum frá mörgum stöðum. Sumt efni er meira að segja óskráð og því ófinnanlegt og óaðgengilegt.

Verði verkefnið styrkt munu rannsóknarinnviðir sem verða búnir til gjörbreyta þessu ástandi og beina fólki að margslungnum heimildum og fjársjóði örnefna sem þær innihalda. Áætlað er að þróa áfram nýja gagnagrunninn Nafnið.is sem verið er að hanna á vegum nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM) undir stjórn Emily Lethbridge sem er sviðsstjóri. Nafnið.is verkefnið er styrkt af Innviðasjóði Rannís nú þegar og frumútgáfa grunnsins verður opnuð haustið 2020. Í kjölfar þess munu fræðimenn og sérfræðingar svo og almenningur fá opinn aðgang að örnefnalýsingum sem Örnefnastofnun Íslands stóð að á sínum tíma en sem nú eru varðveittar á SÁM. Þetta ómetanlega safn inniheldur rúmlega 500,000 örnefni og miðlun safnsins verður stórkostleg gjöf til þjóðarinnar og fræðiheimsins – þó er þetta aðeins hluti af heildarmyndinni í raun og veru. 

Frá upphafi verkefnisins hefur Nafnið.is verið ætlað sem stafræn gátt fyrir alls konar örnefnaheimildir (svo og aðrar tegundir íslenskra nafna t.d. nöfn í geimnum, mannanöfn, fyrirtækjanöfn, skipanöfn svo að nokkur dæmi séu nefnd). Ef fyrirhugað verkefni hlýtur styrk verður Nafnið.is grunnurinn verulega stækkaður. Fyrst og fremst verður lýsigögnum um fjölbreyttar heimildir fyrir íslensk örnefni bætt við, en heimildir sem eru ekki til í stafrænu formi verða einnig skráðar og myndaðar eins og hægt er. Öll gögn verða tengd með Linked Open Data-sniði (LOD) og því verður hægt að tengja örnefni og örnefnaheimildir við ýmis önnur gagnasöfn bæði íslensk og erlend.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmið með uppbyggingu á fyrirhuguðum rannsóknarinnviðum er að gera helstu heimildir um örnefni sýnilegar, aðgengilegar og leitarbærar á einum stað. Fólki verður gert kleift að sækja upplýsingar um örnefnagögn og einnig mun það geta á eigin forsendum skoðað gögn sem eru til á stafrænu formi. Með því að veita fólki aðgang á einfaldan hátt að lýsigögnum um heimildir um örnefni, svo og heimildum eða gögnunum sjálfum, verður þessi menningararfur dreginn fram í dagsljósið. Virkur áhugi á örnefnum ætti þannig að aukast og mikilvægi örnefna sem vitnisburðar um sögu Íslands (frá menningarlegu, samfélagslegu og landfræðilegu viðhorfi) verður undirstrikað. Annað markmið felst í því að gera gögn og lýsigögn nothæf í ýmiskonar samhengi—t.am. með því að varpa þeim í LOD-kerfi verður hægt tengja þau við önnur gagnasett eins og þörf er á. Þetta rímar við stefnu og aðgeraðáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017-2019 þar sem aðgerð 10 er stefna um opin vísindi—en þetta verkefni er enn í vinnslu (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2015022.html ).

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Verkefnið krefst þess að gögn séu samnýtt, samtengd og sameinuð milli mismunandi stofnana (t.d. Þjóðskjalasafns, Landsbókasafns, héraðsskjalasafna, Landmælinga Íslands, Landhelgisgæslunnar, Hafrannsóknarstofnunar). Þau sem myndu vinna að verkefninu á vegum SÁM þyrftu því að eiga samstarf við starfsfólk á þessum stofnunum til að kanna og skrá gögn og búa til stöðluð lýsigögn um örnefnaheimildir í fórum þeirra. Einnig myndi verkefnið krefjast aukins samstarfs á milli sviða innan SÁM (t.d. nafnfræðisviðs, þjóðfræðisviðs, handritasviðs) því hluti af þróun grunnsins myndi snúast um að tengja hann við aðra gagnagrunna svo sem ismus.is og handrit.is. 

Í LOD-sniðinu sem yrði notað felast mörg og spennandi tæknileg tækifæri til að skapa nýjar rannsóknarspurningar og aðferðir sem yrðu mótaðar þvert á vísindasvið. Þverfaglegar aðferðir eru lykillinn að því að takast á við brýn þemu og samfélagslegar áskoranir svo sem umhverfissögu landsins og sögulegrar breytingar í landslaginu, varðveislu fornminja, rétti einstaklinga og þjóðarinnar hvað náttúrulegar auðlindir og notkun þeirra varðar, og þróun byggðar. Hvað samfélagslegar áskoranir varðar er nauðsynlegt að akademískir fræðimenn með sérþekkingu vinni með sérfræðingum á vegum ríkis og sveitarfélaga en innviðirnir sem hér eru um að ræðir yrðu traustur grunnur til þess og myndi gera öllum kleift að fá aðgang að gögnum og vinna úr þeim eins og þörf yrði á á markvissan og hagnýtan hátt. Allir á landinu nota örnefni dags daglega og því hefur viðfangsefni verkefnisins víða skírskotun t.d. í opinbera geiranum, viðskiptum, menningar- og listaheiminum eða í akademíska heiminum.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Eins og staðan er í dag, eru heimildir fyrir örnefni illa aðgengilegar og ekki auðfinnanlegar. Þær eru dreifðar út um allt land (hvað varðar stofnanir og söfn) og ekki í stöðluðum opnum aðgangi. Nafnið.is verkefnið er mikilvægt skref í þá átt að skrá og veita aðgang að tilteknu örnefnasafni og gera gögnin í fórum SÁM leitarbær, en eins og nefnt er að ofan eru örnefnalýsingar (sem eru kjarni safnsins) aðeins einn af mörgum flokkum íslenskra heimilda. Þróun og uppbygging verkefnsins sem hér er lýst mundi gera mögulegt að draga saman og staðla aðgengi að öllum helstu íslenskum örnefnaheimildum og þannig leysa úr læðingi þá rannsóknamöguleika og samfélagslega ávinning sem því myndi fylgja. Innleiðing LOD-kerfi opnast fyrir fjölda möguleika á að tengja gögnin við önnur gagnasett (heima svo og erlendis) og því að margfalda hagnýtingarnotkun gagnanna á mörgum sviðum.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Í listanum yfir samfélagslegar áskornanir sem voru skilgreindar af Vísinda- og tækniráði og samþykktar 24.11.2018 eru umhverfismál og sjálfbærni fyrsti liður af þremur. Hér undir falla m.a. loftslagsmál, verndun lands og sjávar, náttúruvá og áhríf umhverfisbreytinga á fólk og samfélag. Örnefni eru lykilheimild hvað þetta varðar frá sögulegu sjónarhorni: í þeim felast alls konar upplýsingar um m.a. umhverfissögu Íslands og samspil á milli landslags og fólks allt frá fyrstu tíð til dagsins í dag. Til þess að takast á við vandamál framtíðar af þessu tagi er nauðsynlegt að virkja þekkingu okkar á fortíðinni. Hér munu fyrirhugaðir innviðir geta stuðlað að markvissari stefnumótun, hvort sem það er á minni svæðum (t.d. sveitum, bæjum) eða fyrir landið sem heild. Starfsfólk SÁM fæst á hverjum degi við úrlausn ýmissa mála sem tengjast örnefnum og staðhættum fyrir landsmenn. Þessi mál geta verið allt frá því að aðstoða fólk við að leita að uppruna örnefna sem standa þeim nær og yfir í það að vera deilumál sem rekin eru fyrir dómstólum. Einnig rannsökum við samfélagsleg gildi og mikilvægi örnefna í fortíð og nútíð. Við þekkjum því hversu gríðarlega sterk tenging fólks við landið og örnefnin er og hversu mikil áhrif hún hefur innan samfélagsins. Verkefnið sem hér er lýst hefur því skýr samfélagsleg gildi.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Að til verði innviðir þar sem allar örnefnaheimildir geta tengst saman á stafrænan hátt og verið gerðar leitarbærar og þar með aðgengilegt rannsóknarefni. Ekki er víst að nokkurn tímann mun nást að gera allar örnefnaheimildir stafrænar en innviðirnir til að gera það ættu í það minnsta að vera til staðar og þess vegna verður áhersla lögð fyrst á að búa til ítarleg lýsigögn til að ná yfir allar mögulegar heimildir. Meðal þeirra heimilda sem verða í forgangi eru: frumgögn sem liggja á bak við örnefnalýsingar í fórum SÁM; landamerkjalýsingar; fornbréf; íslensk handrit sem innihalda rit um örnefni og staðhætti (m.a. fornrit svo sem sögurnar); jarðabækur; sýslu- og sóknarlýsingar; manntöl; söguleg kort; gögn í héraðsskjalasöfnum; íslenskar svo sem erlendar lýsingar um Ísland. Frumgögnin eru ýmist varðveitt á söfnum og stofnunum en sumt er búið að skanna og gera aðgengilegt sem pdf-skjöl á timarit.is t.d. Reksturinn verður á vegum SÁM í samvinnu við aðra viðeigandi aðila eftir samkomulagi. Framtíðarsýn verkefnisins felst því í opnum aðgangi og sjálfbærni sem byggð eru inn í LOD-kerfið eins og lýst er fyrir ofan. Þar sem SÁM er aðili í landshópi CLARIN (Common Language Resources and Technology Infrastructure) á Íslandi verður verkefnið hluti af stærri innviðakjarna og m.a. yrði því þróun verkefnisins til framtíðar tryggð og mótað í takt við þróun annarra innviðaverkefna innan hug- og félagsvísinda.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Nú þegar eru grunnkerfi og grunnskráningarferli til staðar sem afurð Nafnið.is verkefnisins. Vinnuþættir og fjármögnunarþörf fyrir verkefnið sem hér er lýst snúast aðallega um að aðlaga og útvíkka þau kerfi og skráningarferli. Helstir vinnuþættir eru:

  • Vinna við heimildir (m.a. skráning, gerð lýsigagna, umbreyting á stafrænt form)
  • Vinna við tæknilega þróun kerfisins (m.a. aðlögun Nafnið.is grunnsins og OCR-ferlis sem var hannað fyrir örnefnalýsingar; aðlögun og tenging við aðra gagnagrunna sem þegar eru fyrir hendi)
  • Annar rekstrarkostnaður (t.d. verkefnastjórnun, tölvubúnaður fyrir verkefnið)

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Vegna þess að LOD staðallinn verður nýttur við gerð lýsigagna og samtengingu mismunandi örnefnafrumgagna myndast sjálfkrafa möguleiki á að tengja gagnasafnið við ógrynni erlendra gagnasafna. Sem dæmi mætti nefna sænska verkefnið Ortnamnsregistret beta (Institutet för språk och folkminnen, Uppsala); norska verkefnið Norske stadnamn (Universitetet i Bergen); finnska verkefnið Nimisampo (KOTUS (Kotmaisten kielten keskus/Instutite for the Languages of Finland). Með slíkri LOD tengingu væri hægt að tengja íslensk gögn við önnur örnefnagögn og þannig munu íslensk örnefni og heimildir um þau öðlast stærra hlutverk og fá nýtt gildi í alþjóðlegu samhengi.

Medieval Nordic Text Archive (Menota)

Heiti stofnunar: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Tengiliður: Beeke Stegmann, beeke@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Medieval Nordic Text Archive (Menota) er rafrænt safn norrænna miðaldatexta. Þar eru varðveittar og birtar rafrænar uppskriftir texta, þýðingar og handritamyndir, en Menota sér einnig um að aðlaga og þróa leiðbeiningar fyrir þá
textavinnu. Það er sameiginlegt verkefni stofnana og safna á Íslandi og í Noregi, Danmörku og
Svíþjóð.

Notaður er alþjóðlegur staðall TEI P5 (Text Encoding Initiative – www.tei-c.org). Skráð er í XML
(Extensible Markup Language) sem auðveldar notendum alla leit.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmið Menota er að veita fræðimönnum á ýmsum sviðum hug- og félagsvísinda
aðgang að mikilvægum rannsóknargögnum. Heimildirnar munu gagnast vísindamönnum á
sviði sagnfræði, íslenskra fræða, málvísinda, lögfræði, fornleifafræði, handritafræði,
skriftarfræði, svo nokkuð sé nefnt. Markmiðið er því uppbygging og viðhald rafræns
textasafns, sem safnar saman rannsóknargögnum í formi stafrænna texta, varðveitir þau og
veitir ókeypis aðgengi að þeim. Menota mun auðveldar fræðimönnum mjög að vinna með
texta og gerir þeim kleift að nýta þá á margvíslegan hátt.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Byggt verður á samstarfi sem þegar hefur verið komið á. Á Íslandi er að ræða um samstarf milli
Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Háskóla Íslands, en samstarfið með
hinum erlendum aðildunum, sérstaklega háskólunum í Björgvin, Uppsölum og Kaupmannhöfn,
er einnig mjög mikilvægt. Frekari uppbygging mun leiða til aukinnar notkunar Menota og
textanna sem eru aðgengilegir þar. 

Augljóst hagræði er af því að útbúa staðlað textasafn af þessu tagi sem er opið og aðgengilegt
öllum hvar sem er í heiminum. Eins og stendur er lítið um að rafrænir textar séu aðgengilegir
og því torvelt að nýta þá í rannsóknum. Auðvelt er að hugsa sér ýmsa samstarfsmöguleika til
rannsókna.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Nú eru uppskriftir af rúmlega 70 textum og þýðingar af tveimur textum varðveittar í safninu.
Æskilegt væri að fá miklu fleiri texta inn, sérstaklega texta sem nú þegar eru til rafrænir, og
gera þá aðgengilega. Það væri líka mjög gagnlegt að fá fleiri þýðingar inn, sem leyfa öðruvísi
nýtingu til viðbótar. Lýsigögnin gera fræðimönnum kleift að safna saman upplýsingum með
skilvirkari hætti en áður hefur verið mögulegt.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Gildi textasafnsins er ótvírætt fyrir vísindasamfélagið. Safnið mun ekki aðeins þjóna hlutverki
varðveislugrunns heldur veita yfirsýn yfir eðli og umfang texta. Bætt aðgengi að textum í
miðaldarhandritum á netinu – ásamt rafrænum myndum – fyrir fræðimenn hérlendis og
erlendis mun auðvelda rannsóknir á þessum textum og í mörgum tilvikum þarf ekki að fara
langar leiðir til að skoða sjálf handritin. Að því leyti myndi Menota leggja sitt af mörkum við að
streitast á móti loftslagsbreytingum.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Þótt textasafnið sé til krefst það viðhalds og færa verður inn nýja texta eftir því sem þeir berast
eða verður safnað. Það kostar tíma og peninga. Æskilegt væri að bæta við 10 nýjum textum á
ári að meðaltali.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Á Íslandi þarf að leggja til 1-2 mannmánuði á ári á næstu 5-10 árum.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Menota er alþjóðlegt tengslanet. Stafræna textasafnið er að auki tengt CLARINO Centre í Bergen.

ÍSLEIF: Netgátt og rannsóknagagnasafn um íslenskar fornleifar

Heiti stofnunar: Fornleifastofnun Íslands

Tengiliður: Adolf Friðriksson, adolf@fornleif.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Frá 1994 hefur Fornleifastofnun Íslands safnað stafrænum gögnum um menningarminjar í landinu. Auk þess hefur stofnunin tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi um þróun aðferða við stafræna gagnasýslu sl. 18 ár. Síðasta aldarfjórðung hafa jafnan verið um 4-5 stöðugildi við söfnunina, á vettvangi og í skjalasöfnum. Að baki eru nú yfir 250.000 mannstundir, rúmlega 2 miljónir færslna og upplýsingar um 106.534 staði í öllum landshlutum. Upplýsingum er safnað, með rækilega stöðluðum aðferðum, í gagnagrunn sem geymir upplýsingar um staðsetningu, ástand og eðli minja, umhverfi, hættumat, sögulegt samhengi og heimildir um hvern stað. Miðlun upplýsinga hefur einkum verið í formi skýrslna sem gefar eru út á pappír og í litlu upplagi.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Gagnasöfnunin sem hófst 1994 var jafnframt upphafið að uppbyggingu á rannsóknarinnviðum á sviði fornleifafræði og skyldra greina. Söfnunin mun halda áfram, en eftir stendur að gera innviðina aðgengilega ýmsum hópum notanda. 

Aðgangur vísindamanna utan Fornleifastofnunar takmarkast við einfalda kortasjá með lágmarksupplýsingum. Meginmarkmið uppbyggingarinnar er að opna gagnasafnið öllum til að nýta við rannsóknir á menningu og sögu þjóðarinnar, en einnig til hagnýtra rannsókna á borð við umhverfismat, skipulagsvinnu eða nýsköpun í ferðaþjónustu.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Mikill vöxtur hefur verið í afrakstri vísindarannsókna sl. 50 ár, en gagnasöfn, skipulag þeirrra og takmörk, hafa tilhneigingu til að vera skilgreind eftir lögbundnum skyldum stofnana. Ísleif er gagnasafn með fjölþættum upplýsingum sem varðveittar eru á ólíkum stöðum (t.d. örnefnaskrár hjá Árnastofnun, ópr. skjöl hjá Þjóðskjalasafni, gripaskrár hjá Þjóðminjasafni, landamerkjaskrár hjá sýslumannsembættum, ljósmyndir hjá héraðsskjalasöfnum o.sv.fr), auk nýrra gagna sem FSÍ aflar sjálf á vettvangi. Með netgátt munu ýmsir aðilar geta nýtt aðgang að þessum gögnum sem rannsóknartæki (t.d. HÍ, MSÍ, LbH, UST, VJÞ, St. Vilhj. St., Arctic Univ. ofl).

Nýir innviðir munu einnig leiða til aukinna og markvissari samskipta vísindafólks og atvinnulífs, s.s. vegna umhverfismats, skipulagsgerðar, framkvæmda, fjárfestinga og nýsköpunar í atvinnulífinu.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Í dag er til stórt safn gagna sem nýtist ekki sem skyldi vegna þess að það er ekki nettengt og hefur ekki notendavænt viðmót. Það nýtist sem stendur eingöngu þeim vísindamönnum sem vinna við að bæta við nýjum gögnum og gefa út skýrslur um tiltekin svæði eða verkefni. Með netgáttinni munu gögnin nýtast þeim aðilum sem stunda rannsóknir á fornleifum og menningarlandslagi.


Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Vönduð uppbygging innviða með upplýsingum um menningararf þjóðarinnar varðar einkum tvö svið: menningarsaga, umhverfi. Á síðustu öld átti skefjalaus eyðing fornleifa sér stað, m.a. vegna vegaframkvæmda og túnræktunar, en einnig uppblásturs og landeyðingar. Með nýjum innviðum sem m.a. geyma upplýsingar um staðsetningu menningarminja, ástand þeirra og mögulegri hættu vegna rofs eða annars, mun verndun menningarlandslags og sögu verða markvissari og árangursríkari en ella.Kortasjá Ísleifar

Skjámynd af kortasjá Ísleifar: Punktarnir sýna dreifingu gagnapunkta um hluta Suðurlands.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Kjarni Ísleifar telur 2 miljónir færslna og vex að meðaltali um 250 færslur á dag. Rekstur vegna framleiðslu nýrra gagna er kostaður með sölu rannsóknarþjónustu og innlendum og erlendum rannsóknarstyrkjum. Framundan er að fjárfesta í búnaði til að veita upplýsingaþjónustu.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Kostnaður við framleiðslu nýrra gagna er um 50 mkr á ári og áðurnefndir tekjustofnar standa undir þeim útgjöldum. Kostnaður við upplýsingaþjónustu liggur í fjárfestingu á notendaviðmóti með rannsóknaráhöldum og viðhaldi eldri gagna. Ætla má að vinna við hugbúnaðarsmíð, prófun og uppfærslur verði um 1000 mannstundir á ári í 2-3 ár, eða 50-75 mkr. Eftir það þarf að gera ráð fyrir vinnu við uppfærslur á 3-5 ára fresti, um 100 mannstundir eða 2,5mkr í hvert sinn.
Viðhald eldri gagna er fólgið í að gera ráð fyrir gæðaeftirliti sem byggist á þeirri reglu að sérfræðingar yfirfari allt safnið á 3 árum. Samkvæmt reynslu tekur 1 manndag að yfirfara 1500 færslur og gera má ráð fyrir 2 stöðugildum fyrir viðhald, eða 20 mkr á ári, sbr töflu.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Vinna við uppbyggingu Ísleifar hefur farið fram í margvíslegu samstarfi við vísindamenn og rannsóknarstofnanir beggja vegna Atlantsála. Fornleifastofnun hefur tekið þátt í allmörgum þróunarverkefnum sem varða gagnasöfnun og miðlun vísindagagna á sviði fornleifafræði sl. 18 ár : ARIADNE (Advanced Research Infrastructure for Archaeological Dataset Networking in Europe) 2018-. ARKWORK (Archaeological Practices and Knowledge Work in the Digital Environment 2015-2018), CyberInfraStructures (National Science Foundation /USA, 2014-2017), Archaeolandscapes of Europe (2010-2015), Pre-Industrial Landmarks in Europe (2002-2007) og Archaeological Records of Europe - Networked Access (2002-2004).

Nú þegar liggur fyrir tenging við helsta gagnakerfi Evrópu í fornleifafræði (ARIADNE+) og í hinum ýmsu rannsóknarhópum hafa fulltrúar Norðurlandaþjóða haft samráð um gagnavinnslu. Gert er ráð fyrir áframhaldandi þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og mun netgátt Ísleifar auðvelda gagnamiðlun og samræmingu milli rannsóknarhópa.

Opin SAGA. Opinn aðgangur og framtíðarútgáfa fagtímarits íslenskrar sagnfræði

Heiti stofnunar: Sögufélag

Tengiliður: Brynhildur Ingvarsdóttir, brynhildur@sogufelag.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Opin SAGA verður margmiðlunarsíða og veflægur gagnagrunnur um íslenska sagnfræði. Á síðunni verður opinn aðgangur að efni tímaritsins SÖGU á mismunandi formi. Tímaritið er gefið út tvisvar á ári í prentformi en á vefsíðunni verður efni hvers heftis aðgengilegt að hluta og í heild, í  rafrænum opnum aðgangi og upplesið sem hljóðgreinar. Einnig væru þættirnir ritdómar, álitamál og annað skylt efni birt þar rafrænt jafnharðan en ekki bundið prentútgáfu tímaritsins tvisvar á ári. 

Tímaritið SAGA er vettvangur íslenskrar sagnfræði og hefur verið gefið út af Sögufélagi óslitið frá árinu 1949. SAGA er eina fagtímaritið í heiminum sem er sérhæft á sviði Íslandssögu. Það er einnig eina tímaritið sem er opið fyrir öllum sviðum sagnfræðinnar og hefur að ritstjórnarstefnu að gefa breiða mynd af rannsóknum í íslenskri sagnfræði. Þar eru birtar ritrýndar greinar, álitamál, viðhorf, sjónrýni og fleira. Það er auk þess í fararbroddi þegar kemur að umræðu um rannsóknir og birtir ítarlega ritdóma um ný innlend sagnfræðiverk og erlend verk sem snúa að sögu Íslands.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Auka aðgengi fræðasamfélagsins og almennings með fjölbreyttri miðlun á efni tímaritsins, sem er helsti vettvangur nýrra rannsókna í íslenskri sagnfræði. Grunnhugmyndin með þessari tillögu er að breyta útgáfufyrirkomulagi á tímaritinu SÖGU og taka skrefið inn í rafrænan og hljóðrænan heim með opnum aðgangi þess. Með því er hægt að auka ávinning af útgáfustarfinu, uppfylla kröfur rannsóknarsjóða og opinbera stefnu stjórnvalda um opinn aðgang (e. open access) að rannsóknum og samhliða því að sinna menningarhlutverki gagnvart almenningi á Íslandi. Nú þegar eru birtir enskir útdrættir allra fræðigreina í tímaritinu en með opnum aðgangi væri hægt að nýta þessa fjárfestingu betur og framleiða þýðingar á greinum fyrir erlenda markhópa. Aðgengi að rannsóknum á íslenskri sagnfræði væri þannig verulega aukið á alþjóðavettvangi. 

Með þessu er tímaritið SAGA að fylgja í kjölfar annarra íslenskra fagtímarita á vegum Háskóla Íslands eða háskólastofnana sem eru aðilar að opinni birtingu fagtímarita (e. open journal system).

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Uppbygging Opinnar SÖGU mun stórauka aðgengi fræðimanna og almennings hérlendis og erlendis að rannsóknum í íslenskri sagnfræði með fjölbreyttari og opnari miðlun. Aukin aðgangur að efninu mun auka nýtingu og örva rannsóknir í faginu. Uppbyggingin er í samræmi við alþjóðlega þróun stafrænna hugvísinda (e. digital humanities) og opnar möguleika á tengingum við viðeigandi efnisveitur fræðilegs efnis. Hún mun jafnframt opna fyrir möguleika á gagnvirkni og þar með stórefla samstarf fræðimanna með stafrænum rannsóknum. Samhliða býður þessi aðferð upp á þátttöku almennings í rannsóknum fræðimanna, svo og samræðu um álitamál í sagnfræði og öðrum greinum hug- og félagsvísinda. 

Á undanförnum áratug eða svo hefur rekstrarumhverfi vísindatímarita á Íslandi tekið stórtækum breytingum. Vaxandi kröfur um opið aðgengi að niðurstöðum rannsókna, aukið vægi alþjóðlegra matskvarða á vægi tímarita í matskerfi opinberra háskóla og breyttar lestrarvenjur neytenda fræðilegs efnis með aukinni rafrænni eða hljóðútgáfu eru meðal helstu ástæðna þess að hefðbundin útgáfa vísindatímarita á pappír stendur höllum fæti.

Á Íslandi er löng hefð fyrir áhuga almennings á sögu landsins og aukið aðgengi mun tryggja áframhaldandi og bætta þátttöku almennings í umræðu um söguleg málefni. Ísland hefur mikla sérstöðu miðað við nágrannalöndin að þessu leyti og uppbyggingin myndi gefa tækifæri til þess að styrkja enn frekar þessa þátttöku með fjölbreyttari miðlun og opnari aðgangi. Vel heppnuð sókn Sögufélags inn á samfélagsmiðla hefur rennt frekari stoðum undir grundvöll virkrar þátttöku almennings og þróunar á þessu sviði.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Í dag er nýjustu hefti tímaritsins SÖGU eingöngu aðgengileg í prentuðu formi með þriggja ára birtingartöf á rafrænni birtingu á timarit.is. Nýjustu rannsóknir eru því eingöngu aðgengilegar áskrifendum og kaupendum útgáfunnar á pappír. Með uppbyggingunni yrði bylting á aðgengi að rannsóknum í íslenskri sagnfræði fyrir fræðasamfélagið, nemendur, almenning og áhugafólk erlendis. Rafræn miðlun og sá sveigjanleiki sem hún býður er nú orðin sá veruleiki sem neytendur búast við og hljóðmiðlun kemur til móts við þarfir þeirra sem ekki geta nýtt sér aðrar leiðir miðlunar eða kjósa að hlusta í stað þessa að lesa.

Í nágrannalöndunum, t.d. í Noregi, hefur þarlendur rannsóknarsjóður tekið virkan þátt í að umbreyta helsta fagtímariti þeirra, Historisk tidskrift, úr hefðbundnu áskriftartímariti í opinn veflægan rannsóknaraðgang í gegnum idunn.no með góðum árangri. Tímaritið hefur einnig sína eigin síðu þar sem birtar eru ítarlegar upplýsingar um tímaritið og ritstjórn þess, leiðbeiningar til höfunda o.fl.

Ávinningur af uppbyggingu Opinnar SÖGU:

  • Tímaritið SAGA fær meiri útbreiðslu en nú er og nær betur til yngra fólks og yngri fræðimanna
  • Með hljóðbirtingu greina eykst aðgengi þeirra sem eiga erfitt með lestur eða kjósa þessa lestrarleið sem síaukin sókn er í
  • Hinn mikilvægi vettvangur sem SAGA hefur verið frá 1949 til birtingar á rannsóknum og rökræðum um bækur getur haldið velli í nýju rafrænu umhverfi
  • Hægt verður að bjóða upp á opinn aðgang frá útgáfu hvers nýs heftis
  • Ef valdar íslenskar greinar verða þýddar á ensku er hægt margfalda ávinninginn og nýta ritstjórnarvinnu ritstjóra til að auka erlend áhrif (e. impact factor) tímaritsins á erlendum vettvangi

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Tímaritið er eina fagtímaritið í heiminum í íslenskri sagnfræði og helsti vettvangur rannsókna á sviðinu. Með birtingu ritrýndra greina er tryggt samtal og rökræða um íslenska sagnfræði. Það er því vart hægt að gera of mikið úr mikilvægi Sögu fyrir rannsóknir og miðlun á íslenskri sögu og sögulega þekkingu hér á landi í víðara samhengi. Miðað við nágrannalöndin hefur útgefendum Sögu tekist að ná marktækt meiri útbreiðslu til annarra en fræðimanna, án þess að nokkuð sé slegið af fræðilegum kröfum eða verklagi. Hér á landi eru langflestir virkir fræðimenn í sagnfræði og skyldum greinum áskrifendur að ritinu, en auk þess stór hópur fólks sem hefur áhuga á Sögu og þeim viðfangsefnum sem þar er fjallað um. Það er árangur sem ævinlega vekur athygli á Norðurlöndum. 

Með aukinni uppbyggingu innviða með Opinni SÖGU gefast frekari tækifæri til að virkja rannsóknarniðurstöður í samfélagsumræðu og efla möguleika okkar til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir sem tengjast Lífi og störfum í heimi breytinga, sem Vísinda- og tækniráð hefur skilgreint sem hluta af brýnustu áskorunum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir á næstu árum og áratugum. Lesið skal í framtíðina í krafti þekkingar á fortíð og sögu. 

Hér skal einnig minnt á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og tengingar þessa viðfangsefnis við þau, einkanlega nr. 4 (menntun, lýðræði, jöfn tækifæri), nr. 5 (jafnrétti) og 16 (jafn aðgangur).

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Gert er ráð fyrir að uppbyggingin fari fram í nokkrum skrefum:

  1. Þróun og uppsetning nýrrar vefsíðu og veflægs gagnagrunns um tímaritið SÖGU – Opin SAGA (vinna þegar hafin við undirbúning)
  2. Opinn aðgangur verði að öllu efni tímaritsins
  3. Rafútgáfa hvers tölublaðs aðgengileg í heild og í hlutum
  4. Gagnagrunnur tengdur viðeigandi innlendum og erlendum gagnagrunnum/gagnaveitum
  5. Hljóðútgáfur gerðar og gefnar út í opnum aðgangi
  6. Ensk útgáfa vefsíðunnar Opin SAGA
  7. Enskar þýðingar verði framleiddar og gefnar út 

Með uppbyggingu Opinnar SÖGU er jafnframt gert ráð fyrir að prentupplag tímaritsins verði minnkað í 300 eintök úr 900 og áskrifendum verði boðið að greiða sérstaklega fyrir það sem áfram vilja prentútgáfu.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

8 milljónir á ári í 10 ár.
Vakin skal athygli á því að nú er vinnsla og útgáfa tímaritsins fjármögnuð með áskriftargjöldum eingöngu og nýtur engra opinberra styrkja. Ef aðgangur að tímaritinu verður alveg opinn án birtingartafar er fótum er kippt undan sölu tímaritsins í prentútgáfu og þar með undan framtíðarútgáfu tímaritsins.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Afar mikilvægt er að tryggja betur aðgengi innlendra fræðimanna að fræðaheimi umheimsins sem nú verður stafrænn í stöðugt meira mæli. Í því samhengi má benda á Idunn.no sem er samnorrænn gagnagrunnur fagtímarita sem afar vænlegt væri að tengjast, svo og tengingar við aðra alþjóðlega gagnagrunna í hug- og félagsvísindum.

Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista

Heiti stofnana: Háskóli Íslands, Listaháskóli Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðskjalasafn Íslands, Þjóðminjasafn Íslands, Landsbókasafn - Háskólabókasafn, Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur

Tengiliður: Guðmundur Hálfdánarson, ghalfd@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista (MSHL) verður vettvangur fyrir uppbyggingu, vistun, samráð um þróun og aðgengi að stafrænum gagnabönkum í hugvísindum og listum, og fyrir rannsóknir sem byggja á þessum gagnabönkum. Gagnabankarnir ná bæði yfir málleg gögn, þ.e. texta og tungumál, og gögn í öðru formi, eins og myndir, myndbönd, þrívíddarmódel, hljóð og myndlist í stafrænu formi. MSHL mun halda utan um þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á sviði stafrænna rannsóknainnviða í hugvísindum og listum. 

Stafræn hugvísindi (SH) (e. digital humanities) er ört vaxandi rannsókna- og miðlunarsvið á mörkum hugvísinda og upplýsingatækni. Í SH er aðferðum upplýsingatækni beitt á viðfangsefni hugvísinda og lista, sem opnar fyrir nýjar þverfaglegar rannsóknir og viðfangsefni og miðlun niðurstaðna. MSHL mun leiða þróun rannsókna á sviði SH og tengja íslenskar rannsóknir við alþjóðlega þróun á þessu sviði. Forsenda fyrir uppbyggingu og þróun SH eru góðir gagnabankar, þ.e. bankar sem eru öruggir í rekstri, aðgengilegir og með fullnægjandi skráningu lýsigagna. 

MSHL verður vistuð við Háskóla Íslands, í samstarfi Hugvísindasviðs og Upplýsingatæknisviðs, en sett upp sem dreifð stofnun sem þjónustar alla rannsakandur í hugvísindum og listum á Íslandi. Í því felst að miðstöðin hefur innan sinna vébanda helstu gagnabanka á Íslandi á sviði hugvísinda og lista, en gagnabankarnir verða áfram reknir hjá og í eigu þeirra stofnana þar sem þeir eru nú. Öll gögn innan MSHL verða vistuð með opnum notendaleyfum og aðgengileg þeim sem vilja. MSHL er sett upp í samræmi við stefnu Háskóla Íslands og annarra stofanana um eflingu rannsóknarinnviða og aukna þátttöku í samfélagi og atvinnulífi. 

Fyrirmynd að MSHL er sótt til Danmerkur, þar sem Digital Humanities Laboratories er ein af meginstoðum i uppbyggingu rannsóknainnviða.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmið miðstöðvarinnar er að þróa stafræn hugvísindi á Íslandi og tengja íslenskar rannsóknir alþjóðlegri þróun á sviði stafrænna hugvísinda og lista. MSHL er ætlað að:

  • auka samráð þeirra stofnana sem reka íslenska gagnabanka á sviði hugvísinda og lista; 
  • stuðla að uppbyggingu gagnabanka og uppfærslu á gagnabönkum sem þegar eru til;
  • tryggja að gagnabankar uppfylli alþjóðlega staðla um lýsigögn;
  • leiða þróun tæknilausna fyrir gagnabanka og innkaup á tilbúnunum lausnum, allt eftir hvað á best við hverju sinni;
  • veita rannsakendum aðgang að gagnabönkum og sérhæfðum tækjum og tæknilausnum til að sinna rannsóknum á þessum gagnabönkum; 
  • aðstoða við miðlun efnis sem hentar þörfum mismunandi markhópa; 
  • standa fyrir þjálfun í rannsóknatækni og aðferðum SH.

Eitt af markmiðum MSHL er að víkka svið stafrænna hugvísinda með áherslu á gögn sem eru ekki málgögn. MSHL mun undirbúa aðild Íslands að DARIAH, sem er evrópskt samstarfsnet um rekstur rannsóknarinnviða á sviði lista og hugvísinda og sinnir annars konar gagnabönkum en málgögnum. Markmiðið er að koma á fót DARIAH miðstöð á Íslandi. DARIAH miðstöðin verður sett upp hliðstæð íslensku CLARIN miðstöðinni, sem sinnir málgögnum og rannsóknum þeim tengdum innan evrópska samstarfsnetsins CLARIN.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Stofnanirnar sem standa að tillögunni eru Háskóli Íslands – Hugvísindasvið, Landsbókasafn Íslands, Listaháskóli Íslands, Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands. Allar stofnanirnar eiga þegar í miklu samstarfi á sviði rannsókna og rannsóknaþjálfunar, en með tilkomu MSHL munu forsendur fyrir samstarfi um verkefni sem tengjast stafrænum gagnabönkum gjörbreytast. Miðstöðin mun auðvelda aðgengi rannsakenda og rannsóknanema að stafrænum gögnum og tækjum til að vinna rannsóknaverkefni á grunni gagnanna, auk þess sem hún mun sinna þjálfun og þróun á sviðinu. Miðstöðin mun leggja nýjan grunn að samstarfi hugvísinda og lista.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Eitt af meginhlutverkum rannsóknastofnana á Íslandi er að safna, varðveita og miðla rannsóknagögnum. Stofnanirnar sem standa að þessari umsókn sinna allar þessu hlutverki og undanfarin ár og áratugi hafa þær byggt upp öfluga stafræna gagnabanka (t.d. timarit.is, heimildir.is, handrit.is, sarpur.is, safneign.listasafnreykjavikur.is, malid.is, kvikmyndasafn.is, ismus.is) sem hafa breytt umhverfi rannsókna í hugvísindum og listum. Sífellt fleiri gagnabankar bætast við sem þarf að skrá á öruggan, agaðan og aðgengilegan hátt. Þessi uppbygging kallar á langtímastefnu um varðveislu og uppsetningu nýrra stafrænna gagnabanka. MSHL mun tryggja mun betur en í dag öryggi gagnabanka og lífvænleika, og auka aðgengi að tækjum til rannsókna og miðlunar á stafrænum gögnum. 

Ísland fékk áheyrnaraðild að evrópska rannsóknainnviðaverkefninu CLARIN árið 2018 og er fullgildur aðili frá byrjun árs 2020 (lagabreyting sem tók gildi 2019 gerir aðild að evrópskum rannsóknainnviðum – ERIC – mögulega). Aðildin hefur breytt miklu fyrir þróun og gæði stafrænna málgagna á Íslandi. Tilfinnanlegur skortur er á sambærilegri uppbyggingu fyrir annars konar gagnabanka en málgögn, sem aðild að DARIAH mun stuðla að.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

MSLH mun styrkja möguleika til að takast á við samfélagslegar áskoranir sem Vísinda- og tækniráð leggur áherslu á. Innviðauppbyggingin gefur tækifæri til rannsókna sem tengjast Lífi og störfum í heimi breytinga þar sem gagnabankarnir innihalda fjölbreyttar upplýsingar um lýðfræðilegar breytingar, jafnrétti, fjölbreytni, menningu, hugarfar og breytingar á hugarfari yfir lengri tíma. Innviðauppbyggingin mun líka efla rannsóknir sem tengjast Heilsu og velferð, þar sem bankarnir innihalda verðmætar upplýsingar um líðan, velferð og einkalíf. Eins mun innviðauppbyggingin efla rannsóknir sem tengjast Umhverfismálum og sjálfbærni, þar sem góðar upplýsingar um áhrif umhverfisbreytinga á fólk og samfélög skipta verulegu máli.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Uppbyggingaráætlunin er í 6 liðum:

  1. Kortlagning og greining á fyrirliggjandi gagnagrunnum um íslenska menningu og listir, sögu og tungumál. Kortlagningin mun ná til innihalds gagnagrunnanna, vistunar þeirra, öryggis og gæða lýsigagna. 
  2. Þróunarvinna með Upplýsingatæknisviði HÍ. Samhliða verkþætti 1 og í kjölfar hans verður greind þörf fyrir tæknilausnir, hvaða lausnir verður hægt að kaupa og hvaða lausnir þarf að þróa sérstaklega á Íslandi. 
  3. Sótt um aðild að DARIAH, evrópska samstarfsnetinu um stafræn hugvísindi og listir, með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins. 
  4. Samræming lýsigagna með framtíðarþróun að leiðarljósi. 
  5. Ráðið í stöðu sérfræðings í stafrænum hugvísindum. Sérfræðingurinn mun vinna náið með Upplýsingatæknisviði HÍ við þróun stafrænna gagna á sviði hugvísinda og lista og rekstur þeirra, og sinna jafnframt kennslu og rannsóknum á sviði stafrænna hugvísinda. 
  6. Þróun og gerð nýrra gagnabanka fyrir rannsóknir í hugvísindum og listum.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Fjármögnunarþörfin tengist fyrst og fremst þremur liðum í áætluninni. Í fyrsta lagi þarf að fjármagna stöðu sérfræðings við MSHL sem sér um rekstur og þróun miðstöðvarinnar. Í öðru lagi þarf að fjármagna þátttöku Íslands í DARIAH og tryggja framtíðarfjármögnun CLARIN (fjármögnun CLARIN er tryggð til fimm ára frá og með 2018, en frá 2023 á eftir að tryggja henni fjármagn). Í þriðja lagi þarf að fjármagna vinnu við uppfærslu gagnagrunna sem þegar eru til og gerð nýrra gagnagrunna. Gert er ráð fyrir að rekstur miðstöðvarinnar muni kosta um 39 milljónir árlega, sem skiptist í launakostnað upp á 15 milljónir (m.v. laun lektors eða dósents), aðildagjöld upp á 2 milljónir fyrir DARIAH og 2 milljónir fyrir CLARIN (frá 2023), og vinnu við gagnagrunna upp á um 20 milljónir (forritun, skráning og miðlun). Á næstu mánuðum verður ráðist í nánari greiningu á kostnaði við uppfærslu og uppbyggingu stafrænna innviða.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Í byrjun árs 2020 varð Ísland fullgildur aðili að CLARIN (clarin.is), sem er evrópskt samstarfsnet um rannsóknainnviði (ERIC) fyrir málgrunna. CLARIN verður einn af hornsteinum miðstöðvarinnar. Þar sem CLARIN takmarkast við málgrunna, þ.e. gagnagrunna sem eru bundnir texta og tungumál, er markmiðið að Ísland gerist aðili að DARIAH. DARIAH er evrópskt samstarfsnet um rannsóknainnviði sem fæst við gagnagrunna sem ekki eru málgrunnar, tryggir að lýsigögn þeirra uppfylli alþjóðlega staðla, veitir aðgang að ýmsum rannsóknatækjum til að vinna með stafræna gagnagrunna sem ekki eru málgrunnar og þjálfun í að vinna með þá. 

Fyrir utan þessi tvö evrópsku innviðanet mun MSHL tengjast öðrum alþjóðlegum gagnabönkum, eins og Europeana (fyrir evrópskar menningarminjar), Research Catalogue (fyrir rannsóknagögn á sviði lista) og Danish Data Archive (fyrir rannsóknagögn á sviði hug- og félagsvísinda).

Ísmús og Sagnagrunnur – endurskipulagning

Heiti stofnana: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafn - Háskólabókasafn

Tengiliður: Rósa Þorsteinsdóttir, rosa.thorsteinsdottir@arnastofnun.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Ætlunin er að endurskipuleggja gagnagrunninn Ísmús (ismus.is) til þess að hann þjóni betur
hlutverki sínu sem rannsóknargagnagrunnur, bæði hvað varðar þjóðfræðirannsóknir og
rannsóknir á tónlistarsögu. Um leið verður Sagnagrunnurinn sameinaður þjóðfræðihluta
Ísmús og hannað nýtt viðmót fyrir tónlistarhluta gagnagrunnsins. Ísmús - íslenskur músík- og
menningararfur - er gagnagrunnur sem geymir og birtir á vefnum gögn er varða íslenska
menningu fyrr og nú: hljóðrit, ljósmyndir, kvikmyndir, handrit og texta. Verkefnið er í umsjá
Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Tónlistarsafns Íslands, sem nú er
staðsett hjá Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni. Sagnagrunnurinn er kortlagður
gagnagrunnur yfir sagnir úr helstu þjóðsagnasöfnum Íslands, verkefni sem unnið var að
tilstuðlan Terry Gunnell prófessors í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Nú er komið að því að
endurskipuleggja Ísmús þar sem gagnamagnið þar er orðið mjög mikið og flókið, en sem
dæmi má nefna að skráðir einstaklingar eru komnir yfir 10 þúsund. Ætlunin er að framendi
verkefnisins verði tvískiptur, annar hlutinn með áherslu á þjóðfræðiefni og hinn
tónlistarsögu. Báðir framendarnir munu þó vinna úr sama gagnagrunni til að tryggja
samræmingu gagna þar sem gögn munu óhjákvæmlega skarast á milli hlutanna tveggja að
einhverju leyti. Ennfremur er ætlunin að tengja sum gögnin öðrum gagnagrunnum á vegum
stofnananna tveggja og jafnvel annarra, til þess að tryggja að notendur hafi aðgang að öllum
upplýsingum um þjóðfræðaefni og tónlistarsögu sem fáanlegar eru.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmiðið er að bæta aðgengi að þjóðfræðaefni og upplýsingum um tónlist og
tónlistarsögu með því að endurskipuleggja og einfalda framsetningu efnis í gagnagrunninum
Ísmús, tengja þjóðfræðihluta hans við Sagnagrunn og jafnframt tengja aðra hluta Ísmús við
fleiri gagnagrunna á vegum Landsbókasafns og Árnastofnunar, sem geyma skyld gögn.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Á síðustu árum hafa ýmsar stofnanir unnið að því að koma sögulegum gögnum á stafrænt form ásamt því að skapa lýsigögn með það að markmiði að gera þessi gögn leitarbær og auðvelda flutning þeirra á milli kerfa. Þar má helst nefna Árnastofnun, Þjóðskjalasafn, Þjóðminjasafn og Landsbókasafn. Með því að sameina þessa tvo grunna, Sagnagrunn og Ísmús, fæst heilsteyptari stafræn mynd af þjóðfræðiefni landsins sem að sama skapi mun auka á heildarmynd stafrænna sögulegra gagna. Tengsl við Sögulegt manntal og jarðatal, samstarfsverkefni Árnastofnunar, Þjóðskjalasafns, Þjóðminjasafns, Landsbókasafns og Landskerfis bókasafna, sem nú er unnið að fjármögnun á, mun bæta tengingu milli ólíkra gagnasafna sem nýtast á breiðu sviði rannsókna. Auk þess er ætlunin að tengjast betur öðrum gagnagrunnum stofnananna svo sem handrit.is, bækur.is, einkaskjol.is, bragi.arnastofnun.is, sarpur.is og Vefsjá kirkjubóka. Sem dæmi um tengingar sem nú þegar eru til staðar má nefna tengsl Sagnagrunns við handrit.is og einkaskjol.is. Flestar sagnanna sem skráðar eru koma úr þjóðsagnasöfnum sem safnað var frá miðri 19. öld fram á fyrri hluta 20. aldar og upphafleg handrit þeirra eru varðveitt í handritasöfnum Landsbókasafns og Árnastofnunar. Við hverja sögu í Sagnagrunni er gefinn tengill á mynd af upphafssíðu hennar í handriti á handrit.is. Uppskriftir bréfa úr bréfasafni Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara eru einnig aðgengilegar í Sagnagrunni. Hér er lögð áhersla á að birta uppskriftir bréfa sem varða þjóðsagnasöfnun hans og útgáfu, svo sem frá þeim sem söfnuðu fyrir hann út um landið. Myndir af bréfum sem varðveitt eru í handritasöfnum Árnastofnunar og Landsbókasafns Íslands eru birtar á einkaskjol.is og eins og með handritin er birtur tengill á myndirnar við uppskriftirnar í Sagnagrunni.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Endurskipulagning þjóðfræðigrunnanna tveggja og sameining þeirra mun breyta þeim möguleikum sem þjóðfræðingar hafa til rannsókna á þjóðfræðiefni úr prentuðum söfnum frá miðri 19. aldar til efnis sem varðveitt er í viðtölum frá síðari hluta 20. aldar. Þannig verður hægt að leita á einum stað að efni í stað tveggja. Þá munu endurbæturnar og yfirgripsmikið gagnasafn yfir þjóðfræði, bréfaskriftir á 19. öld, tónlistarsögu (allt frá miðöldum til nútímans) og einstaklinga ‒ svo dæmi séu tekin ‒ auðvelda rannsóknaraðgengi og gagnast ekki eingöngu rannsakendum í þjóðfræði heldur einnig þeim sem leita upplýsinga í skyldum fögum svo sem sagnfræði, tónlistarsögu og kirkjusögu. 

