Einstakur árangur Íslands í rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020

21.3.2022

Síðla árs 2021 gaf Rannís úr skýrsluna Þátttaka Íslands í samstarfs­áætlunum Evrópusambandsins 2014-2020. Í skýrslunni er meðal annars að finna upplýsingar um árangur Íslands í Horizon 2020, rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins. 

Markmið Horizon 2020 er að styðja við rannsóknir og nýsköpun með það að leiðarljósi að auka samkeppnishæfni Evrópu, skapa störf og stuðla að því að viðskiptahugmyndir komist á markað. Í áætluninni er lögð áhersla á þátttöku fyrirtækja, ekki síst lítilla og meðalstórra.

Horizon 2020 skiptist í þrjár meginstoðir, Öndvegisrannsóknir (Excellent Science), Forysta í atvinnulífi (Industrial Leadership) og Samfélagsáskoranir (Societal Challenges) sem skiptast síðan í undiráætlanir eftir viðfangsefnum. Rúmlega 90% af heildarfjármagni Horizon 2020 er ráðstafað til þessara aðalstoða. Sífellt er lögð ríkari áhersla á þverfaglegt samstarf og tók sú þróun stórt stökk í Horizon 2020 þegar horfið var frá því að nefna undiráætlanir eftir fræðasviðum en í stað þess talað um samfélagslegar áskoranir, þar sem ólík svið rannsókna eru leidd saman til að leita lausna þverfaglegra viðfangsefna.

Mynd 1: Styrkir í evrum á hvern íbúa.

Óhætt er að segja að árangur af sókn Íslands í áætlunina Horizon 2020 sé einstakur hvar sem litið er. Gott dæmi ef litið er á heildarárangur Íslendinga út frá því hve margar evrur renna til hvers íbúa, sjá mynd 1. Það fjármagn sem borist hefur hingað til lands nemur um tæpum 400 evrum á hvern Íslending (m.v. fólksfjölda árið 2020). Árangur Íslands er því töluvert betri en þeirra samanburðarlanda sem litið er til; á eftir Íslandi kemur Noregur með rúmar 316 evrur á hvern íbúa og Lúxemborg með 319 evrur. Meðaltal ESB er svo umtalsvert lægra eða 135 evrur á hvern íbúa.

Þegar skoðað er nánar hvernig styrkir skiptast á mismunandi hluta Horizon má sjá að árangur Íslands stenst vel samanburð við önnur ríki. Árangur Íslands er afgerandi þegar litið er til styrkja úr þeirri stoð áætlunarinnar sem snýr að samfélagslegum áskorunum, en þaðan hafa styrkirnir numið tæplega 85 milljónum evra, sem er tæplega 59% alls þess fjármagns sem komið hefur til Íslands úr Horizon 2020, eða sem samsvarar 231 evru á hvern Íslending.

Mynd 2:  Styrkir í evrum á hvern íbúa skipt eftir stoðum Horizon 2020.

Enn eitt dæmið um frábæran árangur Íslands er fjöldi umsókn en alls hafa verið sendar inn 1517 gildar umsóknir með íslenskri þátttöku. Ísland hefur fengið stuðning vð 299 verkefni sem er tæplega 20% árangurshlutfall sem telst vera hátt. Framlög til íslenskra aðla hafa numið ríflega 144 milljónum evra sem dreifast til 386 íslenskra þátttökutilvika.

Fjöldi umsókna er langt í frá eini mælikvarðinn á virkni Íslendinga og getur gefið villandi mynd. Á bak við hverja umsókn getur verið mismunandi fjöldi, allt frá einum þátttakanda til fimm í einni og sömu umsókn. Í Horizon 2020 eru 1936 þáttökutilvik á bak við þær 1517 umsóknir sem borist hafa með íslenskri þátttöku. Þessi fjöldi er enn eitt dæmið um hve góð sókn Íslands er í áætlunina og ber skýr merki þess að rannsókna og vísindaumhverfið á Íslandi vera vel meðvitað um tækifærin í áætluninni.

Þetta sést mjög vel þegar skoðuð er mynd 3 þar sem einungis Lúxemborg er nærri Íslandi með 52 þátttökutilvik á hverja þúsund íbúa á móti 53 tilvikum Íslands. 

Mynd 3: Heildarþátttökutilvik á hverja tíu þúsund íbúa.

Óhætt er að fullyrða að árangur af sókn íslenskra aðila í Horizon 2020 hefur verið með eindæmum góður, hvort sem litið er til fjölda umsókna eða árangurshlutfall eða þegar litið er til samanburðar við önnur lönd. Alþjóðlegt samstarf í vísindum og nýsköpun er Íslandi mikilvægt þar sem markaðir eru erlendis, þekking og aðföng eru í litlum mæli aðgengileg hér á landi og því er brýnt að stuðla að umfangsmiklu alþjóðlegu samstarfi og tengslaneti, en slíkt styrkir samkeppnisstöðu landsins. En að baki þessum góða árangri eru mörg verkefni sem bera vitni um þau sterku áhrif sem þátttaka í Evrópusamstarfi hefur á færni fólks til að taka virkan þátt í samfélaginu og leggja sitt af mörkum í þágu þekkingar, friðar, hagsældar og sjálfbærrar þróunar. 

Sækja skýrsluna (pdf)








Þetta vefsvæði byggir á Eplica