Umsóknarferli, mat og úthlutun
Umsóknarferli
Innviðasjóður auglýsir eftir umsóknum einu sinni á ári. Umsóknakerfið opnar að minnsta kosti 6 vikum áður en umsóknarfrestur rennur út. Aðeins er hægt að skila umsóknum á rafrænu formi gegnum umsóknakerfi Rannís. Aðgangur að umsóknakerfinu er í gegnum island.is. Ófullgerðum umsóknum verður vísað frá.
Hvaða viðaukar skulu fylgja umsókn?
- Lýsing á innviðum sem sótt er um.
- Verðtilboð. Athugið að verð miðast við upphæð án VSK.
- Staðfesting á mótframlagi. Mótframlag er ekki undanþegið VSK.
- Ferilskrá forsvarsmanns umsóknar og tengiliða meðumsækjenda.
- Staðfesting á þátttöku fyrir allar þær stofnanir sem standa að umsókninni.
Athugið að engin önnur fylgigögn skulu fylgja umsókn.
Mats- og úthlutunarferlið
Sérstakt fagráð metur allar umsóknir og gerir tillögu að úthlutun til
stjórnar Innviðasjóðs sem tekur endanlega ákvörðun byggða á almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs, úthlutunarstefnu sjóðsins sem
samþykkt er af vísindanefnd og tækninefnd Vísinda- og tækniráðs og fjárframlögum í sjóðinn.
Vinsamlegast athugið að umsækjendur eiga ekki undir
nokkrum kringumstæðum að hafa samband við stjórnarmenn eða fagráðsmenn
meðan mat umsókna fer fram. Brot á þessu ákvæði getur leitt til þess að umsókn verði
vísað frá.
Öllum fyrirspurnum skal beint til Innviðasjóðs, á netfang sjóðsins.
Hvaða atriðum eru öðrum fremur tekið mið af við úthlutun?
- Að innviðirnir séu mikilvægir fyrir framfarir í rannsóknum á Íslandi og fyrir rannsóknir umsækjenda.
- Að fjárfesting í innviðum skapi nýja möguleika til rannsókna og/eða
innviðirnir tengist verkefnum sem Rannsóknasjóður, markáætlun eða aðrir
opinberir samkeppnissjóðir styrkja.
- Að samstarf verði um nýtingu innviða milli stofnana eða milli stofnana og fyrirtækja með fyrirsjáanlegum hætti.
- Að áætlanir um kostnað og fjármögnun séu raunhæfar.
- Það styrkir umsókn ef innviðirnir auka möguleika á menntun og þjálfun á viðkomandi fræðasviðum og leiða til
nýliðunar meðal vísinda- og fræðimanna.
Innviðir sem komið er upp með styrk frá sjóðnum skulu vera aðgengilegir
öðrum rannsóknahópum eftir því sem svigrúm er til og skal sjóðnum gerð
grein fyrir hvernig aðgengi verður háttað.
Við mat fagráðs er umsóknum raðað í þrjá flokka:
- Í I. flokk fara umsóknir sem
fagráð telur að beri af og eigi að njóta forgangs í styrkveitingum úr sjóðnum.
- Í II. flokk fara umsóknir sem eru
styrkhæfar og ber að styrkja ef nægt fé er í sjóðnum.
- Í III. flokk fara umsóknir sem fagráðið
telur að ekki beri að styrkja.