Í Ísmús eru myndir af nær öll handritum sem innihalda nótur af einhverjum toga og varðveitt eru í íslenskum söfnum auk mynda af nótum í eldri prentuðum bókum. Nótur finnast bæði í skinnhandritum og handritabrotum með kaþólskum kirkjusöng fram til um 1550, og í pappírshandritum frá 16. öld og fram á 19. öld sem aðallega varðveita lútherskan kirkjusöng. Elstu prentaðar bækur íslenskar með nótum eru svokölluð Hólabók, sálmabók prentuð 1589, og Graduale (Grallari) - messusöngbók sem fyrst var prentuð árið 1594. Þetta efni, sem myndað var, vistað og skráð í Ísmús um og eftir aldamótin 2000, verður nú sífellt meira aðgengilegt ítarlega skráð á vefjunum handrit.is og bækur.is. Á þessum vefjum eru þó ekki allar þær upplýsingar sem vert er að skrá varðandi tónfræði og tónlistarsögu. Því liggur fyrir að skilgreina þarf hvaða tónfræði- og tónlistarsögulegar upplýsingar mætti skrá með efninu á handrit.is og bækur.is og hvað í Ísmús. 

Árið 2006 hófst söfnun heimilda um orgel í kirkjum landsins. Nær allar kirkjur landsins hafa verið heimsóttar, ljósmyndaðar innan sem utan og einn sálmur leikinn á orgelið inn á myndband. Þessar heimildir eru aðgengilegar á Ísmús. Eftir föngum hefur síðan verið bætt við hvers konar ítarupplýsingum um kirkjurnar, sérstaklega varðandi sönglíf og tónlist. Hér má nefna ljósmyndir af eldri hljóðfærum og upplýsingum um þau, forsöngvara-, organistaog prestatal, upplýsingar um kóra og tengingar í áður birtar umfjallanir eftir því sem við á svo sem á timarit.is. Ætlunin er að  bæta mjög framsetninguna og þar með aðgengið að þessum upplýsingum og hugsanlegt er að tengja þær einnig við Vefsjá kirkjubóka hjá Þjóðskjalasafni til þess að auka gildi gagnanna í rannsóknum. 

Í Ísmús hafa verið skráðir tónlistarmenn, allt frá organistum og forsöngvurum í kirkjum landsins til rappara og poppara dagsins í dag. Allt þetta fólk er nú falið inni í hinum langa mannanafnalista gagnagrunnsins en ætlunin er að draga það fram og mynda þannig heildstætt tónlistarmannatal. Margt tónlistarfólkið tengist síðan ýmsum hópum svo sem hljómsveitum af öllum gerðum og kórum og hóparnir hafa tekið þátt í viðburðum þar sem flutt eru margvísleg tónverk. Öllu þessu hefur verið haldið til haga í Ísmús og ætlunin er að gera þessar upplýsingar aðgengilegar með nýstárlegri framsetningu svo sem með myndum og tímaásum. Slík framsetning mun gefa öllum áhugasömum nýja sýn á tónlistarlíf landsins, sérstaklega á þeim tíma þegar vestræn tónlist var að ryðja sér hér til rúms.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Endurskipulagning Ísmús og Sagnagrunns mun fyrst og fremst auka aðgengi fræðimanna og almennings að upplýsingum, en um leið hefur hún í för með sér vinnu- og tímasparnað. Þó að aðaláherslan liggi í því að byggja upp rannsóknarinnviði munu heimildirnar einnig nýtast öllum almenningi og nemendum á öllum skólastigum. Efnið sem geymt er í Ísmús og Sagnagrunni kemur alls staðar að af landinu og geymir þar með staðbundinn fróðleik sem hægt er að nálgast til þess að viða að sér þekkingu á menningu landsins, landinu sjálfu og nærumhverfi sínu.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Framtíðarsýnin felur í sér að til verði yfirgripsmikið gagnasafn og opinn aðgangur að þjóðfræðaefni og heimildum um tónlistarsögu. Ætlunin er að til verði öflugt rannsóknartæki fyrir þjóðsagnarannsóknir og aðrar rannsóknir á tónlistarlífi, mannlífi og heimsmynd 19. aldar og upphafi síðustu aldar. Endurskipulagning gagnagrunnanna tveggja og rekstur þeirra næstu árin verður í höndum Árnastofnunar, sem nú þegar hýsir báða gagnagrunnana.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Í upphafi er gert ráð fyrir að um 12 milljónir þurfi til þróunarvinnu, yfirfærslu og tengingu
gagnagrunna og forritun viðmóts/umsýslukerfis. Fyrir handvirka yfirferð, lagfæringar og
samræmingu gagna er gert ráð fyrir að þurfi um 5 milljónir. Eftir það er áætlað að um 3
milljónir þurfi á ári til áframhaldandi þróunar, viðhalds og reksturs.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Í Hollandi, Svíþjóð og Noregi hafa byggst upp á síðustu árum stafræn söfn yfir þjóðfræðiefni. Þar má nefna SPIN (Study Platform on Interlocking Nationalisms) sem skapað hefur yfirgripsmikinn gagnagrunn um ímyndarsköpun þjóða á tíma rómantíkurinnar í Evrópu og tengist það mjög söfnun þjóðfræða. Íslensk gagnasöfn tengd Sagnagrunni og Ísmús hafa verið tengd við SPIN en með skipulagðara og heilsteyptara gagnasafni munu möguleikar á samtengingu aukast sem setur Ísland í stærra alþjóðlegt samhengi á þessu sviði. Í Svíþjóð og Noregi hafa byggst upp gagnagrunnar yfir sagnir í þjóðfræðisöfnum Norsk Folkeminnesamling og Instututet för språk och folkminnen. Þau gagnasöfn ásamt íslenska efninu munu tengjast inn í ISEBEL (Intelligent Search Engine for Belief Legends) verkefnið sem miðar að því að þróa leitarvél fyrir sagnir óháð tungumáli leitarorða. Það verkefni mun einnig tengja Ísland inn í samevrópskt samhengi í þjóðsagnarannsóknum. 

Heimildirnar sem verða aðgengilegri í hinni nýju framsetningu á Ísmús og Sagnagrunni geta einnig nýst við rannsóknir á tungumáli þar sem gagnagrunnurinn geymir ýmis málleg gögn bæði í rituðu og töluðu máli og skiptir þannig máli fyrir hið alþjóðlega samstarf sem fram fer hjá CLARIN-IS sem hefur aðsetur á Árnastofnun.

Sögulegt manntal og jarðatal í opnum aðgangi - miðlægur gagnagrunnur

Heiti stofnana: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðskjalasafn Íslands, Landsbókasafn - Háskólabókasafn, Þjóðminjasafn Íslands, Landskerfi bókasafna hf.

Tengiliður: Rósa Þorsteinsdóttir, rosa.thorsteinsdottir@arnastofnun.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Ætlunin er að koma upp Sögulegu manntali og jarðatali í opnum aðgangi með því sameina og samnýta lýsigögn fjögurra stofnana sem varðveita og skrá menningararf þjóðarinnar; Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðminjasafns Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands. Landskerfi bókasafna hf.,(Landskerfið) sem rekur Gegni og Sarp er einnig aðili að þessu verkefni. Á grundvelli verkefnisins verður mótuð stefna um lýsigagnasamvinnu safnanna sem leggur grunn að því að koma á fót og reka til frambúðar sameiginlegan gagnagrunn sem byggir á Linked Open Data (LOD). Þetta verður miðlægur gagnagrunnur yfir fólk og staði sem er óháður mismunandi gagnasniði og sem öll gagnasöfn stofnananna, sem að verkefninu standa, geta sótt upplýsingar í og bætt við. Tæknilegar aðferðir, innleiðing verkefnisins og sú þekking sem þar verður til mun ekki eingöngu nýtast stofnununum fjórum heldur verður verkefnið leiðandi hvað varðar það að tengja saman stór opin gagnasöfn sem nota stöðluð lýsigögn og eru í samræmi við „FAIR principles“ (findable, accessible, interoperable, reusable). Með slíkum gagnasöfnum verða til stoðkerfi til að vinna margvíslegar rannsóknir, það hvetur til þverfaglegra rannsókna og nálgana og opnar nýjar rannsóknaspurningar og sjónarhorn. Auk þess að nýtast til rannsókna er hægt að hugsa sér margvíslega notkunarmöguleika slíks grunns bæði fyrir ferðaþjónustuaðila, skipulagsyfirvöld og hin fjölmörgu menningarsetur sem finnast víða um land auk byggðasafna og héraðsskjalasafna.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmiðið felst í því að byggja upp rannsóknarinnvið sem gagnast stofnununum sem að honum standa, öðrum menningarstofnunum, fræðasamfélaginu, fyrirtækjum og almenningi. Stofnanirnar fjórar hafa það allar að markmiði og er bundið í lög að þær eigi að leitast við að stuðla að fræðslu og miðlun safnkostsins. Með þessu verkefni er stórt skref tekið að því markmiði. Fyrir þær allar felst verkefnið einkum í möguleikum á aukinni birtingu safnkosts og skýrari framsetningu heimilda, auk þess sem beinn vinnusparnaður mun verða af því að gera heimildir aðgengilegar, fremur en að eyða kröftum starfsfólks í að aðstoða almenning, stofnanir eða aðra aðila við heimildaleit. Takmarkið er því að gera fólk að meira leyti sjálfbært í sinni eigin leit, sem mun án efa leiða til aukinnar notkunar heimildanna og um leið skapa nýja þekkingu. Ljóst er að með slíku samstarfi sem hér er áætlað opnast möguleiki á enn frekara samstarfi á milli stofnananna fjögurra hvað varðar aðgang að frumheimildum. Í þessu verkefni mun einnig skapast vettvangur til umræðu um meðferð slíkra heimilda og hvernig eigi að skrá upplýsingar úr þeim þegar þeim ber ekki saman. Af framangreindri lýsingu ætti að vera ljóst að markmið samstarfsaðilanna er nokkuð skýrt, að búa til upplýsingaveitu sem gagnast mörgum til margra mismunandi hluta. Áður en því markmiði verður náð verður þó að fara fram heilmikil þróunarvinna.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Verkefnið mun auðvelda starfsfólki safna, starfsfólki sveitarstjórna og ríkis og öðrum aðilum að nálgast upplýsingar sem þeir þurfa að nota í sína þágu. Í stað þess að sama vinnan sé unnin á ólíkum stöðum er mögulegt að auka og leiðrétta fyrirliggjandi upplýsingar og eiga samræðu við aðra fræðimenn um meðferð heimilda. Einnig skapar grunnurinn möguleika á að tengja aðrar heimildir við grunninn, má þar m.a. nefna landamerkjaskjöl og örnefnaskrár, upplýsingar um einstaklinga og veita upplýsingar um hvar frekari gögn má finna um þá. Fyrir utan aðgang stofnana til þess beinlínis að sækja sér gögn er gert ráð fyrir að einnig verði útbúin einföld leitargátt í tengslum við sögulegt manntal og jarðatal. Þannig geta fræðimenn og aðrir áhugasamir nýtt sér gagnagrunninn og leitað að einstaklingum og/eða stöðum og fengið vitneskju um í hvaða gagnasöfnum stofnananna fjögurra hægt er að nálgast upplýsingar um viðkomandi manneskju eða jörð. Einsýnt er að slíkur grunnur mun nýtast vel við uppbyggingu staðbundinnar ferðaþjónustu, uppsetningar sýninga, rannsóknir á byggðasögu og skipulagsvinnu á vegum opinberra aðila. Stofnanirnar sem að verkefninu standa hafa nú þegar reynslu af því að vinna saman á ýmsan hátt og mun sú reynsla nýtast vel í þessu samstarfi. Stofnanirnar búa yfir mikilli samanlagðri þekkingu sem mun nýtast enn betur í slíku samstarfi og auka öryggi og samræmi gagna. Á þeim starfa sérfræðingar á þeim sviðum sem um ræðir, auk þess sem stofnanirnar hafa tengslanet um allt land, svo sem minja- og skjalasöfn sem mun reynast dýrmætt við söfnun upplýsinga. Landskerfi bókasafna hf. er eini þátttakandinn sem ekki er opinber stofnun, en það er hlutafélag í eigu ríkis og sveitarfélaga og var upphaflega stofnað um rekstur sameiginlegs kerfis fyrir íslensk bókasöfn. Landskerfið kemur til greina sem aðili sem tæki að sér rekstur, viðhald og þjónustu við hina miðlægu gagnaveitu þegar verkefnið verður komið í rekstur en fyrirtækið sinnir þegar sambærilegum verkefnum.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Umsækjendum er ekki kunnugt um nein verkefni hér á landi á sviði menningararfs þar sem stuðst er við LOD, enda eru þetta yfirleitt stór og viðamikil gagnasafns- og gagnagrunnsverkefni (big data) og ekki á færi lítilla aðila. Á hverri áðurnefndra fjögurra stofnana eru reknir fleiri en einn gagnagrunnur þar sem upplýsingar um fólk og staði eru skráðar og þannig hafa orðið og verða enn til sambærilegar upplýsingar á mörgum stöðum. 

Dæmi um slíka gagnagrunna eru handrit.is, bækur.is, ismus.is, heimildir.is og  sarpur.is. Gagnasöfnin eru flest á mismunandi gagnasniði og eru ekki samhæfð eins og er. Þau innihalda þó öll sams konar upplýsingar um staði og persónur, en sá sem þarf að leita að og safna saman upplýsingum um ákveðinn einstakling eða stað þarf nú að leita í hverjum gagnagrunni fyrir sig. Fyrsta skrefið til samhæfingar er að setja á fót sameiginlegan gagnagrunn fyrir mannanöfn og staði sem söfnin geti sótt upplýsingar í og flutt inn í sín gögn, skráningar yfir nöfn og staði. Ætlunin er að hanna kerfi sem safnar vélrænt saman upplýsingum úr öllum þessum gagnagrunnum stofnananna og mynda þannig sögulegt manntal og jarðatal í opnum aðgangi. Niðurstaðan úr ferlinu myndi verða sú að sami einstaklingur og sami staður úr fleiri söfnum fái einkvæmt auðkenni. URI (Uniform Resource Identifier) er staðlað, einkvæmt auðkenni viðfanga (resources) og er eins konar kennimark gagnanna, algerlega einstakt og heldur utan um upplýsingar um fólk, staði, viðburði og fleira. Afar mikilvægt er að til verði einkvæmt auðkenni einstaklinga og jarða.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Þjóðfélagslegur ávinningur gagnagrunns sem þessa er einkum þríþættur: 1) hann eykur aðgengi almennings að upplýsingum. Með því móti mun sparast mikill tími og áhugi skapast á gögnunum, ekki eingöngu þeirra sem stunda rannsóknir, heldur alls almennings sem þarf ýmissa hluta vegna að afla sér upplýsinga; 2) sögulegt manntal og jarðatal auðveldar samþættingu gagna á internetinu þar sem gögn verða tengd saman – til verður ný þekking sem mun hafa í för með sér markvissari rannsóknir og tímasparnað, en einnig getur ný framsetning gagna orðið kveikjan að nýjum rannsóknar-spurningum; 3) afurðir verkefnisins munu nýtast ýmsum aðilum sem í dag eru með eigin skrár fyrir nafnmyndir og staðarheiti. Með því að safna saman í gagnagrunn upplýsingum, sem eru margar hverjar afar óaðgengilegar skapast ný þekking sem mun stuðla að miklum vinnusparnaði fyrir fjölmarga aðila sem stunda rannsóknir á Íslandi. Gagnagrunnar, eins og þeir sem hér er fjallað um, búa til nýja þekkingu í sjálfu sér þar sem framsetning efnisins mun leiða af sér nýjar rannsóknarspurningar. Þá mun búnaðurinn gegna lykilhlutverki í miðlun gagna með því að tengja gögn safna og annarra aðila við landfræðilega staðsetningu og eru þegar uppi áform um að birta gögn er varða landamerki jarða, dóma og fleiri atriði við landfræðilega vefsjá sem yrði einn afrakstur verkefnisins. Með verkefninu verður því til stoðkerfi sem hægt er að nýta til margvíslegrar nýsköpunar. Nemendur á öllum skólastigum geta nýtt sér aðgengi að upplýsingum um staði og fólk til að vinna að verkefnum og þróa með sér þekkingu á landinu. Aðilar á markaði munu einnig geta nýtt sér afrakstur verkefnisins, m.a. til að þróa nýjar vörur og þjónustu, s.s. smáforrit og tölvuleiki. Ferðaþjónusta mun geta nýtt sér verkefnið með beinum hætti og sama má segja um þá aðila sem þróa vörur í sögu- og menningargeira enda verður kerfið hannað með það í huga að endurnýta þau gögn sem verða til í verkefninu og að aðrir geti nýtt sér afraksturinn án þess að greiðsla komi til.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Framtíðarsýnin er sú að hér verði til fyrsti vísir að sameiginlegu miðlægu verkfæri fyrir öll söfn landsins. Verkefnið mun auðvelda starfsfólki safna, starfsfólki sveitarstjórna og ríkis, svo sem byggingar- og skipulagsyfirvöldum, umhverfisfræðingum, fornleifafræðingum og jafnvel lögfræðingum að nálgast upplýsingar sem þeir þurfa að nota í sína þágu. Í stað þess að sama vinnan sé unnin á ólíkum stöðum er mögulegt að auka og leiðrétta fyrirliggjandi upplýsingar og eiga samræðu við aðra fræðimenn. Innviðirnir verða staðsettir hjá Árnastofnun meðan á vinnslu verkefnisins stendur. Sérfræðingar stofnanna munu síðan þjónusta innviðina í framtíðinni. Ábyrgðinni verður því, þegar fram í sækir, skipt á milli stofnananna þannig að viðhald innviðanna sé tryggt. Reiknað er með að fleiri aðilar geti síðan bæst í samstarfið, en lykilatriði er að allir aðilar að verkefninu geti nálgast upplýsingar úr grunninum án þess að gjald komi fyrir og að um opin kerfi (e. open source) sé að ræða.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Í nýlegri umsókn til Innviðasjóðs er áætlaður kostnaður við uppbyggingu sögulegs manntals og jarðatals 29.500.000 kr. þ.m.t. framlag stofnananna sjálfra. Ætla má að eftir að grunnurinn er kominn á fót þurfi um 10 millj. á ári til viðhalds hans og frekari þróunar.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Um allan heim er safnageirinn, þ.e. bóka-, lista-, minja- og skjalasöfn, að vinna að verkefnum sem hafa það að markmiði að spara vinnu við að halda utan um og skrá þessi sameiginlegu atriði – persónur, stofnanir/fyrirtæki, staði, tíma og viðburði – og safna þannig saman upplýsingum fyrir notendur – vísinda- og fræðimenn, almenning og atvinnulíf – og þá sem vinna við kerfin á einn stað. Sem dæmi um erlend verkefni sem þátttakendur tengjast nú þegar má nefna VIAF (The Virtual International Authority File) sem Landsbókasafn er aðili að og SPIN (Study Platform on Interlocking Nationalisms) sem Árnastofnun hefur sett upplýsingar inn í. Þá má nefna aðild að  CLARIN en skrifstofa CLARIN-IS er á Árnastofnun.

Diplomatarium Islandicum: Rafrænn gagnagrunnur fornbréfa og skjala

Heiti stofnunar: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Tengiliður: Þórunn Sigurðardóttir, thsig@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Opinn rafrænn gagnagrunnur um íslensk fornbréf og skjalagjörninga (svo sem landamerkjabréf og -deilur, hjónabandsgjörninga eða kaupmála, máldaga, jarðakaupabréf, rekamál, tilskipanir frá konungi eða konunglegum embættismönnum, stefnur, vitnisburði, klögunarbréf, samn-inga, dóma, arfaskiptabréf, ættleiðingu og erfðir, leigu og landskuld o.s.frv.) Skjölin eru allt frá miðöldum til loka 18. aldar. Þau eru flest á íslensku en einnig talsvert á dönsku og latínu og jafnvel á þýsku. 

Gagnagrunnurinn mun innihalda skráningu á skjölunum þar sem mannanöfn, örnefni (þ.m.t. bæjarnöfn) og lykilorð (atriðisorð) eru leitarbær. Þá verður um að ræða nákvæma lýsingu á efnisinnihaldi, ástandi og varðveislu. Einnig munu fylgja skráningunum stafrænar ljósmyndir af hverju skjali og innsiglum þar sem þau er að finna. Vatnsmerki sem finnast í pappírsgögnum verða skráð í viðkomandi færslu. Endurgerð gagnanna með stafrænni ljósmyndun mun gera vísindamönnum kleift að vinna með gögnin á ýmsa vegu og nýta í margvíslegum tilgangi. 

Notaður verður alþjóðlegur staðall TEI P5 (Text Encoding Initiative) en þar er sérstakur kafli helgaður fornbréfum. Skráning verður í XML (Extensible Markup Language) í forritinu Oxygen, sem auðveldar notendum alla leit.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmið gagnagrunnsins er að veita fræðimönnum á ýmsum sviðum hug- og félags-vísinda (hugsanlega fleiri sviða) aðgang að mikilvægum rannsóknargögnum sem ekki hafa verið aðgengileg til þessa. Heimildirnar munu gagnast vísindamönnum á sviði sagnfræði, íslenskra fræða, málvísinda, lögfræði, fornleifafræði, handritafræði, skriftarfræði, svo nokkuð sé nefnt, auk þess sem sum skjalanna kunna að hafa lagalegt gildi (t.d. varðandi jarðakaup, landamerkjalýsingar, afréttarmál, þjóðlendumál o.fl.). Skjölin geta til dæmis nýst við ritun héraðssagna, gefið upplýsingar um landamerki og jarðir, örnefni og staðfræði, málfar, málbreytingar og málþróun, samskipti Danmerkur og Íslands, þjóðhætti og menningarleg fyrirbæri, viðhorf embættismanna og almennings til ýmissa málefna, svo nokkuð sé nefnt. Gagnagrunnurinn mun auðvelda fræðimönnum mjög að vinna með gögnin og gera þeim kleift að nýta þau á margvíslegan hátt sem ella væri ómögulegt.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Ætlunin er að fá Þjóðskjalasafn Íslands, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn og Den Arnamagnæanske samling til samstarfs (samræður hafa verið á milli stofnananna um slíkan grunn) en á öllum stofnunum er gríðarlegt magn fornbréfa og bréfabóka. Á Árnastofnun eru t.d. 1345 frumbréf varðveitt í 270 öskjum, og tæplega 6000 ‚apogröf‘ (17. og 18. aldar uppskriftir fornbréfa) í 76 bögglum. Þá eru skjalabækur á þriðja hundrað í safninu, t.d. bréfabækur biskupa, máldagabækur og embættisbækur yfirvalda. Einnig eru nokkur fornbréf í Landsbókasafni og mjög líklega er þau að finna í ýmsum héraðsskjalasöfnum um landið. – Augljóst hagræði er af því að útbúa staðlaða samskrá yfir þessa innviði sem yrði opin og aðgengileg öllum hvar sem er í heiminum. Eins og stendur er afar lítið af þessum gögnum skráð í opinberum söfnum í landinu og því torvelt að nýta þau í rannsóknum. Auðvelt er að hugsa sér ýmsa samstarfsmöguleika til rannsókna milli fræðimanna, fræðasviða og stofnana með nýtingu á þessum gögnum. 

Gert er ráð fyrir að gagnagrunnurinn verði hýstur á svæði hinnar rafrænu handritaskrár Handrit.is en verði jafnframt aðgengilegur frá heimasvæðum þeirra stofnana sem að honum standa. Það á þó eftir að ræða við viðkomandi stofnanir.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Fornbréf frá miðöldum fram til um 1570 voru prentuð á 19. öld og f.hl. 20. aldar en Jón Sigurðsson forseti lagði grunn að útgáfunni og gaf út fyrsta bindið af 16 (Diplomatarium Islandicum/Íslenzkt fornbréfasafn). Rafræn skráning á bréfunum með leitarbærum lykilorðum, manna- og staðarnöfnum og dagsetningum mun gjörbreyta aðgengi að bréfunum og efla rannsóknir á ýmsum sviðum. Enn fremur verða upplýsingar um innsigli og vatnsmerki í pappírsbréfum gerðar leitarbærar á netinu. – Fornbréf eftir 1570 eru fá prentuð og ekki eru til aðgengilegar skrár yfir þau. Einnig eru ‚apogröf‘ sem Árni Magnússon gerði og lét gera fyrir sig víða um land í upphafi 18. aldar mjög mikilvægar heimildir. Sum skjalanna eru prentuð í Íslenzku fornbréfasafni, ýmist eftir frumbréfum eða uppskriftum Árna ef frumbréf er glatað, en annað kann að vera með öllu óútgefið. Ekki er vitað hve mikið er af óútgefnum skjölum í safninu. Þá er útgáfan í Íslenzku fornbréfasafni oft mjög ónákvæm og stundum eru villurnar meinlegar. Auk þess vantar nokkuð upp á að menn hafi séð við ýmsum falsbréfum eins og Stefán Karlsson sýndi fram á í frumbréfaútgáfu sinni Islandske originaldiplomer indtil 1450 (1963). 

Lýsigögnin munu gera fræðimönnum kleift að safna saman upplýsingum með skilvirkari hætti en áður var mögulegt. Með því að kóða upplýsingar í XML (Extensible Markup Language), t.d. mannanöfn, staðarnöfn, ártöl, vatnsmerki, innsigli, nótur, spássíugreinar o.fl. verður hægt að finna þær með tölvuleit og greina með nýjum aðferðum. Mögulegt verður að kalla fram mengi upplýsinga með einni skipun, t.d. að finna öll skjöl sem geyma vatnsmerki, eða innsigli, eða öll fornbréf sömu tegundar, svo nokkuð sé nefnt.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Gildi gagnagrunnsins er ótvírætt fyrir vísindasamfélagið. Grunnurinn mun ekki aðeins þjóna hlutverki varðveislugrunns heldur veita yfirsýn yfir eðli og umfang gagnanna. Veigamesta hlutverk hans er þó að auðvelda aðgengi að mikilvægum heimildum sem hafa að mestu legið óbættar hjá garði. Leitarbær nöfn, örnefni og lykilorð munu að líkindum gerbreyta aðstöðu og aðferðum við rannsóknir. 

Lýsigögnin munu einnig verða hvatning til nýrra rannsókna á ýmsum sviðum hug- og félagsvísinda, og ef til vill fræðasviða eins og landafræði og náttúrufræði. – Þá geta gögnin komið að haldi við rannsóknir tengdar loftslagsmálum, svo sem skjöl um landamerki, örnefni, rekamál, enn fremur lýsingar á jarðkostum og landnýtingum til forna o.fl.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Uppsetning, hönnun viðmóts og skráningarforms þarf að vinna í samstarfi allra stofnananna sem koma að verkefninu. Brýnt er að fá góða yfirsýn yfir magn gagnanna og skoða hvað er til varðveitt af slíku efni á skjalasöfnum landsins. 

Nauðsynlegt er að efnislýsingar og greining bréfanna verði á hendi sérfræðinga á sviði íslenskra fræða eða sagnfræði því slíkt krefst bæði viðamikillar þekkingar á íslenskri sögu og reynslu af rannsóknarvinnu með sambærilegar heimildir. Skrásetjarar þurfa einnig að hafa menntun og reynslu af að vinna með frumheimildir fyrri alda og geta lesið ýmsar skriftartegundir. Gert er ráð fyrir að uppbygging grunnsins geti tekið um áratug en að honum loknum geta viðkomandi stofnanir séð um rekstur, endurbætur og þær viðbætur sem væntanlegar rannsóknir fræðimanna gefa tilefni til.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Fjármagn þarf til hönnunar og uppbyggingar gagnagrunnsins en rekstur hans og umsjón með gerð hans yrði á vegum þeirra stofnana sem varðveita gögnin (Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands – Háskólabóksasafns, Þjóðskjalasafns Íslands og e.t.v. Den Arnamagnæanske samling í Kaupmannahöfn). – Umsjónarmenn verða sérfræðingar á vegum viðkomandi stofnana.

Áætlað er að þörf sé fyrir:

  • Forritara og hönnuð samtals 36 mannmánuði = 32,4
  • Ljósmyndara í 24 mannmánuði = 23,3.
  • Skráningarfólk: 2 starfsmenn í 10 ár (eða 4 í 5 ár), sem myndu sinna skráningum gagnanna og einnig rannsaka umfang slíks efnis á skjalasöfnum á landsbyggðinni = 168,0
  • Overhead = 45,0 

Samtals 270.000.000 kr.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Sambærilegir gagnagrunnar eru að spretta upp víða í Evrópu (sjá http://diplomaterium.dk svo dæmi sé nefnt). Árnastofnun hefur verið í sambandi við forsvarsmenn norsks verkefnis, ‚Diplomatarium Menotae‘, um aðferðir við skráningu fornbréfa og gerð slíkra gagnagrunna með það í huga að samræma vinnubrögð; einnig um samræmd lykilorð (atriðisorð). Einnig höfum við verið í sambandi við Den Arnamagnæanske samling í Kaupmannahöfn um samstarf. Þótt flest skjöl úr safni Árna Magnússonar hafi verið afhent íslenskum stofnunum (1226 fornbréf úr safni Árna Magnússonar voru afhent Þjóðskjalasafni Íslands snemma á 20. öld en Árnastofnun fékk sín skjöl til varðveislu árið 1996) eru mörg fornbréf sem varða dönsk og færeysk málefni, og Árni safnaði í Kaupmannahöfn, varðveitt á Árnasafni í Kaupmannahafnar-háskóla en nokkur fjöldi norskra skjala var afhentur ríkisskjalasafninu í Osló á sínum tíma. Þessi skjöl hafa ekki verið gerð aðgengileg með skráningum í gagnagrunna fremur en þau sem hérlendis eru varðveitt. – Skjölin varða sögu Norðurlandanna, einkum Danmerkur og hjálendna hennar. Saman mynda þau menningarlegan og fræðilegan fjársjóð, auk þess sem þau tengjast mörgum öðrum sögulegum heimildum.

Fragile Heritage: Innviðir fyrir stafrænt aðgengi að sameiginlegum menningararf

Heiti stofnunar: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Tengiliður: Katelin Marit Parsons, katelin@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Við umfangsmikla fólksflutninga verður til menningararfur sem skapast og varðveitist þvert á landamæri. Sá arfur er brothættur í varðveislu og kortlagningu að því leyti að hann er ekki fyllilega eign einnar þjóðar. Þannig verður hann oft útundan, ekki síst í verkefnum sem tengjast miðlægum stofnanunum á borð við þjóðbókasöfn og þjóðminjasöfn. Á sama tíma felur sameiginlegur menningararfur í sér tækifæri til alþjóðlegrar samvinnu. Nýting tækni til þess að þróa deilivettvang fyrir allan slíkan arf er tilefni til samstarfs í uppbyggingu.

Rannsóknainnviðir fyrir stafrænan aðgengi að sameiginlegan menningararf eru á byrjunarstigi á Íslandi en mikill áhugi á þróun slíkra innviða er til staðar. Leitast er í þessari tillögu við að opna umræðu um myndun stærri innviðakjarna hérlendis til að fást við víðtækari rannsóknir um fólksflutninga og menningararf þvert á landamæri.

Í þessari tillögu er lögð áhersla á innviði sem tryggja stafrænt aðgengi að sögulegum handritaarfi íslenskra innflytjenda í Norður-Ameríku sem er verkefni sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tekur þátt í að byggja upp í samstarfi við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Fræðimenn hérlendis hafa tekið afgerandi frumkvæði í rannsóknum á sviði fólksflutninga frá Íslandi til Norður-Ameríku á seinni hluta 19. aldar og byrjun 20. aldar og kortlagningar handrita, bréfa og annarra frumheimilda á íslensku sem hafa varðveist í Kanada og Bandaríkjunum. Slíkar frumheimildir eru mjög dreifðar um Norður-Ameríku og finnast á fjölbreyttum slóðum, s.s. á einkaheimilum, byggðasöfnum, skjalasöfnum og bókasöfnum. Eitt stærsta gagnasafn sem hefur myndast í þeim rannsóknum er safn þúsunda myndskráa af íslenskum handritum og varðveisluumhverfi þeirra í Norður-Ameríku. Þessi gögn söfnuðust á árunum 2015–2019 í verkefninu Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi. Skrifleg notkunarleyfi fyrir notkun í fræðilegum tilgangi eru til staðar fyrir stærstan hluta safnsins og opnun aðgangs og styrking rannsóknainnviðanna til þess eru því forgangsmál.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Markmið með uppbyggingu snýst um þrjá aðalþætti: (a) varðveislu gagna, (b) aðgengi fræðimanna að nauðsynlegum innviðum og rannsóknargögnum og (c) sjálfbærni rannsókna.

Í ljósi ótryggrar varðveislu frumgagna skiptir miklu máli að huga vel að varðveislu stafrænna afrita þeirra. Gögn á borð við handritamyndir nýtast í fjölbreyttum verkefnum og er gjaldfrjáls aðgangur óháð landafræðilegri staðsetningu fræðimanna lykilatriði í því samhengi.

Uppbygging innviða skipta miklu máli í að tryggja sjálfbærni rannsókna í stafrænu rannsóknaumhverfi. Ekki er sjálfbær nálgun að hver og einn fræðimaður sem vill rannsaka handrit eða önnur gögn á íslensku í Norður-Ameríku þurfi að leggjast í millilandaferð til þess eins að taka stafræn afrit. Nánast útilokað væri fyrir einstakling að ná heildarsýn yfir flókna og dreifða varðveislu og þar af leiðandi hafa rannsóknaferðir oft miðað við þau gögn og staði sem eru mest miðlæg.

Ekki er markmið uppbyggingar að koma í staðinn fyrir rannsóknaferðir heldur það að tryggja að einstakar ferðir í framtíðinni nýtist rannsakandanum og vísindasamfélaginu sem best. Í verkefnum þar sem aðferðafræði rannsóknanna kallar sérstaklega á efnislegt návígi er mikill kostur að eiga aðgang að stafrænum gögnum til undirbúnings og eftirfylgdar. Um leið geta rannsakenndur áttað sig auðveldlegar á því hvað raunverulega skortir og hvaða slóðir eru enn ótroðnar. Með þessum hætti er hægt að gera varðveislu að sameiginlegu verkefni vísindasamfélagins.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Uppbygging mun auðvelda samþættingu og samnýtingu gagnanna, t.d. við CLARIN-IS og skráningu frumheimilda í handrit.is. Með tilkomu öflugra innviða verður auðveldara að stofna til samstarfs við stofnanir erlendis, ekki síst hvað varðar öflun notkunarleyfa fyrir efni í eigu safna í Norður-Ameríku. Þar sem gögnin eru í vörslu margra aðila væri ógjörningur fyrir einstaka rannsakenndur að semja við hvern og einn þeirra um notkun stafrænna rannsóknamynda af efninu fyrir tiltekið verkefni. Án innviðanna er erfitt er að ná heildarsýn yfir stöðuna og uppbygging þeirra myndi auðvelda fræðimönnum í að mynda rannsóknahópa, greina hvað á eftir að kortleggja betur og móta ný verkefni.

Kostnaðurinn við ferðalög til Norður-Ameríku hefur lengi verið þrándur í götu fyrir fræðimenn hérlendis og ekki síst fyrir þá sem feta fyrstu skrefin í fræðimennskunni. Birting stafrænna handritamynda í opnum aðgangi kemur einnig til móts við þarfir nemenda og kennara sem vilja nýta gögnin í námi og kennslu. Með uppbyggingu nýrra innviða verður hægt fyrir nemendur að kynnast gögnunum fyrr og til að taka virkan þátt í þekkingarsköpun.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Staðan í dag er almennt erfið hvað varðar aðgengi fræðimanna að sameiginlegum menningararfi utan landsteinanna, ekki síst í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins þegar talsverð óvissa ríkir um framtíð víðförla vettvangsferða milli landa. Ekki er heldur lengur álitin ákjósanleg stefna að söfn á Íslandi leitist við að safna til sín margrödduðum frumgögnum um fólksflutninga á kostnað viðtökusamfélagsins í Norður-Ameríku. Það skiptir því máli að byggja upp leiðir til samstarfs og samnýtingar sem krefst ekki flutnings á físískum munum milli landa. Öflugir rafrænir rannsóknainnviðir opna nýjar samskiptaleiðir.

Myndskrár skipa stóran sess í margvíslegum rannsóknum sem áður kröfðust mikils návígis við frumheimildir. Núverandi staða í stafrænum handritarannsóknum í heiminum mætti lýsa þannig að einstök söfn hafa burði til þess að framleiða og birta myndskrár af eigum sínum í háum og stöðluðum gæðum. Íslensk handritasöfn standa framarlega í uppbyggingu stafræns aðgengis að eigin safnkosti. Einstakar fjölskyldur og burðalítil byggðasöfn í Norður-Ameríku eiga aftur á móti ekki sambærilega aðstöðu.

Mikilvægt er að hafa frumkvæði að því að byggja upp möguleikana til samstarfs og reiða sig ekki á óformlegt deilikerfi handritamynda og annarra gagna eins og tíðkast nú (t.d. deilingu í gegnum Facebook, Google Drive eða tölvupóstasamskipti einstaklinga). Leyfi rannsakenda til að miðla gögnum úr óformlegum einkasamskiptum áfram til annarra fræðimanna er oft óskýr. Miðlægir innviðir aðstoða við að koma í veg fyrir ótrygga geymslu og óreiðu í notkunarleyfi.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Varðveisla sameiginlegs menningararfs er í eðli sínu samfélagsleg áskorun. Í rannsóknum um vesturíslenskar bókmenntir, menningu og málsögu má greina vaxandi áherslu á fjölbreytileika íslenskra innflytjenda til Norður-Ameríku og stöðu þeirra í víðara hnattrænu samhengi. Staðan á Íslandi í dag er þannig að sameiginlegur menningararfur er sífellt í mótun og tengist ekki lengur eingöngu útflutningi. Með því að skoða varðveislu- og aðgengismál sem skapast við sögulega fólksflutninga og hvernig að koma í veg fyrir jöðrun sameiginlegs menningararfs er Ísland betur í stakk búið til að bregðast tímanlega við þeim tækifærum og áskorunum sem skapast í dag.

Örugg langtímavarðveisla stafrænna gagna er erfitt viðfangsefni. Sífelldar breytingar einkenna núverandi tækniumhverfi og innviðir geta úrelst fljótt án mikils og dýrs viðhalds. Líftími geymslumiðla er gjarnan styttri en æskilegur líftími gagnanna og mikil hætta er að gögn og ný þekking glatist, ekki síst í verkefnum í stafrænum hugvísindum og menningarmiðlun. Vaxandi áhugi er hins vegar á sjálfbærni í hönnun rannsóknainnviða. Mikilvægt er fyrir Ísland að taka þátt í að miðla þekkingu ekki aðeins til samfélagsins í dag heldur einnig til komandi kynslóða.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Þar sem uppbygging innviða fyrir sameiginlegan menningararf er skammt á veg komin skiptir máli að kortleggja betur þarfir rannsakenda. Eins skiptir máli að byggja upp sameiginlega varðveislu- og aðgengissýn fyrir innlenda rannsóknainnviði sem tengjast þverþjóðleika. Hönnun og þróun eru lykilatriði til næstu áranna. Þjálfun og fræðsla fyrir notendur skipta einnig máli og eru mikilvægur þáttur í að stuðla að nýtingu innviðanna og að afla endurgjöf um nauðsynlegar úrbætur.

Hérlendis hefur skapast góður og traustur aðgangur að mikilvægum gögnum sem tengjast Íslandi og íslensku en það ekki er endilega auðvelt að brúa bilið milli íslenskra og erlendra eða þverþjóðlegra innviðaverkefna. Í uppbyggingu á næstu árum er mikilvægt að huga að samþættingar- og aðlögunarmöguleikum. Sömuleiðis er brýnt að hönnun uppbyggingar taki mið af safnvistunarhæfi hrárra gagna og rannsóknaafurða frá upphafi.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Fjármögnunarþörf fer mjög mikið eftir umfangi og stefnu uppbyggingar og að hversu miklu leyti er hægt að tengja áframhaldandi uppbyggingu innviðana hérlendis við innviðaverkefni erlendis. Mikilvægast er innspýting til að koma uppbyggingunni af stað og að mynda teymi sem vinnur saman að varðveislu-, aðgengis- og sjálfbærnismarkmiðum.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Verkefnið er í eðli sínu þverþjóðleg og samstarfsmiðað. Eins og nefnt hefur verið í öðrum tillögum er mikilvægt fyrir Ísland að stefna að þátttöku í DARIAH (Digital Research Infrastructure for the Arts and Humanities, en leitast verður einnig við að tengja verkefnið við innviðaverkefni í Norður-Ameríku og víðar í ljósi eðli viðfangsefnisins

Uppbygging á rannsóknarinnviðum á sviði textíls með áherslu á stafræna tækni

Heiti stofnunar: Textílmiðstöð Íslands

Tengiliður: Elsa Arnardóttir, elsa@textilmidstod.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Í ullar- og textílvinnslu eru þróun, nýsköpun og rannsóknir samofið ferli. Traustar rannsóknir og sterkir rannsóknarinnviðir er í reynd forsenda nýsköpunar. Við uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum á sviði textíls er stafræn tækni í fyrirrúmi í þeim tilgangi að mæta sem best áskorunum samtímans og stuðla að nýsköpun. Í fyrsta lagi er lögð áhersla á tækjakost sem veitir möguleika á að prófa og þróa áfram allar helstu aðferðir við að vinna þráð í efni, s.s. prjón og vefnað. Í öðru lagi er lögð áhersla á tækjakost sem þróar þekkingu á vinnslu með óspunna ull (þæfingu) en það er vinnsluaðferð sem hentar íslensku ullinni einkar vel. Í þriðja lagi er áhersla á að byggja upp tækjakost sem gefur möguleika á að þróa samspilið á milli vinnsluaðferða/tækja og frekari vinnslu efna svo sem útsaum, þrykk og skurð á efni.

Tækjakosturinn er ennfremur forsenda þess að hægt sé að rannsaka þróun efnisþráða úr nýjum efnum og efnasamsetningum. Með tækjunum er einnig hægt að vinna prufur með ólíkum aðferðum sem síðar er hægt að nýta bæði til frekari rannsókna sem og til iðnaðarframleiðslu á textíl (fatnaði, heimilistextíl o.s.frv.). Aðgengilegur tækjakostur og þekking á ólíkum vinnsluaðferðum og leiðum á sama stað gefur alveg nýja möguleika í þekkingarsköpun, hönnun á rannsóknum, þróun og framleiðslu á textíl á Íslandi.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Markmiðið er að skapa umhverfi þar sem þekkingar- og þróunarstarfsemi á sviði ullar- og textílvinnslu getur vaxið og dafnað. Textílmiðstöðin stefnir markvisst að því að verða leiðandi í rannsókna- og þróunarstarfsemi í textíl, framleiðslu og handverki. Fjölþætt alþjóðlegt samstarf miðstöðvarinnar og þátttaka í Horizon2020 verkefninu CENTRINNO er liður í þeirri viðleitni (sjá nánar hér að neðan). Leitast verður við að tryggja innlendum og erlendum rannsakendum, starfandi hönnuðum, fyrirtækjum, nemendum í framhalds- og háskólum, handverksfólki og listafólki starfsaðstöðu til rannsókna, þróunar og nýsköpunar á sviði textíls. Lögð er áhersla á að þróa þekkingu á því hvernig nýta má nútíma framleiðslutækni í bland við hefðbundnar aðferðir þannig að aðgengið að innviðunum leiði til nýsköpunar og þróunar nýrra textílvara með áherslu á umhverfisvænar lausnir og nýtingu íslensks hráefnis og menningararfs, s.s. munsturgerðar.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Textílmiðstöðin hefur góðar forsendur til að verða miðstöð þróunar og þekkingarsköpunar í textíl. Með því að byggja aðstöðuna upp hjá Textílmiðstöðinni skapast einstakt tækifæri á samstarfi ólíkra aðila sem búið er að leggja grunninn að í skipulagsskrá Textílmiðstöðvarinnar. Fulltrúar ólíkra hagsmunaaðila, þ.e. háskóla, opinberra stofnana, sveitarfélaga, fyrirtækja og félagasamtaka eiga sæti í fulltrúaráðinu og skipa í stjórn Textílmiðstöðvarinnar. Staðsetning Textílmiðstöðvarinnar á Blönduósi hefur þegar lagt grunninn að nokkrum samstarfsverkefnum en öflugir fræða- og listamenn hafa dvalið í miðstöðinni til að vinna að rannsóknum, skólaheimsóknum og listsköpun. Efling innviðanna myndi gefa nemendum og kennurum í fata-, vöru og textílhönnun kost á dýpri þekkingu á möguleikum stafrænnar tækni og tækifæri til að nýta hana í námi og við hönnun nýrra vara. Ídag þurfa nemendur að fara í framhaldsnám erlendis til að læra á þessa tækni en tæknin hefur á einungis örfáum árum umbylt rannsóknum, nýsköpun og framleiðslu á textíl.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Einn mikilvægasti þátturinn sem uppbygging innviða myndi breyta er aðgengi fræðimanna, framhalds- og háskólanema að tækjakosti sem gerir þeim kleift að öðlast þekkingu á og færni í að nota stafræna tækni til rannsókna og nýsköpunar, s.s. vöruþróunar með notkun náttúrulegs efniviðs eins og íslensku ullarinnar. Í dag er staðan sú að það eru einungis nemendur sem fara í framhaldsháskólanám erlendis sem kynnast, læra og hafa aðgengi að stafrænni tækni í námi. 

Textílrannsóknir þar sem nútímatækni er lögð til grundvallar eru sömuleiðis á frumstigum þrátt fyrir ríkan menningararf tengdum textíl. Með tilkomu innviðanna væri hægt að stuðla að  fjölbreyttum og þverfaglegum rannsóknum, s.s. á eiginleikum ólíkra náttúrulegra efna, s.s. ullarinnar sem er einstök í heiminum sem framleiðsluefni, við rannsóknir á bíotextíl og tæknitextíl til að búa til efni úr ólíkum hráefnum, rannsóknir á aðferðum við að vinna efni áfram, s.s. varðandi litun og þæfingu, starfrænan vefnað og þróun nýrra munstra með notkun stafrænnar tækni, o.s.frv. Uppbyggingin myndi sömuleiðis leggja styrkari grunn að fjölbreyttari framleiðslu á textíl en hingað til. Í dag er öll iðnaðarframleiðsla byggð á prjóni en allur vefnaður og vöruþróun úr íslenskum hráefnum á sér stað erlendis. Góðir rannsóknarinnviðir í textíl myndu þannig stuðla að nýsköpun og leggja grunn að betri menntun og hafa þannig áhrif á alla nýliðun, rannsóknir og þróun og nýsköpun í textíl.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Nýsköpun og þróun í framleiðslu á textíl er afar takmörkuð á Íslandi og hefur verið um árabil. Þetta er svo þrátt fyrir að textílvörur hafi á síðustu öld verið ein helsta útflutningsvara Íslendinga. Íslenskur textíll hefur þannig dregist aftur úr mörgum nágrannalöndum okkar ekki síst þar sem bæði rannsóknarinnviði og rannsóknir hefur skort. Handverksþekking og áhugi meðal landsmanna er rík einkum meðal kvenna en aðgengi að tækniþekkingu er ekki til staðar og vinnulaunin fyrir handverkið afar lág. Betri tækniþekking skapar möguleika á að auka verðmæti textílvöru með margvíslegum hætti, svo sem í gegnum hönnun, framleiðslu og markaðssetningu. 

Góðir rannsóknarinnviðir í textíl myndu flýta fyrir innleiðingu nýrrar tækni í nýsköpun og framleiðslu nýrra vara (vöruhönnun), sem er þegar í mikilli þróun víða í Evrópu, s.s. stafrænni tækni, og hefur í raun umbylt allri textílhönnun. Einnig skapar stafræn tækni mikla  möguleika í tengslum við verndun menningarverðmæta með því að yfirfæra gögn á stafrænt form. Með þeim hætti skapast óendanlegir möguleikar á að nýta íslenska menningararfinn s.s. í tengslum við munsturgerð og handverkskunnáttuna, í rannsóknir, nýsköpun og þróun.

Efling rannsóknarinnviða í textíl á Íslandi er sömuleiðis mikilvæg útfrá umhverfismálum og sjálfbærni því í dag er nánast allur textíll sem landsmenn klæðast innfluttur og okkar helsta textílefni og útflutningsvara fyrr á öldum, íslenska ullin er í dag aukaafurð og um 30% er flutt úr landi sem hráefni. Sömuleiðis skapast tækifæri til að stuðla að merkja ull og ullarvörur rafrænt sem myndi gefa íslenskum ullarvörum sérstöðu og þannig auka verðmæti með rekjanleika. Einnig eru tækifæri til að skoða tækifæri til að þróa umhverfisvænni verkun ýmissa hráefna í textíl, s.s. fiskroðs og þara, og stuðla þannig að enn betri nýtingu á náttúrulegu hráefni.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Í áætlun fyrir næstu 5 ár er uppbygging á stafrænum tækjakosti og þekkingu hjá Textílmiðstöð Íslands í forgangi, með áherslu á rannsóknir, nýsköpun og þróun. Liður í þeirri framtíðarsýn er að ráða starfsmann sem hefur umsjón með tækjakosti og vinnur með öðrum starfsmönnum við að innleiða nýja tækni, byggja upp þekkingu og kunnáttu við notkun og þróa og kenna á námskeiðum og aðstoða sjálfstætt starfandi hönnuði.

Þá þarf einnig að byggja upp rannsóknarstofur tengdum nýsköpun í textíl, með áherslu á innlent hráefni (ull, hör/lín og skoða fleiri möguleika svo sem þara og fiskroð), umhverfisvænar lausnir og byggja upp þekkingu og rannsóknir á sviðum biotextíls og tæknitextíls sem eru ólíkir þræðir í nýsköpun á textíll en eiga það sameiginlegt að vera flestum okkar framandi. Biotextíllinn fléttar saman textílinn og líffræðina þar sem markmiðið er að búa til lífrænt efni sem er umhverfisvænt. Tæknitextíllinn er heiti yfir þróun í textíl sem nær yfir breitt svið s.s. Etextíl þar sem rafrásarbúnaður er felldur eða saumaður inn í efni en stundum er talað um snjallflíkur eða snjallefni. Tæknileg efni ganga út að nanótækni er komið fyrir í hefðbundnu efni til að skapa sérstaka eiginleika sem svo hrinda frá sér óhreinindum eða vatni eða eru bakteríudrepandi svo eitthvað sé talið. Gert er ráð fyrir tveimur stöðugildum til að sinna rannsóknarstofunum enda krefst nýsköpun og þróun á þessu sviði sértækrar kunnáttu. Grunnforsenda er að ákveðin aðstaða sé fyrir hendi en frekari útfærslur yrðu unnar í samstarfi við háskóla, fyrirtæki og stofnanir.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

  • Tækjakaup: áætluð tækjakaup næstu þrjú árin eru rúmar 25 miljónir króna. Næstu tvö árin er gert ráð fyrir tækjakaupum og uppbyggingu rannsóknaraðstöðu fyrir Textíl-bio-lab og Tækni-lab upp á 40 milljónir króna. 
  • Uppbygging rannsóknarstofa: á þessu stigi er ekki búið að gera kostnaðaráætlun vegna uppbyggingar á á Textíl-bio-lab og Textíl-tækni-lab. 
  • Launakostnaður: Fyrsta árið er gert ráð fyrir um 15 milljónum króna sem búið er að fjármagna. Annað og þriðja árið er gert ráð fyrir um 30 milljónum króna og er búið að fjármagna helming þeirrar upphæðar. Á fjórða og fimmta ári er gert ráð fyrir þremur launuðum störfum sérfræðinga, samtals um 45 miljónir króna á ársgrundvelli. Þannig er gert ráð fyrir launakostnaði uppá 165 milljónir króna næstu 5 árin, þaraf er búið að fjármagna 45 milljónir.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Þegar er til staðar tenging við erlent innviðaverkefni í gegnum evrópska rannsóknarverkefnið Centrinno sem styrkt er af Horizon 2020 rannsóknar áætlun ESB. Verkefnið sem er til 3 ½ árs er unnið í samstarfi hér á landi við Háskóla Íslands og NMÍ en erlendis eru þátttakendur stofnanir í 8 evrópskum borgum: Amsterdam, París, Kaupmannahöfn, Genf, Barcelona, Tallinn, Milano og Zagreb. Í verkefninu er lögð mikil áhersla á að nýta möguleika stafrænnar tækni. Aðilar að verkefninu eru, svo dæmi séu tekin eru Fab City Research Lab í Barcelona og Waag textíllab Amsterdam en þar eru reknar öflugar tilraunastofur í textíl. Þátttakan í verkefninu kemur til með að vera mikil lyftistöng fyrir Textílmiðstöðina því mikil áhersla er á þekkingaryfirfærslu í verkefninu. Í tengslum við Fab City Research Lab í Barcelona og Waag textíllab í Amsterdam er einnig starfandi Textile Academy sem er alþjóðlegt samstarfsnet sem hefur það að markmiði að efla þróun og nýsköpun í textíl.

IRHPC

Heiti stofnana: Háskóli Íslands, Raunvísindastofnun og Háskólinn í Reykjavík

Tengiliður: Viðar Guðmundsson, vidar@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Rannsóknarinnviðurinn IRHPC (Icelandic Research High Performances Computing) er tölvuklasasamstæða fyrir samhliðareikninga í vísindum. Samkvæmt samstarfssamningi HÍ, HR og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands rekur upplýsingatæknisvið HÍ (UTS) klasasamstæðu með tilheyrandi gagnageymslum og netbúnaði fyrir háhraða samhliða reikninga vísindamanna og nemenda við háskóla og rannsóknastofnanir á Íslandi. Klasasamstæða sem þessi er kjarninn í rafrænum innviðum (e-infrastructure). Nákvæm lýsing er á vefslóðinni http://ihpc.is/. Klasasamstæðan hefur verið byggð upp með stuðningi frá Innviðasjóði og þeim stofnunum sem standa að samstarfssamningnum. UTS hýsir þennan rannsóknainnvið í vel útbúnum og sérhönnuðum tölvusal á Neshaga og sér um reksturinn. Tveir kerfisstjórar vinna við klasasamstæðuna Til að tryggja það að hún sé í góðu lagi og sé vel nýtt.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmiðið er að gera vísindamönnum á Íslandi og nemendum við háskólana kleift að gera tölvureikninga sem krefast verulegs reikniafls, meira en það sem venjulegar borðtölvur eða fartölvur bjóða upp á. Í tölvuklasa er hægt að nota margar reiknieiningar samhliða og hafa aðgang að stóru tölvuminni. Þetta er mikilvægt fyrir hvers kyns líkanagerð og gagnaúrvinnslu á öllum sviðum rannsókna. Mikil áhersla hefur verið lögð á uppbyggingu slíkra tölvuklasa í flestum löndum, til að mynda hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum, en Ísland hefur verði eftirbátur í þeirri þróun. Notkun á tölvureikningum í hvers kyns rannsóknavinnu hefur annars verið að aukast hratt hér á landi á undanförnum árum.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Fyrir uppsetningu þessarar klasasamstæðu árið 2016 höfðu nokkrir einstaklingar innan háskólanna tveggja sett upp eigin smærri einingar. Eftir að þeir aðilar sameinuðust undir merkjum IRHPC og reksturinn var tekinn yfir af Reiknistofnun HÍ sem síðar breyttist í UTS hefur stöðugleiki og öryggi í rekstri aukist. Samnýtingin leiðir til betri aðstöðu og betri nýtingar. Allir sem stunda rannsóknir innan háskólanna og á rannsóknastofnunum á Íslandi hafa nú aðgang að reikniafli sem annars var einungis aðgengilegt nokkrum aðilum. Nýtingin og eftirspurnin eftir reikniafli hefur margfaldast á undanförnum árum. Klasasamstæðan hefur frá upphafi verið undir hámarks álagi og biðröð reikniverkefna verið löng. Þrátt fyrir þrjár viðbætur eftir að klasasamstæðan var sett upp árið 2016 hefur heildarálagið haldist jafnt og biðröðin ekki styst vegna þess að þeim fölgar stöðugt sem vilja nýta reiknigetuna og verkefnin stækka í sniðum.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Rekstur klasasamstæðunnar og földi birtinga í ritrýndum alþjóðlegum vísindaritum sem rekja má  til reikninga sem gerðir hafa verið með henni sýna að líkanagerð og úrvinnsla gagna hafa tekið stakkaskiptum við háskólana á þeim tíma sem hennar hefur notið við. Því er ljóst að uppbygging slíkrar aðstöðu fyrir þunga reikninga er nauðsynlegur almennur stuðningur við rannsóknir á Íslandi á flestum sviðum, allt frá raunvísindum yfir í verkfræði og læknisvísindi, félagsvísindi og málvísindi. Þessi þróun hér á landi endurspeglar það sem þegar hefur gerst í ríkara mæli erlendis.

Framþróun í tölvutækni er hröð og því nauðsynlegt að halda þessari uppbyggingu áfram og á hverju ári þarf að bæta við og endurnýja.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Framfarir í tækni og vísindum munu í auknum mæli byggjast á rannsóknum sem krefjast flókinna tölvulíkana. Ríkisstjórnir margra landa hafa lagt fram markáætlanir til að efla reiknilíkanagerð til að takast á við áskoranir samtímans. Fjölmörg verkefni á ýmsum sviðum sem styrkt eru af Rannsóknasjóði Íslands byggjast fyrst og fremst á tölvureikningum. Sem dæmi má nefna öndvegisverkefni um afoxun koltvísýrings til að mynda eldsneyti og önnur gagnleg efni sem og afoxun niturs til að mynda áburð á einfaldari og ódýrari hátt en nú er gert. Nýlegt dæmi er mjög þung tölvuvinna til að geta notað íslensku í snjalltækjum

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Þörfin á reikniafli mun halda áfram að aukast hratt á öllum sviðum rannsókna og því mikilvægt að halda uppbyggingu tölvuklasasamstæðunnar áfram. Á hverju ári þarf að bæta við og endurnýja. Samstarfssamningurinn sem háskólarnir tveir og Nýsköpunarmiðstöðin hafa gert með sér ber vott um skýra framtíðarsýn í þessum efnum.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Samstarfsamningurinn tryggir rekstur klasasamstæðunnar næstu árin, en frekari uppbygging og endurnýjun á vélbúnaði mun krefast u.þ.b. 20-30 milljóna króna á ári.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Ísland hefur nýlega fengið aðild að Evrópska HPC verkefninu og er að gerast aðili að LUMI klasasamstæðunni sem staðsett verður í Finnlandi. Þar mun gefast tækifæri til að gera reikninga sem eru of stórir fyrir vélbúnað IRHPC. Rekstur IRHPC er nauðsynlegur til  að tryggja almennan aðgang að reikniafli, þjálfun framhaldsnema og kerfisstjóra. Starf kerfisstjóra þyrpinga til vísindareikninga er mjög sérhæft og okkur býðst ekki aðgangur að Evrópskum HPC innviðum svo sem LUMI nema við getum einnig lagt til kerfisstjóra til að stýra aðgangi ísleskra notenda. Ísland er mjög ákjósanlegur staður fyrir klasasamstæður og mörg erlend fyrirtæki kjósa að staðsetja sínar klasasamstæður á Íslandi vegna þess hve ódýrt rafmagnið er og vegna þessa að það er endurnýjanleg orka. Einnig er kæling sem nauðsynleg er til að tölvurnar ofhitni ekki ódýr. Um tíma, á árunum 2013-2017, var staðsett hér Norræn klasasamstæða fyrir háskóla í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Reksturinn var í höndum Reiknistofnunar HÍ. Líklegt er að fleiri erlendir aðilar kjósi að staðsetja klasasamstæður á Íslandi og þá er mikilvægt að fyrir hendi sé þekking hér á landi á rekstri slíkra innviða.

Icelandic e-Infrastructure provider

Heiti stofnunar: Háskóli Íslands

Tengiliður: Helmut Wolfram Neukirchen, helmut@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

RHnet is probably the most important research infrastructure provider in Iceland by providing Internet connectivity to researchers in Iceland. However, other Nordic countries have e-infrastructure providers (e.g. DeIC, SNIC, CSC or UNINETT Sigma2 that provide many services, such as:

  • Internet connectivity (currently provided by RHnet), 
  • High-Performance Computing (HPC) (currently provided mainly by IHPC hosted at University of Iceland, but used by researchers from all Icelandic research institutes), 
  • Cloud computing resources (not available in Iceland), 
  • Data storage and archiving services (not available in Iceland, but another proposal is about the European Open Science Cloud (EOSC) and research data storage that aims at storage services), 
  • Related Training and Support (provided by individuals in Iceland, e.g. via funding from NeIC, the Nordic e-Infrastructure Collaboration).

It would be good to have a comparable e-infrastructure provider in Iceland.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Having one main e-infrastructure provider allows to use synergy effects, to foster e-Science, and to offer services that are currently not available (such as Cloud computing for running non-HPC tasks or research data storage).

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Having Iceland-wide central e-infrastructure resources leads instead of many scattered private services that are sometime partially even not know to research outside an institution, will lead to a better utilisation. Training and support will lead to better collaboration possibilities.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Currently, the few available service are scattered throughout different institutions
and sometimes not even institutionalised but depend on individuals.
Examples: 

  • https://cs.hi.is/HPC/hpcworkshop2017.html and 
  • https://cs.hi.is/HPC/hpcworkshop2018.html 
  • Since that NeIC funding is not available anymore, these workshops have stopped. An institutionalised training would lead to continuity.
  • Cloud computing resources (e.g. to run some small server software for research or to teach cloud computing) currently relies on free Cloud computing resources offered by, e.g. Amazon, Microsoft or Google. 
  • Data storage repositories to foster FAIR data (findable, accessible, interoperable and reusable) are not available in Iceland, hence research cannot publish their research data. 
  • Training currently relies on individuals: Helmut Neukirchen, Morris Riedel and Matthias Book from University of Iceland organised HPC training workshops using funding from NeIC: 

Via NeIC and EOSC (the European Open Science Cloud), Icelandic researchers can already access some of such services, but this is more on a best effort basis and access to these e-Science resources is not guaranteed.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

All these services are key to solve todays e-Science problems (as can be seen from the EU creating the European Open Science Cloud EOSC).

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

While Internet connectivity is already available via RHnet, HPC compute services via IHPC (hosted at University of Iceland), all other services are missing. 

A data storage repository needs to be set-up (see other proposal on EOSC) it would be good to dedicate some new or existing CPUs and IP addresses for Cloud computing and to collect existing teaching and training offerings.

NeIC provides already a good help by exchanging best practises from other Nordic countries and it is important that Iceland involvement in NeIC (currently via RHnet as proxy for an Icelandic e-infrastructure provider) continues.

The EU EuroHPC joint undertaking funded the EuroCC project to create HPC centers of competence and University of Iceland is part of EuroCC which helps also with respect to training and support and to find initial FTEs for an Icelandic einfrastructure provider. 

In the long term, permament funding for at least 2 FTEs and hardware (e.g. for
Cloud computing and storage) would be needed.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

10 million ISK for acquisition of data storage hardware (data storage does not get outdated as fast as HPC compute hardware). Electricity costs not included. (Note: while cloud computing can be cheap, cloud storage is never cheap, so this is not an option.) 

2 FTEs per year for administration, operation, training and support. 

Membership in NeIC, EOSC, and EuroHPC need to be continued.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Already now, the membership in NeIC and EuroHPC and EOSC participation leads to connection with other European e-infrastructures thus connecting research in Iceland with researchers all over Europe. This would be improved by an Icelandic e-infrastructure provider even more.

EuroHPC: International Innovation Ecosystem on High Performance Computing

Heiti stofnana: Háskóli Íslands, Forschungszentrum Juelich GmbH Juelich Supercomputing Centre

Tengiliður: Ebba Þóra Hvannberg, ebba@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

EuroHPC, European High-Performance Computing, is a 1 billion Euro joint initiative between the EU and European countries and aims to develop a World Class Supercomputing Ecosystem in Europe. By pooling computing, data and human resources, EuroHPC aims to provide a world-class petascale and pre-exascale supercomputing and data infrastructure for Europe's scientific, industrial and public users

Member countries of EuroHPC participate in the initiative with matching contributions from the EU. Iceland has recently become a member of EuroHPC with no national contribution, but contribution from individual organizations on a per project basis. University of Iceland and Reykjavik University participate in two research projects that have been funded by EuroHPC. 

With this proposal we hope that Iceland's participation in EuroHPC enters the e-Infrastructure roadmap. With that the Infrastructure fund would support the national contribution of EuroHPC which is 50% of the total budget of projects.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

EuroHPC will pool EU and national resources in High-Performance Computing (HPC) with the aim of acquiring and providing a world-class petascale and pre-exascale supercomputing and data infrastructure for Europe's scientific, industrial and public users, matching their demanding application requirements. This would be widely available to users from the public and private sector, to be used primarily for research purposes. The aim of EuroHPC is to support an ambitious research and innovation agenda to develop and maintain in the EU a world-class High-Performance Computing ecosystem, exascale and beyond, covering all scientific and industrial parts, including processor, middleware technologies, algorithms, applications, services, know-how and skills for the next generation supercomputing era. 

The aim of the International innovation Ecosystem for HPC is to create synergy between national HPC infrastructure and projects supported by European initiatives such as EuroHPC.

Iceland's participation in the international ecosystem is vital for the advancement of national HPC infrastructure. Instead of building a national HPC infrastructure in silo, collaboration with other national centres will bring excellent knowledge on its provision and provide access. EuroHPC will allow researchers in Iceland to run HPC jobs on EuroHPC systems if the Icelandic HPC (IHPC) infrastructure is not powerful enough (still the IHPC infrastructure is needed for smaller HPC jobs and to develop and test the HPC codes that will later run on EuroHPC infrastructure.) As EuroHPC is not only about HPC hardware, but also about collaboration and research project funding, EuroHPC membership is needed to enable researchers in Iceland to apply for EuroHPC project funding.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

An international innovation ecosystem of HPC will increase collaboration between Icelandic and European infrastructure providers, scientists researching hardware, algorithms, software and services for HPC. Participation of Icelandic universities, research institutions and companies in international projects, also results in closer collaboration nationally. An international innovation ecosystem will lead to increased collaboration between infrastructure providers and infrastructure users, i.e. the scientists. 

With increased collaboration between scientists and infrastructure providers, the scientists' needs become clearer to providers, making the use of the infrastructure more efficient. 

By having access to international HPC infrastructure, e.g. for very large simulations or deep neural networks, national access is complemented.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Today, scientists have access to national HPC resources and ad hoc access to international HPC resources. Companies' access to HPC resources is scattered and excellence is not synergised between academia and industry. With secured national contributions to EuroHPC there will be continuous, open opportunities for Icelandic universities, research institutions and companies to participate in EuroHPC projects via competition, making the access to international HPC resources sustainable. This would secure scientists working in Iceland access to best possible resources, hardware, software and know-how. An international ecosystem of HPC resources would make Iceland a more attractive place to work for young scientists. The development of parts for the HPC ecosystem will provide leverage for innovation in companies and universities. 

Access to an international innovation ecosystem will allow high quality research in many disciplines that require high performance computing, e.g. earth sciences, climate modeling, natural language processing, health science and remote sensing. The list is growing and the aim of the international ecosystem is to engage and train scientists in more disciplines in the access to world class infrastructure.

University of Iceland and Reykjavik University collaborate in a project called LUMI under EuroHPC which will provide access to a pre-exascale supercomputer located in Finland. The LUMI2 project will develop service technologies and competencies for operating the pre-exascale supercomputer. There is a steering group on the Icelandic participation in LUMI. Hannes Jónsson, Ebba Þóra Hvannberg (HÍ), Morris Riedel (HÍ/Juelich Supercomputing Center) and Henning Arnór Úlfarsson (HR) are members of the steering group. Originally Icelandic Innovation Centre planned to participate. In HÍ and HR there is a large community of HPC users. University of Iceland is participating in a project called EuroCC. (European Competence Centre) that aims to offer improved support to scientists on use of HPC nationally and internationally and to build a stronger community around the services. These projects that were launched in 2020 have already been financed. 

Had there been national contributions for these two projects instead of organizational ones, we could have opened up the access to e.g. LUMI to all scientists in Iceland. As it is now, the access is limited to University of Iceland and Reykjavik University. With the national contribution to EuroHPC, this could change.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

The suggested infrastructure will strengthen Iceland's opportunities to address societal challenges in these three areas: 

Environment and sustainability - researchers in climate modeling and earth sciences, snow avalanches, extreme weather events 

Health and welfare - researchers in health sciences, e.g. biomedicine, genetics, epidemics 

Living and working in a new world - technology and innovation, improved competencies in world leading infrastructure

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

As Iceland's participation in EuroHPC is commencing, there is most need for national contribution. From 5 years and onwards, we envision that the national contribution could be less and the organizational/industry funding contribution could increase. In 10 years from now, the infrastructure is envisaged to be sustainable.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

The current Icelandic projects have a total organization budget of around 20MISK per year, which is half of the total budget. To increase participation beyond the two universities to research institutions and companies we hope to raise this amount to 30MISK per year for the next five years and decreasing it to 20MISK for years 6-10.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

The Infrastructure is envisioned to collaborate with national and international infrastructures that produce data and have needs for HPC. There will be opportunities for collaboration with infrastructures in North America. Furthermore, there are infrastructures such as Nordic eInfrastructure Collaboration (NeIC) and EOSC (European Open Science Cloud) which would be collaborators of this infrastructure.

European Open Science Cloud (EOSC)

Heiti stofnunar: Háskóli Íslands

Tengiliður: Helmut Wolfram Neukirchen, helmut@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum 

The European Open Science Cloud (EOSC) is a European Commission initiative aiming at eveloping an open-border, cross-disciplinary, digital infrastructure for researchers to share, access and reuse research data in order to enable and promote open science practices following FAIR (findable, accessible, interoperable and reusable) data principles. EOSC is built by aggregating existing e Science services following a System of systems approach, i.e. existing and future e-Science services (mainly related to data, but also compute services needed to process these data) from European countries are connected together and made interoperable.  

Except for the IHPC compute services, currently no EOSC-related services exist in Iceland, but as EOSC is in particular about data, data repository storage server hardware for storing research data in Iceland is needed, including operation and administration of these services and training and support for research to enable them to upload their research data and making it FAIR, e.g. provide the needed metadata and their mapping to existing metadata ontologies.  

Currently, the University of Iceland is participating in the H2020 project EOSCNordic where first steps towards making Icelandic research data fair are made by identifying data in Iceland that is worth being made FAIR. However, the EOSCNordic project does not include the needed server hardware and staff for sustainable operation and administration nor training and support. In addition, while EOSC-related projects are currently funded via H2020, the European Commission is currently undertaking steps to make EOSC sustainable outside of H2020 by setting up a permanent administrative structure and it can be expected that Iceland will need to become a formal member of the future EOSC organisation/joint undertaking.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

The main goal is to allow researchers in Iceland to store their research data in particular in a FAIR (findable, accessible, interoperable and reusable) way on servers in Iceland and to collaborate with other researchers in Iceland and by EOSC membership also with other researchers in Europe and to be able to access and use EOSC e-Science services that are not available in Iceland, but elsewhere in Europe.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

By having an own research data infrastructure, all researchers in Iceland can easily store their research data. When FAIR data principles are followed, other researchers in Iceland can then easily reuse these data, thus increasing cooperation and collaboration. 

By joining EOSC, the Icelandic data gets findable and accessible even for European researchers which increases collaboration even on the European level which may then lead to improved collaboration beyond just using these particular data. 

Also, having an Iceland-wide infrastructure instead of many smaller single servers where some servers are used intensively, but others are almost idle will lead to a better utilisation. 

Note that in the Rannís webforms, only the main principal investigators of University of Iceland in the EOSC-Nordic project are mentioned, but already as part of EOSC-Nordic, many researchers in Iceland will be contacted to create a “map” of the existing research data.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Currently, researchers in Iceland have collected and created already a lot of data, but typically, this data is not online. While researchers could upload already now their data to non-Icelandic data repositories, they typically do not do this due to a lack of Icelandic branding/loss of visibility in these huge data repositories and due to a loss of control over their data. Having data stored on Icelandic data repository servers would address and solve these problems. 

These existing (but not publicly available) data can therefore not be easily reused by other researchers, thus hindering collaboration and preventing the creation of new research results based on this data. Integrating the future Icelandic data repository servers into EOSC achieves  exactly these goals by making these data FAIR (findable, accessible, interoperable and reusable).

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Data are already now one of the most important research assets and will in future become even more important. Open science principles and FAIR data principles are considered by the European Commission as important (and in, e.g. H2020, research proposals, data management plans are expected that cover FAIR data principles. 

In terms of UN sustainable development goals, in fact all these goals benefit as research data created in Iceland comes from social sciences, geo sciences, healthcare, engineering and industry.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Initially, storage hardware needs to bought (could be housed, e.g. at University of Iceland, Reykjavik University, or some data centre industry might be interested to collaborate as it was done with the NordicHPC system Garðar). For backup, either local backup would be possible or a European consortium of public research data centres that backs-up each other could be joined. 

Data repository software (e.g. to assign DOIs to datasets and to exchange metadata with EOSC metadata harvesting services) needs to be installed. Hardware and software need to be administrated and operated. Users (=researchers) need to be trained and supported. 

After 5 years, hard disks typically wear out and need to be replaced. At the same time, the storage capacity may need an increase if the data repository is very popular (but storage hardware will then be cheaper).

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

10 million ISK for acquisition of data storage hardware (data storage does not get outdated as fast as HPC compute hardware). Electricity costs not included. (Note: while cloud computing can be cheap, cloud storage is never cheap, so this is not an option.) 

Software will be open source (B2SHARE, B2FIND, etc. suite developed H2020/EOSC project EUDAT: https://eudat.eu). 

¼ FTE per year for administration, operation, training and support. Note it may be possible to get European contribution for this, e.g. future EOSC projects will have work packages for community engagement, i.e. adding new research communities (=Iceland) on a technical level to EOSC. 

It is not clear how future EOSC membership will look like. If it is similar as with EuroHPC, it might be possible to join without any national contribution, but costs on a per project basis. 

Note: there might be huge synergy effects with HPC related infrastructure (that needs storage hardware as well and a system administrator). E.g. the EuroHPC project EuroCC will include funding an HPC competence centre in Iceland.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

As already discussed in all the above section, the Icelandic data repository infrastructure will be connected to the European EOSC infrastructure connecting research in Iceland with researchers all over Europe. University of Iceland and is already now collaborating via the EOSC-Nordic project with the national einfrastructure providers in Northern Europe. RHnet is part of NeIC, the Nordic e- Infrastructure Collaboration. 

On the technical level, there will be collaboration with CSC – IT Center for Science, Finland, and JSC Jülich Supercomputing Centre, Germany, concerning storage (B2Share) and with DKRZ (Deutsches Klimarechenzentrum), Germany, concerning metadata (B2Find).

Upplýsingatækni innviðakjarni fyrir vísindin

Heiti stofnunar: Háskóli Íslands

Tengiliður: Guðmundur H Kjærnested, ghkjaerne@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Upplýsingatæknisvið Háskóla Ísland (áður Reiknistofnun HÍ) hefur til langs tíma séð um rekstur ofurtölva, þ.e High Performance Computer (HPC) sem kalla má á íslensku klasatölvur. Notkun vísindamanna á reiknigetu HPC stæðunnar hefur verið opin öllum þeim stofnunum sem eru með tengingar við Rannsóknar- og háskólanet Íslands (RHnet). Allir háskólar landsins hafa slíka tengingu sem og rannsóknarstofnanir. Notkun stæðunnar fer vaxandi á ári hverju. Innviðasjóður hefur nú síðustu fjórum árum styrkt þessa uppbyggingu með styrkveitingu til nauðsynlegrar endurnýjunar tölvubúnaðar HPC stæðunnar. Aðgengi íslensks háskóla- og rannsóknarsamfélags að slíkri reiknigetu er mikils virði og er liður í því að gera það samkeppnishæfara. 

Ljóst er að þessi uppbygging hefur ekki náð til allra vísindagreina enda þarfir þeirra mismunandi. Mest hafa vísindamenn í raungreinum notað HPC stæðuna og eru það vísindamenn hjá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Líklega er ástæða þess sú að þar er um að ræða vísindamenn sem búa yfir mikilli þekkingu á upplýsingatækni og sem geta nýtt sér HPC stæðuna með því að smíða sjálfir forrit og gagnagrunna. Líklegt má telja að í mörgum vísindagreinum sé skortur á upplýsingatækniþekkingu og aðgengi að bæði upplýsingatækni-þjónustu og tölvubúnaði hamlandi í vísindastarfinu. 

Skortur hefur verið á stefnu innan íslensks háskóla- og vísindasamfélags hvað varðar varðveislu vísindagagna en stefnumótunarvinna er í gangi á vegum vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands. Íslenskir vísindamenn geyma vísindagögn sín á mjög mismunandi hátt og oft á tíðum þannig að mikil hætta er á að gögnin glatist, t.d. þegar vísindamenn hætta störfum. Vinnsla gagna á rafrænt form með góðri skráningu lýsigagna getur einnig verið þröskuldur í vísindastarfinu. Kröfur um miðlun gagna milli vísindamanna hafa farið mjög vaxandi og oft á tíðum settar fram sem skilyrði fyrir styrkveitingum. Kostnaður við varðveisluna hefur einnig verið vandamál. 

Í þessari umsókn er lagt til að byggður verði upp innviðakjarni sem gæti leyst ofangreind vandamál, þ.e. bætt aðgengi að ofurtölvum, upplýsingatækniþjónustu, gagnavinnslu og varðveislulausnum fyrir vísindamenn. 

Innviðakjarninn sækir sér fyrirmyndir í þjónustukjarna sem sjá má víða í erlendum háskólasamfélögum. Kjarninn samanstendur af hug- og vélbúnaði sem og framboði á upplýsingatækniþjónustum. Sett verði upp íslenskt rannsóknarský sem verði byggt upp skv. nýjustu tækni, s.s. gámar (Docker, Kubernetes), lagskiptingu gagna (e. data tiering) og samspili skýja og staðarlausna (e. hybrid vs. on premise). Kröfum um upplýsingaöryggi og persónuvernd verði fylgt til að mæta ákvæðum íslenskra laga og reglugerða. Í skýinu geta vísindamenn með sjálfsafgreiðslu sótt sér þann búnað og þjónustu sem þeir þurfa. Skýið er byggt upp á auðlindamiðlun, t.d. hvað varðar gagnavörslu. Vísindamenn geta óskað eftir tilgreindu diskaplássi og geta treyst því að slík varðveisla uppfylli kröfur um persónuvernd og upplýsingaöryggi. Skýið er þannig bæði sjálfvirkt og handvirkt, fæðir sig á auðlindum og getur þannig sótt t.d. diskapláss bæði innan lands og utan. Vísindamenn geta með sjálfsafgreiðslu sótt sér gagnagrunna, reikniafl, tölvuþjónustu og sérfræðiráðgjöf (t.d. vegna innviðahönnunar tæknilausna). Rannsóknarskýið mun styðja við miðlun vísindagagna bæði með opnum og lokuðum hætti og í því þarf að vera stuðningur við gerð lýsigagna. 

Hugmyndir að rekstrarformi innviðakjarnans eru ekki fastmótaðar, en benda má á tvær mögulegar leiðir. Önnur leiðin getur verið sú að innviðakjarninn verði byggður á grunni RHnets en í nánu samstarfi við Upplýsingatæknisvið HÍ. Þjónustuframboð innviðakjarnans verði opið öllum þeim sem eru hluti af RHneti. Rekstur innviðakjarnans verði til lengri tíma litið byggður á aðildargjöldum RHnets en uppbygging hans fjármagnaður með styrkjum frá innviðasjóði og mótframlagi aðila RHnets. RHnet myndi starfrækja kjarnann og þar myndu starfa tæknimenn og sérfræðingar með þekkingu á sviði upplýsingatækni, innviðasérfræðingar, forritarar, gagnagrunnssérfræðingar og sérfræðingar á sviði HPC. Hin leiðin væri að byggja umhverfið og reksturinn upp hjá Upplýsingatæknisviði Háskóla Íslands. Sviðið sinnir í dag margþættum rekstri fyrir háskóla- og rannsóknarsamfélagið og framundan hjá sviðinu er að takast á við rekstur Microsoft skýjageira opinbera menntakerfisins. Rekstur innviðakjarna vísinda gæti því fallið vel að þeirri starfsemi. 

Innviðakjarninn er hugsaður sem upplýsingatæknileg grunnþjónusta fyrir vísindamenn. Honum er ekki ætlað að takast á við úrlausn stærri verkefna, t.d. á sviði hönnunar og forritunar heldur verði hann frekar eins konar grunnur sem hægt verður að nýta sér við vinnslu slíkra verkefna.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkið með upplýsingatækni innviðakjarna fyrir vísindi verður að styðja vel við vísindastarfið með nútíma upplýsingatæknilausnum og þjónustu. Með honum verður dregið úr umfangi vinnu vísindamanna vegna upplýsingatæknilegra atriða. Önnur markmið sem nefna má eru að auka öryggi vísindagagna og tryggja betur varðveislu þeirra.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Gildi upplýsingatækni í rannsóknum felst oftar en ekki í möguleikum á nýtingu á miklu reikniafli og sömuleiðis miklu geymsluplássi fyrir gögn. Hagkvæmni stærðarinnar er töluverð og augljóst að það er ekki á færi allra sem stunda rannsóknir á Íslandi að koma sér upp upplýsingatæknibúnaði og/eða þekkingu í því mæli sem þörf er fyrir. Að sameinast um slíkan kjarna mun hvetja til og stuðla að samstarfi vísindasamfélagsins á Íslandi. Uppbygging og rekstur á slíkum kjarna krefst sérhæfðs mannafla sem smærri einingar hafa varla tök á að bjóða nema í skamman tíma. Með því að sameina verkefni á einn stað verður hægt að byggja upp og viðhalda þeirri sérþekkingu sem til þarf.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Í dag eru miðlægir tæknilegir innviðir ekki vel skilgreindir, samræmdir eða jafnvel ekki til. Þeir möguleikar sem eru í boði eru lítið eða ekkert kynntir fyrir mögulegum notendum. Ef þjónustuúrvalið væri skýrt, aðgengilegt og vel kynnt gætu vísindamenn nýtt tíma sinn betur á sínu sérsviði og treyst meira á sérhæft tæknifólk og tækni fyrir upplýsingatæknilegar áskoranir rannsókna. Smátt og smátt verður til öflug þjónustueining sem styður upplýsingatæknilegar áskoranir vísindastarfs til framtíðar, ásamt því að rannsóknagögn verða varðveitt á öruggan, agaðan og aðgengilegan hátt.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Grunnþjónustan sem innviðakjarninn getur boðið mun nýtast rannsakendum á öllum fræðasviðum. Meginkostir innviðakjarnans (bætt varsla gagna og betra aðgengi að gögnum, aukið upplýsingaöryggi og öflugri reiknigeta, tölvuþjónusta og sérfræðiráðgjöf) ýta undir samstarf og auka skilvirkni vísindastarfs og mun innviðauppbyggingin þannig óbeint styrkja möguleika Íslands til að takast á við áskoranir úr öllum þremur flokkunum sem skilgreindir hafa verið af Vísinda- og tækniráði. 

Hvað varðar bein áhrif innviðakjarnans, mun þeirra einkum gæta í flokki þrjú (Líf og störf í heimi breytinga). Gert er ráð fyrir að þjónustan verði rekin í samræmi við hugmyndafræðina um opin vísindi. Betri varðveisla og miðlun þekkingar skilar sér í aukinni menntun og jafnrétti.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Uppbygging innviðakjarna mun taka tíma. Á uppbyggingartímanum munu ný kerfi og þjónustur verða innleidd sem auka munu og bæta þjónustuframboð kjarnans. Bæta þarf við vélbúnaði eftir því sem þörfin eykst og bregðast við tækniþróun á þessu sviði. Ráða þarf sérfræðinga til að mæta aukinni rekstrar- og þjónustuþörf. Innviðakjarninn gæti innhaldið gagnastæður, reikniklasa (HPC), gagnagrunna (e. DB Servers), gagnavefþjónustur (e. REST API), sýndarvélar (e. VMs), forritunarumhverfi (e. Docker), netkerfi (e. VLANS). Markmiðið væri að auka þjónustu með meiri sjálfvirkni, sjálfafgreiðslu og hafa betri yfirsýn yfir notkun þessara auðlinda. 

Ef farin verður sú leið að byggja innviðakjarnann á RHnet, þá mun hlutverk þess þróast frá því að vera eingöngu rekstraraðili netsambands yfir í umsjón upplýsingatækni innviðakjarna fyrir vísindi. Aðilar að RHnet hefðu aðgang að innviðakjarnanum og aðildargjöld endurskoðuð í samræmi við aukið þjónustuframboð.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Fjármagna þarf vélbúnað, hugbúnað og mannauð fyrir innleiðingu, rekstur og þjónustu. Einnig þarf að huga að kostnaði sem viðkemur eiginlegum rekstri vélbúnaðar eins og rafmagni, kælingu o.s.frv. Gróft kostnaðarmat er að stofnkostnaður verði 70 milljónir króna á fjórum árum. Á fyrsta ári yrði stofnkostnaður 25 milljónir króna og við bættust árlegar fjárfestingar upp á 15 milljónir króna á ári næstu þrjú árin. Árlegur rekstrarkostnaður að loknu fyrsta ári er áætlaður 35 milljónir króna á ári næstu þrjú árin. Reiknað er með að uppbyggingu umhverfisins ljúki á fjórum árum og við taki almennur rekstur og fjármögnun.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

RHnet er aðili að Neic (https://neic.no) og tengist þannig uppbyggingu innviða í samvinnu við hin Norðurlöndin. Með sterkum innviðakjarna verður hægt að taka þátt í samstarfinu af auknum krafti. HÍ hefur tekið þátt í fjölmörgum verkefnum fyrir hönd RHnet í Neic samstarfinu. Má þar nefna NHPC, Glenna og Glenna 2, Dellingr, CodeRefinery og nú Puhuri sem tengir okkur við Euro HPC verkefnið LUMI.

Innviðir fyrir þróun og hagnýtingu gervigreindaraðferða

Heiti stofnunar: Háskóli Íslands

Tengiliður: Hafsteinn Einarsson, hafsteinne@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Þróun djúpra tauganeta á sviði gervigreindar fer nánast alfarið fram á öflugum grafískum kortum (e. graphics processing unit, GPU) og þinkortum (e. tensor processing unit, TPU). Þróun tauganeta er mjög ör og hefur stærð tauganetslíkana mikil áhrif á gæði niðurstaða. Fyrir stór tauganetslíkön, þ.e.a.s. líkön með marga stika, verður það sífellt algengara að líkanið rúmist ekki innan minnis eins slíks korts og því þarf að dreifa því á tölvuklasa með mörgum kortum. Einnig er algengt að nota slíka tölvuklasa til að þjálfa líkönin hraðar.  Tæknifyrirtæki, háskólar og rannsóknastofnanir eru að þjálfa líkön á hundruðum slíkra korta, sem styttir þjálfunartíma líkana frá nokkrum mánuðum  niður í nokkrar klukkustundir (You 2019). 

Til að Ísland heltist ekki úr lestinni í rannsóknum á djúpum tauganetum er nauðsynlegt að byggja upp innviði sem styðja við rannsóknir af þessu tagi. Ofurtölvan Garpur sem rekin er af Upplýsingatæknisviði Háskóla Íslands og nýtt af háskólum og rannsóknastofnunum hér á landi er vísir af slíkum innviðum. Þar er þó fjöldi korta færri en á fingrum annarrar handar og nauðsynlegt til framtíðar að byggja upp sterkari innviði til að styðja við rannsóknir og nýsköpun.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Aðferðir byggðar á djúpum tauganetum eru notaðar á mörgum fræðasviðum, meðal annars fyrir mynd-, hljóð- og textagreiningu og því er þverfaglegur áhugi fyrir uppbyggingu innviðanna. Það markmið sem kallar þó hvað helst á uppbyggingu innviða af þessu tagi á Íslandi er þróun mállíkana fyrir íslensku. Miklar framfarir hafa átt sér stað á sviði máltækni á síðustu árum, sér í lagi hvað hagnýtingu djúpra tauganeta varðar. 

Þjálfun tauganeta fyrir íslensku geta opnað á marga aðra möguleika eins og til dæmis þróun:

  • snjallmenna,
  • textaleitar,
  • villuleiðréttingu,
  • greiningu á viðhorfi í texta

og svo lengi mætti telja. Til að taka skrefið í þessa átt þarf að þróa greypingarvarpanir fyrir orð sem taka mið af samhengi (e. contextual word embeddings). Slíkar varpanir eru í formi djúpra tauganeta sem þjálfuð eru á gífurlegu magni málgagna og er íslenska risamálheildin (Steinþór 2018) dæmi um góða undirstöðu fyrir slíka þróun.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Eftirspurn eftir reikniafli á eftir að aukast í nánast öllum fræðagreinum. Því eru góðir innviðir ein af undirstöðunum fyrir samstarf á milli faggreina innan háskóla og milli stofnana og fyrirtækja. 

Ofurtölva á borð við Garp er notuð af mörgum einstaklingum í fræðasamfélaginu. Margir notendur geta notað Garp samtímis og ef tölvan er í mikilli notkun fara verkefnin einfaldlega á biðröð. 

Til að bæta nýtingu innviðanna væri kjörið tækifæri að þróa ofurtölvuna þannig að fyrirtæki geti borgað fyrir aðgang að henni. Það gæti skapað hvata fyrir fyrirtæki til að styðja við uppbyggingu ofurtölvunnar, aukinnar nýsköpunar í samfélaginu og betra umhverfis fyrir sprotafyrirtæki.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Mæla má reikniafl í fjölda aðgerða sem ofurtölva getur framkvæmt á sekúndu. Yfirleitt er notast við eininguna FLOPS sem stendur fyrir fjölda aðgerða á hlaupakommutölum á sekúndu (e. floating point operations per second). Í dag er reiknigeta Garps rúmlega 200 TeraFLOPS en til að þjálfa stór mállíkön á rúmum klukkutíma er Google t.a.m. að nota tölvuklasa með 100 PetaFLOPS, þ.e. fimmhundruðfalt öflugri en Garpur í dag. Talsverður kostnaður fylgir því að nota innviði Google, t.a.m. kostar leiga á vél með 8 kortum svipuðum og í Garpi yfir 10 þúsund dollara á mánuði. Einnig er vert að minnast á það að oft þarf að gera nokkrar tilraunir til að þróa líkön og myndi kostnaður við tilraunir virka hamlandi ef markmiðið er nýsköpun. 

Því er ljóst að allar viðbætur við Garp munu stórbæta stöðuna. Einungis fimmtíuföldun á innviðunum myndi gera okkur kleift að þjálfa tauganetin á innan við sólarhring í stað margra mánaða. Miðað við í stöðuna í dag er þetta einfaldlega ekki fýsilegt því eitt verkefni þyrfti að einoka núverandi innviði í marga mánuði.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Innviðir af þessu tagi geta stutt við rannsóknir á sviði umhverfismála og sjálfbærni, heilsu og velferðar og geta undirbúið okkur betur fyrir fjórðu iðnbyltinguna. Hér fyrir neðan snertum við stuttlega á tengingu þeirra við samfélagslegar áskoranir sem Ísland þarf að takast á við. 

Umhverfismál og sjálfbærni: Aðferðir á sviði djúpra tauganeta hafa verið notaðar til að greina gervitunglamyndir en gögn úr gervitunglum verða sífellt umfangsmeiri sem kallar á meiri reiknigetu (Falco 2020). Slíkar aðferðir geta einnig nýst til að fylgjast með rýrnun jökla og annarra breytinga í umhverfinu. Einnig er hér tækifæri að byggja rannsóknarinnviðina á endurnýjanlegum orkugjöfum því mikið reikniafl krefst mikillar orku. 

Heilsa og velferð: Djúp tauganet hafa verið notuð á Íslandi meðal annars í aldursgreiningu á heila einstaklinga út frá myndgögnum (Jonsson 2019). Greining mynd- og textagagna með djúpum tauganetum getur verið hvati fyrir rannsóknir sem áður voru ekki fýsilegar en einnig tækifæri til að þróa hugbúnað sem aðstoðar starfsfólk í heilbrigðisgeiranum. 

Líf og störf í heimi breytinga: Innviðir af því tagi sem við ræðum um í þessum vegvísi eru nauðsynlegir til að undirbúa okkur fyrir komandi tíma. Þjálfa þarf sérfræðinga á Íslandi sem hafa burði og getu til að þróa aðferðir á sviði gervigreindar.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Innviðirnir þurfa rekstraraðila sem er tilbúinn til að sjá um þá og viðhalda þeim. Dæmi um slíkan aðila er Upplýsingatæknisvið Háskóla Íslands. Einnig væri hægt að reka ofurtölvuna hjá fyrirtæki á borð við Advania, Verne eða önnur gagnaver sem rekin eru á Íslandi. 

Við sjáum fyrir okkur að reiknigetan með grafískum kortum muni margfaldast á næstu 5-10 árum. Til að ná þeirri reiknigetu sem Google notar í stök máltækniverkefni í dag (Athugið að slík reiknigeta er einungis brotabrot af heildar reiknigetu Google) á næstu 5 árum þyrftum við að bæta við því sem jafngildir 20 PetaFLOPS á ári. Kostnaðurinn við reikniafl mun lækka þ.a. ef við setjum sömu upphæð árlega í verkefnið myndum við ná Google á þremur til fjórum árum. 

Þá væri skynsamlegt að setja þessa innviði í stærra samhengi. Lönd á borð við Kanada hafa mótað sér stefnu hvað varðar þróun á sviði gervigreindar. Ísland ætti að nýta sína hreinu 2 orku og Kanada sem fyrirmynd til að gera landið meira aðlaðandi fyrir erlenda sérfræðinga og vinnuafl sem aukið geta hagsæld í landinu.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Miðað við fimmtíuföldun á núverandi reiknigetu þarf ígildi 100 korta sem hvert kostar um 1.5 milljónir. Því má áætla að kostnaðurinn sé a.m.k. 200 milljónir, miðað við stöðuna í dag. Einnig fylgir uppsetningu tölvuklasans verkefni á borð við rekstur, uppsetning og viðhald sem krefst 1-2 tveggja stöðugilda. Hvert kort er um 300 Wött og ef við gerum ráð fyrir 200 slíkum kortum myndi þurfa 60 kW til að reka þau sem væru þá a.m.k. tvær milljónir á ári í orkukostnað einungis fyrir kortin. 

Vert er þó að benda á að GPU kort hafa fylgt lögmáli Moore, þ.e.a.s. á tæplega tveggja ára fresti tvöfaldast reiknigeta þeirra. Því er mikilvægt að fylgjast með þróun þeirra og tímasetja kaup korta þannig að innviðirnir skili sér betur til samfélagsins. Miðað við ofangreinda áætlun þarf a.m.k. 20 milljónir á ári í þetta verkefni.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Dæmi eru um samstarf milli landa í formi skiptimarkaðs. Þ.e.a.s. við getum boðið upp á aðgengi að okkar reikniafli í skiptum við aðgengi að öðrum ofurtölvum. Við gætum til dæmis þurft aðgengi að innviðum sem bjóða upp á annars konar áherslur en okkar innviði og því gæti samstarf af því tagi borgað sig. LUMI er dæmi um evrópska ofurtölvu sem HÍ og HR eru 3 í samstarfi við og hægt væri að skipta á reikniafli við.

Heimildir

You, Y., Li, J., Reddi, S., Hseu, J., Kumar, S., Bhojanapalli, S., Song, X., Demmel, J., Keutzer, K., & Hsieh, C.-J. (2019, September 25). Large Batch Optimization for Deep Learning: Training BERT in 76 minutes . International Conference on Learning Representations. https://openreview.net/forum?id=Syx4wnEtvH 

Steinþór Steingrímsson, Sigrún Helgadóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Starkaður Barkarson og Jón Guðnason. 2018. Risamálheild: A Very Large Icelandic Text Corpus. Proceedings of LREC 2018 , p. 4361-4366. Myazaki, Japan. 

Falco, N., Xia, J., Kang, X., Li, S., & Benediktsson, J. A. (2020). Supervised classification methods in hyperspectral imaging—Recent advances. In Data Handling in Science and Technology (Vol. 32, pp. 247–279). Elsevier. https://doi.org/10.1016/B978-0-444-63977-6.00012-2 

Jonsson, B. A., Bjornsdottir, G., Thorgeirsson, T. E., Ellingsen, L. M., Walters, G. B., Gudbjartsson, D. F., Stefansson, H., Stefansson, K., & Ulfarsson, M. O. (2019). Brain age prediction using deep learning uncovers associated sequence variants. Nature Communications , 10 (1), 5409. https://doi.org/10.1038/s41467-019-13163-9

Icelandic Center for Human-Machine Studies (Umbrella Proposal)

Heiti stofnana: Háskólinn í Reykjavík - Tölvunarfræðideild - Sálfræðideild - Verkfræðideild - Íþróttafræðideild, Háskóli Íslands - VON - Heilbrigðisvísindasvið - Hugvísindasvið - Félagsvísindasvið,  Listaháskóli Íslands

Tengiliður: Hannes Högni Vilhjálmsson, hannes@ru.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

We propose a large scale research coalition between academia, industry and society to study, understand and improve people‘s quality of life in a rapidly evolving technical world (see Figure 1). The research infrastructure that will best prepare us as a society for a future where an even greater symbiosis of humans and machines seems inevitable, is a series of highly instrumented environments where the interaction between humans and emerging technologies can be thoroughly studied, modelled and shaped. These environments range from configurable immersive simulations in dedicated research labs, to instrumented physical settings that are a part of people‘s daily life, such as smart homes and streets.

FIGURE 1: STUDYING AND SHAPING HOW PEOPLE ARE AFFECTED BY TECHNICAL INN OVATION IN ALL ASPECTS OF LI FE IS AN INHERENTLY INTERDISCIPLINARY UNDERTAKING THAT IS STRENGTHENED BY SHARING KNOWLEDGE AND AN ADVANCED RESEARCH INFRASTRUCTURE

In addition to establishing, equipping and supporting a wide variety of interconnected „Human-Machine Studies“ related lab environments, the proposed infrastructure needs to include a digital framework and methodology for collecting, archiving and sharing research data and results, while complying fully with GDPR regulations. This is an important resource that is currently missing in Iceland for human behavioural data in particular, and needs to be taken just as seriously as the access to cutting edge equipment.

NOTE: This submission is an „umbrella“ proposal, which is meant to pull together a large network of labs with different current needs and projects. Therefore specific infrastructure items are not listed here, but instead broad categories and rough total costs are estimated in the submitted form. The specifics will be worked out in a final joint proposal in the fall.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

The primary goal is to shatter the walls between human-centric and technology-centric disciplines, that need to come together to form a deep understanding of the complex interplay between humans and machines, which ultimately affects how we shape our future society.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

The center is an explicit network of research labs across disciplines, that historically have not interacted that much in the past, in spite of best intentions to talk. Both by promoting seed projects between labs and by making a range of environments and technologies available for all participants to learn about, explore, and use, the centre will truly push the exploitation of the available infrastructure, even beyond its original intended use.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

First of all, state-of-the-art environments and equipment are costly and not within the budget of smaller labs. By being part of a larger road map and a shared budget, this infrastructure becomes obtainable. 

Secondly, today all these labs are distributed across disciplinary and institutional boundaries, with hardly any awareness of what goes on around them. By sharing knowledge and resources, the labs become a part of a new interdisciplinary community full of new opportunities.

Thirdly, the digital infrastructure required for collecting, archiving and sharing human behavioural data is too complex and too costly to build up for each individual lab. GDPR requirements make this even harder to deal with for individual researchers. Therefore, a national solution will not only promote sharing of data, while ensuring compliance to regulations, but also remove the cost for customized solutions. 

Fourthly, the infrastructure will be a major contribution to education and training in areas that will matter more and more as society evolves. Not only could the “Icelandic Center for Human-Machine Studies” become a backbone for new degree programs and student projects that bridge disciplines, but it could also provide access to high-tech vocational training facilities, such as human-robot collaborative work spaces and fully immersive virtual simulations.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

This infrastructure and coalition building directly targets the “Líf og störf í heimi breytinga” (e. “Life and work in a changing world”) societal challenge, and could be considered absolutely essential for doing that well. But the “Heilsa og velferð” (e. “Health and welfare”) challenge is also being addressed by a large number of labs that would fall under this umbrella.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

The “Icelandic Center for Human-Machine Studies” would be modelled very much after the successful “The BioMedical Center (BMC) of the University of Iceland”, but not be anchored or rooted at any specific institution. Directorship and management would rotate among partners, while maintaining a single strong virtual presence as an independent entity for servicing the interdisciplinary research community. The operational overhead would be minimal, relying on its labs to contribute core facilities through a common portal, and then direct coordination between labs once connections have been made. 

At its launch, the center would bring together about 20 labs and several larger research centers across Reykjavik University, University of Iceland and Iceland University of the Arts, reflected in the institutions and departments represented by the co-proposers. In addition, about 10 industry partners and several municipalities would join the initial effort. As the awareness of the initiative grows, we may end up seeing about 40 labs and 20 industry partners towards the 10-year mark. 

While bootstrapped by a sizable Vegvísir infrastructure grant, to fill in major gaps in our infrastructure, the goal is for the labs themselves to successfully propose and receive project grants that would contribute to the maintenance of the virtual center, making the center ultimately self-sustainable.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

As mentioned earlier, this is an “umbrella” proposal to bring together a number of labs and centers that then would put forth a joint proposal in the fall. It is hard to estimate the total financial need before surveying the needs of all participating labs and filling in major gaps in the national research capacity in this area.
However, based on a very rough first estimate, we imagine that we would need to finance the following during the first years:

  • Bootstrapping of about 5 new labs targeting specific advanced environments we currently don't have, such as for assisted living, telemedicine, automated vehicles and human-robot collaboration (this is under „Uppsetning sérhæfðrar aðstöðu“). 
  • Purchasing of about 10 kinds of advanced equipment that can be added to existing labs to bring them to par with (or even exceed) international research facilities in this area. This would both include emerging technologies, such as high-fidelity augmented reality glasses and humanoid robots, but also important instrumentation for gathering detailed data, such as eye-trackers, various mobile physiological recorders and precise motion trackers. 
  • Setting up and maintaining a digital infrastructure for the collection, archival and sharing of human behavioral data in a way that complies with regulations. This also involves adopting solutions for making data from different labs and equipment interoperable, to facilitate collaboration and re-use of data. 
  • Part-time shared operation salaries for setting up and running the virtual center infrastructure. Essentially, things like a web portal and a structure for managing the booking of facilities. This is a critical piece that cannot be overlooked.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

The „Icelandic Human-Machine Studies“ center has the possibility to join a number of international initiatives and collaborations, exploiting the many connections that its initial members already have. In particular it will further strengthen ties with related infrastructures being built up in the rest of the Nordic countries, especially related to digital infrastrutures and advanced facilities.

Framtíðin í Landbúnaði

Heiti stofnunar: Landbúnaðarháskóli Íslands 

Tengiliður: Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, ragnheidur@lbhi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum 

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur tekið saman tillögur að uppbyggingu aðstöðu og aðgerðaáætlun til næstu ára með það markmið að geta þjónað sem best sínu hlutverki í heimi framtíðaráskorana og –tækifæra innan landbúnaðarframleiðslu. Hér að neðan er stærstu verkefnunum lýst, sem annars vegar snúa að starfsstöð skólans að Hvanneyri og hins vegar að Reykjum. 

1) Uppbygging samþættrar landbúnaðarmiðstöðvar á Hvanneyri 

Landbúnaðarháskólinn rekur sauðfjárbú að Hesti sem og Hvanneyrarbúið sem er kúabú, þá hefur skólinn leigt aðstöðu að Mið-Fossum til hestamennsku. Mikil tækifæri liggja í því að samþætta rekstur þessara þriggja eininga enda liggja landsvæði þeirra saman. Þá eru einnig talsverð tækifæri til frekari uppbyggingar jarðræktarrannsókna að Hvanneyri með samþættingu við öflugan búrekstur. 

Hvanneyrarbúið hefur eflst á undanförnum árum og er nú til fyrirmyndar í öllum rekstri. Þar er þó þörf á frekari uppbyggingu rannsóknaraðstöðu t.d. til að geta framkvæmt einstaklingsfóðrun og aðrar nauðsynlegar tilraunir til að styðja við eflingu og framþróun í greininni. Starfsmenn skólans heimsóttu rannsókna- og kennslubú í Árósum í Danmörku sl. vor og settu í framhaldinu fram tillögu að uppbyggingu rannsóknaraðstöðu byggt á niðurstöðum þeirrar heimsóknar.

Búið að Hesti hefur nýst til kennslu og sauðfjártilrauna og þar hafa farið fram kynbætur um áratuga skeið. Hér er um að ræða einstaklega verðmætan bústofn sem og eitt flottasta sauðfjárbú á landinu sem nauðsynlegt er að hlúa að og nýta til frekari framsóknar. Huga þarf að aukinni sjálfvirknivæðingu og bæta þannig rekstur búsins og stuðla að aukinni tæknivæðingu í greininni hérlendis. Hér eru einnig mikil tækifæri til að áframþróa afurðir til neytenda, gera sögunni sem snýr að kynbótum og sauðfé landsins betri skil, tengja við nýtingu á ull og vinnslu hennar og efla samþættingu við aðra starfsemi á svæðinu. 

Frá árinu 2006 hefur skólinn leigt reiðhöll og tengda aðstöðu að Mið-Fossum í 5 mínútna akstursfjarlægð frá Hvanneyri. Þar er úrvals aðstaða til kennslu og annarrar starfsemi skólans á sviði reiðmennsku og umhirðu hrossa. Það er ljóst að aðstaðan á Mið-Fossum hentar Landbúnaðarháskólanum einstaklega vel og staðsetningin er ákjósanleg. Umgjörðin er góð og býður upp á einstaka möguleika til útrásar og tekjuöflunar á þessu sviði meðal annars í tengslum við mikinn áhuga á íslenska hestinum erlendis. Aukin nýting aðstöðunnar á Mið-Fossum felur ekki einungis í sér tekjumöguleika heldur yrði einnig um að ræða umtalsverð samlegðaráhrif með núverandi búfjárrekstri að Hvanneyri og að Hesti, en þessar jarðir liggja sitt hvoru megin við Mið-Fossa. Fundur hefur verið haldinn með fulltrúa eigenda Mið-Fossa og er mikill vilji hjá þeim um að finna leiðir til þess að Landbúnaðarháskóli Íslands geti eignast Mið-Fossa til að tryggja framtíðaruppbyggingu þar á vegum skólans. 

Jarðræktarmiðstöð hefur verið starfrækt í landi Korpu í umsjón skólans. Brýn þörf er á uppbyggingu á aðstöðu til jarðræktarrannsókna, en aðstöðunni á Korpu hefur ekki verið haldið við sem skyldi. Byggja þarf nýtt hús undir jarðræktarmiðstöð og endurnýja tækjabúnað. Korpa býður upp á mun betri aðstöðu til jarðræktarrannsókna en núverandi aðstaða á Hvanneyri, en ef Landbúnaðarháskólinn tekur yfir Mið-Fossa skapast aukið svigrúm að Hvanneyri fyrir jarðræktartilraunir m.a. vegna samlegðaráhrifa við annan búrekstur skólans. 

2) Uppbygging rannsókna- og nýsköpunarmiðstöðvar á sviði garðyrkju á Reykjum 

Með aukinni áherslu á hollustu og lýðheilsu og vegna lítilla loftslagsáhrifa verður vægi garðyrkjuframleiðslu sífellt mikilvægara. Efla þarf til stórsóknar á þessu sviði og koma þekkingu, tækninýtingu og nýsköpun á par við það sem best þekkist í heiminum. 

Á landsvæði Landbúnaðarháskólans að Reykjum í Ölfusi eru kjöraðstæður, m.a. vegna landfræðilegrar legu, loftslags og jarðvarma, fyrir rannsókna- og nýsköpunarmiðstöð á sviði garðyrkju. Innviðir, þ.e. húsnæði og tækjakostur hafa hins vegar ekki hlotið viðhald og endurnýjun sem skyldi og hefur uppbygging aðstöðu á sviði garðyrkjurannsókna verið afar takmörkuð frá stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands. Stóra rannsóknahúsið hefur verið dæmt ónýtt eftir jarðskjálfta, mörg gróðurhúsin eru afar gömul og að hruni komin og skólastjórahúsið þarfnast mikils viðhalds. Sóknarfærin eru þó mikil á Reykjum bæði fyrir skólann og greinina sem slíka enda hefur mikil framþróun átt sér stað á þessu sviði á undanförnum árum sem brýnt er að skólinn taki þátt í. Nálægðin við jarðvarmaauðlindir skapa skólanum mikla sérstöðu og gríðarlega möguleika. Aukinn áhugi er á beinni nýtingu jarðvarma til matvælaframleiðslu víða um heim, m.a. í mörgum löndum Evrópu og þar getur Ísland verið í fararbroddi. Nú þegar hafa verið lagðir umtalsverðir fjármunir til endurbóta á húsakosti á Reykjum sem enn eru í gangi, en nú er unnið að endurbyggingu garðyrkjuskálans þar. Með þessari aðgerð hefur verið stigið skref til eflingar á m.a. garðyrkjunámi, ylrækt, skógfræði, umhverfisfræði og rannsóknastarfs á þessum sviðum, en brýnt er að byggja upp sterkari innviði til rannsókna og nýsköpunar.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Skólinn starfar á þremur starfsstöðvum á Hvanneyri, í Reykjavík og á Reykjum í Ölfusi og þjónustar allt landið. Þessar einingar mynda eina heild þannig að nemendur skólans hafa möguleika á að nýta sér aukna breidd í námsframboði og innviðir skólans til rannsókna, nýsköpunar og kennslu nýtast sem best til verðmætasköpunar og aukinnar samkeppnishæfni. Ekki einungis er megin starfsemi skólans staðsett utan höfuðborgarsvæðisins heldur er stór hluti þeirra nemenda sem skólann sækir, bæði í gegnum fjarnám og staðarnám, búsettur á landsbyggðinni. Styrkja þarf húsakost, tækjabúnað og laða að vísindafólk sem er leiðandi afl til framtíðar.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Möguleikar til alþjóðlegs samstarfs og styrkjaöflunar, meðal annars á vegum Evrópusambandsins, tengd áherslusviðum skólans eru umtalsverðir. Nú þegar eru í vinnslu umsóknir um Evrópuverkefni í samstarfi við aðila, sem eru fremstir í heiminum á sviði matvælaframleiðslu, hreinnar orku og sjálfbærrar nýtingar lands. Til þess að nýta megi tækifæri sem felast í slíkum samstarfsverkefnum og til að eiga möguleika á alþjóðlega fjármögnuðum verkefnum af þessari stærðargráðu er brýnt að koma innviðum skólans í betra og skilvirkara horf. 

Með bættum innviðum skapast einnig aukið tækifæri til tekjuöflunar með fjölþættari þjónustu bæði á sviði mennta og þekkingarmiðlunar, til rannsóknatengdrar þjónustu á innlendum og erlendum vettvangi, sem og á sviði fræðslu og afþreyingar til innlendra og erlendra ferðamanna.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Uppbygging sú er lýst er hér að ofan er bæði skynsamleg og arðbær til framtíðar. Hún eykur sýnileika Landbúnaðarháskólans og Íslands í alþjóðlegu samhengi og veitir skólanum aðstöðu til að verða leiðandi alþjóðlega á sínum sérsviðum. Ýmis ný tækifæri til tekjuöflunar skapast með auknum fjölda nemenda, með eflingu endurmenntunar, tengingu við ferðaþjónustu og auknum sóknarfærum í stóra alþjóðlega rannsókna- og nýsköpunarsjóði í samvinnu við aðra hagaðila. Með því munu rannsóknir og nýsköpun eflast sem mun um leið styrkja og auka gæði menntunarinnar. Það mun svo skila sér með jákvæðum hætti til samfélagsins til hagsbóta fyrir umhverfi og efnahagslíf.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Landbúnaðarháskóli Íslands á sterkar rætur í íslensku samfélagi og er samofinn sögu lands og þjóðar. Mikilvægi skólans hefur þó ef til vill aldrei verið meira en nú. Í heimi sem tekst á við áskoranir hvað varðar fæðuöryggi, nýtingu náttúruauðlinda, skipulagsmál, umhverfis- og loftslagsmál, felast ómæld verðmæti í starfsemi skólans. Rannsóknir, menntun og nýsköpunarstarf á sviði sjálfbærrar mætvælaframleiðslu, ræktunar, skipulags, nýtingar lands, sem og verndun umhverfis eru órjúfanlegir þættir í því að takast á við áskoranir nútímans og er vegferð í átt að betri framtíð. Nýting þeirra tækifæra sem felast í framsókn skólans eru því afar mikilvæg fyrir land og þjóð.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Áframhaldandi uppbygging og rekstur til næstu ára mun byggja á þremur meginstoðum: 

  1. Öflun styrkja mun sem áður segir skapa fjármagn sem getur kostað framtíðaruppbyggingu innviða að hluta. Til þess að styrkjatækifæri nýtist til fulls þarf þó að gera ákveðnar grunnráðstafanir eins og lýst er hér að ofan. 
  2. Aukin fjárframlög til sértækra verkefna. Hugsa má margvíslegar leiðir til þess að fela skólanum ákveðin verkefni á sviði matvæla, loftslags, umhverfis, skipulags eða sjálfbærni sem skapaði honum tekjur sem að hluta myndu nýtast til uppbyggingar innviða. 
  3. Losun fjármagns sem bundið er í eignum í umsjón skólans á öðrum svæðum mætti nýta til uppbyggingar á innviðum og starfsemi í samræmi við ofangreindar tillögur. Þetta þarf að ræða frekar í samvinnu við Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Áætluð fjármögnunarþörf til næstu fimm ára er áætluð um 1.190 milljónir krónur, þar af eru kaup á Mið-Fossum um 420 m.kr., uppbygging jarðræktarmiðstöðvar 160 m.kr., tæknivæðing Hestbúsins 60 m.kr., Hvanneyrarbúsins 120 m.kr. og uppbygging á Reykjum 430 m.kr.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Möguleikar til alþjóðlegs samstarfs og styrkjaöflunar, meðal annars á vegum Evrópusambandsins, tengd áherslusviðum skólans eru umtalsverðir. Nú þegar eru í vinnslu umsóknir um Evrópuverkefni í samstarfi við aðila, sem eru fremstir í heiminum á sviði matvælaframleiðslu, hreinnar orku og sjálfbærrar nýtingar lands. Til þess að nýta megi tækifæri sem felast í slíkum samstarfsverkefnum og til að eiga möguleika á alþjóðlega fjármögnuðum verkefnum af þessari stærðargráðu er brýnt að koma innviðum skólans í betra og skilvirkara horf. Með bættum innviðum skapast einnig aukið tækifæri til tekjuöflunar með fjölþættari þjónustu bæði á sviði mennta og þekkingarmiðlunar, til rannsóknatengdrar þjónustu á innlendum og erlendum vettvangi, sem og á sviði fræðslu og afþreyingar til innlendra og erlendra ferðamanna.

FramtíðarFæða - Rannsóknainnviðir sjálfbærrar matvælaframleiðslu og fæðuöryggis á Íslandi

Heiti stofnana: Háskóli Íslands (Matvæla- og næringarfræðideild (MoN), Miðstöð í lýðheilsuvísindum (ML), Umhverfis- og auðlindadeild (UoA), Matís, Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ), Háskólinn í Reykjavík (HR), Embætti landlæknis (EL)

Tengiliður: Bryndís Eva Birgisdóttir, beb@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Hér er lýst sjö lykilinnviðum sem eru undirstaða rannsókna á þeim matvælatengdu
samfélagslegu áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir. Um er að ræða uppbyggingu
notendavænna gagnagrunna sem með auknu aðgengi og samræmingu munu nýtast mörgum
rannsóknahópum en einnig stofnunum, smáum og stórum fyrirtækjum, félagasamtökum og
einstaklingum sem búa yfir hugmyndum að nýskapandi verkefnum. Um er að ræða framtíða
uppbyggingu viðamikilla gagna í takt við fjórðu iðnbyltinguna, matvæla- og lýðheilsustefnu
Íslands. 

  1.  Gagnagrunnur um efnainnihalda matvæla (ÍSGEM) telst til nauðsynlegra innviða fyrir rannsóknir, nýsköpun og fræðslu um matvæli og næringu. ÍSGEM gagnagrunnurinn er byggður upp samkvæmt ströngum alþjóðlegum stöðlum fyrir slíka gagnagrunna og er eina heildstæða gagnasafnið um efnainnihald íslenskra matvæla. Nauðsynlegt er að uppfæra grunninn og þróa veflausn fyrir notendur sem gerir gögnin aðgengilegri. Sömuleiðis þarf að vera hægt að útvíkka ÍSGEM í takt við rannsóknir á nýjum matvælum og fleiri efnum s.s. ýmsum hollefnum en einnig aðskotaefnum, en sú þekking er nauðsynleg til að meta mögulega áhættu og ávinning af neyslu matvæla. Einnig væri mögulegt að bæta við fleiri víddum í ÍSGEM sem t.d. tengjast umhverfismálum og sjálfbærni. (Hýsing Matís)
  2. Mataræði landsmanna. Gagnagrunnur um niðurstöður rannsókna á mataræði landsmanna 0-100 ára. Um er að ræða eldri niðurstöður landskannana á mataræði 18-80 ára og úrvinnslu nýrrar könnunar sem er í gangi. Engar rannsóknir hafa þó verið gerðar á næringu eða næringarástandi barna og annarra viðkvæmra hópa á Íslandi um árabil og þarf því að uppfæra grunninn með tilliti til þess. Líklegt má telja að hraðar breytingar geti orðið á mataræði landsmanna á allra næstu árum þar sem áherslan á umhverfismál og aukin fjölbreytni í vali á matvörum mun trúlega gjörbreyta neyslu landsmanna. Það er mikilvægt að fylgjast með þeirri þróun. Þá er mikilvægt að hafa í gagnagrunninum rými fyrir framtíða uppbyggingu nýrra tegunda neyslugagna svo sem rauntímaneyslugagna. (Hýsing á HÍ, EL) 
  3.  Lífvöktun lýðheilsu (e. Biomonitoring). Gagnagrunnur með niðurstöðum reglulegra mælinga á heilsufarsbreytum og lífmerkjum, þ.m.t. tengt næringarástandi og mögulegum eiturefnum svo sem þungmálmum eða plastefnum mæld í blóði/þvagsýnum. (Hýsing HÍ, EL) 
  4. Matvælatengd neytendahegðun. Gagnagrunnur sem hýsir upplýsingar um hegðun og viðhorf neytenda þegar kemur að vali á matvælum og næringartengdri þjónustu svo sem tengt gagnsæi og sanngjörnum viðskiptum. (Hýsing HR) 
  5. Viðamikill gagnagrunnur um landbúnaðartengda matvælaframleiðslu. Uppbygging á gagnagrunni tengt bestun matvælaframleiðslu í landinu s.s. gögn tengd  núverandi frumframleiðslu og tækifærum til framtíðar. Raungögn verða m.a. byggð á rekstrareiningum LbhÍ (kúabú Hvanneyri, sauðfjárbú Hesti, garðyrkjustöð Reykjum). LbhÍ stefnir að því að uppfæra búnað miðað við bestu mögulegu tækni, sem er ein forsenda þess að tryggja R&Þ og nýsköpun. (Hýsing LbhÍ) 
  6. Viðamikill gagnagrunnur um sjávartengda matvælaframleiðslu. Uppbygging gagnagrunns með gögnum tengt bestun í matvælaframleiðslu í gegnum alla virðiskeðjuna. (Matís, HÍ) 
  7. Umhverfisáhrif matvælaframleiðslu á Íslandi. Gagnagrunnur um mælingar á umhverfisáhrifum íslenskrar matvælaframleiðslu, svo sem kolefnislosun og vatnsnotkun, og tækifæri til að lágmarka þau, t.d. með nýrri tækni og kolefnishlutleysi. Það mun nýtast við markvissa skipulagningu og nýsköpun í matvælaframleiðslu með hringrásarhagkerfið að leiðarljósi. (Hýsing LbhÍ, HÍ, Matís, verkfræðistofur)

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Auka gæði rannsókna og efla samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu vísindaumhverfi á sviði
neytendamiðaðra sjálfbærra fæðukerfa. Hugtakið nær yfir alla þætti sem tengjast matvælum,
næringu, heilsu, efnahagsþróun, landbúnaði og sjávarútvegi. Fæðukerfi nær þannig til allra
ferla og innviða sem tengjast matvælaframleiðslu. 

  • Opna aðgengi að rannsóknarinnviðum sem nú eru oftast nær eingöngu notaðir af þeirri stofnun sem hýsir þá og hámarka nýtingu þeirra með því að efla samstarf rannsóknaraðila og gera innviðina aðgengilega notendum utan þeirrar stofnunar sem hýsir þá. 
  • Styrkja víðtækt og þverfaglegt samstarf um innviðakjarnann sem stuðlar að samvinnu um notkun og uppbyggingu innlendra innviða á formi aðgengilegra gagnagrunna á sviði neytenda, matvæla, næringar, heilsu og umhverfismála. Samstarfið mun renna stoðum undir þróun á fæðu framtíðarinnar, sjálfbærni og umbreytingu í átt að lausnum sem nýtast neytendum og öðrum hagaðilum að takast á við samfélagslegar áskoranir framtíðarinnar. 
  • Innviðakjarni sem tryggir nýliðun í vísindum og nýsköpun í takt við tækniframfarir. 
  • Þátttaka í ESFRI umsókn um að komast á vegvísi Evrópusambandsins sem tryggir aðgang vísindasamfélagsins að hágæða rannsóknainnviðum tengdum fæðukerfum og fæðuöryggi.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

  • Rannsóknaðilarnir sem standa að Innviðakjarna um FramtíðarFæðu (sjá forsíðu) sjá fyrir sér að aukin samþætting og þverfagleg samvinna verði til þess að tengja saman mismunandi nálganir og að horft verði til heildarmyndarinnar. Þetta er mikilvægt til að sjá til þess að innviðir á Íslandi séu í takt við það besta erlendis, forðast tvítekningar og tryggja þannig bestu nýtingu fjármuna og samlegðaráhrif. 
  • Aukin samþætting og bætt nýting sérfræðiþekkingar mismunandi stofnana mun leiða til skilvirkari söfnunar og stöðlunar á gögnum, stuðla að samræmingu, betri stýringu á gögnum (e. data management) og möguleikum á að tengja mismunandi gagnagrunna. Þetta mun hjálpa íslenskum rannsóknaaðilum að auka gæði og áreiðanleika rannsókna því unnt er að byggja á nákvæmari og heildstæðari gögnum við alla útreikninga og framtíðarsýn.
  • Samstarfsvettvangurinn FramtíðarFæða er öllum opin og á vonandi einungis eftir að vaxa og dafna sem regnhlífarsamtök allra þeirra hagaðila sem hafa hag af styrkum innviðum tengdum sjálfbærri matvælaframleiðslu og fæðuöryggi með áherslu á þarfir neytenda. Þar sem matur og næring snertir öll Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna munu rannsóknir  samstarfsvettvangsins stuðla að því að Ísland nái þar settum markmiðum.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

  • Opnir og samræmdir gagnagrunnar munu hjálpa íslenskum rannsóknaraðilum að vinna bug á brotakenndri uppskiptingu þeirra og auðveldar söfnun, samnýtingu og tengingu á nýjum og núverandi rannsóknargögnum sem og tækjabúnaði. Sömuleiðis mun innviðauppbyggingin veita vísindalegan grunn fyrir stefnumótun, vöruþróun, nýsköpun og neytendamiðaðar lausnir, sem skipta máli við að leiðbeina hagaðilum til að taka skref í átt að breytingum þegar kemur að heilsusamlegu mataræði og sjálfbæru fæðukerfi auk þess að tryggja fæðuöryggi. 
  • Uppbyggingin er nauðsynlegur bakgrunnur fyrir rannsakendur sem vilja leggja áherslu á samfélagslegar áskoranir tengdar matvælum, næringu og heilsu og leggur grunn að stefnumótun í lýðheilsu- og heilbrigðismálum og dregur úr kostnaði heilbrigðiskerfisins. 
  •  Mannauðurinn til að vinna gæða rannsóknir er til staðar á Íslandi en skort hefur stefnumótun og yfirsýn til að nýta sem best þá innviði, upplýsingar og gagnasöfn sem til eru og vinna að því að uppfæra, staðla og safna nýjum gögnum öllum til heilla.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

  • Innviðakjarninn mun styðja við samfélagslegar áskoranir, þ.e. rannsóknir tengdar umhverfismálum og sjálfbærni, heilsu og velferð og lífi og störfum í heimi breytinga og styður því við alla þætti nýrrar markáætlunar. 
  • Fjárfesting í slíkum innviðum tryggir aðkomu Íslands að alþjóðlegu samstarfi vísindamanna, en þróun síðustu ára er að mjög auknar kröfur eru gerðar til alþjóðlegs samanburðar og samstarfs vísindamanna, til að niðurstöður séu trúverðugar. Slíkt samstarf er gjarnan fjármagnað úr alþjóðlegum samkeppnissjóðum. Dæmi um slíkt eru verkefnin EHBMI og stuðningur Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) við landskannanir á mataræði en íslenskum vísindamönnum hefur verið boðin þátttaka í báðum þessum evrópsku verkefnum sem þegar eru fjármögnuð. Þó aðeins að þeim skilyrðum uppfylltum að nauðsynlegir innviðir séu til staðar á Íslandi. Svo er ekki eins og staðan er í dag. 
  • Innviðauppbyggingin gerir Íslendingum kleift að komast í sambærilega stöðu um innviði á þessu sviði og aðrar Norðurlandaþjóðir, ásamt því að styrkja möguleika til fjármögnunar íslensks vísindastarfs sem styður lýðheilsu- og matvælastefnu Íslands, gerir kleift að fylgja innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila, tryggir útflutningshagsmuni matvælaiðnaðar, eflir menntun á öllum skólastigum og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. 
  • Öll vinna Innviðakjarnans er þvert á fræðasvið og mun tryggja heildarsjálfbærni (e. full sustainability) í matvælaframleiðslu á Íslandi og fæðuöryggi. 

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Innviðasjóður myndi kosta það átak sem felst í að byggja upp gagnagrunnana og koma þeim á það aðgengilega form sem nauðsynlegt er til að hægt sé að deila gögnum og samkeyra mismunandi gagnagrunna þ.a. þeir nýtist sem best fyrir mismunandi hagaðila. Hér verður horft til framtíðar og umhverfi gert aðlaðandi og miðað við nýjustu tækni. 

Leið a) Árlegt fjárframlag frá ríkinu fyrir nauðsynlegum uppfærslum og viðbótum á nýjum gögnum eins og gert er á hinum Norðurlöndunum. Þá verða til gögn (e. pre-competitive data) sem öllum í samfélaginu er frjálst að nota gjaldfrjálst í sínar rannsóknir eða sem bakgrunn að nýjum  viðskiptahugmyndum. Tilvera slíkra gagnagrunna getur haft í för með sér umtalsverðan sparnað, til dæmis vegna minni útgjalda í heilbrigðiskerfinu og samnýtingamöguleika. Opið umhverfi kemur í veg fyrir að fé sé veitt oft í sömu eða svipaða innviði og dregur úr kostnaði íslensks samfélags. 

Leið b) Notendur greiða fyrir notkun innviðanna og þær tekjur nýttar til uppbyggingar og reksturs og í reglulega uppfærslu grunnanna. 

Leið c) Samþætting leiða a og b

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Frumáætlun um fulla fjármögnun þeirra innviða sem að ofan eru nefndir svo sem uppfærslur á gagnagrunnum, forritun, hugbúnaðarvinna, samtenging gagnasafna og notendaviðmót er áætlaður um 550 miljónir króna. Þá þarf í sumum tilfellum að bæta við tækjabúnaði sem styður við söfnun gagna og er áætlaður kostnaður við hann um 700 miljónir króna.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Þessi hugmynd tengist ESFRI umsókn á vegvísi sem kallast Food Nutrition Health-Research Infrastructure. Yfirmarkmið umsóknarinnar er stuðla að framúrskarandi rannsóknum á sviði neytendamiðaðra fæðukerfa. Nú þegar hafa 71 rannsóknaaðili í 19 Evrópulöndum skuldbundið sig til þátttöku, sjá nánar https://fnhri.eu

Askur og Mímir í Gagnaheimum: Gagnasöfn og greiningargeta fyrir lífupplýsingar

Heiti stofnana: Háskóli Íslands - VON - Heilbrigðisvísindasvið, Háskólinn á Akureyri

Tengiliður: Arnar Pálsson, apalsson@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Hvert einasta verkefni sem Rannsóknasjóðir Vísinda- og tækniráðs styrkja leiðir af sér gögn, sem þarf að hýsa, vinna úr og greina. Gagnaflæðið er sérstaklega áberandi innan lífvísinda og skyldra greina, sem starfa við Háskóla Íslands, Landspítala, og stofnanir sem sinna náttúru Íslands. Þessar stofnanir og einingar innan þeirra hafa einnig safnað gríðarlegum fjölda sýna úr sjúklingum, lífverum og vistkerfum. Lífupplýsingar eru hér vítt skilgreindar, og eiga t.d. við raðir úr erfðamengjum eða umhverfi, prótínbindingu, efnaskipti, fjölda lífvera í sýni, merkingar og endurheimtur, ljósmyndir af vefjum/dýrum/plöntum, síritamælingar, fjarkönnunargögn og fleira. Einnig eru lífsýni af mörgum gerðum, t.d. sýni úr krabbameinum, vefjum sjúklinga, klónuð gen, örverusýni, veirur, fuglshamir, borkjarnar eða álar í formalíni. Mjög misjafnlega er búið um lífsýni og lífupplýsingar í þessum víða skilningi hérlendis. Á meðan sumar stofnanir búa að góðum kerfum eru frumgögn á –öðrum stofnunum geymd sem excel skrár, jafnvel í vinnutölvum sem ekki eru reglulega afritaðar. Stungið er upp á byggingu Asks, sem eins og tréð væri dreift kerfi gagnagrunna með samtengda þjónustu fyrir ólíkar þarfir lífvísindasamfélagsins á Íslandi. 

Sýnin og gögnin skipta miklu máli, en ekki síður er mikilvægt að hafa aðstöðu til að greina þau, samþætta og nýta áfram. Greiningar lífupplýsinga eru mjög fjölbreyttar. Mest þörfin fyrir reikniafl og gagnarýmd er í greiningum tengdum erfðamengjum, t.d. sjúklinga eða villtum lífverum. Hérlendis er Mímir-lífupplýsingakjarni verið hjartað í slíkum verkefnum en framtíðarrekstur hans þarf að tryggja. Mikil þörf er fyrir hýsingu fyrir margar aðrar gerðir gagna, og aðgengi að sérfræðingum sem hjálpa við skipulag gagna, flutning, gæðaprófanir og ekki síst hjálp við greiningar. Innan heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands er t.d. rekin tölfræðiþjónusta fyrir rannsakendur, en slíkt mætti að útvíkka. Þörf er bæði fyrir þjónustu sérfræðinga í gagnagrunnum og gagnaumsýslu, sem og samþættingu gagna, úrvinnslu lífupplýsinga og að koma þeim í opin gagnaskjól (e. open data repositories). Lagt er til að byggja Mími upp til frambúðar, til að þjóna þörf fyrir uppsetningu sérhæfðs hugbúnaðar og greiningu stórra eða flókinna gagnasetta. Gagnaheimar eru hugsaðir sem heimili Asks og Mímis, og er ætlað að nýtast öllum sem sinna rannsóknum á mönnum, öðrum lífverum og náttúru lands, vatna og sjávar.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Markmiðin með Ask, Mími og Gagnaheimum eru fjögur. 

  1. að mæta þörf fyrir gagnagrunna og samþættingu upplýsinga um lífsýni og líffræðileg gögn hérlendis, 
  2. að tryggja getu til greininga ólíkra gerða lífupplýsinga og bæta hönnun tilrauna, 
  3. leggja til umgjörð fyrir langtíma hýsingu eða/og hjálp við flutning gagna í opna erlenda grunna með gildi opinna og endurtakanlegra vísinda að leiðarljósi og 
  4. opna leiðir til að bjarga verðmætum gögnum/sýnum sem gætu orðið glötun að bráð.

Eins og rökstutt var í lýsingu, er mikil þörf fyrir gagnagrunna utan um lífupplýsingar og sýni af margvíslegu tagi. Einnig er mikil þörf fyrir reiknigetu, og uppsetningu sérhæfðs hugbúnaðar og vinnslukerfa fyrir ólíkar lífupplýsingar. Rannsakendur þurfa einnig leiðsögn með hýsingu frumgagna og færslu þeirra í opna grunna, helst með afriti af forritum/skriptum sem notaðar voru til að greina þau. Að síðustu er hætta á að verðmæt gögn fari forkvörðum þegar kynslóðir af lífvísindafólks fer á eftirlaun, ef Gagnaheimar verða ekki reistir.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Uppbygging gagnagrunna undir nafni Asks fyrir hýsingu gagna og sýna opnar á samþættingu gagna úr mörgum áttum. Þetta á bæði við rannsóknir á villtum tegundum og vistkerfum og á sjúkdómum og orsökum þeirra, og mun hvata samstarf milli hópa hérlendis. Örugg hýsing gagna, aðgengi að úrvinnslugetu og hjálp við að miðla gögnum í opna grunna, tryggir að fjárfestingar innlendra og erlendar sjóða í rannsóknum á þessu sviðið skili sem mestum vísindalegum afrakstri. Krafan á vísindi nútímans er opið aðgengi og endurtakanleiki (e. reproducibility), sem verður mætt á tvo vegu. Í fyrsta lagi með Aski í Gagnaheimum, hýsingu og úrvinnslugetu fyrir lífupplýsingar. Og í öðru lagi, að rannsakendum verði hjálpað við að koma frumgögnum og gæðavottuðum gagnasettum í opna gagnagrunna, ásamt fullri lýsingu (forrit, útgáfur og tölfræðilíkön) á greiningu gagnanna (t.d. á GitHub). Innviðurinn mun bæta nýtingu allra annara rannsóknarinnviða á sviði líffræði og heilbrigðisvísinda hérlendis.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Stoðirnar sem Gagnaheimar byggja á eru Mímir, kjarni fyrir greiningar lífupplýsinga, og gagnagrunnar á vegum Upplýsingatæknisviðs (UTS) Háskóla Íslands og annara stofnanna. Mímir er tölvukjarni fyrir hýsingu stórra gagnasetta og greiningu þeirra. Nauðsynlegt er að á Mími starfi sérfræðingar á sviði lífupplýsinga, sem setja upp, uppfæra og samstilla hundruði
forrita og pakka sem nauðsynlegir eru fyrir greiningar margvíslegra lífupplýsinga (DNA/RNA raðir, massagreiningagögn (metabolomics og proteomics), ljósmynda af frumum/lífverum). Til Innviðasjóðs er aðeins hægt að sækja um laun sem samsvara 75% stöðugildi til eins árs. Mjög mikilvægt er að tryggja samfellu í þjónustu lífupplýsingafræðinga, og lagt er til að Vegvísirinn greiði laun tveggja slíkra á hverjum tíma. Hugmyndin er að sérfræðingarnir hjálpi jafnframt til við greiningu annarra líffræðilegra gagnasetta, t.d. úr vistfræðilegum verkefnum eða umhverfisvöktun og við að koma gögnum í opna gagnagrunna og skriptum á Github.

Gagnagrunnar hérlendis fyrir líffræðilegar upplýsingar eru nokkrir og misjafnir. Grunnar Hafrannsóknarstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands eru heilstæðastir fyrir vistfræði. Innan HÍ og smærri stofnanna, eru staðbundnar lausnir og sumar frumstæðar. Stór sýnasöfn hafa byggst upp í kringum ýmis rannsóknaverkefni, sum á formi DNA/RNA en einnig sýni af vefjum, dýrum, plöntum og úr umhverfi. Skráningar á þessum sýnasöfnum eru á mjög misjöfnu formi. Til að sýnin nýtist til áframhaldandi rannsókna þegar einni rannsókn lýkur er mikilvægt að upplýsingar um staðsetningu, uppruna og annað liggi fyrir. Mikill stofnkostnaður er að baki sýnasöfnum auk þess sem geymslupláss, t.d. í frystum, er dýrt. Mikilvægt er því að þessi sýnasöfn séu vel skráð í samræmdum grunni til að þau geti nýst áfram í vísindastarfi, einkum í kringum kynslóðaskipti eða flutninga. 

Hugmyndir sem hér er lagt upp með skarast að einhverju leyti við fyrirhugaða uppbyggingu rafrænna innviða, reiknigetu og gagnageymslur, sem UTS HÍ leggur til. Gagnaheimum er ætlað að samnýta sérþekkingu og gera tölvukost og hugbúnaðarlausnir aðgengilegar fyrir sem flesta innan lífvísindasamfélagsins hérlendis.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Öll svið lífvísinda hérlendis geta af sér stór gagnasett, lífsýni eða upplýsingar um lífverur og umhverfi þeirra. Stærstu samfélagslegu áskoranir samtíðar, eru loftslagsbreytingar, sjálfbær nýting náttúruauðlinda, COVID-19 farsóttin, lífstíls- og öldrunarsjúkdómar. Þetta eru m.a. niðurstöður víðtæks samráðs Vísínda- og tækniráðs árið 2018 þar sem samfélaglegar áskornir um loftslagsbreytingar og sjálfbærni voru í í efsta sæti og þar næst á eftir komu áskoranir í heilbrigðisvísindum og velferð. Hundruðir vísindamanna hérlendis stunda rannsóknir á þessum viðfangsefnum og öðrum ótöldum sem skipta samfélagið máli. Eins og rökstutt var að ofan eru innviðir fyrir hýsingu, samþættingu og greiningu á lífupplýsingum hérlendis ófullnægandi. Samfélagslegar áskoranir samtíðar eru sæmilega þekktar, en áskoranir framtíðar eru eðli málsins samkvæmt óþekktar eða ekki forgangsraðað vegna bjaga nútímans. Því er mikilvægt að innviðir og vegvísar styðji við grunnrannsóknir á víðu sviði. Það er hugmyndin með Gagnaheimum, að þeir gagnist vísindafólki í lífvísindum og skyldum greinum óháð rannsóknarviðfangsefnum eða fyrirfram skilgreindum áskorunum.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Til að Gagnaheimar nýtist sem best ólíkum stofnunum og rannsóknarhópum þurfa þeir að vera aðgengilegir, með sérfræðinga ráðna til langs tíma. Hyggilegast er að byggja upp tölvubúnaðinn í samstarfi við stofnanir með öflugar upplýsingadeildir, t.d. UTS við HÍ eða sambærilegt á öðrum stofnunum. Búnaður fyrir gagnagrunna verður uppfærður/settur upp á nokkrum stofnunum, en utanumhald og aðgengi samræmt. Verkvit og reynsla sérfræðinga er kjarninn í Gagnaheimum, til að tryggja regulegar uppfærslur á hugbúnaði, bæta við nýjum forritum, setja upp og endurhanna gagnagrunna, þjálfa unga vísindamenn í umsýslu gagnagrunna og greiningu lífupplýsinga. Sérfræðingarnir verða aðgengilegir vísindahópum á öllum stofnunum hérlendis, ferðast á milli stofnanna til funda við rannsóknarhópa. Ráða þarf sérfræðinga til að mæta aukinni rekstrar og þjónustuþörf. Gagnaheimar munu innihalda reikniklasa, gagnagrunna, gagnavefþjónustur, forritunarumhverfi og netkerfi. Nýtt væri sérþekking og fyrirliggjandi kerfi, t.d. UTS sem hýsir og rekur gagnagrunna. Sérstök áhersla verður lögð á að vinna með rannsóknarhópum, til að bæta vörslu gagna, skráningar sýna, uppsetningu forrita sem nauðsynleg eru, samnýtingu reiknigetu og gagnasetta, og bjarga dýrmætum gögnum frá glötun. Verkefnið mun taka 10 ár, og samanstanda af þremur þáttum. Fyrsti þáttur er uppsetning grunna (Asks) og reiknigetu (Mímis), í öðrum þætti verða gagnasett og sýnasöfn flutt í gagnagrunna með aðstoð sérfræðinga, og í þriðja þætti felst samþætting gagna og aðstoð til hlutaðeigandi við að koma gögnum í langtíma hýsingu í opna erlenda grunna. Þættirnir hefjast í þessari röð, en unnið verður í þeim öllum til loka tíunda árs a.m.k.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Kostnaðurinn felst að mestu í launum sérfræðinga. Fyrsta áætlun miðar við fjögur stöðugildi í Gagnaheimum, tvö fyrir gagnagrunna Asks og tvö fyrir lífupplýsingakjarnan Mími. Miðað er við meðallaun upp á 10 M á ári, alls 40 M á ári. Áætlað er að tveir sérfræðingar verði með doktorspróf eða sambærilega reynslu og tveir með meistaragráðu. Tækjabúnað þarf einnig að byggja upp, endurnýja reglulega og reka. Varlega er gert ráð fyrir 10 M á ári í þann lið. Í þessari áætlun um fjárþörf er ekki gert ráð fyrir framlagi annarra stofnana til verksins. Þar sem fyrirhuguð starfsemi skarast milli stofnanna, HÍ, LSH og stofnana á sviðum náttúrufræði, verður eðlilega efnt til samráðs um samvinnu um útfærslur og dreifingu kostnaðar.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Innan lífvísinda urðu snemma til opnir gagnagrunnar fyrir lífupplýsingar, NCBI-genebank og EMBL, sem eru bæði geymslur og vettvangur aðferðaþróunar. Gagnaheimar eru hugsaðir sem vettvangur virkra rannsókna, fyrir frumgögn og greiningar. Gögn yrðu síðan sett í opna erlenda grunna þegar viðkomandi handrit eru samþykkt. Ísland er samstarfsaðilli að EMBL, og hefur sú stofnun sérstaklega teygt sig til aðildarlanda í gegnum Elixir verkefnið. Uppbygging Gagnaheima myndi gera Íslandi kleift að mæta til slíks samstarfs á traustum fæti. Einnig eru sérfræðingar LSH í samstarf við norræna gagnagrunna og lífsýnasöfn. Nýlega var stofnað til samstarf HÍ og Kaupmannahafnar háskóla um loftslagsbreytingar í hafinu, með fulltingi Carlsberg sjóðsins. Gagnaheimar munu nýtast öllum þessum verkefnum og fleirum.

Heilsubrunnur

Heiti stofnunar: Háskóli Íslands

Tengiliður: Guðbjörn S Hreinsson, gudbjornh@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Tilgangur Heilsubrunns HÍ er að bæta aðgengi að gögnum til rannsókna á sviði heilbrigðisvísinda sem þegar eru til á opinberum stofnunum á Íslandi. Þetta næst með því að samræma geymslu gagna á stofnunum og veita aðgang í gegnum eitt veflag, Heilsubrunn, sem afgreiðir fyrirspurnir og staðfestir fýsileika rannsókna. Þegar fyrirspurn í Heilsubrunn staðfestir að rannsókn sé fýsileg og gögn séu fyrirliggjandi um nægilegan fjölda einstaklinga til að framkvæma ítarlegri rannsókn þá sækir rannsakandi um leyfi til Vísindasiðanefndar. Að slíku leyfi fengnu getur Heilsubrunnur séð um að sækja, samtengja og afhenda gögn.

Heilsubrunnur felur í sér nýja nálgun við aðgengi að gögnum á Íslandi. Í stað þess að safna gögnum saman á einn stað er notuð dreifð tilhögun þar sem gögn frá hverjum ábyrgðaraðila eru geymd aðskilin frá gögnum annarra og aðeins samtengd ef leyfi til slíks er veitt af Vísindasiðanefnd. Geymsla dulkóðaðra upplýsinga hjá hverjum ábyrgðaraðila er samræmd í i2b2 kerfi sem er aðskilið fyrir hvern ábyrgðaraðila. Heilsubrunnur mun veita aðgang að upplýsingunum í gegnum SHRINE kerfi, sem gefur svör við fyrirspurnum um fjölda einstaklinga sem uppfylla skilyrði rannsakanda um tilteknar breytur sem þarf til að svara tilteknum rannsóknarspurningum. Þannig verður auðvelt að fá upplýsingar um fýsileika rannsókna.Unndirbúningur Heilsubrunns hefur staðið síðan 2013. Fyrstu árin var tæknin rædd og kynnt heilbrigðisþjónustu og öðrum stofnunum á Íslandi þar á meðal ráðuneyti og Persónuvernd. Verkefnið fékk aukinn byr með ráðningu starfsmanns til Heilbrigðisvísindastofnunar / UTS HÍ í ársbyrjun 2019. Tilraunaverkefni með þátttöku Embættis landlæknis er hafið.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmið Heilsubrunns eru að: a) Auka skilvirkni í leit að gögnum við undirbúning rannsókna; b) Auka skilvirkni við afhendingu gagna; c) Bæta persónuvernd við afhendingu gagna; d) Gera gögn aðgengileg sem ekki eru það í dag. 

Markmiðunum er náð í gegnsæju ferli án þess að geyma þau miðlægt í Heilsubrunni. Byggð verður upp dreifð tilhögun þar sem hver eigandi eða ábyrgðaraðili gagna hefur áfram umsjón með og yfirsýn yfir þau gögn sem lögð eru til verkefnisins. Leiðarljós í vinnu við Heilsubrunn hefur verið að forðast uppbyggingu miðlægra gagnagrunna og tryggja að gögn séu ekki samtengd fyrr í ferlinu en þörf er á. Með Heilsubrunni verður hægt að veita aðgengi að rannsóknargögnum fljótar og á ódýrari hátt heldur en er hægt í dag. Aðgengi verður einfaldara í gegnsæju ferli og hægt að skoða fýsileika rannsókna á áður en lagt er í dýrar og umfangsmiklar rannsóknir og þannig má nýta betur takmarkað fjármagn til rannsókna á Íslandi, auka getu smærri rannsóknarhópa til þess að gera vandaðar rannsóknir á samtengdum gögnum og auka öryggi við gagnavinnslu og samtengingar gagna.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Heilsubrunnur Háskóla Íslands mun breyta verulega aðstöðu til vísindarannsókna á sviði heilbrigðisvísinda á Íslandi. Þetta næst með því að veita íslenskum rannsakendum tækifæri til að leita að gögnum sem ekki er hægt að finna í dag, með aðferðum sem bæta öryggi persónuupplýsinga, spara tíma, minnka tvíverknað og opna möguleika á að framkvæma rannsóknir sem ekki er fært að ráðast í nú vegna kostnaðar og tíma. Þetta verður mögulegt vegna trausts samstarfs íslenskra stofnana innan ramma laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, lífsýnasafna og safna heilbrigðisupplýsinga auk laga um persónuvernd. 

Innviðir Heilsubrunns munu nýtast fjölbreyttum hópi rannsakenda. Auk þess að nýtast stórum rannsóknarhópum með því að spara þeim fé og tíma sem hægt er að nýta til annars. Þannig opna þessir innviðir nýja möguleika fyrir smáa og meðalstóra rannsóknarhópa sem eru þeim lokaðir í dag vegna þess kostnaðar og flækjustigs sem fylgir því að fá aðgang að gögnum af þessu tagi. Búist er við að mörg vísindaverkefni sem tengjast rannsóknum á heilbrigðisupplýsingum og byggja á samtengingu gagna muni nýta Heilsubrunn í framtíðinni. Um er að ræða hundruðir verkefna á hverju ári og sterklega er búist við að aðgengi að þjónustu Heilsubrunns muni fjölga slíkum verkefnum og hagnýting gagna aukast. Heilsubrunnur ýtir undir samstarf milli fræðasviða, sérstaklega á sviði tölvunar- og heilbrigðisfræða, og eykur skilning á þeim gagnasöfnum sem eru nú þegar til. Heilsubrunnur býður einnig upp á samtengingu við önnur gagnasöfn og aukið samstarf háskóla, stofnana og fyrirtækja.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Heilsubrunnur opnar nýja möguleika til vísindarannsókna, sérstaklega fyrir smáa og meðalstóra rannsóknarhópa, með fljótvirkari leiðum til að nálgast gögn og upplýsingar um hvaða gögn eru aðgengileg á hverjum tíma. Gögn sem gera á aðgengileg í gegnum Heilsubrunn eru samræmd og hreinsuð í i2b2 uppsetningu hjá hverjum ábyrgðaraðila og því þarf hver og einn rannsakandi ekki að hefja sína rannsókn á þeirri vinnu. Rannsóknir sem væru því í dag þungar í vöfum bæði hvað varðar fyrirspurnir um magn gagna, afhendingu og hreinsun og úrvinnslu verða þannig framkvæmanlegar með tilkomu Heilsubrunns. 

Mikilvægt er að þessir innviðir opna möguleika á að smáir og meðalstórir rannsóknarhópar geti nýtt gögn sem aðeins hafa verið aðgengileg þeim hópum sem hafa mikið fé til umráða hingað til, auk þess að spara stærri hópum og styrkveitendum þeirra verulegar fjárhæðir.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Megin markmiðið með Heilsubrunni er að gera rannsakendum kleift að framkvæma rannsóknir sem hafa verið ókleifar vegna tíma og fjármagns sem þær myndu ella þurfa. Erlendis og þá sérstaklega í Bandaríkjunum hefur innleiðing á i2b2 leitt af sér fjölda rannsókna og m.a. á öðrum faglegum vettvangi eins og í gervigreind og vélnámi (e. Artificial Intelligence og Machine Learning). Fyrirsjáanlegt er að Heilsubrunnur leiði af sér svipaða þróun á Íslandi ásamt því að hagnýting slíkra rannsókna í samstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja leiðir af sér betri skilning sem nýtist t.d. við grundaða stefnumótun, við veitingu heilbrigðisþjónustu og hagnýtingu rannsókna í þágu samfélagsins. Heilsubrunnur mun þannig efla þjónustu við rannsakendur og stofnanir og auka fjölbreytni í þekkingariðnaði þjóðfélagsins. Áskoranir framtíðarinnar eru flóknar og Heilsubrunnur mun styðja við uppbyggingu færni í menntakerfinu til að mæta þeim áskorunum. Innleiðing gagnasafna í Heilsubrunn felur í sér hreinsun og stöðlun á gögnum sem má nýta til að styðja við útgáfu opinna gagnasafna.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Næstu 5-10 ár er framtíðarsýnin sú að Heilsubrunnur hafi verið innleiddur hjá 8-12 samstarfsaðilum og meginþorri (80-90%) gagnasafna þeirra samstarfsaðila sé aðgengilegur rannsakendum.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Fjárþörf er áætluð 12-13 mkr. fyrsta árið og vaxi svo upp í u.þ.b. 20 mkr. á ári þegar verkefninu vindur fram. Áætluð heildarþörf yfir tímabilið er 150 mkr.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Aðstandendur verkefnisins hafa kynnt sér þá vinnu sem fram fer í Evrópu við að veita aðgengi að heilbrigðisgögnum í rannsóknarskyni. Á Norðurlöndunum hefur m.a. komist á samstarf á vegum The Nordic e-Infrastructure Collaboration (NeIC) um verkefni sem hefur fengið stuttnefnið Tryggve. Verkefnið snýst um að hanna innviði fyrir örugga og skilvirka geymslu, úrvinnslu og deilingu viðkvæmra gagna milli landa fyrir rannsóknir á sviði heilbrigðisvísinda þannig að þeir uppfylli lagaleg skilyrði. Verkefnið er stutt komið og afurðir þess nú eru skilgreiningar á tækninni sem þarf til að byggja upp tækjabúnað og innviði. Engar tilbúnar sameiginlegar lausnir liggja fyrir á Norðurlöndunum í þessum efnum og hefur hver þjóð farið sína leið, til dæmis með miðlægum gagnagrunni Statens Serum Institut fyrir allar heilbrigðistengdar skrár í Danmörku og samkomulag um stofnun sem tekur að sér samtengingu gagna í Svíþjóð (Socialstyrelsen). Engar hugbúnaðarlausnir hafa verið þróaðar í Evrópu eða á Norðurlöndunum sem nýtast í verkefni sem þessu. Þeir sem hafa tekið upp aðferðir af þessu tagi í Evrópu og á Norðurlöndunum hafa gjarnan nýtt sér i2b2 lausnina sem þróuð var við Harvard háskóla. 

Fjöldi háskóla og sjúkrahúsa í Bandaríkjunum, Evrópu og víðar hafa tekið i2b2 og SHRINE hugbúnaðinn í notkun til að einfalda öruggt aðgengi að heilbrigðisupplýsingum í rannsóknarskyni. Alls nota meira en 200 stofnanir i2b2 og þar af eru 60 utan Bandaríkjanna, flestar í Evrópu. Stofnanir innan Bandaríkjanna hafa svo stofnað rannsóknarnet sem veita sameiginlegan aðgang að gagnasöfnum með aðstoð SHRINE hugbúnaðarins. Sem dæmi um þessa grósku sem i2b2 leiðir af sér er að aðilar sem nýta sér i2b2 stofnuðu regnhlífarsamtök í kringum samvinnu við greiningu heilbrigðisupplýsinga í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins þar sem yfir 100 sjúkrahús deila gögnum, þar á meðal 50 sjúkrahús í Evrópu. Með Heilsubrunni gætu íslenskir vísindamenn tekið þátt í slíku samstarfi. Mikil gróska einkennir i2b2 og SHRINE þar sem um opinn hugbúnað er að ræða sem er hægt að aðlaga og byggja við. Hundruð myndbanda á Youtube lýsa notkun á i2b2 og SHRINE og hundruð greina hafa verið birtar um hugbúnaðinn sjálfan og um rannsóknarverkefni sem byggja á notkun hans.

Myndgreiningarsetur Lífvísinda

Heiti stofnana: Lífvísindasetur, Læknadeild, Háskóli Íslands - VON, Háskólinn á Akureyri, Landspítali Háskólasjúkrahús, Tilraunastöðin að Keldum, Háskólinn í Reykjavík - Iðn- og tæknifræðideild, Raunvísindastofnun

Tengiliður: Eiríkur Steingrímsson, eirikurs@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Smásjártækni og myndgreiningar hafa tekið stórstígum framförum á undanförnum árum. Til viðbótar við stöðuga þróun hefðbundinna smásjáa, flúrsmásjáa, lagsjáa (confocal smásjáa) og 
rafeindasmásjáa hafa verið þróaðar fjöl-ljóseindasmásjár (multi-photon microscopes), lightsheet smásjár og ofurupplausnar(super-resolution) smásjár. Einnig hafa verið útbúnar sérstakar smásjár sem greina stakar sameindir eða sem greina flæði sameinda í frumum. Smásjár þessar gera kleift að svara ýmsum mikilvægum spurningum um frumur og líffræði þeirraog jafnvel að fylgjast með stökum sameindum í lifandi frumum og lífverum. Myndgreining eru einnig möguleg á heilum lífverum svo sem músum þar sem hægt er að fylgjast með sérstaklega merktum frumum og hegðun þeirra og jafnvel fylgjast með myndun æxla og meinvarpa þeirra í lifandi dýrum. Smásjár- og myndgreiningartækni er því gríðarlega mikilvæg í lífvísindum nútímans. 

Lífvísíndasetur býr að nokkrum mikilvægum smásjám og myndgreiningartækjum sem hafa gerbreytt rannsóknaaðstöðu lífvísinda á Íslandi. Setrið býr yfir lagsjá, rafeindasmásjá, tveimur EVOS smásjám fyrir frumur í rækt og tveimur IncuCyte kerfum sem nota má til að fylgjast með frumum í rækt og rekja hegðun þeirra. Einnig hefur nýlega verið keypt tæki sem leyfir greiningu stakra sameinda í frumum. Þessi tæki eru notuð daglega af flestum vísindamönnum sem tilheyra Lífvísindasetri og nemendum þeirra og flest þeirra eru í fullri notkun allan daginn.

Lífvísindasetur stefnir að því að þróa öflugt myndgreiningarsetur lífvísinda þar sem ofangreindar smásjár verða hýstar, frekari aðstaða byggð upp með bættum tækjakosti, þjónusta við notendur og þjálfun þeirra efld, viðhaldi tækja sinnt og framtíðarstefna mótuð varðandi smásjár- og myndgreiningarmál.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmiðið með uppbyggingu myndgreiningarseturs er að þjónusta notendur betur og þjálfa þá í notkun smásjánna þannig að notagildi þeirra verði hámarkað en einnig að tryggja nýtingu tækjanna og viðhald þeirra. Markmiðið er jafnframt að marka stefnu og vinna að frekari uppbyggingu á sviði smásjár- og myndgreiningartækni fyrir rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum á Íslandi. 

Fyrsta skrefið í þessari uppbyggingu er ráðning sérfræðings á sviði smásjár- og myndgreiningartækni sem mun stýra uppbyggingu myndgreiningarsetursins og sjá um að setja upp og framkvæma þjálfunar- og viðhaldsáætlanir. Í samvinnu við þær stofnanir og hópa sem koma að myndgreiningarsetri verður því næst mótuð og sett í framkvæmd aðgerðaáælun um frekari uppbyggingu, viðhald og endurnýjun innviðanna.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Lífvísindasetur er samstarfsverkefni allra opinberra rannsóknastofa á Íslandi sem vinna á sviði sameindalífvísinda (HÍ, LSH, HA, HR, LBHÍ, Keldur, Raunvísindastofnun, Nýsköpunarmiðstöð ofl.). Öllum er sameiginleg þörfin á dýrum sérhæfðum tækjum á borð við  smásjár- og myndgreiningarbúnað og því er mikilvægt að efla frekar samstarfið um uppbyggingu kjarnaeininga sem veita sérhæfða þjónustu og þjálfun. Því skipulagðari og markvissari sem uppbyggingin er, því betri aðgang hafa hóparnir að dýrri sérhæfðri tækni og því meiri áhrif geta rannsóknirnar haft. Lífvísindasetur HÍ hefur frá stofnun þess árið 2011 haft það sem megin markmið að byggja upp kjarnaeiningar. Þetta hefur tekist með mjög góðum árangri þannig að eftir er tekið. Sumarið 2019 fékk Lífvísindasetrið verðlaun frá HÍ fyrir frumkvæði og forystu en viðurkenningin er bein tengt uppbyggingu okkar á kjarnaeiningum.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Uppbygging myndgreiningarseturs lífvísinda mun bæta þjónustu við notendur og þjálfun þeirra í notkun búnaðarins auk þess sem notendur munu fá frekari upplýsingar um notkunarmöguleikana. Uppbyggingin mun einnig efla viðhald tækjanna og hámarka þannig nýtingu þeirra. Gert er ráð fyrir að notendur greiði hófleg notendagjöld sem taka mið af ástandi í fjármögnun rannsókna hverju sinni og muni það fjármagn nýtast til viðhalds tækja og
til þjálfunar starfsmanna. Jafnframt munu fyrirtæki á sviði líftækni og lífvísinda geti nýtt sér aðstöðuna gegn greiðslu skv. sérstakri gjaldskrá. Við erum þegar farin að svara þessari þörf og eru fyrirtæki þegar að nýta þá smásjárðstöðu sem Lífvísindasetur býr yfir. Rannsóknanemar í líf- læknavísindum munu fá kynningu á smásjárkjarnanum og þeim tækifærum sem felast í nýtingu á þessari aðstöðu. Starfsmenn smásjárkjarnans verða sérþjálfaðir og munu geta þjónustað notendur til að ná markmiðum sínum. Við höfum haft góða reynslu af að senda starfsfólk á smásjár- og myndgreiningarnámskeið til EMBL (European Molecular Biology Laboratory) til frekari menntunar og þjálfunar og munum efla þann samstarfsvettvang enn frekar ef vegvísirinn hlýtur brautagengi. Þess má geta að að einn forsvarsmaður þessa vegvísis, prófessor Eiríkur Steingrímssons, er nú formaður stjórnar EMBL.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Árið 2018 átti Vísinda- og tækniráð í víðtæku samráði við almenning, vísindamenn, þingmenn og aðra hagaðila um þær brýnustu áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir til næstu ára. Á meðal þeirra áskorana sem skoruðu hæst voru heilbrigðisvísindi og velferð. Grunnrannsóknir á sviði heilbrigðis- og lífvísinda skipta sköpum til að öðlast betri skilning á orsök og eðli sjúkdóma. Þar skipta myndgreiningar eins og lýst er hér að ofan stóran sess við
að skilgreina sjúklegt ástand fruma og vefja og eru því ein af grunnforsendum þess að betri skilningur fáist við greiningu sjúkdóma. Einnig má geta þess að rafeindasmásjáin er notuð við
læknisfræðilegar greiningar. Það er því óumdeilt að innviðauppbygging á sviði  myndgreiningar samræmist að fullu þeim samfélagslegu áskorunum sem Vísinda- og tækniráð hefur skilgreint.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Það er ljóst miðað við eftirspurn og framþróun í tækni að frekari uppbygging er nauðsynleg og henni verður að fylgja sérhæfður starfskraftur. Við sjáum fyrir okkur þörf á að endurnýja hluta af núverandi tækjakosti og fjármagna kaup á fleiri tækjum m.a. til greiningar stærri sýna í þrívídd (fjölljóseindaa smásjá og light-sheet smásjá) og ofurupplausn (sérstaka STED smásjá eða sambærilegar viðbætur við aðrar smásjár). Einungis ein lagsjá er nú í notkun og annar vart eftirspurn. Miðað við fjölda notenda og aukna áherslu á flúrljómandi smásjárgreiningu í  rannsóknum á sviði heilbrigðis- og lífvísinda er nauðsynlegt að fjölga lagsjám og flúrsmásjám og bæta við nýrri rauntímasmásjá fyrir frumuræktir (Incucyte). Við stefnum á að koma sem flestum smásjánna fyrir á sama stað eða í nálægð við hverja aðra í Vatnsmýrinni. Á þann hátt sjáum við fram á sem mest samlegðaráhrif af nýtingu þessara tækja og jafnframt verður þekking og reynsla til staðar á staðnum sem eykur afköst, gæði og notagildi til muna.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Laun umsjónarmanns myndgreiningarseturs lífvísinda: 10 M ISK ári. Tímabundið greitt af Lífvísindasetri HÍ en framtíðarlausn er mikilvæg. 

Viðhaldskostnaður tækja: 3 M ISK ári. Greitt af þjónustugjöldum notenda og viðhaldssjóði tækja. 

Frekari uppbygging tækja: Frá 5-150 M ISK per tæki eftir útfærslu tækis. Dæmi um þau tæki sem stefnt er að bæta við í innviðina á næstu árum eru: 

  • Light-sheet smásjá: 5-40 M ISK (háð útfærslu) 
  • STED ofurupplausnarsmásjá: 10 – 40 M ISK (háð útfærslu)
  • Multiphoton confocal: 140M ISK 
  • Endurnýjun á Confocal smásjá: 100 M ISK 
  • Flúrsmásjár: 20 M ISK 
  • Endurnýjun IncuCyte tækja 20 M ISK

Heildarþörfin er því metin á bilinu 308-373 M ISK (um 37,3 M ISK á ári að meðaltali).

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Lífvísindasetur tekur virkan þátt í verkefninu Bridging Nordic Microscopy Infrastructures (BNMI) sem hlaut 2.5M NOK í styrk til næstu 3 ára. Verkefnið styður við innviðauppbyggingu á sviði myndgreinina á Norðurlöndunum, m.a. með námskeiðahaldi, þjálfun nemenda og starfsmanna og samvinnu á milli samstarfsstofnana. Ísland er ekki þátttakandi í EuroBioImaging ESFRI verkefninu en allir hinir þátttakendurnir í BNMI eru hluti af EuroBioImaging verkefninu og mun þátttaka Íslands í BNMI opna dyr að EuroBioimaging. Starfsmaður Myndgreiningarseturs Lífvísinda mun verða tengiliður Íslands við BNMI og sækja námskeið og fundi verkefnisins og flytja nýja þekkingu til Íslands.

Í samvinnu við smásjárframleiðendur vinnur EMBL nú að því byggja smásjársetur (EMBL Imaging Center) sem verður opið fyrir notendum frá aðildarlöndum EMBL. Byggingin er fjármögnuð af þýska ríkinu og smásjárframleiðendum en þar verða staðsettar nýjustu smásjár og jafnvel smásjár sem eru í þróun og eru ekki enn komnar á markað. Smásjárnar verða aðgengilegar til notkunar þeim sem þess þurfa fyrir verkefni sín. Á staðnum verða sérfræðingar í notkun smásjánna og allur tilheyrandi búnaður. Við sjáum fyrir okkur að Myndgreiningarsetur Lífvísinda muni tengjast smásjársetri EMBL og nýta sér þekking og reynslu þeirra auk aðstöðu þegar það á við. Með slíkum tengingum verða tæknilegir möguleikar betur ljósir fyrir vísindamönnum á Íslandi og þeir því líklegri til að nýta sér bestu tækni til rannsókna sinna.

Aðstaða til dýratilrauna

Heiti stofnana: Lífvísindasetur HÍ, Læknadeild, Háskóli Íslands, ArcticLAS ehf, Raunvísindastofnun, Háskólinn í Reykjavík - Iðn- og tæknifræðideild, Landspítali Háskólasjúkrahús

Tengiliður: Hans Tómas Björnsson, htb@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Við Lífvísindasetur HÍ er vaxandi þörf fyrir öfluga aðstöðu til dýratilrauna þar sem hægt er að halda dýr og gera á þeim tilraunir og aðgerðir, t.d. til að koma stökkbreytingum fyrir í erfðamengi dýra með CRISPR aðferðinni, til að fylgjast með æxlum í vexti í tilraunadýrum, til að gera sýkingartilraunir og til að framkvæma ítarlega svipgerðargreiningu á dýrum sem bera ýmsar stökkbreytingar eða eru á mismunandi meðferðum.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmiðið er að byggja upp öfluga aðstöðu til dýrahalds við HÍ þannig að vísindamenn stofnunarinnar geti notað nýjustu aðferðir og þannig verið samkeppnishæfir á alþjóðavettvangi. Undanfarin ár hefur Lífvísindasetur verið í samstarfi við ArcticLAS, íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í dýrahaldi. Samstarfið við ArcticLAS hefur verið mjög frjótt og
gefandi en þar starfa dýralæknir og sérfræðingar í dýrahaldi með áratuga reynslu á að framkvæma flóknar dýratilraunir. Þetta samstarf þarf að efla enn frekar, bæta við ýmsum tækjabúnaði og aðstöðu og helst flytja aðstöðuna inn á svæði HÍ í Vatnsmýrinni. ArcticLAS er í dag staðsett í leiguhúsnæði á Krókhálsi sem er langt frá flestum notendum. 

Við sjáum fyrir okkur eftirfarandi uppbyggingu: 

  1. Sérfræðingur í dýrahaldi verður ráðinn til starfa við HÍ og starfar í aðstöðu ArcticLAS. Sérfræðingurinn mun halda utan um alla starfsemi HÍ tengda dýrahaldi, tryggja að viðeigandi leyfi séu til tilrauna, að einstaklingar sem nota aðstöðuna hafi til þess viðeigandi þjálfun auk þess að sjá um dýrahald HÍ. Þetta mun gera fleiri og minni hópum kleift að vinna með tilraunadýr en sífellt er meiri pressa á að staðfesta uppgötvanir í dýrum til þess að koma greinum í betri vísindatímarit. Á sama tíma eru auknar kröfur frá eftirlitsaðilum Umhverfis- og Matvælastofnunar um aðstöðuna, utanumhald á þjálfun starfsfólks, skráningar á fjölda notaðra dýra og verkferlum við tilraunir. 
  2. Unnið verður að flutning aðstöðunnar í Vatnsmýrina.
  3. Keypt verða frekari tæki til að bæta tilraunaaðstöðuna. Fyrsta tækið sem stefnt er að því að kaupa er In Vivo Imaging System (IVIS) sem leyfir 2D og 3D optical tomography auk microCT og röntgengreiningar á lifandi músum (til dæmis Quantum GX2 system og Spectrum 3D kerfin frá Perkin Elmer). Tæki sem þessi eru afar mikilvægt fyrir rannsóknir á bæði krabbameinum og taugakerfinu þar sem hægt verður að fylgjast með frumum sem merktar eru með lúsíferasa eða flúrljómandi próteinum í lifandi dýrum en einnig sjá helstu líffæri og þannig geta staðsett frumurnar. Þessi tækjabúnaður myndi líka hjálpa til við svipgerðargreiningu á dýramódelum sem bera stökkbreytingar sem breyta byggingu beina. 
  4. Mikilvægt er að byggja upp frekari getu til að svipgerðargreina mýs, til dæmis til að a) meta styrk músa (grip strength) eða b) samhæfni (e. coordination, eins og rotorod, eða Erasmus ladder) c) blóðmeinafræði (hematologic measurements eða metabólískar svipgerðir (metabolic chambers). 
  5. Möguleikar á að byggja upp tækjakost til að framkvæma "optogenetics" verða skoðaðir. Þetta er glæný aðferðarfræði sem hefur gjörbreytt getunni til að skoða taugavirkni í músum en með því að setja ljósnæmt prótein í taugafrumur er hægt að nota ljós til að virkja ákveðnar taugafrumur og þannig skilja verkun þeirra. Þetta er tækni sem er í hraðri þróun en þessi tækni gæti verið gagnleg fyrir marga af hópunum sem nú starfa við Háskóla Íslands

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Lífvísindasetur er samstarfsverkefni allra opinberra rannsóknastofa á Íslandi sem vinna á sviði sameindalífvísinda (HÍ, LSH, HA, HR, LBHÍ, Keldur, Raunvísindastofnun, Nýsköpunarmiðstöð ofl.). Mörgum vísindahópum er sameiginleg þörfin á gæða-aðstöðu til dýrahalds og fer þörfin vaxandi. Sem dæmi má nefna að CRISPR tæknin hefur þróast hratt undanfarin ár og leyfir núnabreytingar á erfðamengi músa með einföldum, ódýrum og fljótvirkum hætti. Það er því ljóst að þröskuldurinn sem velst í að útbúa tilraunadýr er allt annar en hann hefur verið áður og er kostnaður við að kaupa tilraunadýr eða jafnvel fá þau úr samevrópskum verkefnum alltaf að minnka. Myndgreiningartækni lifandi dýra hefur einnig eflst að mun og margir möguleikar sem sú tækni opnar. Slík tækni bíður einnig uppá mjög góða nýtingu tilraunadýra og er oft hægt að framkvæma margar tilraunir á sömu dýrunum.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Aðstaða til dýratilrauna við HÍ er afar bágborin og felst í tveimur herbergjum í kjallara VR3 og einu herbergi í Læknagarði. Aðstaða þessi er lítil og þröng og aðstaðan og tækjabúnaðurinn í henni úreltur. Til að ráða bót á þessu gerðu Lífvísindasetur, Vísindagarðar og Keldur samning við ArcticLAS, íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í dýrarannsóknum, um samstarf þar sem starfsmenn setursins fá aðstöðu hjá fyrirtækinu til dýrahalds og aðstoð við tilraunir og hönnun þeirra. Samstarf þetta hefur verið afar farsælt og vel heppnað. Nýlega fékkst styrkur frá Innviðasjóði til að kaupa nýjar micro-isolator búrasamstæður fyrir mýs, sérstaka skiptistöð fyrir þessi búr, svæfingarbúnað og aðgerðaskáp. Einnig voru keypt sérstök tæki til hegðunarprófana og til að framkvæma taugarit og mælingu á hljóðum frá dýrum. Tæki þessi eru hýst hjá ArcticLAS og þar fer öll vinna fram með dýrin nema hegðunarrannsóknir sem fara fram í VR3 en þar er allur búnaður til hegðunarrannsókna staðsettur. 

ArcticLAS býr yfir 500 m2 húsnæði. Þar af eru samtals fimm herbergi sem hýsa tilraunadýr. Háskólinn nánast fullnýtir þrjú af þessum herbergjum. Tvö rými eru í húsnæðinu þar sem hægt er að framkvæma tilraunir. Með tilkomu nýs tækjabúnaðar og betri aðstöðu opnaðist m.a. tækifæri fyrir virta íslenska vísindamenn að flytja með rannsóknarverkefni sín til Íslands. Samstarfsamningurinn milli Lífvísindaseturs, Vísindagarða, Keldna og ArcticLAS hefur eflt til muna það umhverfi sem vísindasamfélaginu stendur til boða, en sökum þess hve viðtökurnar hafa verið góðar er það nú þegar ljóst að húsnæðið hjá ArcticLAS er komið að þolmörkum m.t.t þess að geta hýst allar þær rannsóknir sem fyrirhugaðar eru í nánustu framtíð. Auk þess er húsnæðið á Krókhálsi, þar sem aðstaða ArcticLAS er staðsett, ekki sérstaklega byggt sem rannsóknaraðstaða og því eru ýmsir annmarkar á húsnæðinu. Auk þess er um að ræða leiguhúsnæði þar sem ArcticLAS hefur enga stjórn á hverskyns annarskonar starfsemi er á öðrum hæðum húsnæðisins. Nú þegar eru aðrir rekstraraðilar fyrir ofan og neðan aðstöðu ArcticLAS sem hafa mjög truflandi áhrif á ýmsar tilraunir. Þetta hefur haft það í för með sér að nauðsynlegt var að flytja viðkvæmar hegðunarrannsóknir út úr húsnæðinu, sem er mjög bagalegt, sökum þess að ekki hægt að flytja þau dýr aftur inn í aðstöðu ArcticLAS vegna smithættu. Þörfin fyrir stærra húsnæði fyrir tilraunadýrahald og rannsóknarstofur því tengdar er aldrei meiri en nú. Það er því mjög brýnt að huga fljótt að byggingu á nýrri sameiginlegri aðstöðu í Vatnsmýrinni fyrir dýratilraunir Lífvísindaseturs, ArcticLAS og í raun alls vísindasamfélagsins á Íslandi. Í eins litlu samfélag og Ísland er, þá er ekki raunhæft annað en að sameina allar dýratilraunir í eitt húsnæði þar sem þetta er mjög kostnaðarsamur rekstur og nýting mannauðs fer best þegar allir eru staðsettir á sama stað.

Aðstaðan mun gerbreyta tækifærum íslenskra Lífvísindamanna og nemenda þeirra til að svara mikilvægum spurningum og þar með að fá birtingar í bestu tímaritum heimsins.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Fjöldi þeirra sem hafa heilabilun hefur margfaldast í heiminum og er líklegt að þetta verði ein stærsta samfélagslega áskorunin. Einstaklingar með þroskaskerðingu hafa afar háar líkur á heilabilun sem bendir til þess að þessir sjúkdómar séu tengdir. Með auknum rannsóknum á erfðasjúkdómum sem trufla taugavirkni (Hans Tómas Björnsson, Ragnhildur Káradóttir, Pétur Henry Petersen og Eiríkur Steingrímsson) er hægt að skilja betur og kannski koma í veg fyrir
heilabiliun. 

Rannsóknir á krabbameinum standa á gömlum merg á Íslandi. Rannsóknir þar sem dýr eru notið sem líkön fyrir sjúkdóminn hafa hins vegar ekki verið stundaðar. Mikilvægi tilraunadýra í krabbameinsrannsóknum hefur hins vegar aukist að mun undanfarin ár og má t.d. nefna að patient-derived xenografts (PDX) sem leyfa ræktun æxlisfruma úr mönnum í dýramódelum og
síðan prófun lyfja á þeim æxlum sem myndast. Með myndgreiningu er hægt að fylgjast með æxlisfrumum í lifandi dýrum. Aðferðir sem þessar eru mikilvægar til að fá greinar birtar í  bestu timaritum og margir hópar sem gætu nýtt sér aðstöðuna

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

  1. Starfsmaður: 10M ISK per ár
  2. IVIS kerfi: 92 M ISK
  3. Búnaður til svipgerðargreiningar: 30 M ISK
  4. Optogenetics búnaður: 20 M ISK

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Um 15-20 M ISK per ár miðað við ofangreindar tölur.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Íslenskir vísindamenn hafa nú aðgang að stórum músaverkefnum eins og EMMA og Infrafrontier en Evrópusambandið hefur veitt umtalsverðu fármagni í að útbúa músamódel og stökkbreytingar í genum músa og gert slíka stofna aðgenginlega fyrir Evrópska vísindamenn. Erfitt er að nýta sér þetta til fulls án þess að hafa getuna til að vinna með dýr og svipgerðargreina þau með ýmsum aðferðum.

Próteinvísindakjarni Háskóla Íslands

Heiti stofnana: Raunvísindastofnun Háskólans, Háskóli Íslands - Heilbrigðisvísindasvið

Tengiliður: Pétur Orri Heiðarsson, pheidarsson@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Rannsóknum á byggingu og eiginleikum próteina hefur fleygt fram síðustu ár meðfram auknum skilningi á hlutverki þeirra í líffræðilegum ferlum og sjúkdómum. Próteinmengið– safn allra próteina og víxlverkana þeirra innan lífveru– er afar viðamikið og flókið sameindakerfi sem myndar undirstöðuna að virkni og breytileika lífvera. Skilningur á próteinum og próteinmenginu er því forsenda þess að hægt sé að leita nýrra meðferða í lyfja- og læknisfræði, nýsköpunar í líftækni, og grunnþekkingar á lífverum. Próteinrannsóknir eru því í mikilli sókn og hefur ör þróunarvinna átt sér stað á því sviði um allan heim. Í því skyni hafa víðtæk samlegðaráhrif falist í öflugu samstarfi hópa í líftækni, prótein-efnafræði, læknisfræði og iðnaði. Rannsóknarhópar í lífefnafræði, sameindalíffræði og iðnaðarlíftækni við Háskóla Íslands mynda Próteinvísindakjarna sem á sér aðsetur í Öskju Náttúrufræðahúsi frá ágúst 2020. Þar er byggt á þeirri víðtæku reynslu sem rannsakendur í lífefna- og sameindalíffræði búa yfir, og þeirri aðstöðu sem þegar er til staðar fyrir fjölhæfar rannsóknir á byggingu, stöðugleika og virkni próteina. Próteinvísindakjarninn á sterkt erindi á Vegvísi Vísinda- og tækniráðs, og með frekari uppbyggingu tækni-innviða stefnir hann á að vera leiðandi afl fyrir íslenskt vísindafólk við rannsóknir á próteinum og nýsköpun í lífvísindum.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmið þessarar uppbyggingar er að efla rannsóknir í lífefnafræði, sameindalíffræði og líftækni á Íslandi til framtíðar með þróun á öflugri miðstöð til próteinrannsókna, með áherslu á byggingu, eiginleika, og hlutverk próteina. Í Próteinvísindakjarnanum verður hægt að breyta hugmynd í hönnun, framleiða og greina prótein með tækni af allra hæsta gæðaflokki: Notkun margvíslegra tjáningarkerfa til framleiðslu; hreinsun á breiðum skala við lágan og háan þrýsting; nákvæmar greiningar á tjáningu og eiginleikum próteina í hlaupum, himnum eða á örplötuskala; smásjárgreiningar í ofur-upplausn á jafnvel stökum sameindum; bindisækni og víxlverkunarmælingar sameinda s.s. lyfja við prótein; aðstaða til kristöllunar fyrir rannsóknir á þrívíðri byggingu próteina; litrófsgreiningar og vermismælingar á eiginleikum og víxlverkunum próteina við aðrar lífsameindir. Núverandi tækjabúnað Próteinvísindakjarnans er mikilvægt að uppfæra reglulega en að neðan leggjum við til mikilvægar framtíðar stefnur við uppbyggingu innviða í próteinvísindum. 

  1. Byggingarleg lífvísindi: Sérstaklega mikilvægir innviðir sem skortir á Íslandi í dag er tækjabúnaður til að greina byggingu stórsameinda í há-upplausn, en slíkt er kjarna-aðstaða í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Nú þegar er til vísir að þesskonar rannsóknum í gegnum Efnagreiningarsetur HÍ með tilkomu Bruker X-ray einkristallaröntgentækis sem hjálpar við fyrstu skref kristallagreiningar. Mikilvægt er samfara því að byggja upp aðstöðu til að kristalla prótein, en mikil þróun hefur orðið í háafkasta-tækjabúnaði til próteinkristöllunar síðastliðin ár og verð á slíkum tækjum hefur lækkað. Háskóli Íslands er meðlimur í European molecular biology laboratory (EMBL) en hringhraðlar fyrir X-ray greiningar eru innan vébanda þeirra samtaka. Við ítrekum hér einnig mikilvægi þess að fá stærra kjarnasegulómunartæki (e. nuclear magnetic resonance, NMR) til landsins. Slíkt tæki myndi hleypa miklum krafti í rannsóknir á lífsameindum; prótein, kjarnsýrur, og flóknari sameindaflóka væri hægt að rannsaka með mikilli nákvæmni en til þess þyrfti ≥600 MHz NMR tæki. Ekki síður er í dag mikil áhersla lögð á óreiðukennd prótein þar sem komið hefur í ljós að stór hluti próteinmengis manna inniheldur prótein sem hafa enga stöðuga þrívíða byggingu, en NMR er mikilvægt tól í rannsóknum á slíkum kerfum.
  2. Einsameindasetur: Djúpur skilningur á ýmsum líffræðilegum ferlum, sem margir eru í grunninn slembiferli (e. stochastic) sem lúta lögmálum líkindafræðinnar, fæst aðeins með nákvæmri skoðun á hegðunarmynstri einnar próteinsameindar yfir langan tíma. Einsameindaaðferðir hafa undanfarið verið í örri þróun og margar tækninýjungar hafa litið dagsins ljós sem hafa gefið okkur ótrúlega innsýn í þann míkróskópíska heim sem einkennir flókna líffræðilega ferla á borð við genatjáningu, boðleiðir, og sjúkdómsferla. Aðferðir sem leyfa myndgreiningu með ofur-upplausn (super-resolution), rakningu stakra sameinda innan frumu (single-particle tracking), og einsameinda-litrófsgreiningar með FRET (single-molecule spectroscopy) eru bara nokkur dæmi um þessar kraftmiklu aðferðir. Uppbygging á einsameindasetri gæfi okkur nýstárleg tól sem passa vel við hugmyndir um myndgreiningarsetur fyrir lífvísindi.  
  3. Þróun aðferða á framleiðslu próteina til nota í líftækni: Einn angi í líftækni, sem er jafnframt oft krefjandi, er þróun aðferða fyrir framleiðslu próteina í erfðabreyttum tjáningarkerfum, sem og hreinsun próteina á stærri skala. Fyrir líftækni-iðnaðinn er mikilvægt að hámarka framleiðslugetu til að lækka kostnað. Hugmyndin er því að sprotafyrirtæki geti leitað til vísindamanna innan Próteinvísindakjarnans og hannað framleiðslu og uppskölunarferla fyrir prótein. Þegar er til búnaður til að framleiða prótein á smáum skala en við þróun á framleiðsluferlum er mikilvægt að hugsað sé frá byrjun um þær áskoranir sem felast í próteinframleiðslu í miklu magni.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Öflug aðstaða til rannsókna á próteinum verður mikilvæg fyrir breiðan hóp vísindamanna á Íslandi. Próteinvísindakjarninn, sem leiddur er af rannsakendum í lífefnafræði og líftækni, mun tengja saman háskólasamfélagið og líftækni-iðnaðinn á Íslandi. Þjálfun næstu kynslóðar vísindamanna mun byggja á nýjustu tækni sem völ er á sem gerir unga fólkið bæði reiðubúið til nýsköpunar í rannsóknum og eftirsótta starfskrafta fyrir líftækni-iðnað. Próteinvísindakjarninn styður líka eindregið innviðauppbyggingu massagreininga, myndgreininga, og efnagreininga innan Lífvísindaseturs HÍ, og ljóst er að mikið samstarf mun vera á milli rannsakenda á þessum sviðum.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Hröð tækniþróun á sér stað í prótein- og lífvísindum nútímans, þar sem tækjabúnaður hefur oft aðeins nokkurra ára líftíma þar til hann er orðinn úreldur. Til þess að Ísland geti haldið áfram að vera í fremstu röð, og byggt á þeim orðstír sem skapast hefur er nauðsynlegt að halda við og uppfæra þann tækjabúnað sem þegar er kominn. Engin tækni er til staðar til háupplausna greininga á próteinbyggingu og NMR tæki mun því gjörbylta aðstöðu til rannsókna á byggingu próteina og annara lífsameinda. Uppbygging á einsameindasetri og líftækni-aðstöðu er á byrjunarstigum og áframhaldandi fjármögnun á þeim sviðum mun mynda öfluga og heildstæða rannsóknareiningu.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Samfélagsleg áhrif uppbyggingar próteinvísindakjarna eru óumdeilanleg, hvort sem um er að ræða heilbrigðisvísindi, nýsköpun eða lyfjaþróun, sem öll eiga það sameiginlegt að treysta á framúrskarandi aðstöðu til próteinrannsókna. Þróun nýrra aðferða í læknisfræði og lyfjaþróun byggir sterklega á því að hægt sé að greina byggingu stórsameinda eins og próteina.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Uppbygging Próteinvísindakjarnans þarf að endurspegla þær framfarir sem eiga sér stað í lífvísindum og tekur mið af vaxandi Próteinvísindakjarna við HÍ og líftækni-iðnaðar á Íslandi. Fjárfesting í stærri innviðum: 1) NMR tæki er forgangsatriði sem myndi styrkja próteinvísindainnviði gríðarlega mikið en slíkt tæki þyrfti starfsmann til að sinna rekstri og þjónustu. Til framtíðar mætti svo líta til þess að byggja upp kunnáttu og aðstöðu til greininga á byggingu risasameinda með rafeindasmásjá (Cryo-EM) en sú tækni er ört að ryðja sér til rúms sem sú kröftugasta til slíkra verka og nýlega hafa verið birtar byggingar risasameinda-flóka í atómaupplausn. 2) Einsameinda-rannsóknaraðstaða sem hefur úr að ráða fjölbreyttum aðferðum til að fylgjast með og myndgreina stakar sameindir. 3) Uppbygging á aðstöðu til próteintjáningar, hreinsunar í miklu magni, og próteinkristöllunar.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Fjármögnunarþörf er erfitt að meta á þessum tímapunkti en ljóst er að heildarkostnaður við stærra NMR tæki, sem mun hafa breiðan notendahóp, verður 200-400 milljónir eftir stærð tækis. Uppbygging og viðhald Próteinvísindakjarnans, þar með talið tækjabúnaður á sviði einsameindarannsókna gæti kostað á bilinu 50-100 milljónir. Sérfræðiþekking er nauðsynleg og því er gert ráð fyrir ráðningu starfsfólks. Uppbygging próteinkristalla-aðstöðu  hleypur á bilinu 20-30 milljónir.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Próteinvísindakjarninn er, í gegnum einsameindarannsóknir, tengdur nýju setri í Kaupmannahafnarháskóla sem nefnist REPIN (Rethinking Protein Interactions) en setrið er tileinkað því að þróa aðferðir og líkön til að endurskilgreina samskipti próteina út frá nýuppgötvaðri sameindalegri óreiðu. Setrið er fjármagnað af Novo Nordisk Foundation með 8 milljón evra framlagi (~1,2 milljarðar íslenskra króna) til 2025, og nú þegar eru byrjuð sameiginleg verkefni Próteinvísindakjarnans og REPIN setursins.

Uppbygging öflugrar frumuflæðisjármiðstöðvar

Heiti stofnana: Lífvísindasetur Háskóla Íslands, Landspítali Háskólasjúkrahús, Háskólinn í Reykjavík - Verkfræðideild, Tilraunastöðin að Keldum, Háskóli Íslands - VON

Tengiliður: Jóna Freysdóttir, jonaf@landspitali.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Alþjóðlega þá stöndum við Íslendingar ekki nógu vel þegar kemur að vísindarannsóknum þar sem notaðar eru frumuflæðisjár. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að byggja upp öfluga miðstöð í frumuflæðisjártækni á ónæmis-fræðideild Landspítala í víðtæku samstarfi við Lífvísindasetur HÍ (sjá nýlegar umsóknir í Innviðasjóð). Afrakstur þessa samstarfs er nú þegar verulegur og birst í fjölda styrkja, útskrifaðra MSc og PhD nema, auk fjölda vísindagreina. Þó er ljóst að frekari uppbyggingar er þörf til að styrkja enn frekar samkeppnisstöðu þeirra vísindahópa sem að þessari miðstöð standa með áframhaldandi uppbygginu innviða og tækjabúnaðar til að standast erlenda samkeppni.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Með aukinni þekkingu á frumum t.d. blóðfrumum, stofnfrumum, krabbameinsfrumum,  taugafrumum o.fl., hefur komið í ljós að þeim má skipta í marga undirhópa. Til að ná fram áreiðanlegum niðurstöðum þarf að nota frumuflæðisjá sem getur greint marga flúrskinsliti. Mikilvægi þess að geta rannsakað litla frumuhópa, svipgerð þeirra, þroskunar- og virkjunar-stig, er ótvírætt og hefur gríðarlegt notagildi í bæði vísindarannsóknum og meðferð sjúklinga. Sem dæmi má taka rannsóknir á stofnfrumum, greiningu blóðfrumukrabbameina (s.s. hvítblæði og eitlafrumukrabbamein), og T frumum sem ætlunin er að nota síðar sem meðferð við krabbameini eða vefjahöfnun. 

Í mörgum sjúkdómum og í grunnrannsóknum eru sýni af mjög skornum skammti og mikilvægi þess að fullnýta sýnin er gríðarlegt. Að vera með öfluga frumuflæðisjá, sem býður upp á þann möguleika að greina marga flúrskinsliti/frumuhópa, svipgerðir þeirra, þroskunar- og virkjunarstig á sama tíma er mjög mikilvægt í slíkum aðstæðum. 

Auk þess að geta greint frumur með frumuflæðisjá er hægt að skilgreina og safna frumum af ákveðnum undirhópum með sömu tækni. Þeim mun fullkomnari sem tækin er þeim mun auðveldara er að safna frumum sem eru í litlu magni í sýnunum. Jafnframt eru möguleikar til ýmissa virknirannsókna, m.a. á eðli og starfsemi margvíslegra lykil yfirborðs-sameinda, myndunar þeirra og uppsöfnun innanfrumna og innanfrumuboðferlum gríðarlegir. 

Með nýrri tækni (BD Rhapsody Single-Cell Analysis System) er hægt að nota frumuflæðisjártæknina til að greina gerð og magn mRNA fyrir öll eða ákveðin gen í einstökum frumum. Þessi tækni kemur í stað hefðbundinna aðferða, s.s. microarray og viðamikilla RNAseq aðferða sem byggja á að taka meðaltal fjölda frumna. Í staðinn er hægt að samnýta þessar tvær aðferðir og greina bæði flúrskinsliti og mRNA í einstökum frumum (single cell mRNA analysis) samtímis. Einnig er hægt að greina hundruði gena í tugþúsundum af einstökum frumum. 

Það er flókið að setja upp tilraunir á frumuflæðisjá þannig að vel takist til og því er mikilvægt að tækin séu keyrð af sérfræðingum með mikla sérþekkingu í frumuflæðisjártækni og frumulíffræði. Nú þegar er til staðar upplegg að slíku skipulagi verklags innan ónæmis-fræðideildar Landspítala í samstarfi við Lífvísindasetur. Viðkomandi sérfræðingur mun síðan aðstoða starfsmenn og nemendur Lífvísindaseturs sem og aðra vísindamenn í skipulagi og uppsetningu eigin rannsókna, auk aðstoðar við notkun tækjabúnaðar. Af framansögðu má því vera ljóst mikilvægi þess að hægt verði að ráða sérfræðing til þessara starfa.

Markmið okkar er eftirfarandi:

Að setja upp aðstöðu með fullkomnum frumuflæðisjám, sorterum sem geta einangrað skilgreinda frumuhópa og mRNA greiningartækjum sem eru í umsjón sérfræðings í frumuflæðisjárfræðum. Með þessu verður hægt að

  • rannsaka eða sortera/einangra á ábyggilegan hátt frumur og greina þær í undirhópa (sem byggja á annað hvort prótein eða mRNA tjáningu)
  • rannsaka eða sortera margar frumugerðir í sýnum sem eru í takmörkuðu magni

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Lífvísindasetur er samstarfsvettvangur allra opinberra rannsóknastofa á Íslandi sem vinna á sviði sameindalífvísinda (HÍ, LSH, HA, HR, LBHÍ, Keldur, Raunvísindastofnun, Nýsköpunarmiðstöð, o.fl.). Að þessum vegvísi standa Jóna Freysdóttir og Björn Rúnar Lúðvíksson, fyrir hönd vísindamanna/hópstjóra við Lífvísindasetur HÍ, en yfir 70 vísindamenn/hópstjórar eru aðilar að Lífvísindasetri (lifvisindi.hi.is) í dag og yfir 120 nemar og annað starfsfólk. Tilgangur stofnunar Lífvísindaseturs HÍ var m.a. að efla samstarf vísindamanna og auka samnýtingu á flóknum og dýrum tækjabúnaði og rekstri hans og ráðgjöf varðandi notkun og aðferðafræði. Þessi vegvísir er liður í framtíðaruppbyggingu Lífvísindasetursins á kjarnaeiningum (e. core facilities) þar sem markmiðið er að hámarka aðgengi vísindamanna, óháð stofnun eða háskóla, að aðstöðu þar sem fyrir er sérþekking og tækjakostur sem eykur afköst og gæði rannsókna. Líklegt er að fleiri rannsóknarhópar og verkefni bætist við með tímanum ef uppbygging frumuflæðisjárkjarna tekst vel.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Endurnýjun og efling frumuflæðisjártækni á ónæmisfræðideild Landspítala gerir vísinda-mönnum Landspítala, Lífvísindaseturs HÍ og annarra stofnana kleift að mæla í einu sýni fjölda sameinda á frumum með mikilli sértækni og á mjög stuttum tíma. Hægt er að mæla fágæta undirhópa frumna sem og fjölda frumugerða í sýni sem er aðeins til í takmörkuðu magni. Frumuflæðisjár geta mælt mikinn fjölda frumna per sekúndu. Einnig mun geta okkar til að meta tjáningargetu yfirborðs- og innanfrumu sameinda og virkjun innanfrumuboðferla í rauntíma aukast til mikilla muna. Með auknum fjölda leisera samhliða gríðarlegum vexti á fjölda mótefna og flúrskinslita hafa rannsóknir með frumuflæðisjá orðið öflugri en nokkru sinni fyrr. Þessi aðstaða og tækni mun nýtast vísindamönnum í rannsóknum á krabbameinum, ónæmiskerfinu, frumulíffræði, hormónum, efnaskiptum, sýklum, og taugalífeðlisfræði, svo eitthvað sé nefnt og til rannsókna á sameindum úr bæði mönnum og tilraunadýrum. Þessi tækni mun verða mikilvægur þáttur í að efla slíkar rannsóknir meðal vísindamanna Landspítala, Lífvísindaseturs HÍ og annarra sem óska eftir að nýta tækni. Öflugri tæki og sérfræðiþekking er forsenda þess að viðhalda samkeppnishæfni íslenskra vísindamanna á alþjóðavísu í lífvísindum.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Samfélagslegar áskoranir flestra sem standa að Lífvísindasetri eru tengdar lífvísindum og heilbrigðisþjónustu. Árið 2018 stóð Vísinda- og tækniráð fyrir víðtæku samráði við almenning, vísindamenn, þingmenn og aðra hagaðila um þær brýnustu áskoranir sem íslenskt samfélag stendur fyrir og reyndust heilbrigðisvísindi og velferð vera þar mjög ofarlega á blaði.

Grunnrannsóknir þar sem er verið að rannsaka orsakir sjúkdóma og skilja hvað drífur þá áfram eins og í mismunandi bólgusjúkdómum, t.d. iðrabólgu, liðagigt og psóríasis, skipta miklu máli í leit að nýjum meðferðarúrræðum. Þar er verið að rannsaka hvítfrumur og er nauðsynlegt að vera með öfluga flæðifrumusjár til þess að geta greint mismunandi undirhópa af hvítfrumum. 

Nýjustu áskoranir innan líf- og heilbrigðisvísinda eru rannsóknir sem vonandi munu leiða til nýrra meðferðarleiða hjá sjúklingum með ýmsa sjúkdóma. Einkum á þetta við um meðferðir sem byggja á að sjúklingi er gefin ákveðin gerð af frumum (eigin eða annara). Sumar af þessum meðferðarleiðum eru nú þegar í klínískum prófunum. Þetta geta verið ræstar eitilfrumur, stofnfrumur, æðaþelsfrumur, o.fl. sem ætlað er að vinna gegn meinum í sjúklingi. Slíkar meðhöndlanir munu ekki takast nema með notkun frumna af „réttri gerð“ og slíkt er bara hægt að greina með öflugum frumuflæðisjám. Tækni sem hér um ræðir getur síðan verið notuð til að velja frumur með réttu gerðina til að gefa „rétta“ sjúklingnum og mun líklega valda straumhvörfum í meðhöndlun slíkra sjúkdóma með nýtískulegri persónubundinni meðferðarnálgun.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Þáttur í uppbyggingu frumuflæðisjármiðstöð Lífvísindaseturs felur í sér kaup á eftirfarandi tækjum:

  • FACSymphony A3 frá BD Biosciences. Verð án VSK, 95.480 þISK.
  • BD FACSAria™ Fusion 5L ACDU (3B/3R/6V/3UV/4YG). Verð án VSK, 99.900 þISK. • BD Rhapsody Single-Cell Analysis System. Verð án VSK, 11.000 þISK.
  • Sérhæfður starfsmaður: Áætluð laun, 100.000 þISK (10.000 þISK á ári í 10 ár).
  • Árlegt viðhald umfram það sem fylgir: Áætlaður kostnaður 10.000 þISK (1.000 þISK á ári í 10 ár).

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

~32 MISK á ári

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Ónæmisfræðideild Landspítala og Lífvísindasetur er í samstarfi við rannsóknasetur sem veita vísindalega og tæknilega þjónustu vegna rannsókna á bóluefnum og bólusetningum á sviði flæðifrumusjárgreiningar innan Transvac2 (a European vaccine research and development (R&D) infrastructure, https://www.transvac.org) sem er innviðasjóðsverkefni styrkt af Horizon2020. Rannsakendur geta sótt um að fá slíka þjónustu sér að kostnaðarlausu gegnum Transvac2, á svið flæðifrumusjárgreiningar, einkum TNA 7: Immunocorrelates and Systems Biology / Computational analyses of multiparametric flow cytometry data , hjá Háskólanum í Siena, Ítalíu og TNA 3: Analytical Services / Flow cytometry for antigen-specific polyfunctional T-cell response, hjá CEA-IDMIT, Frakklandi (https://www.transvac.org/antigen-flow-cytometry-tcell), en við höfum verið í samstarfi við báða aðila sem veita þessa þjónustu.

Rannsóknamiðstöð í grænni líftækni og plöntumeinafræði

Heiti stofnunar: Háskólinn á Akureyri

Tengiliður: Margrét Auður Sigurbjörnsdóttir, mas@unak.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Græn líftækni er samheiti yfir hvers kyns líftækni sem lýtur að notkun hagnýtra lífvísinda í tengslum við plöntur og annan jarðargróður, svo sem í landbúnaði og verndun náttúrlegs umhverfis. Byggð verður upp rannsóknamiðstöð í grænni líftækni, þar sem áhersla verður lögð á plöntumeinafræði og vistfræði vaxtarörvandi jarðvegsörvera, á lóð Háskólans á Akureyri (HA) að Végeirsstöðum í Fnjóskadal. Í fyrsta áfanga er um að ræða gróðurhús með aðskildum rýmum fyrir sýktar plöntur og jarðveg, vinnurými með hentugri aðstöðu til umplöntunar, ræktunarskápa (growth chambers) þar sem hægt er að stýra hita- og rakastigi ásamt loftsamsetningu, birtustigi og ljóslotum, auk smærri búnaðar sem nauðsynlegur er fyrir örveruræktir og förgun smitaðs úrgangs.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Með uppbyggingu á rannsóknamiðstöðinni verður HA leiðandi í rannsóknum á sviði grænnar líftækni, sérstaklega hvað varðar aðstæður á Norðurslóðum og í vistfræði gróðurtengdra örvera á tímum hlýnandi veðurfars. Jafnframt skapar miðstöðin góða aðstöðu til rannsókna í plöntumeinafræði og öðru samlífi örvera og plantna, en mikil vöntun hefur verið á slíkum rannsóknum hérlendis. Þannig er reiknað með að í miðstöðinni verði settar upp hermiræktir (mesocosms) þar sem áhrif bæði sýkjandi og jarðvegsbætandi örvera verða könnuð á vöxt valinna plantna, trjáa og annars gróðurs, s.s. sveppa og fléttna. Aðstaðan mun þannig nýtast í rannsóknaverkefnum á borð við verkefnið Skapa fléttur valþrýsting fyrir þróun Pseudomonas syringae í vistgerðum Norðurslóða? sem nýlega hlaut styrk úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs. Til lengri tíma litið mun miðstöðin skapa aðstöðu til rannsókna í þágu garðyrkjubænda og ylræktenda, en plöntusýkingar eru viðvarandi vá í þessum mikilvæga geira íslensks efnahagslífs og því til mikils að vinna að til staðar sé vönduð rannsóknaaðstaða í plöntumeinafræðum hér á landi. Að sama skapi er góð aðstaða til rannsókna á plöntuvaxtarörvandi eiginleikum jarðvegsörvera til verulegra hagsbóta fyrir garðyrkju- og skógræktarbændur.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Undanfarin ár hefur verið stofnað til tengsla við nokkra helstu sérfræðinga veraldar í grænni líftækni, jarðvegsörverufræði og vistfræði plöntusýkla. Þar ber helst að nefna Prof. Robert Jackson, sem starfar við Birmingham háskóla og Cindy Morris, sem starfar við rannsóknamiðstöðina INRAE í Avignon, Frakklandi, en auk þeirra eru góð tengsl við sérfræðingana Monica Höfte (Gent háskóli), Dawn Arnold (UWE Bristol), Mark Silby (UMass Dartmouth), Gabriele Berg (Tækniháskólinn í Graz) og Valeska Villegas Escobar (EAFIT, Kólumbíu).
Nýverið fékk verkefnið Skapa fléttur valþrýsting fyrir þróun Pseudomonas syringae í vistgerðum Norðurslóða? úthlutun úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs, en það verkefni er samstarf HA, Birmingham háskóla (Rob Jackson) og INRAE (Cindy Morris). Doktorsnemi (Natalia Ramirez) hefur verið ráðinn í verkefnið og mun hún hefja störf í ágúst 2020. Meðal þess sem unnið verður að í verkefninu eru hermiræktir og plöntusýkingartilraunir. Ráðgert er að nemandinn vinni þessar tilraunir hjá samstarfsaðilum í Avignon og Birmingham, en æskilegt er auðvitað að hún geti fylgt eftir slíkum tilraunum í góðri og til þess hannaðri rannsóknaaðstöðu á Norðurlandi. Frekari rannsóknir á svipuðum nótum eru fyrirhugaðar og er unnið að styrkumsóknum til bæði innlendra og erlendra rannsóknasjóða. 

Unnið hefur verið að kortlagningu innlends umhverfis og talað við grænmetisbændur sem lýst hafa yfir áhuga á samstarfi en einnig er stefnt að auknu samstarfi við aðra innlenda aðila, t.a.m. Skógrækt ríkisins, Landgræðsluna og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbHÍ).

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Rannsóknir á sviði plöntumeinafræði, jarðvegsörverufræði og vistfræði plöntusýkla hafa verið stundaðar við HA undanfarin ár. Upphafið má rekja til heimsóknar erlendra vísindamanna, kennara og nemenda við HA í Végeirsstaði. Það sem vakti m.a. athygli var að fléttugróður á sjúkum trjám á svæðinu virtist frábrugðinn fléttugróðri á heilbrigðum trjám og vakti það spurninguna hvort fléttur væru hugsanlega óvirkir smitberar plöntusýkla í umhverfinu. Síðan þá hafa ýmis nemendaverkefni verið unnin, rannsóknir ræddar á alþjóðlegum ráðstefnum og verið efni í ritrýndum birtingum. Rannsóknastyrkir hafa fengist í ýmis verkefni þessu tengdu, m.a. úr Vísindasjóði HA, fransk-íslenska samtarfssjóðnum Jules Verne, og nú síðast úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs Rannís. Samstarf við erlenda aðila er nú þegar orðið talsvert en innviðauppbygging hérlendis er nauðsynleg fyrir áframhaldandi samstarf og rannsóknir á sviðinu. Mikil vöntun er hérlendis á þeirri aðstöðu sem stefnt er að uppbyggingu á.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir? 

Vorið 2018 var unnið BSc lokaverkefni í líftækni undir handleiðslu umsækjenda þar sem meðal annars voru tekin viðtöl við valda grænmetisbændur á Íslandi. Markmiðið var m.a. að kortleggja þær áskoranir sem tekist er á við í ræktuninni, sérstaklega m.t.t. plöntusýkinga; þ.e. hvaða sýkingar koma upp, hvernig þær eru greindar og til hvaða forvarna er gripið. Í ljós kom að lítið sem ekkert er vitað um bakteríusýkingar í nytjaplöntum á Íslandi og því lítið um forvarnir. Í dag er hlutdeild innlendrar grænmetisframleiðsla rúm 50% en nýlega var gengið frá samkomulagi um aukningu á framlögum til garðyrkjubænda með það að markmiði að auka innlenda grænmetisframleiðslu á næstu árum. 

Bakterían P. syringae er einn helsti plöntusýkill veraldar og er vel þekktur fyrir að valda uppskeru bresti í ýmsum nytjaplöntum erlendis. Þekktar eru margar sýkigerðir bakteríunnar og hafa m.a. verið einangraðar úr íslenskri náttúru í rannsóknum og samstarfsverkefnum umsækjenda. Þrátt fyrir að sýkingar í nytjaplöntum af völdum P. syringae hafi ekki komið upp hérlendis til þessa er engu að síður mikilvægt að efla frekari þekkingar á plöntusýklum, hvort sem um er að ræða þennan tiltekna sýkil eða aðrar tegundir. Með hlýnandi loftslagi eru auknar líkur á ýmsum plöntusýkingum og því til mikils að vinna að auka rannsóknir og þekkingu á þessu sviði og því mikilvægt að til staðar sé vönduð rannsóknaaðstaða í plöntumeinafræðum hér á landi.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Til að halda áfram rannsóknum á sviði plöntumeinafræði þarf að byggja upp aðstöðu líkt og sjá má hjá rannsóknamiðstöðum víða um heim. Það sem m.a. hefur verið rætt um er:

  • Gróðurhús með aðskildum rýmum fyrir sýktar plöntur og jarðveg
  • Vinnurými í eða við gróðurhús með hentugri aðstöðu til umplöntunar
  • Ræktunarskápar (growth chambers) með hita-, raka og ljósstýringu
  • Eimketill (autoclave) til förgunar á sýktum plöntuvefjum og mold
  • Kælibað fyrir ískirningartilraunir
  • Ræktunarskápar fyrir örveruræktir og vinnuaðstaða á rannsóknastofu

Í fyrstu þykir eðlilegt að koma upp 50-100 m2 gróðurhúsi með skilrúmi þannig hægt sé að rækta sýktar og ósýktar plöntur í aðskildum rýmum. Þessi aðstaða gerir okkur kleift að sinna þeim rannsóknum við HA sem fram til þessa hefur verið gert ráð fyrir að vinna hjá samstarfsaðilum erlendis (hermiræktir, plöntusýkingar, o.fl.). Önnur („hefðbundin“) rannsóknastofuvinna mun fara fram á Akureyri hér eftir sem hingað til.

Til lengri tíma litið er ráðgert að koma einnig á fót útiræktunaraðstöðu til að framkvæma tilraunir með jarðvegsbætandi örverur í matjurtarækt og skógrækt. Þetta gerir Végeirsstaði að æskilegri staðsetningu fyrir miðstöðina en Akureyri m.t.t. (1) framtíðaruppbyggingar með vandaðri útiræktunaraðstöðu og miklum stækkunarmöguleikum, (2) nálægðar við skógrækt og náttúru, og (3) landfræðilegs aðskilnaðar frá annarri starfsemi HA sem hugsanlega gæti valdið smiti vegna óþarfa umgengni um tilraunaræktir. Að öðrum kosti er einnig mögulegt að fara í uppbyggingu rannsóknamiðstöðvar nær Akureyri, t.d. á Möðruvöllum í Hörgárdal að höfðu samstarfi við LbHÍ. 

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Ítarleg kostnaðargreining liggur ekki fyrir að svo stöddu, en áætla má að kostnaður við uppbyggingu fyrsta áfanga sé nærri 32 milljónum króna, sbr. eftirfarandi töflu:

Rekstrarkostnaður aðstöðunnar er einnig allnokkur, en gera má ráð fyrir að hann samsvari um einu 50% stöðugildi, eða nálægt 3,5 milljónum króna á ári. Sótt verður um fjármögnun þess starfsmanns til Tækniþróunarsjóðs. Fjármögnun starfsemi að öðru leyti (efniskostnaður o.þ.h.) verður í gegn um rannsóknastyrki.
Samtals er því fjármögnunarþörf fyrsta áfanga til 10 ára um 67 milljónir króna.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Ekki er bein tenging við erlend innviðaverkefni eins og er. Þó er um virkt rannsóknasamstarf að ræða, líkt og lýst er hér að ofan.

Rannsóknarstofa í örplastgreiningum og áhrifum örplasts á lífríki Íslands og Norðurslóða.

Heiti stofnunar: Háskólinn á Akureyri

Tengiliður: Ásta Margrét Ásmundsdóttir, astam@unak.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Infrastructure for microplastic (MP) analysis is suggested at the University of Akureyri (UNAK). Building up a high-quality laboratory with the possibility to extract and identify microplastics in different matrixes under the necessary controlled conditions. This requires a plastic free, dust controlled and restricted area for the processing of the pre-cleaned samples (“clean area”) and a spill and corrosive tolerant area (“dirty area”) for isolation of the microplastic from sediments, sludge or solid samples by Micro-Plastic Sediment Separator (MPSS, Fig. left). MPSS is a closed system but there is a danger of spilling corrosive ZnCl2 solution. 

The “clean area” will contain μ-FTIR imaging system (Thermo Fischer iN10 MX or similar, Fig. right) as the main analytical tool that permits imaging and identification of small MPs down to minimum 5um. The micro- FTIR imaging system suggested is a benchtop model, which is mobile occupies little space and can easily be moved around. Other equipment are a laminar fume hood and a pre-entrance to prevent possible source of airborne contamination from other areas as well as serving as shoes/lab coat exchange room. The use of plastic material will be limited in this lab, therefore the replacement benches coating with stainless steel ones are suggested. Lab Grade washing machines and a Milli-Q dispenser for filtered double distilled water is required. Washing in machines used by others may contaminate glassware from stickers and plastic bottle-tops used in other areas of the lab. Designated glassware, porcelain, steel, and Teflon material must be used in the lab. and used only for MP analyses. 

For future projects focussing on physiological effects of MPs/chemical additives on sub-Arctic and Arctic microalgae, a climate chamber (for experiments in higher volumes to gain biomass for LC-MS analysis), incubators (at least two for different temperature optima of species), an autoclave and a small desk laminar flow are needed at UNAK. In this context, the build-up of a culture collection of sub-Arctic and Arctic clonal microalgae and cyanobacteria that will support additionally the new introduced educational branch at UNAK, focussing on taxonomy, ecology and physiology in relation to MPs as well as biotechnological application of microalgae. 

Finally, 25 education microscopes (Olympus) to build up an infrastructure at BioPol for teaching basic microalgae taxonomy with special consideration of phytoplankton species. To cover potential demand at UNAK the microscopes can be transferred to the university at any time.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

To be able to perform high-quality analysis of MPs in most kinds of samples using reliable analytical techniques in the field μ-FTIR.
To be in front of research focusing on the quantity and composition of MPs in sub-Arctic and Arctic coastal environments, as well as the distribution, degradation, and influence on living organisms (particularly microalgae).
To enhance collaboration with other institutes in the same field both abroad and in Iceland by offering high quality analysis methods for MPs and know-how.

To enhance collaboration with experts offering a controlled environment for examining the biological effects of MPs in key marine and freshwater species such as diatoms and dinoflagellates.
To simulate the weathering of plastic and plastic fragmentation in marine, freshwater, and terrestrial environments
To build up competences among the staff and students of UNAK in the field and raise awareness in the public.
To compensate lack of such well-equipped facilities in Iceland.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

The enhancement of national and international collaboration within the same field will be facilitated by offering top-quality analysis methods for microplastics and know how about the effects of MPs/additives on microalgae and further effects on the food-chain.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

The field of MP analysis is emerging globally and of high interest due to negative impacts on the food chain which are not clear in the moment in each facet. The MP techniques are already quite developed but mostly time consuming and expensive. Until now almost no MP analysis have been performed in Iceland. UNAK has in the moment only the facility to prepare samples for analysis, whereas the analysis itself have been performed abroad. UNAK has built up close collaboration with a foreign institute in the field and will continue to benefit from it such as training of staff, consultation e.t.c. By building up a safe well-equipped MP laboratory in Iceland, many opportunities will be opened. There is still a vast knowledge gap concerning microplastic pollution and in particular the negative effects of chemical additives of MPs on the biota in Icelandic coastal areas as well as in other semi remote areas of the world.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Iceland is surrounded by sea and the sea is one of the most solid bases for the Icelandic economy and in particular fisheries. Microplastics are a growing threat for marine biota and ecosystems. For organisms, the risks associated with MP ingestion are not only due to the material itself, but also to its ability to absorb and concentrate environmental contaminants in seawater and subsequently transfer them through food chains. Moreover, MPs could influence ecological processes. Recently, plastic debris are recognized as emerging pollutants and represent a great risk for marine biodiversity worldwide. Regarding the most important primary producers in the marine environment – the microalgae, only restricted knowledge about effects of MPs or leaching chemical additives is gathered and published. In this context, microalgae might exhibit morphological and/or physiological changes that can further affect their detectability, palatability, and ease of handling for predators with important implications for food web energetics. Besides the ecological implications of MPs in the environment, the enrichment of MPs in the food chain up to human end-users is of gravest concern.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Regarding the facilities, first there will be the build up of the MP analytical laboratory, including facilities for simulating weathering of plastics
The build up of facilities for examining the effects of microplastic and microplastic additive exposure on phytoplanktonic microalgae (e.g. diatoms and dinoflagellates) in collaboration with BioPol will follow in the second phase.
Also in collaboration with BioPol it is planned to build up a culture collection of sub-Arctic and Arctic clonal strains in the upcoming 5-10 years as basis for future projects and educating students.
A potential third step foreseen in the near future where MP contamination in a defined ecosystem such as e.g. Mývatn will be studied.
In parallel to the mentioned facility build up steps, it is planned to create a completely new knowledge and educational branch at UNAK in the upcoming years, focusing on microalgae taxonomy, ecology, physiology, and biotechnology. This is necessary due to the lack of such a branch in Iceland and the development of new technologies based on microalgae (e.g. pharmaceuticals, aquaculture, biofuels etc.)

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

The total cost of the infrastructure is estimated 68.600.000 Íkr. The first step, building up of complete MP laboratory and weathering simulation is estimated to cost 43.100.000 Íkr (orange colour in the cost table). The second step, the facility of examining effects of MPs on microalgae as well as facilities for educating students is estimated to cost 25.500.000 Íkr (green colour in the cost table).

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

An international collaboration in the frame of a FET open project regarding microplastic detection and physiological aspects of MP pollution on selected microalgae in ocean and coastal areas was submitted to the Horizon 2020 Framework Programme. UNAK and BioPol have in the frame of this project the task to collect samples in Icelandic coastal waters, determine quantitative and qualitative microplastics and phytoplankton species (proof of concept) as well as conduct experiments regarding the physiological responses of selected phytoplankton species to microplastic/chemical additive exposure.

Lyfjarannsóknasetur (LYF) - Center for drug development – Bridging the gap between innovation and application

Heiti stofnunar: Háskóli Íslands

Tengiliður: Elín Soffía Ólafsdóttir, elinsol@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

The LYF roadmap aims to maintain and fully equip a drug development and pharmaceutical formulation research laboratory and a small-scale GMP (Good Manufacturing Practice) compatible production unit accessible for all researchers wishing to develop new ideas towards animal testing and clinical applications.
The production unit will be used for small pilot-scale production of tablets, ointments, nasal and ocular delivery systems as well as injectable drugs. The research laboratory will have analytical instruments that will be used for different investigations of pharmaceuticals including, dissolution, stability, particle size, other material properties, pharmacopeia testing, and drug release studies.
The LYF facilities will be overseen by the laboratory manager, now employed by the Faculty of Pharmaceutical Sciences and an additional research assistant will be hired to assist users and oversee quality control.
These facilities will be used by researchers that have the training to work according to GMP at the Faculty of Pharmaceutical Sciences. External users wishing to formulate bioactive compounds for animal and clinical testing e.g. scientists, start-up companies, and pharmaceutical and medical device companies in Iceland often lack equipment and facilities for small-scale testing and would surely benefit from LYF roadmap infrastructure.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

The LYF facilities will serve as a bridge between fundamental bioscience research in Iceland and clinical applications. The application of new scientific findings on bioactive compounds and biomaterials to benefit health, requires the intermediated step of pharmaceutical formulation and production according to regulatory requirements before it can be applied in the clinic.
Having access to a pharmaceutical formulation, testing, and production of drugs and medical devices in world-class/qualified facilities in Iceland supported by expert staff will expedite the application of new findings and innovations by Icelandic researchers, to benefit patients. This will bring animal research to required standards, improving the quality of each study by complying with international regulations on animal test products. It will also benefit the formulation, drug discovery, and nanomedicine research that is very active within the Faculty of Pharmaceutical Science. These facilities will also be vital for start-up companies in the field of small drug molecules, biomedical sciences, nutraceuticals, and vaccines as well as being useful for more established pharmaceutical and medical device companies, a field that is already relatively strong in Iceland and has very significant growth potential.
The LYF facilities can also support and interact seamlessly with other roadmap facilitates such as the MS facility, NMR facility, animal facility, protein science facility, imaging facility, etc., to enhance biomedical science and innovation in Iceland.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Currently, LYF maintains research laboratories for drug synthesis, natural product chemistry, pharmaceutics, analytics, and material science/nanotechnology. In an adjacent building the Faculty has a small GMP compatible production unit with small-scale tableting and coating equipment. Current research is focused on drug discovery and lead optimization, through formulations and towards in vivo use.
LYF is collaborating with other units of UI and Landspitali (e.g. Biomedical Center, Arctic Mass, Immunology department), with start-up companies (Oculis, Zymetech) to large scale companies (Alvotech, Algalíf, Orf Genetics) and institutions (the Icelandic Medicines Agency). The LYF research unit has contributed its advanced knowledge in the field of drug development and formulations, with one approved drug already on the US market to terminate epileptic seizures as well as extensive collaboration that has led to publications in high ranking journals, patents, and new start-up companies. 

New equipment, such as advanced UPLC units, apparatus for drug release and stability studies, FTIR microscopes for pharmaceutical excipients and material studies, light scattering instruments for analyzing nanoparticles, have been purchased with support from “Innviðasjóður”. However, some of the equipment is now obsolete, and there is a continuous need to add new analytical instruments and small-scale production equipment so that a truly world-class facility for pharmaceutical development can be created and maintained in Iceland. – The Faculty employs a laboratory manager to oversee the LYF laboratories, purchases, installing, and maintenance of the equipment. There is a need for a part-time research assistant for external project work and to assist external users. 

By updating and strengthening the LYF infrastructure as well as employing a quality control assistant who will oversee external collaboration, the Icelandic scientific community will be in a good position to take advantage of new opportunities in fields such as pharmaceutical nanotechnology and other advanced formulations, pharmaceutical biotechnology and in silico modeling. This will enhance the collaboration of academic researchers and enable them to join forces with start-up companies or large established companies to advance the pharmaceutical field in Iceland.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

The current proposal to build and maintain state-of-the-art facilities with all the appropriate equipment and support staff for pharmaceutical development is of critical importance to allow the fruitful interaction within the academia as well as between the academia and industry in Iceland to further strengthen the relative lead it has on other countries in the field of biomedicine and pharmaceutics.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Iceland's only center for teaching and research in drug development and pharmaceutical formulations is based at the Faculty of Pharmaceutical Sciences, University of Iceland (UI). It has already proven its importance in Iceland's economy by providing well-trained scientists with MSc and PhD degrees for high-value jobs in the rapidly growing pharmaceutical and other emerging research-based industries in Iceland. The LYF research unit has already cradled inventions leading to a new product on the US market as well as patents (including the first patent co-owned by UI which is now giving payments to UI) and start-up companies e.g. Oculis which is now financed and successfully in phase III clinical trials with an ocular drug. The pharmaceutical sector in Iceland is growing rapidly and experts with specialized training are in high demand with global competition on highly skilled people. To meet the expected growth and the challenges ahead, we need increased support to our national scientists and research-trained graduates in the LYF field. High-quality infrastructure attracts good scientists, research grants, and fruitful collaboration. Therefore, good facilities and infrastructure at our UI LYF unit together with its acknowledgment in “Vegvísir” will secure future opportunities for Iceland in the field of drug research and pharmaceutical sciences both in the public and private sectors.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

New equipment (some to replace obsolete equipment) will include: Small scale drug manufacturing equipment such as mixers, granulators, millers, emulgators, dryers and LAF workbench. Five advanced UPLC units with UV and MS detectors, 3D printer, advanced texture analyzer, tablet coater, humidity chamber, microscopes with fluorescence, microplate readers for cell based assays, rheometer, contact angle goniometer, robotic flash chromatography unit, certified analytical scale, and Laser diffraction particle sizer.
The instruments will be maintained by the Faculty of Pharmaceutical Sciences LYF unit supervised by the QP, laboratory manager, and the QC research assistant. The QC person to be hired will be employed part-time to coordinate external users with manufacturing, quality control, and analysis. This will enable scientists and company researchers to take full advantage of the LYF facilities.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

The Faculty of Pharmaceutical Sciences and the University of Iceland will continue to provide funding to LYF as follows:

  • The salary of the laboratory manager will be covered and the running cost and maintenance of the equipment. *
  • Approx. 5 million ISK annually as 25% own contribution for supported equipment purchase. 
  • Approx. 4,5 million ISK annually from “tækjakaupasjóður HÍ” for smaller equipment. 
  • The Faculty and the University will provide administrative support. 

Requested funding for LYF from Innviðasjóður Rannís would be approximately:

  • 20 million ISK annually for the purchase of new equipment annually (typically in the price range 5-20 million ISK). 
  • 5 million ISK annually to employ a research assistant (and QC manager) half-time. 

*The maintenance cost is not expected to increase much since more instruments will be new.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

The LYF center for drug development and pharmaceutical formulation is connected to the Nordforsk NordicPOP co-operation of 10 pharmaceutical schools in the Nordic countries (the collaboration is funded until 2023). Each school brings unique multidisciplinary competence to the network with state-of-the-art equipment and facilities. The network provides opportunities for PhD students from other Nordic countries to visit the center in Iceland to carry out part of the PhD projects. The need for research infrastructures and a network of distributed resources in this research area is already recognized in the national roadmaps of Finland, Denmark, Sweden, and Norway in the European Strategy Forum on Research Infrastructures (ESFRI). It can most efficiently be reached by combining established core facilities assembling all the most advanced instrumentation to achieve the best balance between the investment and the use. This is increasingly important as high-level scientific work requires more precise and expensive analytical instrumentation, and the broad and multidisciplinary nature of the pharmaceutical field is underpinning the importance of a broad approach in the research. Pharmaceutical sciences are at a high international level in the Nordic area and the LYF center in Iceland is very important for Iceland to be considered as an active partner in this international research collaboration.

Líftækni- og Verkfræðikjarni. Uppbygging innviða

Heiti stofnunar: Líftækni- og Verkfræðikjarni (Óstofnað) 

Tengiliðir: Hans Guttormur Þormar og Þorkell Sigurlaugsson, liftaekni.verkfraedi.kjarni@gmail.com

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Í þessari tillögu að verkefni að vegvísi er lagt til að byggður verði upp í Vatnsmýrinni Líftækni- og Verkfræðikjarni sem sameini á einum stað margþætta innviði sem byggi á núverandi og nýjum tækjabúnaði, mannafla og þekkingu. Gera má ráð fyrir að um marga þessa innviði verði sótt í vegvísaverkefni Innviðasjóðs. Hér eru dæmi um helstu verkefni slíks kjarna (athugið að þessi listi er alls ekki tæmandi):

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Að skapa samlegðaráhrif með því að byggja Líftækni- og Verkfræðikjarna upp á sama stað og sameina þannig mannafla, þekkingu og nýsköpun. Mynda þá suðupotta rannsókna og nýsköpunar sem frjótt og skapandi umhverfi byggir á. Að tryggja aðgengi allra að fullkomnum tækjabúnaði, þekkingu á notkun hans og uppbyggingu rannsóknarumhverfis í kringum þann búnað. Jafnframt að tryggja að innviðafjárfestingar á þessum sviðum nýtist sem best. Að sama skapi mun slíkur kjarni spara verulegar fjárhæðir vegna meiri samnýtingar, skilvirkara viðhalds og betra aðgengi að þjónustu og fagfólki fyrir innviðina

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Með þessari samþættingu verða til rannsóknarstofur og aðstaða sem munu nýtast báðum fagsviðum og mörgum fleiri aðilum úr samfélaginu. 

Dæmi

Myndgreiningarsetur. Mun nýtast bæði þeim sem eru í rannsóknum og nýsköpun í líffræði/lífefnafræði/frumulíffræði/efnisfræði/ eðlisfræði sem og þeim sem eru að smíða háþróaðan tækjabúnað. Jafnframt eru nú þegar í gangi rannsóknir og nýsköpun á sviði myndgreininga.

Nanotech verkstæði: Fyrir t.d. smíði nanobúnaðar, húðun yfirborða og gerð örpípla, sem nýtast bæði í verkfræði og líftækni.

Hreinherbergi af mismunandi hreinleikum, með mismunandi tækjabúnað eru notuð til mjög mikilla nákvæmnissmíða, yfirborðshúðunar, smíði og samsetningu lækningtækja og eru líka notuð til að tryggja algera dauðhreinsun hluta. Má taka sem dæmi að NASA notar hreinherbergi til að dauðhreinsa sýnatökubúnað sem sendur er til fjarlægra pláneta.

Efnagreiningaraðstaða:
Mjög mikilvægt er að til staðar sé fullkomin efnagreiningaraðstaða. Hún tengist einnig massagreiningaraðstöðu. Til dæmis er um að ræða ISO staðlaðar efnagreiningar, efnarannsóknir og nýsköpun í efnagreiningum.

Efnistækni:
Segja má að stór hluti þeirra rannsóknarstofa sem minnst er á hér að ofan byggi á efnistækni. Gríðarlega mikilvægt er að viðhalda djúpri þekkingu á þessu sviði. Jafnframt þessu hafa hönnuðir og listamenn mikinn áhuga á nýjum möguleikum í efnistækni og meðhöndlun efna.

3-D prentara aðstaða:
Með tilkomu prentara sem geta prentað hluti með mikilli nákvæmi er nú hægt að prenta allt frá legokubbum, íhlutum eldflaugahreyfla, lækningatækjum og mjaðmaliðum, til þrívíddarprentunar frumna í lagskiptri frumurækt. 

Dýratilraunaaðstaða:
Dýratilraunir á Íslandi hafa liðið mjög fyrir skort á aðstöðu. Hér eru gerðar dýratilraunir og ræktanir tilraunadýra út um alla borg. Það þýðir að þekkingin og mannaflinn er líka dreifður um alla borg. Með því að sameina dýratilraunaaðstöðu í Líftækni- og Verkfræðikjarna mætti auka samvinnu verulega auk þess sem mjög áhugaverðar tengingar við líf- og taugaverkfræði yrðu að veruleika.

Það er ljóst að samvinna milli verkfræði, lífvísinda og lista mun á komandi árum verða enn mikilvægari. Nanosmíðaðir taugaörvarar til ígræðslu, ræktun líffæra í sérsmíðuðum hólfum, háþróuð hjálpartæki fyrir fólk með skerta hreyfigetu eða sködduð skynfæri, hjálpartæki fyrir aldraða o.s.frv. eru allt dæmi um hluti sem munu verða partur af veruleika komandi kynslóða. Það er okkar skylda að viðhalda og auka þessa þekkingu á Íslandi.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Líftækni- og Verkfræðikjarni mun hafa gríðarlega áhrif til eflingar rannsókna- og nýsköpunarumhverfisins á Íslandi. Á sama svæði munu vinna sérfræðingar frá ólíkum fagsviðum og samvinna þeirra mun án efa skapa ný tækifæri á þessum sviðum. Engin slík aðstaða er til á Íslandi í dag. Ef ekki er til staðar nægilega öflugt umhverfi, kjósa hæfustu einstaklingarnir að fara annað (spekileki eða brain drain). Mikilvægur þáttur í að halda í þessa einstaklinga og/eða fá þá aftur til Íslands eftir nám er að umhverfið sé skapandi og með nýjustu tækni og tækjabúnað. Einnig þarf að vera vilji og fjármagn til stöðugra endurbóta og uppfærslu tækjabúnaðar og þar með þekkingar. Í slíkum kjarna eru nemendur frá stofnunum og háskólum að vinna að sínum rannsóknarverkefnum. Fyrirtæki og einstaklingar geta óskað eftir skammtíma eða langtímaaðgangi að kjarnanum. Fastir starfsmenn sjá til þess að þekkingin haldist innan kjarnans þó að nemendur komi og fari. Funda og skrifstofurými fyrir samtal, tölvuúrvinnslu og forritun sem er stór hluti flestra verkefna. Þannig verður til suðupottur rannsókna og nýsköpunar.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Með því að sameina á einn stað alla þessa innviði stöndum við mun betur að vígi við að leysa úr þeim samfélagslegu áskorunum sem fyrir liggja. Rannsóknir á umhverfis, heilsu og loftslagsmálum eiga möguleika á meiri samþættingu, rannsóknir á nýjum lausnum í endurvinnslu og orkumálum verða öflugri, smíði lækningatækja (bæði líffræðilegra og verkfræðilegra) verður skilvirkari og undirbúningur undir klínískar tilraunir einnig. Menntun nýrra kynslóða verður byggð á því nýjasta sem er að gerast. Jafnframt þessu er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að taka á móti ungu kynslóðunum og sýna þeim inn í töfraheim vísinda og tækni.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Hér er gert ráð fyrir að uppbygging þessa kjarna fari fram í Vatnsmýrinni á næstu 4-5 árum og að þeim tíma liðnum gætu innviðir (sbr lista bls. 2) farið að koma sér fyrir. Að uppbyggingu þurfa að koma auk Innviðasjóðs, allir háskólarnir (þ.m.t. Vísindagarðar ehf og Grunnstoð ehf), Landspítalinn, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, stofnanir og fyrirtæki sem tengdar eru þessum fræðasviðum, SI, SA, Íslandsstofa. Þegar hefur verið talað við hluta þessa hóps um þessa uppbyggingu og eru allir sammála um mikilvægi slíkrar uppbyggingar. Nýtt verði það tækifæri sem liggur í niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar og farið í grundvallarskipulagningu á samvinnu þessara fagsviða með samtali allra aðila sem að málinu vilja koma.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Gera má ráð fyrir að umsóknir um innviðauppbygginu komi frá fjölmörgum aðilum og verði sumar þeirra samhljóða innviðum hér að ofan. Fjármögnunarþörf kjarnans verður fyrst ljós þegar Innviðasjóður hefur ákveðið hverjir þessara innviðir hljóti framgang og hvort uppbygging Líftækni- og Verkfræðikjarna sé sú framtíðarsýn sem Innviðasjóður vill styðja við.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Gert er ráð fyrir að uppbygging kjarnans tengist vinnu Íslands um samvinnu ESFRI og ERIC um uppbyggingu rannsóknarinnviða í Evrópu. Jafnframt mun þessi kjarni tengjast öðrum sambærilegum kjörnum í Evrópu og Bandaríkjunum.

Íslenskur máltæknikjarni

Heiti stofnana: Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands - Hugvísindasvið, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Tengiliður: Jón Guðnason, jg@ru.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Samstarf um íslenska máltækni (SÍM) er rannsóknarhópur (e. consortium) sem vinnur  að framkvæmd áætlunarinnar Máltækni fyrir íslensku 2019-2023 skv. samningi við Almannaróm. Áherslan í því verkefni er að safna gögnum og útbúa málföng (gögn og stoðtól) sem og þróa þá grunntækni sem þarf fyrir íslenskan máltækniiðnað og notendur. Lagt er til að samstarfið verði styrkt með rannsóknarinnviðum þannig að hópurinn geti verið í fremstu röð á
heimsvísu þegar kemur að þróun og rannsóknum í máltækni.

Lagt er til að settur verði upp Íslenskur máltæknikjarni sem annars vegar hafi yfir að ráða öflugri ofurtölvu, sem nauðsynleg er fyrir rannsóknir og þróun í máltækni, og hins vegar geymi miðlægt gagnasafn allra opinna máltækniafurða, bæði málfanga (gagna) og hugbúnaðar. Í upphafi má gera ráð fyrir að kjarninn hafi einn starfsmann sem sinnir þjónustu við vísindamenn og aðra notendur, sem og að sjá um vélbúnað og stýra aðgangi að honum.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Þróun máltækniafurða – talgreina, talgervla, þýðingarvéla, o.s.frv. – krefst í dag  gríðarlegs reikniafls. Meginmarkmiðið með uppbyggingu Íslensks máltæknikjarna er að rannsóknar- og þróunarverkefni í máltækni fyrir íslensku hafi aðgang að nauðsynlegu reikniafli. Einnig að opin gögn og hugbúnaður verði aðgengileg á einum stað, fyrir innlent sem erlent vísindafólk og aðra sem sinna rannsóknum og þróun í máltækni.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Máltækni á Íslandi er nú þegar samstarfsgrein. Hins vegar eru a) reikniaflsinnviðir dýrir og því nauðsynlegt að þeir séu sameiginlegir, og b) aðgengi að afurðum getur leitt til samstarfs út fyrir hóp máltæknifólks. Á Íslandi vinnur hópurinn Samstarf um íslenska máltækni (SÍM) nú þegar saman að þróun máltækni fyrir íslensku, en að hópnum standa tíu stofnanir, háskólar, fyrirtæki og félagasamtök. Innan hópsins eru smærri samstarfseiningar og flestar þurfa þær á meira reikniafli að halda en raunhæft er að hver eining komi sér upp. Samstarf um aðgang að reikniafli, þar sem aðgangsstýring er gerð með yfirsýn yfir öll verkefni sem verið er að vinna að í máltækni fyrir íslensku, mun verða til þess að reikniafl nýtist til hins ítrasta og í samræmi við forgangsröðun í þróun á sviðinu. 

Með miðlægu aðgengi að gögnum og hugbúnaði, sem og þjónustu við notendur, verður einnig stuðlað að því að fleiri en þátttakendur í SÍM, t.d. innlendir sem erlendir aðilar úr fræðasamfélaginu og atvinnulífinu, muni nýta máltækniafurðir og stuðla að framþróun í máltækni fyrir íslensku.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Í dag hafa rannsakendur í máltækni helst þrjá möguleika þegar kemur að þjálfun á  stórum líkönum: a) að vinna með takmarkað reikniafl sem eitt teymi hefur yfir að ráða, b) að fá aðgang að ofurtölvu í HÍ, sem eingöngu býðst ákveðnum aðilium og er í samkeppni við aðrar deildir HÍ, og ekki fyrir gríðarstór líkön, og c) að kaupa aðgang að reikniafli fyrir hvert notkunartilfelli. Síðasti kosturinn er hinsvegar ekki raunhæfur, þar sem kostnaður við hvert líkan er gríðarlega hár. Uppsetning á ofurtölvu fyrir máltækni er því í raun nauðsynleg fyrir framþróun á sviðinu og til þess að eðlilegur framgangur verkefna verði tryggður, þar sem ekki komi til óhóflegrar biðar eftir keyrslutíma á vélum sem hafa breiðara notkunarsvið. 

Aðgangur að afurðum máltækniáætlunar fyrir íslensku er tryggður gegnum CLARIN. Afurðir, sér í lagi stærri gagnasöfn, eru þó ekki geymdar á vegum CLARIN, heldur veita eigendur gagna aðgang. Miðlæg gagnageymsla fyrir máltækniafurðir fyrir íslensku, ásamt þjónustu við notendur, bæði rannsakendur og ativnnulíf, tryggði enn frekar að opnar máltækniafurðir nýtist sem víðast við rannsóknir og hagnýtingu á sviði máltækni fyrir íslensku.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Samfélagslegar áskoranir sem bregðast verður við með framþróun í máltækni fyrir íslensku eru fjölmargar. Fyrst ber að nefna að sökum smæðar íslenska málsamfélagsins stendur íslensk tunga frammi fyrir stórum áskorunum gagnvart tækniþróun og alþjóðavæðingu. Samskipti við tölvur og tæki fara æ oftar fram gegnum tungumálið, og er enskan þar ríkjandi mál. Nauðsynlegt er að íslenskan verði fullgilt tungumál í samskiptalausnum framtíðarinnar, svo tryggt verði að hún verði nothæf á öllum sviðum samfélagsins. Máltækni leikur einnig stórt hlutverk þegar kemur að samskiptum fólks sem talar mismunandi tungumál og/eða fólks sem vill læra íslensku, hvort sem um er að ræða ferðamenn á Íslandi eða fólk, sem ekki hefur íslensku að móðurmáli, sem vill setjast að á Íslandi um lengri eða skemmri tíma. 

Þegar upplýsingagjöf og samskipti fara orðið nær eingöngu fram rafrænt, skipta aðgengismál höfuðmáli. Tryggja þarf að fólk sem annað hvort á erfitt með að lesa texta eða að heyra og skilja talað mál, hafi samt sem áður aðgengi að upplýsingum og geti tekið þátt í samskiptum, t.d. með sjálfvirkri talgreiningu og talgervingu. 

Að síðustu má nefna hraða framþróun gervigreindar í atvinnulífinu. Máltækni kemur við sögu bæði í viðskiptalausnum, þar sem leitast er við að fjölga þeim tilfellum sem hægt er að sjálfvirknivæða samskipti, en einnig í gervigreindarhugbúnaði sem lærir af gögnum og fæst við gagnagreiningu af ýmsum toga.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Íslenskur máltæknikjarni verður byggður upp samhliða framkvæmd áætlunarinnar Máltækni fyrir íslensku 2019-2023. Aðgangi að reikniafli verður stýrt og honum forgangsraðað með markmið máltækniáætlunarinnar í huga, en aðgangur verður samt sem áður opinn öðrum sem vinna að máltækni á Íslandi, mögulega gegn gjaldi. Þróunin er hröð, bæði á sviði vélbúnaðar og í þróun reikniaðferða. Lagt verður upp með að setja upp búnað af nýjustu gerð í upphafi og stuðla að samvinnu á sviði reikniaðferða og hagkvæmni. Markmiðið er því ekki einungis að kjarninn hafi yfir að ráða nauðsynlegum vélbúnaði, heldur að til verði þekkingarsetur með áherslu á öflugar og hagkvæmar aðferðir á sviði gervigreindar í máltækni, til að mynda í uppsetningu og þjálfun á tauganetum til þjálfunar máltæknilíkana. 

Á næstu árum verða til afurðir í máltækni sem hægt verður að hagnýta í hugbúnaðarþróun. Til þess að þeir hagnýtingarmöguleikar skili sér á sem skilvirkastan hátt til atvinnulífsins á Íslandi, sem og erlendra fyrirtækja og vísindamanna, mun Íslenskur máltæknikjarni halda utan um og þjónusta afurðir, svara fyrirspurnum og veita alla almenna aðstoð varðandi nýtingu afurða.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Áætluð fjármögnunarþörf til fimm ára gerir ráð fyrir tveimur reiknivélum frá NVIDIA, reksturs vefþjóns sem gerir 20 Tb (áætlað) af gögnum aðgengilegt fyrir þátttakendur verkefnisins  og þróunaraðila og launagjöld fyrir kerfisstjóra:

  • Tvær reiknivélar frá NVIDIA : 68.058 þús kr.
  • Rekstur vefþjóns í 5 ár fyrir 20 Tb gögnum : 5.000 þús kr. 
  • Launakostnaður kerfisstjóra í 5 ár : 75.000 þús kr.

Þessi áætlun innifelur húsnæðiskostnað og aðstöðu fyrir starfsmanninn og tækin.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Ísland fékk aðild að CLARIN-ERIC í febrúar 2020. Meginmarkmið CLARIN-ERIC er að öll stafræn málföng og búnaður frá allri Evrópu (og víðar) verði aðgengileg með einni innskráningu á netið, til nota í rannsóknum í hug- og félagsvísindum og innan máltækni. Afurðir íslensku  máltækniáætlunarinnar eru allar gefnar út og gerðar aðgengilegar á CLARIN. Markmiðið er að koma upp tæknilegri þjónustumiðstöð á vegum CLARIN á Íslandi, og mun Íslenskur máltæknikjarni starfa náið með CLARIN á sviðum aðgengi, hýsingar og þjónustu.

Efnisverkfræðisetur

Heiti stofnana: Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Tengiliður: Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, gudrunsa@ru.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Um er að ræða aðstöðu fyrir rannsóknir á sviði efnisverkfræði. Aðstaðan myndi þjóna bæði rannsóknum á sviði fastefnisfræði og háhitaefnisfræði. Rannsóknastofa af þessari gerð þarf að búa yfir greiningarbúnaði á borð við rafeindasmásjá (SEM), kraftsjá (AFM), Transmission Electron Microcope (TEM), ljóssmásjá og röngten-bylgjubognunar tæki (XRD), sýnaundirbúningsbúnað (m.a. húðunartæki), togþols og hörkumælingabúnað, sem og umhverfisklefa fyrir togþolstæki til mælingar á styrk efna við háan hita. Einnig felur hún í sér aðstöðu fyrir háhitaefnisfræðirannsóknir sem nær yfir rafhitaða ofna og spanofna, hanskabox (e: glovebox), aflgjafa sem skila háum straum og tækjabúnað fyrir rafefnafræðimælingar á borð við „Potentiostat“. 3D málmprentari sem er með sér tillögu í vegvísinn passar líka inn í þetta setur. 

Slík aðstaða nýtist einnig fyrir efnisfræðirannsóknir fyrir jarðhitaumhverfi en þar þarf einnig að vera til staðar tæki sem geta mælt og rannsakað tæringarhegðun og þol fastefna í lághita- og háhitajarðhitaumhverfi. Slík aðstaða felur í sér rafefnasellu fyrir lág-og háhita, (e. Electrochemical cell and electrochemical tools for low and high temp.), aflgjafa (e. potentiostat/galvanostat), og háhitaþrýstiprófanakúta (e. autoclave) með gegnumstreymiskerfi til að leyfa mismunandi gös (e. flow cell for autoclave).

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Á íslandi er töluverður orkuiðnaður, framleiðsluiðnaður og afleiddur iðnaður, meðal annars á sviði málmframleiðslu. Búnaðurinn miðar að því að unnt sé að auka þekkingu á efnisverkfræði innanlands og gera okkur þar með betur í stakk búin til að fylgjast með framförum á sviðinu og leiða nýjungar. Þetta snýr m.a. að loftslagsmálum þar sem vaxandi kröfur eru gerðar til iðnaðar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni, og tæknin til þess er í raun ekki til í dag og þarf því töluverð þróunarvinna að eiga sér stað. Jafnframt er rafefnafræði aðstaða að þessu tagi nauðsynleg fyrir rannsóknir á orkugeymslu, sem styður við orkuskipti á landi, lofti og legi i samræmi við markmið Íslands um kolefnishlutleysi. Aðstaða af þessu tagi er forsenda þess að Íslenskt vísindasamfélag geti tekið þátt í því að þróa lausnir á þessum vanda. Jafnframt er þessi aðstaða forsenda þekkingasköpunar og tækniþróunar ásviði efnisverkfræði almennt.

Markmið með uppbyggingu á þessari aðstöðu fyrir rannsóknir á sviði fastefnisfræða og háhitaefnisfræða sem nýtist fyrir málmframleiðslu og orkuiðnað er að skapa grundvöll fyrir samvinnu háskóla- og rannsóknarsamfélagsins, orkufyrirtækja og iðnaðar. Með sameiginlegu rannsóknarsetri á þessu sviði verður hægt að takast á við þær samfélagslegar áskoranir sem við glímum við í dag í tengslum við losun gróðurhúsaloftegunda frá stóriðju og nýtingu jarðhita.
Þar verður hægt að gera ítarlegar greiningar á tæringarhegðun fastefna í framleiðsluiðnaði (raflausn) og jarðhitaumhverfi, og setja upp stýrðar skammtíma- og langtímatilraunir sem gerir greiningu á tæringarhegðun og val á fastefnum fyrir málm- og orkuframleiðslu mun skilvirkari en ella. Í dag er til staðar rafeindasmásjá en brýn þörf er á rannsóknarbúnaði fyrir rafefnafræðilegar mælingar (potentiostat/galvanostat, electrochemical impedance spectroscopy o.fl.) við háan hita sem er staðalbúnaður á sviði tæringar- og orkurannsókna.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Hjá Nýsköpunarmiðstöðu Íslands, Háskóla Íslands, og Háskólanum í Reykjavík eru til staðar ákveðin greiningartæki sem nýtist í rannsóknum í fastefnisfræði og háhitaefnisfræði en mikilvæga hluta vantar. T.d. er til staðar rafeindasmásjá og efnagreiningartæki (X-ray Energy Dispersive Spectroscope (XEDS)) á NMÍ sem mikið er notað fyrir efnisrannsóknir, sem og smásjár, og búnaður til að undirbúa sýni til greiningar. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hafa átt hlutdeild í þessum búnaði og hafa geta nýtt aðstöðuna gegn hóflegu endurgjaldi, ásamt starfsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar. Þessi sameiginlega afnot/eignarhald hefur aukið samstarf og samgang milli íslenskra háskóla og rannsóknastofna á undanförnum árum. Ljóst er af þessum fordæmum að frekar tækjauppbygging sem yrði staðsett miðlægt mun auka samstarfið enn frekar. Þessir aðilar hafa einnig nýlega fjármagnað háhitaþrýstikút staðsettan í HÍ með gastengingum sem er gríðarlega öflugt rannsóknartæki fyrir fastefnis og háhitaefnisfræði tilraunir. Rafefnafræðileg mælitæki (e. electrochemical equipment) og flæðilína (e. flow cell), myndu auka nýtingu og virkni þessar tækis og auka notkun tækisins og nýtingu innviðarins sem er til staðar. Einnig mun umhverfisklefi vera viðbót við togþolstæki svo hægt verður að prófi aflfræðilega eiginleika efna við hátt hitastig og stuðla að betri nýtingu togþolstækis.

Þótt álver og kísiliðnaður hafi verið starfandi í landinu frá sjöunda áratug síðustu aldar er það ekki fyrr en á síðustu árum sem uppbygging á búnaði til háhitaefnisfræðirannsókna hefur átt sér stað. Starfsmenn háskóla og Nýsköpunarmiðstöðvar með þekkingu og reynslu á sviðinu hafa fengið fjármögnuð rannsóknaverkefni sem kallað hafa á frekari uppbyggingu og er nú kominn vísir að rannsóknaaðstöðu á sviðinu, með eitthvað af ofnum og tilheyrandi aflgjöfum og hefur HR staðsett sinn búnað hjá NMÍ vegna samlegðar. Enn vantar þó lykiltæki á borð við öflugan „Potentiostat/galvanostat“, „electrochemical impedance spectroscopy“ og hanskabox, og enn vantar greiningartæki sem myndu styðja mjög við starfsemina. Jafnframt vantar spanofn sem getur farið upp í hærri hitastig, eða um 2000⁰C. Það er því enn þörf á töluverðri uppbyggingu sem myndi þjóna bæði HR, HÍ og þeirri stofnun sem taka mun við hlutverki Nýsköpunarmiðstöðvar á þessu svið í kjölfar skipulagsbreytinga. Aðilar frá háskólum og stofnunum á þessu sviði hafa átt hnökralaust samstarf, en enn öflugri aðstaða myndi stuðla enn frekar að þeirri þróun. 

Með uppbyggingu á innviðum á sviði efnisverkfræði væri hægt að samnýta tæki og þekkingu milli NMÍ og háskólanna fyrir efnisrannsóknir á sviði málmframleiðslu og orkuvinnslu. Greiningarbúnaður fyrir fastefnisrannsóknir samnýtist í rannsóknir á sviði orkuframleiðslu, orkufreks framleiðsluiðnaðar, tæringarrannsókna í jarðhitaumhverfi o.m.fl. Á þessum rannsóknarsviðum er mikil skörun í notkun rannsóknartækja og því gæti rannsóknaraðstaðan samnýst breiðum vettvangi faghóps.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Hvað varðar Fastefnisfræðina þá er um að ræða viðhald og eflingu aðstöðu sem þegar er fyrir hendi, og er nauðsynleg fyrir rannsóknir og kennslu í verkfræði og raunvísindum á Íslandi.
Hvað háhita-efnisfræðina varðar þarf meiri uppbyggingu til að uppfylla grunnþarfir rannsóknar og þróunarstarfsemi, en slík uppbygging mynd gera íslensku vísindafólki kleift að leggja sitt af mörkum við að draga úr loftslagsáhrifum iðnaðar sem í dag stendur undir nærri helmingi vöruútflutnings frá landinu. 

Sameiginleg rannsóknaraðstaða, aukinn aðgangur að nýjum rannsóknartækjum og tólum yrði einnig grundvöllur að fleiri tækifærum til verkefnaöflunar (o.þ.a.l. fjáröflunar) og samstarfs milli NMÍ og háskóla og fleiri tengdra aðila. Gæði rannsókna og aukinn samstarfsvettvangur skapast innanlands og á alþjóðlega vísu. Einnig mun slík aðstaða gera kleift að efla kennslu á sviði efnisverkfræði á Íslandi, en þótt námsbraut í efnisverkfræði sé ekki til á Íslandi í dag kemur fagsviðið inn sem mikilvægt stuðningsfag í aðrar verkfræðinámsbrautir.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Ein stærsta samfélagsáskorun mannskyns sem blasir við er loftslagsváin. Eins og fram kemur á fleiri stöðum í umsóknartextanum er hér verið að sækja um lykilinnviði til að vinna að rannsóknum og þróun til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá atvinnugreinum sem í dag hafa gríðarmikið efnahagslegt vægi á Íslandi. Eðlilegt er að Íslenskt rannsóknasamfélag sinni slíkum grundvallar annsóknum sem tengjast starfsemi sem viðamikil er í landinu.. Einnig nýtist aðstaðan rannsóknum sem tengjast orkuskiptum sem eru megin áhersla í lofslagsáætlun Íslands. 

Með betri rannsóknaraðstöðu á sviði fastefna þá munu rannsóknir og greiningar hafa meira framlag við val á réttum hráefnum í málmframleiðslu og efnisvali í jarðhitavinnslu

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Staðsetning búnaðar verður hjá þeim aðilum sem að setrinu standa, en verður aðgengilegur öllum umsækjendum. Búnaður bætist við eftir þörfum og eftir því sem umsóknir í innviðasjóð fást fjármagnaðar. Starfsemin sem nýtir búnaðinn verður fjármögnuð með styrkjum frá samkeppnissjóðum og fyrirtækjum. Sérfræðingar stofnananna sem að umsókninni standa sjá um rekstur tækjanna. 

Hvað varðar háhita-efnisfræði aðstöðuna þarf sem fyrst að fá fjármagn til að bæta við „Potentiostat/galvanostat“ og „electrochemical impedance spectroscopy“ sem duga til nákvæmra rafefnafræðimælinga við erfiðar aðstæður og hanskaboxi, sem myndi bætast við þá ofna og aflgjafa sem fyrir hendi eru.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

75-125 milljónir, gróft áætlað

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

HR er í ríku samstarfi við SINTEF/NTNU í Noregi og Regal í Kanada þar sem innviðir eru samnýttir.

Samstarfi NMÍ við íslensk og erlend orkufyrirtæki, erlend rannsóknarfyrirtæki og stofnanir á sviði tæringarrannsókna í jarðhitaumhverfi. 

Í dag er NMÍ og HÍ þátttakendur í nokkrum H2020 rannsóknarverkefnum á sviði orku- og tæringarrannsókna í jarðhitaumhverfi. Einnig eru umsóknir í undirbúningi erlendar og innlendar þar sem búnaðurinn mun nýtast.

Efnagreiningasetur Háskóla Íslands

Heiti stofnunar: Raunvísindastofnun Háskólans

Tengiliður: Sigríður Jónsdóttir, sigga@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Efnagreiningasetur Háskóla Íslands var stofnað árið 2006 af kennurum þáverandi efnafræðiskorar raunvísindadeildar HÍ og vísindamönnum á Raunvísindastofnun. Markmiðið var skýrt: að byggja upp og halda utan um fjölbreyttan og nauðsynlegan tækjabúnað til rannsókna á þeim sviðum sem þurfa á efnagreiningum að halda. Efnagreiningasetur er innviðakjarni sem er því mjög mikilvægur fyrir vísindasamfélagið á Íslandi og á heima sem hluti af vegvísi vísinda- og tækniráðs. Háskóli Íslands er formlega skráður eigandi að þeim rannsóknatækjum sem tilheyra Efnagreiningasetri HÍ, en þar er nú meðal annars að finna Bruker Avance 400 NMR tæki, Bruker X-ray röntgentæki til að mæla einkristalla, Bruker Compact ESI massagreini, rafeindaspuna (EPR) tæki, einsameinda-litrófsgreini, flúrljómunarlitrófsmæli og CD-litrófsmæli, auk fjölmargra annarra minni tækja. Mörg þessara tækja, sem flest eru staðsett á Raunvísindastofnun og sum í Öskju, eru mjög dýr, háþróuð, og ein sinnar tegundar á Íslandi.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Meginmarkmið Efnagreiningasetursins var að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfa aðstöðu til rannsókna í efnafræði, lyfjafræði, lífefnafræði og skyldum greinum. Fyrstu tækin sem formlega voru skráð voru tveir massagreinar (Bruker MALDI-TOF Smartbeem og Bruker ESI MicroTof Q), sem keyptir voru með styrk úr tækjasjóði Rannís og mótframlagi frá HÍ. Daglegt aðgengi að mörgum tækjanna, til að mynda massagreinum og NMR tæki (sem fyrir var á Raunvísindastofnun og keypt með aðkomu tækjasjóðs Rannís), er nauðsynlegt svo hægt sé að stunda grunnrannsóknir á fyrrnefndum fagsviðum. Þau dýru tæki sem er að finna í Efnagreiningarsetrinu er mikilvægt að nýta vel og hafa þau aðgengileg fyrir alla í íslensku vísindasamfélagi sem þurfa mælingar og niðurstöður byggðar á gögnum úr tækjum setursins.
Í nútíma rannnsóknum og birtingum á vísindagreinum er mikil áhersla á yfirgripsmiklar efnagreiningar og ekki síður eru gerðar sterkar kröfur um staðfestingu á réttum efnum og hreinleika þeirra.

Allur tækjabúnaður Efnagreiningasetursins er samnýttur og aðgengilegur fyrir alla sem þurfa að nýta tækin fyrir rannsóknavinnu. Sum tækin eru þess eðlis að fólk fær þjálfun í að nota þau og þannig öðlast næsta kynslóð vísindafólks mikilvæga færni í rannsóknum. Önnur tæki eru þess eðlis að þjónustan er veitt, annaðhvort gegn greiðslu eða sem samvinnuverkefni og þá er undirrituð, Dr. Sigríður Jónsdóttir, sem veitir Efnagreiningasetrinu forstöðu, meðhöfundur að þeim vísindagreinum sem innihalda greiningarnar.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Samnýting tækjabúnaðar hefur verið grundvallarregla varðandi rannsóknatæki sem falla undir Efnagreiningasetrið. Þetta stuðlar ekki einungis að betri nýtingu, heldur eykur einnig endingu tækjanna – flest rannsóknatæki af þeim toga sem er að finna í Efnagreiningasetrinu hrörna frekar af notkunarleysi en notkun. Sum tækja Efnagreingaseturs eru mjög sérhæfð og umsjón þeirra á höndum sérfræðinga sem nota þau mest, til að mynda nýlegt tæki til greiningar á byggingu efna í einkristöllum með röntgenbylgjum og smásjá sem mælir eiginleika stakra lífsameinda. Notkun slíkra tækja, sem eru ein sinnar tegundar á Íslandi, leiðir oft til samstarfs vísindamanna við viðkomandi sérfræðinga.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Tækjabúnaður til efnagreininga gengur óhjákvæmilega úr sér og þarfnast endurnýjunar. Efnafræðistofa Raunvísindastofnunar hefur fjármagnað rekstur og eðlilegt viðhald tækja Efnagreiningasetursins og mun gera það áfram. Aftur á móti verða mörg af þessum dýru tækjum ekki endurnýjuð eða uppfærð nema með aðkomu Innviðasjóðs. Þegar lykiltæki Efnagreiningarsetursins hafa bilað eða orðið ónýt hefur ekki verið unnt að vinna að ákveðnum rannsóknaverkefnum vikum og jafnvel mánuðum saman, með gífurlegum kostnaði fyrir viðkomandi verkefni. Áframhaldandi uppbygging tækjakosts í efnagreiningum er nauðsynleg til að tryggja samkeppnishæfi í greinum sem þarf á þessum tækjakosti að halda og til að tryggja áframhaldandi grósku í rannsóknum og nýsköpun.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Öflugt Efnagreiningasetur telst ein af grunnstoðum akademískra rannsókna. Samfélagsleg áhrif er óumdeilanleg, hvort sem um er að ræða loftslagsbreytingar, heilbrigðisvísindi, nýsköpun eða lyfjaþróun. Öll þessi fagsvið eiga það sameiginlegt að treysta á framúrskarandi aðstöðu til efnagreininga. Þróun nýrra aðferða í læknisfræði og lyfjaþróun byggir sterklega á því að hægt sé að greina byggingu stórsameinda, eins og próteina, en haldið verður áfram að byggja upp slíka aðstöðu hér á landi í gegnum Efnagreiningasetrið.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Endurnýjun rannsóknatækja er óhjákvæmileg og uppfærslur tækja í takt við öra tækniþróun er stór áskorun sem gengur hönd í hönd með sífellt flóknari viðfangsefnum vísindanna. Mikil uppbygging hefur átt sér stað um allan heim á sviði lífvísinda, sérstaklega á sviðum próteinvísinda og líftækni. Lengi hefur í íslensku vísindasamfélagi verið þörf á öflugra NMR tæki en það sem fyrir er á Raunvísindastofnun og þannig starfrækja tvö hágæða NMR tæki á stofnuninni. Núverandi NMR tæki hentar illa fyrir risasameindir sökum smæðar seguls og framtíðaráform Efnagreiningaseturs gera ráð fyrir því að a.m.k. 600 MHz tæki verði keypt fyrir rannsóknir og mælingar á risasameindum. MALDI-TOF massagreinir er einnig tæki sem mikil þörf er á fyrir massagreiningar á risasameindum. Tækjabúnaður setursins er mikið nýttur af breiðum hópi vísindafólks á t.d. Verkfræði- og náttúruvísindasviði og Heilbrigðisvísindasviði. Uppbygging Efnagreiningaseturs endurspeglar einnig þær framfarir sem eiga sér stað í lífvísindum og tekur mið af vaxandi próteinvísindakjarna við HÍ og líftækniiðnaðar á Íslandi.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Ljóst er að kostnaður við uppbyggingu og til viðhalds á tækjabúnaði Efnagreiningarseturs hleypur á hundruðum milljóna. Nýtt 600 MHz NMR tæki til rannsókna á próteinum og risasameindum kostar 1,1 milljón evrur (án VSK), og árlegur rekstur segulsins, sem felur í sér fljótandi helium (140L/ári og köfnunarefni (2100L/ári) er áætlaður á núvirði 1500 - 2000 þkr. 

Flúrljómunarlitrófsmælir setursins var tekinn í notkun 2014 og gera má ráð fyrir að huga verði að endurnýjun innan 10 ára. Hliðstætt á við rafeindaspunatækið (EPR) sem er orðið yfir 15 ára gamalt. Efnagreiningasetur ætti að geta boðið upp á massagreiningar á risasameindum með MALDI-Tof massagreini. Listaverð Bruker Flex MALDI TOF massagreina er á bilinu 397.000 - 711.000 evrur (án VSK), sem gefur vísbendingu um kostnaðinn. MALDI aðferðin við massagreiningar ætti að vera staðalbúnaður eða aðgengilegar innan háskólasamfélagsins fyrir alla sem vinna með prótein og stórar sameindir (risasameindir). 

Viðhalds og viðgerðakostnaður rannsóknatækja getur hlaupið á milljónum. Það er ekki síður mikilvægt fyrir vísindasamfélagið að gert sé ráð fyrir að hægt sé að sækja um styrki og fá fjármagn til kaupa á varahlutum og það ætti að vera almennt sveigjanleiki hjá Innviðasjóði varðandi umsóknarfrest til tækjakaupa. Það er mjög bagalegt að missa út rannsóknatæki til margra mánaða þar sem fjármagn til viðgerða eða jafnvel endurnýjunar skortir.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Þessi liður á ekki við.

University of Iceland Nanotechnology and Materials Science Centre Örtækni- og efnisvísindasetur Háskóla Íslands

Heiti stofnana: Raunvísindastofnun Háskólans, Myfab Sweden, Grein Research ehf., Atmonia ehf., Háskóli Íslands - VON, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskólinn í Reykjavík - Iðn- og tæknifræðideild, DT Equipment ehf.

Tengiliður: Unnar Bjarni Arnalds, uarnalds@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

The University of Iceland Nanotechnology and Materials Science Centre (UINC, http://uinc.hi.is/ ) is a collaboration between research groups working in experimental solid state physics, thin film physics and nanotechnology at the University of Iceland and the UI Science Institute. UINC is the only available cleanroom and materials development facility in Iceland and comprises a vast array of deposition, processing and analysis instruments. The total worth of the facilities of the centre including housing, instrument investment and initial setup costs is estimated to be over 1.000 MISK. 

The Centre is composed of a 40 m² class 5 Cleanroom plus external service corridors, a Thin film laboratory and an Analysis laboratory. The cleanroom enables optical lithography of micrometer sized structures and processing for electron beam lithography using the e-beam lithography system located at the Innovation Centre Iceland. The instrumentation available in the cleanroom includes several vital tools required for performing nano- and microlithography such as an optical lithography mask aligner, deposition systems and processing equipment. The Thin film laboratory houses tools for the fabrication of new materials using magnetron sputtering, molecular beam epitaxy and e-beam evaporation. This laboratory has been the pillar of materials science research at the University of Iceland for over 30 years. Several instruments are available for the fabrication of new materials within this laboratory as well as sample treatment and preparation. 

The Analysis laboratory houses several high-level materials research instruments for analyzing materials composition, crystal structure, morphology, electrical, magnetic and optical properties along with several other properties. The backbones of this laboratory include X-ray diffraction instrumentation, a Cryogenics CFMS for magnetic and electrical characterization down to 2 K and a Park XE-100 atomic force microscope, an optical laboratory and an electrical characterization laboratory. 

Since it's inauguration in 2006 UINC has enabled new possibilities in scientific research within Iceland, led to strong international collaborations and numerous scientific publications and established the University of Iceland as a powerhouse for materials research and development. Similar facilities are generally available at top universities around the world which focus on science, engineering and technology and the strong infrastructure within UINC has enabled research at the Icelandic universities and research institutes to be at a high level in the competitive world of research. UINC has also housed numerous industrial partners and development  companies throughout the years which have required access to high level instrumentation and expertise. These companies include Grein Research and Atmonia both of which have been able to carry out complex development through access to the facility and its experts.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Throughout the years UINC has been established and proven as an effective laboratory. However, large parts of its instrumentation arsenal are aging and requiring extensive refurbishment or renewal. The instrumentation and facilities in most need of renewal are the cleanroom and nanolithography facilities which have not been updated to current technologies since the laboratoy was established. Equipment for materials fabrication and deposition, including magnetron sputtering and evaporation is also aging and in need of modern upgrades. New, modern analysis instruments would increase the capacity and bring the quality of the research performed at the Centre to a new level. 

Such investment would strengthen tremendously the possibilities for research and development in numerous fields including solid state physics, materials science, nanotechnology, materials engineering and biotechnology in Iceland and bring the laboratory and the research up to high international standards. Cutting-edge research in these fields has shown itself to be the basis for high-tech industry and facilities such as these are at the centre of the most ambitious technology innovation parks around the world. It is the goal of this application to position the centre as the hub of high-tech research and innovation in Iceland.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Many of the facilities of UINC are used as an open facility available to use by anyone within the Icelandic universities, research institutes and the international research community as well as research companies and corporations based in Iceland and worldwide. Access to the facility is available for external companies and institutions through collaboration agreements and access fees for instrument or lab use. The facility is run and maintained by the Physics Department of the Science Institute. 

Strengthening the Centre enables continued access for Icelandic scientist to high level research equipment. This infrastructure project will therefore increase collaboration opportunities between universities, research institutes and companies within Iceland as well as increase the possibilities for international collaboration, both through access to facilities in Iceland as well as towards abroad.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

The proposed roadmap will bring the University of Iceland Nanotechnology and Materials Science Centre to a high standard compared to international research institutes and provide new possibilities in research and development in Iceland. The centre has already established itself as a strong foundation for enabling high level materials science and solid state physics research. Extending its capabilities even further will create new research directions and undoubtedly attract prominent researchers and development companies in the field.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

The strengthening of research and development in solid state physics, materials science, nanotechnology, materials engineering and biotechnology will play a large role in the
development of new technologies to tackle future societal and technological challenges.
These new technologies and challenges include climate change, energy research and battery
technology, automation, artificial intelligence and brain inspired computing to name a few. All
these aspects and their solutions rely on increased development, research and knowledge in
fundamental materials sciences and technology.
A strong laboratory within these fields will strengthen teaching at the undergraduate level and
create new possibilities for students at the post-graduate level. The increased possibilities in
education in science, technology and engineering gained through a strong research centre
such as this will undoubtedly strengthen Iceland's competitiveness as workers educated in
these fields will play a vital role in the future economy.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

A strategic roadmap for future research directions at the University of Iceland Nanotechnology and Materials Science Centre is currently under development. A strong facility for nanotechnology and materials science is vital for future strategic research directions to be implemented as it creates a foundation for including new research equipment into the already available arsenal and making it possible to implement new research projects of high international standards. 

Over the next 5-10 years UINC will expand as it attracts more researchers and industrial users. The Centre should be one of the cornerstones of the University of Iceland Science Park, offering both researchers and companies a platform to perform materials research and development at the highest level. The infrastructure required is beyond the means of any startup company or single research group and therefore it is crucial to build a central user facility which provides these opportunities. This will in turn enable new ideas for breakthrough technologies to be realized. For this to succeed it is vital to invest in equipment and expertise in a setting which is amenable to both researchers and businesses.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

A large scale upgrade of the facilities (housing, nanofabrication, deposition and analysis
equipment) is estimated to cost 580 MISK. These instruments include:

Additionally, a vast array of smaller instruments and facilities are required for the laboratory renewal and running over the span of 10 years (estimated at 50 MISK) including laboratory, optical, electronic, spectroscopic and workshop facilities etc. Specialized cost for cleanroom and laboratory setup is estimated at 30 MISK.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

The University of Iceland Nanotechnology and Materials Science Centre is an active participant in the Nordic Nanolab Network (NNN, http://nordicnanolab.se/ ). NNN is a collaborative network formed by the national research infrastructures for micro- and nanofabrication in the Nordic countries. The aim of the Network focuses on collaboration and arranging common activities among management, experts and users in the Nordic countries to develop synergies to improve national access for users from academia and industry. The Nordic Nanolab Network participates in Euronanolab ( http://euronanolab.eu /) via its largest constituents Myfab in Sweden and NorFab in Norway. The Nordic Nanolab Network meeting was hosted by the University of Iceland in September 2019.

Massagreiningarkjarni

Heiti stofnana: Háskóli Íslands - Heilbrigðisvísindasvið, Landspítali Háskólasjúkrahús, Háskólinn í Reykjavík - Iðn og tæknifræðideild

Tengiliður: Óttar Rolfsson, ottarr@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Lífefnagreiningar með massagreiningu nýtist við auðkenningu og magngreiningu lyfja og lífmarka, metabólíta, lípíða, erfðaefnis og próteina í rannsóknum í líffræði og læknisfræði og undirgreinum þeirra m.a. líftækni, klínískri efnafræði, kerfislíffræði, sameindalíffræði, ónæmisfræði, lyfjafræði, eiturefnafræði og erfðafræði. Með uppbyggingu á massagreiningarkjarna sem er sérhæfður til rannsókna á lífsýnum er áætlunin að leggja grunn að því sem erlendis kallast “phenomics center”.

Phenomics center eru efnagreiningarsetur sem eru sérhæfð í fjölþátta lífefnagreiningum og styðja við grunn og klínískar rannsóknir sem miða að því að skilja betur tengsl milli arfgerða og svipgerða. Massagreinar eru í lykilhlutverki þegar kemur að efnagreiningum lífefna öðrum en erfðaefni (þ.e.a.s. smásameindum, lípíðum, sykrungum og próteinum) og því vegur þessi tækjabúnaðir þyngst í uppbyggingu þessara innviða. Staðan á uppbyggingu slíks seturs er hafin með þeim tækjabúnaði sem fyrir er (Mynd 1). Nýir massagreinar bæði LC-MS og GC-MS ásamt sýnameðhöndlunarbúnaði, minni stoðvörum og sérhæfðu starfsfólki eru þó nauðsynlegir svo hægt sé að nútímavæða þá þjónustu, auka aðgengi og stuðning við háhraða próteinrannsóknir (Tafla 1). Engin aðstaða er fyrir hendi á Íslandi sem getur framkvæmt ósértæka skimun á próteinum og próteinbreytileika en mikill vilji er fyrir hendi til þess.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Markmiðið með uppbyggingu á massagreiningarrannsóknarinnviðum er þríþætt. Í fyrsta lagi að styðja betur við þá starfsemi sem fyrir er sem er sérhæfð í greiningum lyfja, lífmarka, metabolíta og lípíða. Til þess að það sé gerlegt er nauðsynlegt að endurnýja og/eða viðhalda þann búnað sem fyrir er. Í öðru lagi að styðja við greiningu próteina og próteinbreytileika í lífsýnum. Með próteinbreytileika er átt við breytingar í próteininnihaldi lífsýna, byggingu próteina (e. conformational changes) og breytingar í fosfóryleringu, acetýleringu o.s.fr. (e. post translational modifications). Að lokum að tryggt sé að sérþjálfaðir starfsmenn séu til staðar sem geti séð um sýnameðhöndlun, skráningu og rekstur tækjabúnaðar. Sérhæfður starfskrafur sem kemur að viðhaldi og rekstri þessara tækja er lykilatriði þegar kemur að því að tryggja virkni tækjanna sem og að sjá til þess að sýni séu keyrð með einsleitum og skipulögðum hætti, en einnig gegnsæjum og óháðum hætti svo sem flestir njóti góðs af. Í næstu kaupum sem snúa að í uppbyggingu á massagreiningarkjarna er ætlunin að kaupa skimunar massagreini (Q-tof eða Orbitrap) og sýna-meðhöndlunarbúnað. Markmiðin með þessum fyrstu kaupum er að geta nútímavætt greiningu m.t.t. A) lífefnainnihalds lífsýna, B) breytinga í lífefnainnihaldi tengdum erfðabreytileika, lyfjagjöf og umhverfisáreiti C) byggingaog formbreytingar próteina

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Lífvísindasetur Háskóla Íslands er samstarfsvettvangur rannsóknahópa sem stunda rannsóknir í sameindalífvísindum við Háskóla Íslands, Landspítala Háskólasjúkrahús, Háskólann í Reykjavík og annarra stofnana á Íslandi á mörgum fagsviðum.

Búnaðurinn verður staðsettur innan  ífvísindaseturs þar sem undanfarin ár hafa verið stundaðar rannsóknir með massagreinum innan efnagreiningaraðstöðu sem er rekin af sérfræðingum ásamt nemum í þjálfun. Rannsóknarfólk sem nýtir sér aðstöðuna kemur víða að m.a. frá Verkfræði og náttúruvísindasviði HÍ, Landsspítala Háskólasjúkrahúsi og Háskólanum í Reykjavík. Mörg verfenanna eru í samstarfi við erlenda Háskóla og líftæknifyrirtæki m.a. Íslensk erfðagreiningingu, Kerecis, Iceprotein hf, Epi-endo, Oncopeptides o.fl. Samstarf er því nú þegar mikið um þau tæki sem fyrir eru í grunn- og hagnýtum rannsóknum. Betri nýting myndi fást þar sem hægt væri að lækka heildar rekstrarkostnað og auka aðgengi rannsóknarhópa að aðstöðunni svo að sem flestir njóti góðs af þeim tækjum sem í boði eru án þess þó að þurfa að kosta til þess sérfræðing á eigin vegum til reksturs tækjabúnaðar og

keyrslu á sýnum.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Sífellt fleiri fyrirtæki og rannsóknarhópar leita að sérhæfðum lífefnafræðigreiningalausnum. Það er því rökrétt skref að byggja upp massagreiningarkjarna svo að sem flestir njóti góðs af án þess að þurfa að fjármagna tækjabúnað, kosta til þess sérfræðing á eigin vegum ásamt því að viðhalda rekstri tækjabúnaðar og utanumhaldi sýna. Starfskraftur sem kemur að viðhaldi og rekstri massagreiningarkjarna er lykilatriði þegar kemur að því að tryggja virkni tækjanna sem og að sjá til þess að sýni séu keyrð með einsleitum og skipulögðum hætti, en einnig gegnsæjum og óháðum hætti svo sem flestir njóti góðs af. Í augnablikinu eru massagreinarnir keyrðir af sérhæfðu starfsfólki sem þiggja laun af rannsóknarstyrkjum og hafa því augljóslega hagsmuna að gæta innan sinna eigin rannsóknarverkefna og því sérstaklega um hvaða sýni eru keyrð á hvaða tíma, þar sem tími þeirra er skorðaður innan þeirra verkefna sem þeir vinna að.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Uppbyggingin myndi styrkja samfélagslegar áskoranir á sviði umhverfismála og sjálfbærni með því að stuðla að notkun nýrrar tækni í og efla nýsköpun í sjálfbærri nýtingu auðlinda. Sterkir innviðir í lífefnagreiningu er ein forsenda að það sé hægt. Dæmi um nýtingu massagreina í þessu skyni eru ótal mörg en aðgengi að massgreinum er t.d. mikilvæg fyrir Orf líftækni, Alvotech, ArcticMass, Kerecis, Íslenska erfðagreiningu ofl. Á sviði heilsu og vegferðar myndi massagreiningarkjarni styðja framþróun í greiningu og meðhöndlun sjúkdóma ásamt því að auka þekkingu á fyrirbyggjandi aðgerðum. Massagreinar eru t.a.m. nýttir við sjúkdómsgreiningar, nýburaskimanir og lyfjafrágsogsrannsóknir í lyfja og eiturefnafræði innan LSH og við rannsóknir á nýjum lyfja og næringarfræði lífmörkum til að auka skilning á sjúkdómum. Eftirspurn eftir starfsfólki sem hefur reynslu af vinnu við massagreiningar á lífefnum er mikill og mun aukast á komandi árum samfara auknum fjárfestingum í líftækni og efnaiðnaði í íslensku atvinnulífi. Auknar kröfur eru gerðar um gæðaeftirlit og greiningar í heilbrigðisþjónustu, matvælaiðnaði og öðrum sviðum atvinnulífsins þar sem efnaeftirlits er krafist. Þannig fellur uppbygging massagreiningarkjarna að uppbyggingu lífs og starfa í heimi breytinga.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Framtíðarsýn á þeirri aðferðafræði sem hægt verður að bjóða upp á í massagreiningarkjarna er útlistuð á Mynd 1B. Hvernig massagreiningarkjarni fellur að grunn- og klínískum rannsóknum á heildrænan máta er útlistað á mynd 2A ásamt samlegðaráhrifum við aðrar rannsóknaraðferðir á mynd 2B.

Lífvísindasetur Háskóla Íslands styður við rekstur kjarnaeininga sem tilheyra setrinu og eru nauðsynlegar starfsemi þess með ýmsum hætti. Þegar nauðsynlegt er að hafa tæknifólk eða sérfræðinga til staðar, ýmist til að þjónusta rannsóknahópana eða þjálfa nýja notendur og sjá um daglegt viðhald tækjabúnaðar, eru laun greidd með tímagjöldum og úr sameiginlegum sjóðum. Þannig verður rekstri háttað til frambúðar.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Nýr Q-tof massagreinir til skimunar rannsókna á lífefnum er áætlaður á 90 mISK. Sýnameðhöndlunarbúnað á 22 mISK. GCMS gasgreinir á 40 mISK. Analýsuvog kostar 6 mISK. Staðlar og rekstrarkostnaður á ári eru 5 mISK. Þjónustusamningur er 2.5 mISK á ári. Tvo starfsmenn þyrfti einn í sýnameðhöndlun og annan í efnagreiningunni sjálfri en áætlaður kostnaður við það eru 20 mISK á ári. Heildarkostnaður á 5 árum væri tæplega 300 mISK.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Nordforsk Infrastructur hub Application nr. 96729: Nordic Metabolomics Hub. Ekki fékkst styrkur í ár. Stefnt er á áframhaldandi umsóknir og uppbyggingu á Norðurlöndum í Phenomics.

Framleiðslutækni framtíðarinnar, 3D málmprentun

Heiti stofnana: Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Reon, Vélvík

Tengiliður: Svava Davíðsdóttir, svavada@nmi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

3D metallic printing capabilities will open innovation in Iceland to the cutting edge of design and innovative thinking, kickstarting an emerging technology in Iceland. Combining the printer with other advanced manufacturing equipment in an open workshop will allow Iceland to move to the frontline of high-tech manufacturing and design. 

Production and design worldwide are moving in the direction of three-dimensional printers where design can be computer modelled and thus explored in greater depth. During the COVID19 crisis the utility of three-dimensional printers for solving complex problems such as the Leitat 1 printing enabled respirator, Roboze facemask and Photocentric venturi valves for respirators was evident. The use of 3D printing is already established in Icelandic culture, however, there does not yet exist 3D metallic printing capabilities in Iceland. Regardless of the worldwide implementation rate of 3D printing it is critical to be at the forefront.

is important to create an environment where the combination of experienced material experts and scientists supporting the technology can make it accessible for researchers, students, innovators, future employers and industrial partners. Early adoption of the technology will facilitate innovation in design leading to the possibility of more patenting as the previous protection's limitations will no longer be applicable. Furthermore, understanding the available materials on the market and their behaviors in Iceland specific applications, for example geothermal power plants, will be critical for Icelandic technology development. 

The application is for an advanced manufacturing workshop, with equipment such as a 3D metal printer, CNC lathe and mill that will be used to develop an understanding of the 3D metal printing technology and integrate it with other advanced manufacturing processes to further Icelandic innovation. The objective is to create a strong Icelandic platform for supporting the development of 3D metal printing and supportive technology. The 3D metal printer will allow for smarter manufacturing, print replacement part on demand, fast prototyping, bring low-volume production into Iceland while reducing CO2 footprint. The 3D metal printing platform would be the first in Iceland to acquire such an equipment.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum? 

The objective of creating an advance workshop including 3D metal printing platform is to allow Iceland to join the journey of innovation and a new way of thinking that is prevailing in other highly developed countries. The aim of purchasing the 3D metal printing is to explore its use for the manufacturing of Icelandic products, to offer hands-on education for engineering and science students and to research the printed material and components for usage in Icelandic conditions. 

For example:

  1. The printer will be used to develop prototypes that can be used in testing and innovation within geothermal powerplants. 
  2. Could be used to tailor make implants from imaging software. 
  3. Provide spare parts in the country in case of another pandemic. 
  4. Can be used to optimize currently existing solutions. 
  5. Will be used for educational purposes by showing students the possibilities opened by this technology.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

A collaborative platform will be created around the 3D metal printer and other modern production technologies. The collaboration will be a co-operative project between various stakeholders such as research institutes, universities, manufacturing companies and startups. By combining the knowledge and expertise of various partners, a hub for sophisticated production technologies can be created. This will in turn increase the usage of various research equipment used to further research the parts and materials created by the printer and related technologies. The equipment referred to is, for example, optical microscopes, mechanical testing equipment and other specialized testing equipment that is, for example, used to test the performance of components in geothermal settings.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Currently, no 3D metal printing technology exists in Iceland. This new technology shows great promise towards revolutionizing the way certain parts are manufactured, as 3D plastic printers have already done. Introducing this technology to the Icelandic scientific, engineering, educational and manufacturing communities and letting people work with it will open minds up to new possibilities and innovation as well as to create new research opportunities.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

High impact global events, such as the recent Covid-19 pandemic, can greatly disturb the economic stability and safety of a nation dependent on imports such as Iceland. Having the ability to manufacture important spare parts quickly and locally will increase our sustainability and decrease our dependence on imports which otherwise could have dire consequences when international shipping cannot be counted upon.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

The vision is to create a platform that is up to date with the newest process technology in 3D metal printing that could support Icelandic industry in advancing their capabilities. The 3D metal printer and associated processes, such as CNC machining can be developed and supported by ICI facilities where there are process and material skilled scientists and supportive equipment, alternatively at Vísindagarðar, which is currently being developed in Vatnsmýri. Cutting edge manufacturing equipment would be assembled in a neat and modern workshop which would service students, researchers, startups and industrial projects. 1-2
workshop professionals would be employed to run it, service and help users as well as to charge for the usage of the equipment if required.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

The amount needed to purchase a 3D metal printer and to build a workshop around it depends on the scope and ambition of the infrastructure. 3D metal printers are valued at approximately 30 million ISK and upwards. Entry level CNC milling machines are available from approximately 6 million ISK. Prices for CNC lathes are similar. Factoring in additional tooling, workbenches, welding equipment and other standard workshop equipment as well as housing for the workshop we estimate that at least 50 million ISK would be needed to start with.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Denmark is taking a lead in creating advance 3D metal printing facilities holding the biggest printer in Scandinavia. Due to research connection there is possibilities to connect with Force technology, Terma, Grundfoss all of whom have experience with 3D metal printing.

Infrastructure for Electromagnetic compatibility and compliance

Heiti stofnana: Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands

Tengiliður: Ágúst Valfells, av@ru.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

The infrastructure is comprised of an anechoic chamber, test equipment for radiated immunity (e.g. signal generator, RF power amplifier, field probes etc.), test equipment for conducted  immunity (e.g. power sensors, attenuators, etc.), radiated emissions (test receiver, pre-amplifiers and antennas), conducted emissions (e.g. current probe, line impedance stabilization network etc.). This equipment is sufficient to conduct tests for full electromagnetic compliance in  accordance with CE and FCC requirements. It would also be a useful complement to experimental facilities in electromagnetism that are already in place in Iceland.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

EMC compliance is a necessary criterion for getting CE and FCC approval for all new and current equipment on the market. The proposed infrastructure would give Icelandic companies that are engaged in research and development in electronics and communications a local platform for experimentation and verification, and most importantly, local competence in EMC testing and certification. This would minimize costs and shorten time to market for established manufacturers, and remove a giant hurdle for startups and smaller developers to marketize their products. This infrastructure would also serve as a basis for training and employing EMC specialists in Iceland that can offer their services to domestic and foreign clients. 

Secondly, the EMC chamber will play an important role in the scientific research conducted at Icelandic universities, especially in terms of high-frequency measurements of antennas and antenna systems but also material properties. EMC chambers are typically used for measurements such as radiated immunity, to make sure that the equipment under test operates satisfactorily when subject to a strong radiated electromagnetic field. Notwithstanding, it has been found recently that EMC chambers can be used to measure material properties such as absorption cross section (ACS), specific absorption rate (SAR), average absorption/reflection coefficient, permittivity, or total scattering cross section (TSCS). These sorts of tests are essential in many practical applications, including wearable and implantable antennas and sensors. Furthermore, the EMC chamber can be used to measure material properties such as absorption cross section (ACS), specific absorption rate (SAR), average absorption/reflection coefficient, permittivity, or total scattering cross section (TSCS). These sorts of tests are essential in many practical applications, including wearable and implantable antennas and sensors. Furthermore, the EMC chamber can be used to measure the shielding effectiveness (SE), calibrate E-field probes, but also to quantify the complete passive over-the-air (OTA) performance of multiport antennas for multiple-input multiple-output (MIMO) systems, essential, e.g., for the emerging area of 5G wireless communication. Overall, the availability of the EMC chamber will greatly extend the experimental base in Iceland in terms of high-frequency engineering and permit measurement procedures that are beyond the capabilities of current equipment (e.g., standard vector network analyzers and the 1-40 GHz anechoic chamber).

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

As of today there is no comprehensive infrastructure in Iceland for testing electromagnetic compatibility. Icelandic companies must go abroad for EMC testing, which is a costly and time consuming process. There is, however, considerable competency in electromagnetic research and experimentation, particularly with regard to antenna development at Reykjavík University. 

The proposed infrastructure would offer a common facility for EMC testing and verification that would be useful for all electronics and communications businesses in Iceland as well as the universities. In addition, the expertise developed around these facilities would be of great value. Not least because it could be used for dissemination of EMC competency and awareness among designers and researchers alike. This is of paramount importance as requirements on EMC are becoming more stringent and ubiquitous. This infrastructure would serve as a vehicle to educate Icelandic engineers in EMC compliance, giving them an important competitive advantage.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Companies that are engaged in manufacturing electronic and communications devices spend considerable time and money on compliance testing. This is often an iterative process that requires several testing phases. The cost of a failed compliance test includes not only the repeated travel, design and test costs; but also the lost time may give a competitor first entry to the market. 

EMC testing is important for all electronics manufacturers, but for start-ups and smaller companies it can be an immense obstacle. It will be imperative for small companies to be able to consult with local EMC experts and conduct tests without associated travel costs and time allocated during the design process.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

If the Icelandic economy is to be competitive in communications and electronics it is necessary to be up to date and compliant with CE and FCC standards. Currently, we are dependent on foreign expertise and facilities for testing. As a result awareness and expertise in design for EMC is sorely lacking. This proposed infrastructure offers means to build up facilities and expertise in a field that is a crucial part of the knowledge-based economy.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

For the first three years, the facilities would be used for pre-compliance testing, as three years worth of testing data are needed for full compliance certification. This time would also be used for training of users from industry and academia based on currently available expertise in electromagnetics at Reykjavík University, University of Iceland and from industry. This would be the first step in developing local expertise and testing capabilities.

Once full compliance certification is achieved, the facilities will be open to users, both domestic and foreign. It is assumed that founding members will be given reduced price, priority access or other incentives to take part in the original investment. This is a matter of negotiation for a later stage. 

It is assumed that participating universities will cooperate to offer education in the field of EMC.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

The investment cost for this equipment is roughly 800,000 Euros. Annual operational costs are estimated to be roughly 20,000,000 ISK and include calibration, salaries and rent. 

A survey of four major players in the Icelandic electronics industry indicates that their combined annual cost of EMC compliance testing is upwards of 20,000,000 ISK. This does not include all of the companies in the field, nor does it take into account tests that are not performed because of cost of testing. From these considerations the revenue from domestic testing should easily cover operational costs. A more detailed analysis of domestic, and foreign, revenue is needed as well as an estimate of the economic advantage of developing local expertise in EMC design and manufacturing.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Not applicable at this time.

Loftslagshlutlaust háskólasvæði - Climate-friendly university campus

Heiti stofnana: Landbúnaðarháskóli Íslands,  Háskóli Íslands - Menntavísindasvið, Háskólinn í Reykjavík - Iðn- og tæknifræðideild

Tengiliðir: Ragnheiður I Þórarinsdóttir, ragnheidur@lbhi.is , Jakob Frímann Þorsteinsson, jakobf@hi.is, David Christian Finger, davidf@ru.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

The Agricultural University of Iceland (AUI), University of Iceland (UI) and Reykjavik University (RU) propose to create a carbon-neutral university campus as a demonstration case of a carbon-neutral society for policymakers, concerned citizens, visitors, researchers, and students. The project involves the implementation of carbon low and carbon-neutral technologies (renewable energies, carbon low transportation) and carbon sequestration projects (forestation and wetland restoration) to ensure carbon neutrality. For this purpose, AUI, UI and RU propose to develop a research, innovation and teaching campus where the above mentioned measures can be implemented and used for research and teaching purposes. For instance, the campus should be energetically self-sufficient, by using renewable energies, such as a small scale hydropower or geothermal energy sources, or small wind power, as well as the potential for C sequestration through forestation and wetland restoration. Further activities, including circular economy, green-blue technologies, waste recovery, and water treatment will be implemented as the project proceeds. All subprojects should be accessible to scientists for research purposes, for students for teaching purposes and to the general public for outreach purposes.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

The main objective of this project is to create a carbon-neutral university campus that fulfills the following purposes:

  1. Provide an innovation site to test, improve, optimize renewable energy technology (e.g. small scale hydropower, small geothermal source). 
  2. Provide a research site to monitor, improve, optimize carbon sequestration projects (e.g. forestation, wetland restoration). 
  3. Provide a demonstration site for teaching purposes to provide students hands-on training in renewable energy technologies. 
  4. Provide a demonstration site for carbon sequestration projects to provide students hands-on training in monitoring carbon sequestration through forestation and wetland restoration. 
  5. Develop a demonstration site for the general public to illustrate a carbon-neutral society.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Carbon neutrality can only be reached if the engineering sector, the agricultural sector, the society, and the politics work together. This proposal suggests a demonstration site where experts from all sectors can come together to discuss solutions towards a carbon-neutral society and test innovative solutions on small scale research plots. The nature of the project is based on a strong collaboration between all the above-mentioned sectors, with the expertise of RU in the engineering sector, UI in the outreach sector and AU in the agricultural sector. The universities intent to collaborate with a wide network of relevant stakeholders.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

About half of the world's greenhouse gas emissions are attributed to the agricultural sector while the rest comes from engineered technology. Currently, there is a very limited exchange between agricultural scientists and engineering scientists. A joint carbon-neutral university campus will bring expertise from the agricultural sector together with experts from the technical side. A collaboration between the two sectors is essential to aim at a carbon-neutral society.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Domestic energy production in Iceland is almost entirely renewable. Nevertheless, the ecological footprint per capita in Iceland is with over 6 earth (more than 6 earths would be necessary to sustain the use of the resources in Iceland) one of the highest worldwide. This challenging paradox can be addressed through the suggested project. Through interdiciplinary research this project will provide solutions to become more sustainabel, provide a university campus for reserachers and studntes and build awarnes among the general publis. Finally the project indends to provive evidence based reserach to poicy makers to help carbon neutrality by 2040.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

The idea is to start with one of the small university campus owned and operated by AUI in Hveragerði and/or Hvanneyri, and to start with small scale research projects: i) a small scale
hydropower and windpower unit, ii) monitoring of a nearby geothermal source, iii) assessment of carbon sequestration in a forestation plot, and iv) monitoring of emissions from a restored wetland. These projects will be monitored and accompanied by research and teaching activities. During the next 5 years, the four above mentioned projects should be fully functional. Research should continuously improve the efficiency of these projects.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára 

Below are some very rudimentary estimates:

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Similar pilot projects exist across entire Europe, but no such initiatives exist in Iceland. Such
projects are extremely helpful to provide a basis to participate in the European Green New
Deal and Circular economy projects. Iceland could convincingly argue that Iceland is doing
pioneer work in researching a carbon-neutral society. RU has been collaborating with Austrian
partners on similar demonstration projects in Austria. Below is a link to the climate-resilient
regions in Austria: https://www.klimaundenergiemodellregionen.at/

Innviðir fyrir ferskvatnsrannsóknir

Heiti stofnana: Háskóli Íslands, Hafrannsóknastofnun, Tilraunastöðin að Keldum, Stofnfiskur hf., Kópavogsbær, Rannsóknastofan á Mývatni, Háskólasetur Vestfjarða ses.

Tengiliður: Zophonías Oddur Jónsson, zjons@hi.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Icelandic freshwater systems (lakes and rivers, and the species inhabiting them) and their connected near shore marine habitats are profoundly important for the economy of Iceland and wellbeing of its citizens. Given that the Earths' climate is rapidly changing due to  human actions, it is fair to assume that these systems will be affected and the very existence of some of the species inhabiting them may be threatened. Thus, there is an urgent need to conduct fundamental research, e.g. by gathering ecological, genomic, evolutionary, developmental and molecular data on key species, and couple that with applied research on the natural resources of these systems. Moreover, we need to establish long term monitoring programs in order to generate the necessary data to predict and mitigate the effects of climate change on these systems. Last but not least it is essential to strengthen the scientific basis for sustainable farming of aquatic species using new and innovative approaches such as genome editing (CRISPR-Cas system). To answer these needs we propose to connect researchers and infrastructure alike in a central aquatic research hub, where we can share equipment, exchange ideas, experience and expertise. The research hub will need access to a variety of equipment and facilities for aquatic research and monitoring of the biodiversity in Icelandic lakes, rivers, ground water and connected marine habitats, e.g. 1) field equipment such as boats, gill nets, various loggers, underwater and regular drones etc., 2) acoustic telemetry equipment for routine monitoring of ecologically and economically valuable fish species, 3) embryonic rearing facilities for cold temperate fish to study fundamental ecological, developmental and evolutionary processes and the effects of changing environment on the survival, development and growth of economically important fish species, and well equipped laboratories in 4) molecular genetics, e.g. to adapt the technique for genome editing to nonmodel organisms, such as salmon, trout and charr, 5) improved facilities for pathology and epidemiology to address fundamental questions on infections and parasitism in natural and domesticated species and the effects of rising temperatures on endemic and exotic pathogens diversity and prevalence, and 7) aquatic ecotoxicology.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Our overall aim is to connect existing infrastructure and build up facilities in key areas for aquatic research and innovation to address questions in fundamental research and tackle the short and long term effects climate change and various other anthropogenic activities will have on Icelandic marine and freshwater systems. The specific goals for such facilities are to: 1) gather ecological, genomic, developmental, evolutionary and molecular data on the biota inhabiting Icelandic freshwater systems 2) address scientific questions in different fields of biology (ecology, evolution, speciation, developmental and molecular biology) 3) model the anthropogenic and climate change effects on freshwater biodiversity 4) use the data for establishing conservation plans 5) develop strategies for sustainable aquaculture of important economic species, 6) use the data in biology teaching at high school and university level, 7) help to raise awareness of the anthropogenic and climate effects on Icelandic freshwater systems.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

This proposal is developed in collaboration with scientists from the University of Iceland,  the Marine and Freshwater Research Institute, the Institute for Experimental Pathology (Keldur), Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn and Stofnfiskur. Although our goals and research interest are different, we have one thing in common, we all work on Icelandic freshwater or marine systems and/or the different species inhabiting them. We use similar equipment and techniques to address a range of different questions to meet different challenges. Creating a hub for aquatic research will strengthen further the already existing collaborations by helping to map out current and future research projects, monitoring goals, available equipment and expertise. We will be able to apply together for infrastructure funding, exchange ideas and work on future collaborative projects. Although most of the equipment and research facilities are and will not be located at the same place, collecting the information on what equipment exists and its availability will undoubtedly lead to better use of these resources. This facility will be open to other researchers in these fields in the country.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

The available equipment for aquatic research is spread in several institutions/locations and assigned to various projects. We propose to map out which  equipment/instruments/systems are most crucial, and can benefit a range of researchers. We intend to establish a database with all existing equipment and infrastructures for freshwater aquatic research, their locations, availabilities and terms of usage. We are hoping to hire a coordinator who will create the database, make it publically available, and implement with the help of the board rules for utilization of the equipment. During the preliminary discussions we have formulated a list of improvements and equipment that needs to be updated or added. This partial list includes: 1) Receivers, antennas and batteries for Acoustic telemetry. 2) Improved rearing chamber facilities for freshwater and marine species (to conduct experiments on embryos, and microscopic organisms), 3) improved facilities for conducting rearing of larger fish/species to study infections (needs designated facilities), 4) improved facilities of ecotoxicology and physiological analyses 5) genome editing facilities for marine species and salmondis...

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Creating the aquaculture hub will allow us to meet at least three important social challenges relating to the environment, the economy and public health. The first and foremost social challenge the aquatic research hub will meet concerns environmental issues: fundamental research, active monitoring and modelling of past and future environmental  challenges, coupled with conservation plans and active involvement in creating climate change mitigation strategies and environmental policies will increase the robustness of Icelandic freshwater systems to changing environments. The second social challenge the aquatic research hub will meet concerns the economy. Although the Icelandic economy is largely based on fisheries and tourism and recreational fishing and aquaculture representing a much smaller fraction of the GDP, ensuring the health of freshwater reservoirs and their inhabitants is of utmost importance for both of these sectors. The third social challenge we hope to meet concerns public health. The majority of salmon consumed in Iceland comes from aquaculture. Ensuring sustainable aquaculture through selective breeding and genome engineering will minimise the need for using antibiotics when dealing with common diseases. Moreover, generating and using unfertile aquaculture strains make it impossible for escapees from aquaculture farms to interact with wild fish populations and thus avoid environmental disasters.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Freshwater aquatic research in Iceland is quite advanced when it comes to basic research in ecology, evolution, parasitology, developmental and molecular biology. The monitoring efforts however lag behind. Acoustic telemetry for example was developed in the 1970s and its use started to gain traction in the early 2000s. Nowadays, acoustic telemetry is routinely used around the world in research, monitoring and fish stocks management, but in Iceland it is still in its infancy. There is very limited equipment of this sort available in the country, but the opportunities it offers in research are countless. We are hoping to establish a long term acoustic telemetry monitoring of different fish species and use the data in both research and in conservation. Another area where we are lagging behind other Nordic countries is the establishment genome editing techniques for salmonids needed for both fundamental research and aquaculture. Although establishing the technique may take time, we are hoping it will not be very difficult as CRISPR-Cas is well established in Iceland and it is routinely used by researchers in the biomedical canter (BMC) of The University of Iceland in their work with model organisms.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

We will be seeking funding for full time salaries for a coordinator (10 million ISK) who will be in charge of mapping all existing equipment and infrastructure for freshwater aquatic research. She/he will also be in charge of managing the access, applying for funding in Iceland and internationally for new equipment, helping people to exchange ideas and find collaborators with the necessary expertise. Other expenses will most likely vary from year to year, for example monitoring of fish using acoustic telemetry will cost about 15-20 million to set up. This will need to be done in the first year to allow for long term monitoring to begin. Some of the infrastructure has already been purchased (cabinets for rearing fish embryos), but the system has not been set up. Some expenses are hard to predict and will only come to light once the available equipment is mapped and it is established what are the needs are for installing existing equipment and purchasing new one. A rough estimate will be 20 million ISK per year for this for the next 5-10  years.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

For the acoustic telemetry monitoring we will be working with Dr. Gustav Hellström, Associate professor from the Swedish University of Agricultural Sciences. Gustav specializes in research on fish behaviour, management and conservation. He has extensive experience in fish telemetry, and has pioneering the use of fish tracking technology in such diverse field as hydropower, ecotoxicology and social network. Gustav and his lab are currently studying Arctic charr and brown trout behaviour in Scandinavian lake systems. Behavioural data collected from Icelandic lakes will allow for a powerful comparative approach to identify common behavioural denominators characterising different salmonid species across the Nordic distribution range. For the genome editing we are hoping to establish a collaboration with CRISPRsalmon at the Norwegian University of Science and Technology and together with the biomedical center (BMC) in Iceland we are hoping to make genome editing available for use in salmonid species.

Improved facilities for aquatic research in Iceland

Heiti stofnana: Háskólinn á Hólum, Háskóli Íslands - VON, University of Glasgow, University of Wisconsin, EAWAG

Tengiliður: Bjarni Kristófer Kristjánsson, bjakk@holar.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Hólar University (HU), Department of Aquaculture and Fish Biology (DAFB), has built up extensive aquatic research facilities. Their main location is Verið, Sauðárkrókur (in collaboration with FISK Seafood). The facilities enable freshwater and marine research (FWSW) by housing incubation and rearing tanks of various sizes, five thermally insulated rooms, and providing direct access to wet, dry and molecular genetic laboratories. Furthermore, DAFB has established centers for ecophysiology and behavioral research. These facilities are complemented by the Arctic charr breeding station in Hólar, which services >90% of the Icelandic Arctic charr industry. Lastly, DAFB owns various equipment for field research and a large-scale setup for mesocosm experiments.

Although the HU facilities are of high quality, they need improvement to enhance both quality of research and animal welfare. This will ensure that FWSW meet current technological advances and can support internationally competitive research. Here, we outline a plan that enables significant development of HU aquatic research facilities, which opens various possibilities for state-of-the-art research and extended Icelandic and international collaborations.

A – Improvements on FWSW facilities will focus on environmental monitoring and control, allowing for safer, more precise and more flexible experiments. This monitoring equipment allows for real-time tracking of important parameters in the experimental units and thus for rapid intervention when needed. Further investment will encompass computer-connected valves and the advancement of existing recirculation system facilities and the improvement of the insulated rooms for control of temperature and light. 

B – Improving research facilities at the breeding station will allow for large-scale research on charr aquaculture. With growing charr industry, there is an increased need for research targeted at improved genetic selection and farming technologies, which together promote higher quality products and improved animal welfare. We will expand the station by building a research wing with similar environmental monitoring and control as described in A.

C – Development of (i) outdoor facilities in Hólar for controlled experiments mimicking wild conditions and (ii) improved field equipment. This includes service facilities for existing mesocosm set up and the construction of permanent artificial stream channel for research on stream organisms. These will allow e.g. for detailed estimates of behavior and growth, under contrasting environmental conditions, in a replicated and standardized manner. We will improve field gear, including new equipment to track fish in natural conditions, e.g. PIT tags and corresponding equipment (antennas and readers) to detect tags. This equipment coupled with artificial stream channel will provide a platform for improved knowledge on the behaviour and population dynamics of juvenile stream fish.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

There is a growing need in Iceland for improved research on aquatic organisms to theoretical, empirical and applied research questions. An example of the applied approach is aquaculture research. In this fast-developing industry there are several important research avenues, e.g. to develop adequate rearing systems, provide high-quality juveniles through selective breeding and management protocols for more sustainable aquaculture programs. Examples of empirical research are studies on biodiversity and behavior of aquatic organisms, which receive increased attention in the face of climate change and other conservation issues. The above described studies have been the focus of DAFB research. Our vision is to improve the facilities to be able to conduct higher quality and broader, thereby attracting both Icelandic and international collaborators. This will address important research questions for today's society, e.g. related to food and water safety, climate change, environmental sustainability and conservation; in line with the sustainability goals of the United Nations and the research policy of DAFB (https://www.holaraquatic.is/research-policy.html). 

The improved infrastructure will facilitate multi-disciplinary research projects at one site. Also, the development of the outdoor facilities (see C above) will allow studies of aquatic systems under close-to natural conditions, which is currently unavailable in Iceland. Finally, the development of environmentally controlled experimental units, with and without recirculation systems for freshwater/brackish/saltwater, will allow studies on farmed fish according to current demand for sustainable aquaculture.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

The success of DAFB and HU has for many years been characterized by good national and international collaboration. The existing and improved infrastructure will expand the research scale and possibilities at DAFB, to further develop and diversify the collaborations; and support the department's educational programs.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

This added infrastructure will greatly contribute to DAFB research advances, including the development of more economical and sustainable aquaculture studies, as well as higher quality ecological, evolutionary and conservation research for aquatic organisms. Furthermore, environmental monitoring and control of existing aquatic research facilities will improve experimental success rate, data quality, and the ability to more clearly interpret results and improve animal health and welfare. To date, no artificial stream channels exist in Iceland. Such channels will open vast opportunities for basic research on the behavior and population dynamics of stream fish (and potentially invertebrates), and for practical experiments e.g. on the interaction between wild fish and aquaculture fish. Also, because it is illegal to move fish among watersheds in Iceland, this system will finally allow for pure experimental comparisons among stream populations in close-to natural conditions.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Modern societies face growing challenges of which work at DAFB approaches 11 sustainability goals out of 17 defined by the UN. 

For example, DAFB has been leading the development of Icelandic aquaculture (goal 2, 3 and 12), foremost on Arctic charr. The infrastructure build-up will provide crucial facilities to further improve aquaculture production, quality and animal welfare, while minimizing its environmental impact. Another example is the extensive DAFB research targeted at understanding origin and maintenance of diversity in aquatic habitats (goals 6, 13, 14 and 15). The suggested development will elevate the ability in mapping and understanding diversity in nature, thereby improving harvest and conservation, education of the public and meeting up-to-date technological requirements, especially in relation to questions on climate change. Enhanced infrastructure at HU also improves the education of undergraduate and graduate students, through improved facilities for training and student projects.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

HU, and especially the DAFB, has grown fast recently, documented by increased numbers of funded research projects, research publications, faculty and students and the diversity of domestic and international collaborations. 

The infrastructure build-up will allow us to develop outstanding and unique facilities in Iceland that meet the current technological standards. We envision that HU will have state-of-the-art facilities at the forefront of applied and empirical research on aquatic organisms, welcoming domestic and international collaborators. Improved facilities will allow for better quality, security and visibility of the research at HU resulting in increased collaboration. 

We envision the facility development to proceed in defined steps during 5 – 10 years, which depend on external funding. Phase 1 – Improvement of our existing FWSW facilities (in Verið). This work will be divided into three sub-phases: A - improvement of monitoring equipment and environmental control. B – Further development of recirculation facilities. C – Improvement of insulated rooms. (This phase is expected to take 2 – 3 years). Phase 2 – Build-up of research facilities in Hólar. This phase is divided into two sub-phases: A – Building of a research wing. B – Setting up research units and monitoring and control equipment. This phase is expected to take 2 years (and will be conducted following phase 1). Phase 3 – setting up improved facilities for outdoor experiments. This phase is divided into three sub-phases: A – Building of service facilities for mesocosm setup. B – Construction of permanent artificial streams. C - Improving field equipment. This phase is expected to take 2 - 3 years, concurrently with Phase 1 and 2. 

Since the opening of Verið (in 2004) HU has gained an enormous experience in running the research facilities and has hired and trained good research technicians for its operation. DAFB has developed a model calculating cost and running of facilities, which will be extended accordingly.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Below are cost estimates for the described infrastructure development at DAFB (not based on detailed financial offers). Costs would be applied partly to the infrastructure fund, partly self-provided and partly secured through other means. In the online document the higher numbers are expressed.
Phase 1 – sub-phase A – Monitoring and environment control equipment: 8 – 15 million ISK
Phase 1 – sub phase B – Improving recirculating facilities: 5 – 10 million ISK
Phase 1 – sub phase C – Improving of insulated rooms is 4 – 8 million ISK
Phase 2 – sub phase A – Building the research wing: 35 – 50 million ISK (externally acquired)
Phase 2 – sub phase B – Research units and monitoring equipment: 10 – 15 million ISK
Phase 3 – sub phase A – Improving facilities for mesocosm experiments: 5 – 8 million ISK
Phase 3 – sub phase B –Building artificial streams: 15 – 25 million ISK
Phase 3 – sub phase C – Improving field equipment: 3 – 5 million ISK

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

The suggested build-up of infrastructure connects well with international collaborators of DAFB, where similar facilities have been established, allowing for comparative research in similar experimental setup across countries.

EPOS ÍSLAND

Heiti stofnana: Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands, Landmælingar Íslands

Tengiliður: Kristín Sigríður Vogfjörð, vogfjord@vedur.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

EPOS ERIC (https://www.epos-ip.org/) eða European Plate Observing System eru evrópsk  rannsóknarinnviðasamtök (European Research Infrastructure Consortium) sem miða að uppbyggingu evrópskra rannsóknarinnviða í jarðvísindum og rekstri þeirra til framtíðar. Ísland, undir forystu Veðurstofunnar hefur verið þátttakandi í verkefninu frá upphafi (síðan 2010) og hefur þegar hafið uppbyggingu rafrænna þjónusta sem veita aðgengi að jarðvísindagögnum. Aðrir Íslenskir þátttakendur frá upphafi eru Háskóli Íslands og Landmælingar Íslands, en stefnt er að þátttöku fleiri íslenskra jarðvísindastofnana. Nú þegar eru þrettán eldfjalla og GPS gagnaþjónustur aðgengilegar á vef Veðurstofunnar ( https://docs.vedur.is/api/epos/#/ ) og unnið er að uppsetningu þjónusta sem veita aðgengi að jarðskjálftagögnum ásamt því að koma meiri gögnum, sem og gögnum frá fleiri mælistöðvum inn í þjónusturnar. 

Hér er lagt til að sett verði upp innviðaverkefnið EPOS Ísland, til að standa að þessari innviðauppbyggingu og rekstri til framtíðar. Til að tryggja að svo geti orðið er þörf á verulegri fjárfestingu í öflugum vélbúnaði og þróun rekstrarferla til að viðhalda þjónustunum til framtíðar, því eftir því sem gagnamagnið eykst verða rafrænu innviðirnir að eflast verulega til að geta veitt óhindrað aðgengi að gögnunum.

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum?

Tilgangurinn með EPOS er að efla evrópska jarðvísindasamfélagið og styrkja vísindarannsóknir í álfunni með því að byggja upp samtengda evrópska rannsóknainnviði í jarðvísindum og auðvelda þannig sérfræðingum og öðrum hagsmunaaðilum aðgengi að fjölþáttamæligögnum, afurðum, þjónustum, rannsóknarstofum og reiknisetrum á sviði jarðvísinda sem fram til þessa hafa ekki verið aðgengileg með einföldum hætti. Þar með skapast nýir möguleikar á þverfaglegum vísindalegum rannsóknum sem taka til mismunandi sviða, þ.m.t. jarðskjálfta og eldgosa og þeirri vá sem þau skapa. EPOS Ísland mun byggja upp rafræna innviði til að veita aðgengi að íslenskum jarðvísindagögnum og tengjast EPOS ERIC gagnaþjónustunum. 

EPOS samstarfið hófst sem ESFRI (European Strategy Forum on Research Infrastructure) verkefni á evrópska vegvísinum og heldur áfram síðan í nóvember 2018 sem EPOS ERIC rannsóknarinnviðasamtökin. Síðan í febrúar 2020 hefur Ísland verið fullgildur aðili að samtökunum. Þátttakan er undir forystu Veðurstofunnar, en Háskóli Íslands, og Landmælingar Íslands eru virkir þátttakendur í samstarfinu. EPOS inniheldur fjölmargar undirþjónustur eða faghópa og er Ísland þátttakandi í þremur þeirra, Eldfjalla, nær-sprungu og GPS þjónustum. Gagnaþjónusturnar sem þegar hafa verið byggðar á Veðurstofunni flokkast undir faghóp í eldfjallafræði og faghóp um GPS gögn. Aðrir innviðir sem stefnt er að tengja við í framtíðinni er gjóskulagagrunnurinn ASKA, íslenska eldfjallavefsjáin og jarðskjálftamælabankinn Loki.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða?

Með eflingu gagnaþjónustanna, gæðayfirferðar gagnanna og stöðlun gagna og lýsigagna, er unnin nauðsynleg vinna til að tryggja ásættanleg gagnagæði fyrir rannsóknir og tryggt til framtíðar opið aðgengi fyrir alla að ómetanlegum jarðvísindagögnum frá Íslandi tengdum jarðskjálftum, aflögun jarðskorpunnar, kvikuhreyfingum og eldgosum ásamt gas- og öskudreifingu frá þeim, en Ísland, verandi á flekamótum, er eitt virkasta svæði Evrópu. Innanlands mun uppbygging inviðanna efla jarðvísindamenntun jafnt sem rannsóknir og alþjóðlega mun uppbyggingin efla stöðu íslensks jarðvísindafólks til þátttöku í alþjóðlegum verkefnum. Á meðan ekki er gengið frá gögnunum á ásættanlegan hátt, þau gæðayfirfarin, komið á staðlað form og í grunna þar sem öflugar gagnaþjónustur viðhalda aðgengi til lengri tíma, verða gögnin að miklu leyti einungis aðgengileg fólkinu og stofnuninni sem safnaði þeim.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Uppbyggingin mun styrkja stöðu Íslands innan EPOS ERIC samtakanna og auðvelda aðgengi að og hlutdeild í evrópskum og öðrum erlendum rannsóknastyrkjum. Hún mun einnig veita opið aðgengi fyrir alla að fjölþátta jarðvísinda og eldfjallagögnum sem í dag eru ekki aðgengileg nema fáum einstaklingum innan aðildarstofnananna og þá oft með mikilli fyrirhöfn til að gera gögnin rannsóknarhæf. Gagnaaðgengið og þjónusturnar munu nýtast við kennslu, rannsóknir, jarðváreftirlit, viðbragðsaðilum, stjórnvöldum og hagsmunaaðilum eins og orkufyrirtækjum.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir?

Á Íslandi verða að jafnaði 2-3 eldgos á hverjum áratug og fjöldi stórra jarðskjálfta á hverri öld. Í hvert sinn sem stórir jarðskjálftar eða eldsumbrot verða byggja viðbrögð á úrvinnslu og þekkingu frá fyrri atburðum. Ef gögnin frá þeim atburðum eru ekki tilbúin fyrir úrvinnslu þegar með þarf og eða þjónusturnar eru ekki nógu öflugar til að tryggja ótruflað aðgengi, þá nýtast þau takmarkað við mat á vánni og á líkindum um þróun atburðarins í tíma og rúmi. Uppbyggingin mun efla menntun ungs jarðvísindafólks, efla eftirlit með jarðvá, auka opna upplýsingamiðlun til stjórnvalda, fagaðila, eftirlitsaðila og almennings.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Þátttökulöndin í EPOS ERIC greiða aðildargjald að samtökunum, en gjöldin og mótframlög fjögurra leiðandi stofnana innan samtakanna standa undir kostnaði við rekstur ásamt þróun og viðhaldi miðlægrar kjarnaþjónustu sem tengist öllum þjónustum einstakra aðildarlanda og veitir þannig aðgengi að öllum þeim gögnum og afurðum sem innan vébanda EPOS ERIC eru. Hvert þátttökulandanna stendur sjálft straum af kostnaði við mælingar og rekstur mælineta, af gagnasöfnum og gæðaeftirliti þeirra ásamt rekstri gagnaþjónusta sinna, en EPOS samtökin greiða stjórnunar og fundakostnað fyrir starfandi faghópa (Thematic Core Services, TCS). Ennfremur er reiknað með að samtökin muni greiða hluta rekstrarkostnaðar einstakra mikilvægra þjónusta faghópanna og munu þeir samningar væntanlega virkjast á næstu árum. Stærsti hluti uppbyggingar gagnaþjónusta mun samt sem áður að mestu leyti vera á forræði landanna sjálfra og þess vegna er mikilvægt að Innviðasjóður komi að uppbyggingunni. Til að núverandi 13 þjónustur á Veðurstofunni geti annað því aðgengi sem vænst er þarf mun öflugri vélbúnað ásamt þróun verkferla fyrir langtíma rekstur. Einnig þarf að framkvæma talsverða vinnu við að koma meiri gögnum og lýsigögnum á staðlað form og framkvæma gæðaprófanir á þeim. Á næstu 5-10 árum er áætlað að opna aðgengi að gögnum og lýsigögnum úr meirihluta bæði jarðskjálftamælanets (SIL) og GPS mælanets Íslands (ISGPS) ásamt afleiddum afurðum eins og jarðskjálftalistum fyrir alla skráða skjálfta á Íslandi. Ennfremur eldfjallagögnum eins og ösku- og gasmælingum, radarmælingum frá gosmökkum fyrir öll gos seinustu tveggja áratuga.

Til þess að trufla ekki innri starfsemi Veðurstofunnar eru núverandi þjónustur og gagnaafhendingar takmarkaðar. Uppbygging á sér vélbúnaði (skráamiðlara og netþjónum) til þess að keyra þjónustuna utan innra nets Veðurstofunnar myndi lágmarka þörf á takmörkunum og auka afkastagetu til gagnamiðlunar.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára

Áætluð fjármögnunarþörf næstu 5-10 ára er um 45 milljónir ISK í stofn- og uppsetningar-kostnað að viðbættum um 25 milljónum ISK á ári í rekstrarkostnað. Lagt er til að Innviðasjóður komi að töluverðu leyti að þessari fjármögnun ásamt aðildarstofnunum EPOS Íslands.

Tafla sem sýnir gróflega áætlun fyrir fjármögnunarþörf næstu 5-10 ára

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á

Á undanförnum tíu árum var EPOS á Evrópska vegvísinum, ESFRI um uppbyggingu  rannsóknarinnviða, en þá voru tveir fyrstu fasar verkefnisins styrktir af ESB; fjögurra ára undirbúningsfasi og síðan fjögurra ára uppbyggingarfasi. Innviðasamtökin EPOS ERIC voru stofnuð í nóvember 2018 og síðan þá hefur bæst við þriggja ára sjáfbærnifasi sem hófst í febrúar 2020 og leiddur er af EPOS ERIC. Sjálfbærnifasinn er styrktur í gegnum Kall í Innviðaáætlun ESB og er Veðurstofan, fyrir hönd Íslands þátttakandi í verkefninu. Vænt er áframhaldandi rannsóknakalla í innviðaáætlun ESB og Horizon2020, þar sem Íslensku EPOS aðildarstofnanirnar eiga sterka möguleika til áframhaldandi rannsókna- og innviðastyrkjum. 

EPOS hefur þegar haft áhrif á tilvist tveggja stórra eldfjallafræðiverkefna, FUTUREVOLC (FP7, 2012-2016) leiddu af Háskóla Íslands og EUROVOLC (Horizon2020, 2018-2021) leiddu af Veðurstofu Íslands. Verkefnin og samstarf þessara tveggja stofnana hefur stóreflt stöðu Íslands í evrópsku rannsóknarsamstarfi og aukið bæði hlutdeild og fjölda rannsóknastyrkja til íslensks jarðvísindafólks. Í maí 2020 hófst þriggja ára norrænt innviðaverkefni NORDIC EPOS Hub, sem leitt er af Finnum og styrkt af NordForsk. Verkefnið miðar að uppbyggingu norræns samstarfs og netverks á sviði innviða og þjálfunar til að efla stöðu og hlutdeild Norðurlandanna innan EPOS ERIC. NORDIC EPOS Hub mun standa fyrir tveim sumarskólum á Íslandi sem fjalla munu um eldfjallaösku og dreifingu hennar í andrúmslofti. Ísland er einnig þátttakandi í samstarfi um stöðlun jarðskjálftagagna og samstarfi færanlegra jarðskjálftamælabanka á Norðurlöndum.

Krafla Magma Testbed (KMT)

Heiti stofnana: GEORG – Rannsóknarklasi í jarðhita, Háskóli Íslands - VON

Tengiliður: Hjalti Páll Ingólfsson, hpi@georg.cluster.is

Stutt lýsing á rannsóknarinnviðunum

Krafla Magma Testbed (KMT) verkefnið hefur það að markmiði að stofna og byggja upp alþjóðlega rannsóknarmiðstöð í jarðhita- og eldfjallafræðum á Kröflusvæðinu á Norðausturlandi. KMT og tilheyrandi rannsóknarinnviðir myndu stuðla að stórfelldum framförum á sviði eldfjallafræða, eldfjallavár og síðast en ekki síst, samspili eldfjalla og orkuvinnslu. Um er að ræða rannsóknarinnviði í allra víðasta skilningi þess orðs; allt frá rafrænum innviðum og gagnagrunnum, fasteignum og aðstöðu til rannsókna og tilrauna, sérhæfðum mælitækjum, búnaði og síðast en ekki síst, rannsóknarborholur niður í bergkviku, hinar fyrstu sinnar tegundar á heimsvísu. 

Krafla er einn örfárra staða í heiminum þar sem vitað er að hægt er að bora niður á bergkviku, líkt og sannaðist í IDDP-1 verkefninu, og svæðið allt eitt mest rannsakaða jarðhitasvæði í heiminum. Kröflusvæðið hefur verið vettvangur innlendra og erlendra rannsóknarverkefna frá því á áttunda áratug síðustu aldar og þangað streyma á hverju ári vísindamenn, nemendur og aðrir aðilar frá háskólum, rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum hvaðanæva að úr heiminum til þess að stunda þar rannsóknir. Áhugi vísindasamfélagsins á Kröflu og svæðinu öllu, helgast af þeim náttúrulegu aðstæðum sem þar eru fyrir hendi en ekki síður þeim rannsóknarinnviðum sem þar eru nú þegar til staðar og byggst hafa upp í tengslum við hina löngu jarðhitanýtingu á svæðinu. Það er samspil þessara aðstæðna, innviða og þekkingar sem skapa grundvöll fyrir stofnun alþjóðlegrar rannsóknarmiðstöðvar KMT í Kröflu.. 

Hver eru meginmarkmið með uppbyggingu á rannsóknarinnviðunum? 

Meginmarkmiðið með uppbyggingu á Krafla Magma Testbed og tilheyrandi rannsóknarinnviðum í Kröflu, er að efla þar alla aðstöðu til rannsókna og nýta enn betur þá innviði sem fyrir eru. Jafnframt er það yfirlýst markmið verkefnisins að stuðla að auknum samlegðaráhrifum þeirra fjölbreyttu rannsókna sem unnar eru á svæðinu. Ekki síður er það eitt aðalmarkmið KMT að styðja við áframhaldandi forystuhlutverk Íslands í alþjóðlegu samstarfi á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar á sviði jarðhitanýtingar og varna því að íslenskir vísindamenn dragist aftur úr í alþjóðlegum samanburði á þessu sviði. Þá er ljóst að koma rannsóknarmiðstöðvarinnar myndi efla atvinnulíf og byggðaþróun í Skútustaðahrepp og Norðurausturlandi öllu og styðja við aðra fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu, t.a.m. áform um frekari fjölnýtingu jarðhita á Kröflusvæðinu og í Bjarnarflagi og nýsköpun almennt á Norðausturlandi.

Hvernig mun innviðauppbyggingin leiða til aukins samstarfs og betri nýtingar innviða? 

Að baki Krafla Magma Testbed standa rúmlega 50 rannsóknarstofnanir, háskólar og fyrirtæki frá ellefu löndum. Í forystu verkefnisins eru auk GEORGs, Háskóli Íslands og Landsvirkjun fyrir Íslands hönd, vísindastofnanir frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Ítalíu og vaxandi áhugi frá löndum á borð við Mexíkó, Sviss, Japan og Kína. Að því leytinu til má segja að verkefnið sé nú þegar farið að leiða til aukins alþjóðlegs samstarfs á sviði jarðhitanýtingar, áður en hin eiginlega innviðuppbygging hefst. Hugmyndafræði KMT byggir á samstarfi og opnu aðgengi að rannsóknarinnviðum, hvort sem það eru tækjabúnaður eða gagnasöfn og hlutverk rannsóknarmiðstöðvarinnar yrði m.a. að hafa yfirsýn yfir allar rannsóknir á svæðinu, stuðla að betri og samræmdri nýtingu á fasteignum og aðstöðu til rannsókna sem nú þegar eru til staðar á Kröflusvæðinu og auka sýnileika rannsóknanna, bæði í nærsamfélaginu og á alþjóðavettvangi. Vel heppnuð innviðauppbygging í tengslum við KMT og ekki síður sýnileiki rannsóknanna og ávinnings þeirra er til þess fallin að auka samstarf á sviði jarðhitanýtingar og laða enn fleiri aðila til þverfaglegs rannsóknarsamstarfs og nýsköpunar. Auk þess er rétt að nefna að í október 2018 rituðuð 13 innlendir hagsmunaaðilar undir viljayfirlýsing þar sem þeir lýstu yfir eindregnum vilja til þess að stuðla að stofnun og uppbyggingu Krafla Magma Testbed.

Hverju mun uppbyggingin breyta miðað við stöðuna í dag?

Líkt og áður segir, er Krafla einn örfárra staða í heiminum þar sem vitað er að hægt er að bora í bergkviku, eins og sannaðist við borun á fyrstu djúpborunarholu IDDP verkefnisins þegar vísindamenn boruðu óvænt í kviku á tæplega 2.000 metra dýpi í leit að jarðhitavökva í  yfirkrítísku ástandi. Í dag eru engir sambærilegir rannsóknarinnviðir til staðar í heiminum líkt og þeir sem fyrirhugað er að byggja upp í tengslum við KMT. Rannsóknarborholur niður í kviku myndu gjörbylta skilningi vísindamanna á eldfjöllum, eldsumbrotum, jarðskorpuhreyfingum og orkuvinnslu úr jarðvarma. Fyrirhuguð uppbygging rannsóknarinnviða á Kröflusvæðinu er því afar metnaðarfull og sennilega án fordæma á Íslandi. Uppbygging hágæða rannsóknarinnviða á Kröflusvæðinu mun styðja við forustuhlutverk Íslands á sviðinu, auka áhrif Íslands í þróun alþjóðlegra rannsóknaráætlana með tilheyrandi styrkveitingum til íslenskra aðila og styðja áframhaldandi hágæða vísindarannsóknir og nýsköpun á Íslandi auk þess sem fyrirsjáanlegt er að innviðir á borð við þá sem fyrirhugaðir eru munu laða að sér ferðamenn en Kröflusvæðið er nú þegar einn vinsælasti ferðamannastaður á Norðausturlandi og upplifun ferðamanna af  orkuvinnslu þar mjög jákvæð.

Hvernig mun innviðauppbyggingin styrkja möguleika Íslands til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir? 

Fyrirhuguð innviðauppbygging í tengslum við Krafla Magma Testbed mun án vafa styrkja möguleika Íslands til að takast á við samfélagslegar áskoranir enda eru meginmarkmið KMT vísindarannsóknir á sviði umhverfismála og sjálfbærni. Líkt og áður segir þá er eldfjallavá og vöktun eldfjalla einn af hornsteinum KMT en rannsóknarborholur í kviku myndu gera vísindamönnum kleift að spá fyrir um hegðan eldfjalla og gefa þeim Íslendingum og hundruðum milljóna annarra jarðarbúa sem búa í nálægð við eldfjöll aukinn viðbragðstíma rísi aðstæður sem kalla á t.a.m. brottflutning fólks. Að sama skapi mun vel heppnuð innviðauppbygging í tengslum við KMT hraða þeirri þróun sem er að verða á sviði djúpborunar við jarðhitavinnslu. Hefðbundnar háhitaholur sem notaðar eru til vinnslu rafmagns eru í dag á bilinu 5-6 MW á meðan djúpborunarholur geta orðið allt að tíu sinnum aflmeiri.Orkuvinnsla með djúpborun gæti aukið afkastagetu jarðvarmavirkjana gríðarlega og aukið sjálfbærni þeirra stórlega en á sama tíma dregið úr landrýmisþörf hennar og umhverfisáhrifum. Gríðarlegar áskoranir felast í því að nýta þann jarðhitavökva sem fæst með þessum hætti en það er ekki á færi núverandi tækni enda aðstæður slíkar að hanna þarf og þróa vinnsluaðferðir og búnað frá grunni. KMT mun því taka þátt í átaki Íslands og íslenskra aðila að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð og stuðla að auknum skilningi okkar á eldfjöllum og umhverfisvá sem af þeim stafar og stuðla að notkun nýrrar tækni og nýsköpun í áframhaldandi sjálfbærri jarðhitavinnslu á Íslandi.

Framtíðarsýn uppbyggingar og reksturs til 5-10 ára

Krafla Magma Testbed hefur verið markaður líftími í a.m.k. 30 ár. Verkefnið er nú í  undirbúningsfasa sem hefur verið kallaður fasi 0 en í heildina er uppbyggingu innviðanna skipt upp í fimm fasa, þar sem fyrsti fasi er borun fyrstu rannsóknarholu niður í kviku og rannsóknir í tengslum við hana. Framtíðar rekstrarform og stjórn rannsóknarinnviðanna er til skoðunar sem hluti af undirbúningsfasa.

Áætluð fjármögnunarþörf til 5-10 ára 

Eins og fyrr segir hefur uppbyggingu KMT verið skipt upp í 5 fasa auk undirbúningsfasa. Fjármögnunarþörf hvers fasa hefur verið gróflega áætluð í milljónum dollara og mynd 1 hér að neðan lýsir uppsafnaðar fjármögnunarþörf KMT.

Uppsöfnuð fjármögnunarþörf KMT

MYND 1: UPPSÖFNUÐ FJÁRMÖGNUNARÞÖRF KMT FYRSTU 5 FASAR AUK UNDIRBÚNINGSFASA

Gróf áætlun á heildarfjármögnun KMT er um 100 M$ eða um 13 milljarðar króna miðað við
núverandi gengi. Fjármögnunarþörf undirbúnings og fyrsta fasa er áætlaður 25M$ eða í kringum 3 milljarðar króna. Aðstandendur verkefnisins hafa kynnt það m.a. fyrir stjórnvöldum á Íslandi, NERC (the Natural Environment Research Council) í Bretlandi og EPOS-Italy. Þessir aðilar hafa tekið jákvætt í hlutafjármögnun á undirbúningsfasa verkefnisins ef skipulagt alþjóðlegt samstarf og heildarfjármögnun á þessum þætti verkefnisins næst.

Lýsið áætlaðri tengingu við erlend innviðaverkefni ef við á 

Krafla Magma Testbed mun að öllum líkindum tengjast EPOS, the European Plate ObservingSystem með beinum hætti og verða hluti af þeirra netverki.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica